Jólaskapið

Ég er  ekki kominn í neitt jólaskap. Samt er ég heilmikill jólamaður. Á aðfangadagskvöld loka ég mig til dæmis alveg af í klukustund til að hlusta, einn Íslendinga, á Jólasögu hins heilaga vitrings Heinrich Schütz. Hann fæddist hundrað árum á undan Bach en varð með langlífustu mönnum og dó um daginn, má segja. Ég hef líka ljósum skrýtt jólatré í stofunni minni sem er full af ógurlega þykkum bókum og innrammaða mynd af jólasveinum í eldhúsinu. Mynd þessi er eldri en ég og er ég þó gamall og geðstirður og kom frá Svíþjóð þegar pabbi sigldi um öll heimsins höf á dögum Línu langsokks. Myndin er svona gamaldags jólaleg.

Ég set þetta samt ekki upp fyrr en á Þorkáksmessukvöld og á eftir bý ég til jólabúðinginn fræga. Mamma kenndi mér að búa hann til síðasta árið sem hún var af þessum heim og enginn í heiminum kann núna að búa hann til nema ég og ég verð að búa til margfalda skammta fyrir alla stórsfjölskylduna, það er að segja systur mínar og börn þeirra sem voru ansi óþæg þegar þau voru lítil þó þau hafi nú ekki verið nándar nærri því eins fáránlega lítil eins og ég var þegar ég var lítill.

Búðingur þessi er svo góður að allir verða miklu betri menn eftir að hafa borðað hann. Sannkölluð jólabörn. Ég ét hann, afskakið borða ætlaði ég að segja, á hverjum degi fram á gamlárskvöld. Þá dett ég ekki í það en horfi á alla aðra gera það og er alveg sama. Síðast datt ég kylliflatur í það á gamlárskvöld.1979. Og ég varð alveg blindfullur og sjálfum mér til svo mikillar skammar að síðan hefi ég eigi áfengi bragðað. Og aldrei langað í það. Og aldrei átt í neinni baráttu. Og aldrei séð eftir því að hafa hætt. Ég hvet reyndar unga og aldna til að fylgja fögru fordæmi mínu. Detta í það í síðasta sinn núna á gamlárskvöld. Ég á ekki við það að menn og konur drekki sig það kvöld í hel heldur að allir verði bláedrú á nýársdag og lifi sober og happily ever after.

Já, og nú finn ég að ég er bara kominn í þetta líka fína jólaskap.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband