Skrýtin upplifun í loftslagsmálunum

Vésteinn Lúðvíksson er alls staðar líkt og hinn heilagi búdda. Í grein í síðustu Lesbók Moggans líkir hann aðferðum sumra "efasemdarmanna" um gróðurhúsáhrifin við blekkingar tóbaksiðnaðarins um   skaðleysi tóbaks. Þetta er eflaust allt satt og rétt. Eigi að síður eru líka til heiðarlegir "efasemdarmenn" um gróðurhúsaáhrifin almennt talað og þeir eru reyndar fleiri og merkilegri en af er látið í íslenskri umræðu (þar sem þeir eru afgreiddir sem brjóstumkennanlegir kjánar) sem hefur nær algjörlega verið í höndum umhverfissinna af æstari sortinni.

Hafiði tekið eftir því hve íslenskir veðurfræðingar eru varkárir í tali um þessi efni? Hafiði nokkuð hugsað út í það hvers vegna svo er? Trausti Jónsson virðist efast heilmikið. Einar Sveinbjörnsson forðast heimsendaspár. Páll Bergþórssin hefur hins vegar beinlíns blásið á horrorkenninguna um stöðvun Golfstraumsins. Aðrir veðurfræðingar hafa varla sagt eitt einasta orð.

Nú vil ég að enginn haldi að  ég sé hreinræktaður "efasemdarmaður" þvi það er á Íslandi orðið álíka stimplun eins og var að vera kommúnisti  í Bandaríkjunum á the fifties  eða vera illgjarn púki í himnaríki. Enda efast ég allls ekki um að hlýnað hefur í heiminum síðustu áratugi og það að einhverju leyti af völdum mannlegs úrgangs. En það er samt margt í mörgu í maganum á henni Ingibjörgu.       

Eitt finnst mér skrýtið að upplifa.

Ég hef verið  fanatískur veðurfarsáhugamaður í 40 illviðrasöm ár, hafísárin þar með talin. Man einhver eftir þeim? Fyrir utan sérfræðinga var allan þennan tíma hægt að telja þá á fingrum sér sem einhvern virkan áhuga höfðu hér á landi á veðurfari. Listamenn og skáld fyrirlitu slíkt af öllu hjarta. Ekki var hægt að leggjast inntellektúal lægra en tala um veðrið. 

Og ég talaði um veðrið. Og allur skáldanna lýður fyrirleit veðrið og mig. 

En viti menn! Allt í einu eru skáld og spekingar ekki bara farnir að tala um veðrið heldur tala um það eins og sá sem vald hefur. Hvert íslenska stórskáldið á fætur öðru, jafnvel búandi í París og Róm, sýnir nú  aldeilis fanatískan og fantastískan áhuga á veðurfari í skrifum sínum og valta með skáldlegum elegans yfir alla sem hugsa smávegis öðru vísi en þau sjálf.

Á dauða mínum átti ég von fremur en því að mitt sérviskulega áhugamál númer eitt yrði að  húsgangi í stofum skálda vorra og menntamanna.

Við þessu er svo sem ekkert að gera nema biðja guð um að gefa sér kæruleysi til að sætta sig við það sem maður fær ekki breytt.

En veðrið svíkur ekki. Og því betra sem það er, þvi betra!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Sigurður.

Þakka þér fyrir skynsamleg skrif um loftslagsmálin. Ég hef fylgst með umræðum um þau í áratug, eingöngu sjálfum mér til ánægju. Ég veit að það eru fjölmargir heiðarlegir vísindamenn sem ennþá nenna að hugsa og velta þessum málum fyrir sér, en það eru einnig nokkrir sem virðast hafa staðnað, af einhverjum ástæðum.

Í grein í Morgunblaðinu, sem birtist fyrir allmörgum árum, segir veðurstofustjóri meðal annars ("RANNSÓKNIR Í HERKVÍ HAGSMUNA?" 31.10.'98):


..."Síðustu tvo áratugina hafa umræður um svokallaða gróðurhúsaupphitun jarðarinnar orðið æ fyrirferðarmeiri, bæði hér á landi og annars staðar. Meðal vísindamanna voru og eru skiptar skoðanir á þessu máli, bæði hvort um sé að ræða raunverulega og varanlega upphitun jarðarinnar af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda (aðalega koltvísýrings), hvernig hún dreifist yfir jörðina og hvort hugsanleg upphitun væri sá hnattræni vandi sem látið er í veðri vaka." ...

..."Er nú svo komið, að pólitísk nauðsyn, og oft stórfelldir efnahagslegir hagsmunir stórfyrirtækja og heilu samfélaganna, allt að því krefjast þess, að þetta sé einhver mesti umhverfisvandi heimsins. Og þegar einstaklingar, fyrirtæki eða þjóðir eiga orðið verðmæta koltvísýringskvóta verða efasemdir um upphitunarvandann barðar niður með alþekktum aðferðum skoðanakúgunar."

Í lok þessarar ágætu greinar Magnúsar Jónssonar, sem reyndar fjallar bæði um gróðurhúsavandann og ofveiðivandann, segir:     "...Í öðru lagi veldur mér áhyggjum sú vaxandi tilhneiging þeirra, sem hafa efnahagslega hagsmuni af því að koma á útblásturskvótakerfi, til að gera lítið úr skoðunum efasemdarmanna og berja þannig niður akademíska hugsun og skoðanaskipti í þessu flókna og tiltölulega lítt þekkta máli".


Ofangreind orð Magnúsar Jónssonar veðurstofustjóra eru dæmigerð fyrir áhyggjur virtra vísinda- og fræðimanna um þessar mundir.  Þá á ég við raunverulega vísindamenn sem hafa getu og þor til að hugsa sjálfstætt.  Mér segir svo hugur að þeir nenni ekki að tjá sig mikið um málin, því þeir geta þá átt von á skítkasti og leiðindum, eins og dæmi eru um.

Það er reyndar tilgangslaust að vera að þræta um þessi mál. Það vita þessir heiðarlegu vísindamenn vel. Náttúran mun hafa sinn gang og ekki hlusta á þrætur okkar.  Carl Sagan orðaði þetta þannig: "The essence of science is that it is self-correcting". 

Um hvað rétt er eða rangt í náttúruvísindum verða aldrei greidd atkvæði, ekki einu sinni hjá hinni voldugu stofnun Sameinuðu Þjóðunum. Náttúran heldur sínu striki, hvort sem það er vilji okkar eða ekki.

Einstaka sérvitringar hafa þó ánægju af því að grúska í þessum málum, og hafa þá kanski í huga orð Árna Magnússonar handritasafnara og fræðimanns: "Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gang, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hvorirtveggju nokkuð að iðja"

Smá innlegg sérvirtings: Öldur aldanna. Sjaldan er ein báran stök - einnig í veðurfari? 

Bestu kveðjur, Ágúst

Ágúst H Bjarnason, 8.1.2007 kl. 15:43

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Takk fyrir þetta! Ég er vel kunnugur þessari síðu þinni. Og svo ég fari  nú enn og aftur með uppáhaldsfrasann minn: Veðurblogg er eina bloggið sem vitsmunaverum er sæmandi!

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.1.2007 kl. 16:28

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Æ, þetta var nú ekki alvarlega meint, hégómnlega eða öðru vísi, bara bending um þá almennu vitneskju að Vésteinn, sem ég þekki smávegis frá forni fari og ber virðingu fyrir, hefur þýtt og skrifað bækur um austræna speki.  En takk samt fyrir umvöndunina og nú fæ ég tækifæri til að spyrja: hvers kyns ert þú eiginlega?  

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.1.2007 kl. 18:43

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mjá!

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.1.2007 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband