Léttgeggjað veðurspjall og ábyrgðarlaust bloggblaður

Mér finnst það alltaf síðasta sort þegar ágúst endar illa. Nú hefur heldur betur kólnað. Á hádegi var hitinn enn ekki kominn í 10 stig í Reykjavík. Ég efast um að hann geri það þegar líður á daginn þrátt fyrir það að spárnar segi það. Á sumum fjöllum kom næturfrost.

Það var næstum því regla á kuldatímabilinu langa sem var í hámarki kringum 1980 að mánuðir enduðu illa. Síðustu ár hafa flestir mánuðir bæði byrjað og endað vel. En þetta kuldakast á reyndar að líða hjá segja spárnar. Allt líður hjá. Lífið líður líka hjá og bráðum verð ég dauður.

Guði sé lof!

Mannaðar veðurstöðvar Veðurstofunnar týna óðum tölunni. Raufarhöfn er dottin út og líka Höfn í Hornafirði og Bergsstaðir í Skagafirði. En kannski er þetta tímabundið vegna sumarfría eða annarra breytinga. Hólar í Dýrafirði hafa heldur ekki komið í nokkra daga en það er nú alltaf að gerast. Líklega er tímaspursmál hve nær sú stöð leggst af. Vík í Mýrdal heldur áfram að vera olnbogabarn og fær ekki inni í skrám Veðurstofunnar á vefsvæði hennar með hinum stöðvunum. Með leyfi: er ekki hægt að laga þetta? 

Fyrir skömmu voru bollaleggingar um það í athugasemdum á blogginu mínu að sjálfvirka  veðurstöðin á Eyrarbakka ætti  að teljast ný stöð miðað við mönnuðu stöðina  og óháð henni vegna fjarlægðar milli þeirra og mismunandi staðhátta. Svo gæti þá einnig verið með aðrar stöðvar.

Um daginn fór ég austur á land og kom  við á Hellu. Það er hlýlegur og fallegur staður niður við fljótið. Lengi var þar mönnuð veðurstöð. En hún hefur verið lögð niður og sjálfvirk stöð komið í staðin. En hún er ekki niður við fljótið þar sem allt er svo fallegt og hlýlegt. Hún stendur á  ljótu og leiðu bersvæði við þjóðveginn langa leið frá Hellu. Það er fráleitt að telja hana vera veðurstöð á Hellu.

Gaman var að sjá sjálfvirku stöðvar Vegagerðarinnar við Hvamm undir Eyjafjöllum (en stöðin er  langt frá bænum Hvammi og ætti því að heita eitthvað annað) og á Steinum. Það er einhver ævintýrablær yfir þeim. Það stafar af landslaginu sem er stórbrotið í meira lagi og þjóðsagnalegt.  Maður átti alveg von á að Gilitrutt birtist þá og þegar. Sjálfvirku stöðina á Kirkjubæjarklaustri sá ég ekki enda er hún einhvers staðar í óbyggðum úti á Stjórnarsandi á ógurlegu berangri náttúrlega. 

Sjálfvirk stöð Veðurstofunnar við Kvísker í Öræfum er  ekki við bæinn heldur úti við þjóðveginn á alveg voðalegu berangri og rokrassgati. Ekki sá ég sjálfvirku stöðina á Fagurhólsmýri en tel víst að hún sé á mesta finnanlega berangri.

(Mér finnst að ætti að setja upp veðurmastur á Hala í Suðursveit til heiðurs ofvitanum  sem þar gerði ''vísindalegar veðurmælingar'' um aldamótin 1900 og varð fyrstur til að  iðka  snjódýptarmælingar á Íslandi eins og lesa má í Fjórðu bók hans í safnritinu Í Suðursveit).

Mönnuðu veðurstöðvarnar voru auðvitað alltaf við bæina þar sem athugunarmennirnir bjuggu eða inni í þorpum og kauptúnum eða kaupsstöðum. Stundum voru mælingaraðir á þessum stöðvum orðar æði langar.

Þegar þessar stöðvar leggjast niður virðist það vera keppikeflið að setja upp sjálfvirkar stöðvar í þeirra stað við þjóðvegi, hæfilega eða jafnvel óralangt frá þeim  gömlu mönnuðu og á eins miklu berangri og hugsast getur. 

Ég skil nú ekki svona. En kannski skilja þeir það á Veðurstofunni. 

Það er líklega tímaspursmál hve nær veðurstöðin í Reykjavík, sjálf Veðurstofan, verður lögð niður við Bústaðaveg á þeim stað sem átti að verða framtíðarsetur hennar þegar hún var flutt þangað 1973,   og hún drifin upp á berangur á Hólmsheiði í yfir 100 metra hæð þar sem vindar gnauða og snjóar geisa. Síðan verða turnar miklir reistir til himins Mammoni til dýrðar á túni Veðurstofunnar. 

Það þarf ekki að taka það fram að allir munu yppta öxlum yfir þessu. 

Jæja, ég hef tekið smá bloggskorpu undanfarið en fyrir löngu hef ég fengið óbeit á fyrirbærinu. Þetta er sálardrepandi iðja. Eftir skorpuna er í mér ólýsanlegur pirringur.  

Ég er samt með þrjár æsispennandi veðurfærslur í undirbúningi, eina um sólskins-og sólarleysissumur, aðra  um rigninga-og þurrkasumur, en sú þriðja og  lagngheitasta er um hitabylgjur á Íslandi frá því 1700 og súrkál. 

En pirringurinn í mér er svo mikill að mér gengur ekkert að koma þessu saman.

Ég er áreiðanlega kominn með alzheimer á lokastigi. 

Að svo mæltu er ég að hugsa um að skríða aftur inn í  bloggbindindishýðið sem ég hef verið í lengst af í sumar.

Og þess vegna enda ég á einkunarorðum hins mikla vitrings í fornöld, þá er hann mælti:

VEÐURBLOGG ER EINA BLOGGIÐ SEM VITSMUNAVERUM ER SÆMANDI. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kama Sutra

Mér finnst eins og ég hafi lesið það hérna margoft áður að bloggbindindi væri í aðsigi.   Eða er það bara minn partzheimer?

Promises, promises... 

Kama Sutra, 21.8.2009 kl. 19:48

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En kæra Kama Sutra. Hver stund er ný og við eigum ekki að horfa aftur. Horfum til framtíðar og vonum að Nimbus standi við orð sín. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.8.2009 kl. 19:57

3 Smámynd: Kama Sutra

Þarf ekki að bera þessa ákvörðun undir hann Mala Svala Mega Smala?   Þetta er hans blogg líka.  Ég er ekki viss um að hann samþykki.

Kama Sutra, 21.8.2009 kl. 20:04

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mali svali, sem var sjáandinn mikli með röntgenaugun, er nú orðinn svo spilltur af ofdekri að hann hefur verið sviftur öllum völdum og sendur í útlegð til Malæsíu.    

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.8.2009 kl. 20:17

5 Smámynd: Kama Sutra

Þetta er besta myndin af téðum röntgenaugum:

http://nimbus.blog.is/blog/nimbus/entry/844438/

Kama Sutra, 21.8.2009 kl. 20:24

6 identicon

Það er gamall og góður siður að menn leggi til borðs með sér þá
boðið er af örlæti til veislu. Menn skilja svo sáttir og hver heldur til sinna starfa. -

Í bloggi fyrir skemmstu var minnst á fortilveru Krists og finnst mér
málefnið svo merkilegt að þörf sé á að gjalda því
Torfalögin. -

Fjallað er um fortilveru Krists á mörgum stöðum í Biblíunni: Jesaja spámanni, Jóhannesar Guðspjalli (17. kafla, 3. versi), bréfunum og þannig mætti lengi upptelja.
Á einum stað segir: Ég var á undan Abraham.
Í bréfi Páls til Filippímanna á Grikklandi: "Af elsku afklæddist
Kristur Guðsmynd, tók á sig þjónsmynd og varð mönnum líkur.
Kristur byrjaði í himninum sbr. "Því svo elskaði Guð heiminn ... "
Enn er kominn hér ljóslifandi fortilvera Krists.
Þrenningarkenningin þar sem koma saman faðir, sonur og heilagur andi einn í veru, þrír í verki. Þetta á sér samhljóm þar sem maðurinn er sjálfur þríeinn: andi, sál og líkami.
Í Jesaja 44. kafla stendur: "Ég er hinn fyrsti og hinn síðasti ... "
Í Opinberunarbókinni 23. kafla er þetta að finna:"Ég er Alfa og Omega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn.
Enn öðrum stað: "Sjálfur er hann fyrr en allt og allt á upphaf sitt í honum.
Þetta er sett upp hér þannig að það myndi rökræna heild,
líkist einna helst reikningsdæmi. En vitanlega er það
merkingarlaust því páskaboðskapurinn er sígildur:
Hann er upprisinn!

Hér er svo kvæði nokkurt eftir Gustavo Adolfo Becquer (?)
og í þýðingu manns sem væntanlega er þér að góðu kunnur.

                Þau luku hennar augum
                    (síðasta erindið)

Hverfur duft í mold, en til himna sál?
eða skal rotnun öllu glata?
Ekki veit ég; en einhver dul, veldur
mér óhug og angri sáru,
þegar dauðum er búin döpur einvera.

Húsari. (IP-tala skráð) 22.8.2009 kl. 23:17

7 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Hér er dauflega á dyr bankað í dauðans angist þess, sem óttast að vera bara atvik á milli jarðarfara.

Sigurbjörn Sveinsson, 23.8.2009 kl. 21:41

8 identicon

Þakka svarið. Ég er ekki viss um að höfundur þess viti
sjálfur hversu vel hann hefur komist að orði!
Í svari koma fyrir orðin angist og ótti og í kvæðinu
orðið angur. Öll eru þessi orð náskyld orðinu órar.
Kvæði Gustavo Adolfo Becquer hafa fyrst og fremst höfðað
til ungs fólks; þau ólga af heitum tilfinningum og þeim
andstæðum sem sjaldan eru skarpari en með ungu fólki og
margur hefur talið ganga órum næst. Örlögin banka með engu
minni þunga en draugslegt gnauð er myndar súg í yfirgefnum
vita og hurðir lemjast við stafi. Og sá sem ók Reykjanesbrautina
á 200 km hraða og krafðist svara við því athæfi sínu og viku síðar
fallinn fyrir eigin hendi hefur væntanlega upplifað "angist þess
sem óttast að vera bara atvik á milli jarðarfara".

Húsari. (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 01:42

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Einkennilegar athugasemdir við veðurspjall!

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.8.2009 kl. 11:37

10 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Er ekki allra veðra von? Mér sýnist fyrirsögn þessa veðurspjalls gefa ærið svigrúm.

Sigurbjörn Sveinsson, 24.8.2009 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband