Febrúar var seigur

Það leit ekki vel út með hitann í febrúar lengi frameftir. Meðalhitinn var -3,6  stig í Reykjavík eftir fyrstu tólf dagana en þá ríkti yfirleitt hæglát norðanátt og kuldi á landinu sem endaði með 29 stiga frosti í Svartárkoti. En síðan urðu mikil umskipti. Meðalhitinn frá þeim 13. til mánaðarloka var 2,9 stig í borginni. Hitinn fór í 9,2 stig þ. 17. og sama dag í 12,6° stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Meðalhiti alls mánaðarins var 0,1 stig í Reykjavík. Það er reyndar 0,3 stig undir því meðallagi sem nú er í gildi, árin 1961-1990. Meðalhiti þessara ára var alla mánuði ársins - nema febrúar- talsvert lægri en á hlýindaskeiðinu 1931-1960. Á þeim tíma var meðalhiti mánaðarins í Reykjavík -0,1 stig. Í Reykjavík var einn úrkomudagur í kuldakastinu en eftir að breytti um mældist úrkoma alla daga neina einn. Skammt öfgana á milli! Snjór var hvergi mikill fyrr en síðustu dagana  þegar snjódýpt rauk upp í 90cm í Neskaupsstað. 

Hvað sem þessu líður má segja að mánuðurinn hafi staðið sig vel í seinni hálfleik eftir afleita stöðu í leikhléi. Gangur hitans minnir líka á að meðalhitatala ein segir stundum ekki alla sögu um hitafar mánaða. Hér var mánuður þar sem tveir gjörólíkir kaflar voru alveg aðgreindir. Eigi að síður mega menn ekki gera of lítið úr meðaltölum eins og menn hafa oft tilhneigingu til að gera. Langoftast segja meðaltalstölur mikla sögu.

Hitinn hefur verið um eða jafnvel yfir meðallagi frá suðausturlandi til Faxaflóa, að minnsta kosti við ströndina. En á vesturlandi og Vestfjörðum var hitinn vel undir meðallagi en á norður og austurlandi var verulega kalt, jafnvel kringum tvö til þrjú stig undir meðallagi.   

Persónulega fannst mér mánuðurinn andstyggilegur meðan kuldarnir ríktu en fínn eftir það. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband