Afbragðsgóður júlímánuður

Júlímánuðurinn sem var að líða er ekki aðeins sá þurrasti í Reykjavík frá 1889 heldur fæ ég ekki betur séð en hann sé sá þriðji hlýjasti hvað hitann varðar, reiknað eftir átta mælingum á sólarhring á þriggja stunda fresti. Ég fæ þannig út töluna 12,75.

Hlýrri voru júlí 1991, 13,0 stig og 2007, 12,80 stig. Af þessum þremur mánuðum var júlí 2009 auðvitað sá þurrasti, sem fyrr segir, en hann var líka sá sólríkasti af þeim. Af því ég veit ekki  enn sólskinsstundir eins dagsins, þegar var mjög lítil sól, veit ég þó ekki alveg nákvæma tölu. Hún mun samt vera kringum 257 klst og það nægir til að koma mánuðinum í kringum sjötta sæti yfir sólríkustu júlímánuði frá 1911.

Það er því ekki að ófyrirsynju að hann Emil bloggvinur og hvítglóandi veðuráhugafanatíker setur mánuðinn í fyrsta sæti yfir mestu góðviðrismánuði sem hann hefur gefið einkunnir  eftir sínu kerfi frá 1986.

Lengi vel leit út fyrir að þetta yrði hlýjasti júlí sem mælst hefur í borginni og hann stóð af sér allar hrakspár þar um fram að þ. 23. en þá dundi alræmt kuldakast yfir. Þann 22. var meðalhitinn 13,5 stig en féll um 0,6 stig á næstu fjórum dögum. Síðan hlýnaði á ný en ekki svo mikið að það næði aftur hæsta meðaltalinu og hélt meðalhitinn reyndar áfram að falla til mánaðarloka miðað við hæstu stöðu.

Tvisvar komst hiti í 21,1 stig, þ. 12. og 20. Úrkomudagar voru aðeins 8 og ekki verið færri í júlí síðan 1960. Mesta sólarhringsúrkoma varð aldrei meiri en 4,7 mm (29.) og hefur ekki verið minni síðan  í systurmánuðinum júlí 1958.     

Hér er hægt að skoða innviði þessa mánaðar fyrir hvern dag.

Fram eftir mánuðinum var tiltölulega enn hlýrra í Stykkishólmi en í Reykjavík en þar kólnaði enn meira er á leið og er mánuðurinn þar ekki með allra hlýjustu júlímánuðinum. En mánuðurinn var þar vel hlýr og einnig á suðurlandi. 

Hann er líka vel í hlýrra lagi yfir landið í heild og er  varla (með fyrirvara) að hann komist inn á lista yfir 20 hlýjustu júlímánuði hvað það varðar frá því um 1870 eftir þeim aðferðum sem ég hef notað til að finna hlýja og kalda mánuði. 

Þó kreppan sé fúl og margir fúlir á móti ættum við að meta það við veðurguðina að þeir dekstra alveg við okkur.

En sumir eru jafnvel fúlír líka yfir því í nafni global waming!

Viðbót 3. ág. Mánuðurinn reyndist í 3.-4. sæti í hlýindum ásamt júli 1936. Og sólskinið var 259,4 klst og var þetta þá 5.-6. sólríkasti júlí ásamt júlí 1960.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Hvert á að senda þakklæti til veðurguðanna?

Hólmfríður Pétursdóttir, 2.8.2009 kl. 15:54

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það væri forvitnilegt að finna út hversu langt aftur þarf að fara til að fá almennt betri mánuð, en þá þarf örugglega að fara mun lengra aftur en 1986. Kannski má finna einhverja frá hinum margrómuðu blíðviðrisárum 1930-1960 en þar kemur júlí 1939 sterklega til greina. Allavega samkvæmt Lesbókargrein sem ég á eftir þig frá '95 sem heitir „Seytján gæðasumur síðan 1911“.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.8.2009 kl. 19:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband