Ragnheiður Ríkharðsdóttir bítur höfuðið af skömminni

Mál Sigmundar Ernis var þá aldrei tekið fyrir í forsætisnefnd eins og Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagðist ætla að gera. Engar skýringar hafa verið gefnar.

Sigmundur Ernir hefur reyndar beðist afsökunar á framkomu sinni. Það er svo sem gott af honum en á hverju er hann að biðjast afsökunar? Hann segist ekki hafa verið undir áhrifum áfengis  þó það hafi verið öllum öðrum augljóst. Ef treysta ætti hans eigin orðum var engin ástæða til að biðjast afsökunar. Samt gerði hann það.

Þarna er misræmi. Í grunninn tvöfeldni, óheiðarleiki, Og umgengni manna við áfengi er einmitt full af þessari tegund af óheiðarleika.

Það sem er einna óþægilegast við þessa uppákomu með Sigmund Erni er  sú meðvirkni sem flestir sýna. Ótrúlegt umburðarlyndi varðandi misnotkun á áfengi.

Mest sláandi dæmi um það er einmitt áherslubreyting Ragnheiðar Ríkharðsdóttur sem er fyrsti varaforseti Alþingis. Fyrst var það framkoma Sigmundar Ernis sem vafðist fyrir henni, fyllerí hans í ræðustól Alþingis, sem hún orðaði þó aldrei beint því það þykir fínt að tipla á tánum kringum  drykkjuraus.

Á Morgunvakt Rásar 2 gerir hún hins vegar mest úr almennum óróa á þinginu, frammíköllum og þess háttar. Hún gengur meira að segja svo langt að segja að sér sé alveg sama þótt menn fái sér bjór eða vínglas, bara að þeir hagi sér vel. Ekki virðist hún, fremur en  margir aðrir, gera sér  grein fyrir því að áfengisneysla í þingsölum sé sjálfstætt umfjöllunarefni út af fyrir sig en frammíköll annar handleggur.

Fjarri henni virðist vera sú einfalda og að mínum dómi sjálfsagða hugsun að áfengisneysla yfirleitt og þingstörf eigi aldrei að fara saman fremur en áfengisneysla á öðrum vinnustöðum. Þvert á móti gefur hún, fyrsti varaforseti Alþingis,  grænt ljós á það að þingmenn séu að sulla í áfengi ef þeir fari bara vel með það. Ekki er hægt að ganga lengra í kæruleysislegu áfengisdaðri.

Hvað meðvirkni varðar hefur Ragnheiður Ríkharðsdóttir nú sannarlega bitið höfuðið af skömminni.

Hvenær skyldi sá dagur koma að mönnum finnist það álíka fjarstæðukennt og ámælisvert að neyta áfengis við þingstörf og að reykja í þingsalnum?

Er það óþarfa púritanismi að láta sig dreyma um það?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Snilldarpistill. Kemur að vísu ekki á óvart úr þessari átt.

Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 16:20

2 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Oh hvað þetta getur verið pirrandi stundum að verða að játa sig sammála þér.

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.8.2009 kl. 17:05

3 Smámynd: Þorri Almennings Forni Loftski

Það eru barir í mörgum þinghúsum Evrópu. Undirritaðr hefur nokkrum sinnum átti erindi á Evrópuþingið í Brussel og Strassborg. Þar eru fleiri en einn bar og í Srassborg er bjórinn einstakt afbragð. Í glænýja þinghúsinu þar virðast salernin hönnuð með aðstöðu til hvítduftssog í huga. Þetta hefur verið staðfest með rannsóknum er byggjast á stikkprufum.

Í breska þinghúsinu eru margar krár, auk þess að þingfulltrúar og aðrir starfsmenn stunda öldurhúsin í nágrenninu.

Breska þingið þráaðist lengi við að leyfa sjónvarpsútsendingar frá þingfundum. Með tilvísun til hefðar og helgi þingsins o.s.frv. Sú afstaða varð skiljanleg er ólætin voru loksins opinberuð almenningi á skjánum.

En þar í landi þurfa stjórnmálamenn yfirleitt samstundis að segja af sér ef þeir afhjúpa sig með augljósum ósannindum og eru uppvísir að því að vera tvísaga um sín persónulegu mál. Forrsendurnar eru vanhæfni sökum skorts á heillindum, sómakennd og dómgreind. Svoleiðis fólki er ekki treystandi fyrir ákvörðunartökum er varða þjóðarhag. Hitt er svo annað mál að mörgum þykir þessi afstaða heldur einstengisleg, púritanísk og ómannleg. En á Bretlandseyjum eiga menn sér þó viðreisnar von eftir hæfilegan tíma í skammarkróknum.

Þorri Almennings Forni Loftski, 27.8.2009 kl. 17:52

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sá ekkert nema kvöldúlf þetta kvöld á alþingi og segist þess vegna hafa slitið fundi. Það var ekki komið nema kringum miðnætti! Þessi afneitun hennar á drykkjulátunum er ekkert nema afsökun hennar fyrir sjálfri sér að hafa ekki skorist í leikinn þegar ölvaður þingmaður var í ræðustól á alþingi. Þingforsetar ganga maður undir mannshönd til að bera blak af drukknum þingmanni. Þetta kemur samt ekki á óvart eins og Hlynur Þór bendir á. Áfengismórallinn á þingi er ekki burðugri en þetta.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.8.2009 kl. 20:57

5 identicon

'Ég er þeirrar skoðunar að það ætti að gefa Öllum þingmönnum smá tár í tána fyrir þingfundi, því að það er sannað að í glasi verða menn hreinskiljarni en edrú. Enginn þingmaður vill í raun samþykkja ICESAVE samninginn, en vegna einhverra annarlegra hvata munu þeir gera það. Gefum þeim í glas og þeir gefa skít í samninginn.

Kristján A. Helgason (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 01:47

6 identicon

Helstu rökin fyrir því að aksur og áfengi fara ekki saman er að dómgreind tapast, það er  ekkert sem þarf að hafa áhyggjur af á þessum vinnustað.

Snæbjörn (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 08:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband