Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Óþægilegur sannleikur

Nú er ég búinn að sjá bíómyndina Óþægilegur sannleikur eftir hann Al Gore. Hún er ágætt. Boðskapurinn kemst skýrt til skila og sögumaðurinn er skemmtilegur, þægilegur og ótrúlega bjartsýnn. Að vísu er hann dálítið gormæltur í framsetningu sinni á stundum, eins og t.d. þegar hann fjallar um færibandið svokallað í heimshöfunum og bráðnun Grænlandsjökuls sem maður hafði á tilfinningunni, þegar horft var á myndina, að mundi bara gerast á næstu dögum svo allt færi í kolgrænan sjó fyrir jól. 

Sama dag og ég sá myndina  keypti ég líka bókina með sama nafni eftir þennan Gore. Ég er sem sagt engan veginn eins þröngsýnn og forfómafullur og af er látið og vl alls ekki láta bendla mig neitt við þessa “svokölluðu efasemdarmenn”  - niður með þá -  því ég efast alls eigi um það að jörðin okkar hafi hitnað upp úr öllu valdi síðustu árin og sú umbreyting sé svo stórkostleg að hún hljóti að stafa af einhverri mikilli ónáttúru. Hins vegar efast ég stórlega um það að sumir þeirra sem eru í fjölmiðlum að fjalla um hin og þessi veðursins uppátæki og eru ósparir á hiklausar útskýringar um orsakakirnar séu nú alltaf á réttustu nótunum.

Og tölvan mín er alla vega ekki með á nótunum síðan hún hentist á gólfið um daginn. Á morgun mun hún annað hvort verða lögð inn á hæli eða sérþjálfaðir tölvulæknar og sjúkraliðar munu koma hingað heim og hjúkra henni til heilsu merð lipurð sinni flínkri og óskiljanlegri lempni. Ætli verði ekki að taka úr henni bæði svilin og vilin og setja ný í staðinn. 

Í kvöld fór ég svo á fyrstu tónleika Kammermúsikklúbsins í vetur. Og ég var þar í boði klúbbsins og fann óskaplega mikið til mín. Ekki spillti það að ég var núna ekki neinn bannsettur gagnrýnandi útblásinn af hroka og besservissershætti, heldur þvert á móti ljúfur og litillátur, slappaði algjörlega af meðan spilverkið stóð yfir og vissi hvorki í þennan heim né  annan.  

Og þetta voru alveg magnaðir tónleikar.


Boðsmiði fyrir tvo

Eins og sumir af mínum kæru landsmönnum kannski vita var ég tónlistaragnrýnandi DV siðustu tvö árin í lífi þess  herlega blaðs. Eitt af fríðindum starfsins, fyrir utan það að vera elskaður af fáum en hataður af mörgum, var það að fá ókeypis á alla tónleika. En svo fór DV á hausinn og fall þess var mikið en  fall mitt var þó langmest. Síðan hef ég ekki farið á neina tónleika. Ég er sko ekki að borga mig inn á það dýrum dómum sem  ég get svo ósköp vel án verið.

En í dag fékk ég óvæntan glaðning í póstinum. Það var boðsmiði fyrir tvo á alla tónleika Kammermúsikklúbbsins í vetur. Ég þykist vita að á bak við þennan rausnarskap sé Valdimar Pálsson músikkrítiker í Viðsjá og forstöðumaður tónlistarsafnsins í Hafnarfirði og stjórnarmaður í Kammermúsikklúbbnum.  Hann er líka mikill húmoristi og höfðingi.  Hann man jafnvel eftir þeim föllnu og bersyndugu.

Í gær þegar ég var að æfa mig í blogginum af svo miklum fítonskrafti að blár loginn stóð aftur úr   rassgatinu á mér varð krafturinn svo óviðráðanlegur að ég bloggaði tölvuna af hnjánum á mér og langt út á gólf. Heyrðist þá dynkur undarlegur líkt og þegar bankað er í tóma tunnu.

Síðan hefur tölvan verið meira en lítið vönkuð. Það heyrist í henni eins og bilaðri garðsláttuvél og hún gerir ekkert af því sem hún á að gera en allt af því sem hún á ekki að gera. Og dularfullar glennur og furður birtast og hverfa jafnvel á bloggsíðunni en vonandi mér og mínum aö meinalausu. 


Byrjenda blogg

Sá sem hér hefur síðustu daga verið að brölta sín fyrstu bloggspor lét skrá  sig inn með síðuna 20. júlí í glaðasólskini og blíðu í ofur bjartsýniskasti. En þegar hann sá eitthvert óskiljanlegt stjórnborð  og aðrar hremmingar sem hann botnaði ekki nokkurn skapaðan hlut í missti hann gersamlega móðinn, hrökklaðist öfugur út af síðunni og örvænti mjög um sinn blogghag. Hann beið svo hnugginn og hnípinn næstu vikur eftir vini sínum sem hafði lofað að leiða hann um alla leyndardóma bloggsins. En sá góði mann gleymdi sínu loforði og fór á fyllerí í útlöndum. Og bloggbusinn snérist bara ráðalaus um sjálfan sig. 

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Einn morgun fyrir viku var því eins og hvíslað að bloggaranum að kíkja nú aftur smávegis á bloggsíðuna sína. Og viti menn! Allt í einu lá honum í augum uppi að það væri ekki minnsti vandi að blogga. Það geti nú bara hvaða fæðingarhálfviti sem er. 

Og nú bullar upp úr honum óstöðvandi bloggbunan frá morgni til kvölds. Flest af þvi er engan vegin birtingarhæft og er því vandlega dulkóðað hér á síðunni. Afganginn getið þið lesið.  

Þetta eru þó bara einfaldar byrjendaæfingar. Ekki svo að skilja að bloggarinn stefni að því að verða einhver þungavigtarmaður í bloggelíblogg. Öðru nær. Hann ætlar sér þvert á móti að verða bara vesæll léttfjaðurvigtarmaður  í blogginu sínu og mun einskis svífast til að ná því göfuga takmarki!       


Ég og fræga fólkið

Í dag mætti ég fimm frægum og mikilvægum persónum á flandri mínu um bæinn. Fyrst skal frægastan telja sjálfan Bubba Morthens. Ég hitti hann í húsi einu þar sem hann var að raða stólum. Loks settist hann á einn stólinn, blés út brjóstið og lék á alls oddi og talaði hátt og snjallt. Á Austurvelli asaði ég fram á Þröst Ólafssson framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar. Við gegnum svo nærri hvor öðrum að axlir okkar snertust og hugirnir mættust. Þriðja frægðarfígúran sem flæktist fyrir mér var Þorvaldur Gylfason prófessor. Hann var með stóra skjalatösku, líklega fulla af skjölum, og bar barðastóran og aristókratískan hatt sem blakti í vindinum og það var helvítis völlur á honum. Hann leit ekki á mig en ég veit samt að hann tók eftir mér og  hugsaði:

Sigurður er sniðugur. Sannur músikvitringur. Skarpur maður er.

Fjórða frægðarpersónan sem ég mætti í eigin persónu var engin önnur en hún séra Auður Eir. Hún fór Austurstræti og gaf mér hýrt auga sem þó var nokkuð vanþóknunarblandið líkt og ég væri bölvaður  trúvillingur en samt svona sætur strákur. Guð blessi hana.

Baksandi upp Bankastrætið á löturhægu tempói með storminn í fangið, eins og svo oft áður í lífinu,   kom fimmti frægðarmaðurinn gustandi á móti mér, allegro giusto, á blússandi farti og sterkum meðvindi og það var hann Jónas Sen tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins. Hann virti mig ekki viðlits enda eru það óskráð lög í menningarheiminum að tónlistargagnrýnendur hundsi gersamlega hverja aðra. En við þennan close encounter of the fifth kind féll ég umsvifalaust í djúpa zen-hugleiðingu en hún gengur út á það, eins og kunngut er, að tæma hugann af  öllu ónytjungs hjali en skynja í staðinn hið algera tóm sem ríkir að baki tilverunnar.

Á  morgun ætla ég aftur í bæinn og láta sjá mig í augsýn fræga og fína fólksins.

En ég er nú ekki allur þar sem ég er séður. 


Sóðalegur dagur

Þetta var ósköp sóðalegur dagur. Hann fór mest í það að hirða skítinn sem safnast hefur saman í síðustu viku og ég nennti ekki að þrífa í gær. En nú hef ég verið að taka til í öllum hornum, raðað merkum bókum í hillur, takið saman lausadrasl, sópað og skrúbbað og farið út með ruslið ofan af fjórðu hæð í húsinu þar sem ég á heima  og þar er engin lyfta. Upp þessa stiga hleyp ég léttilega oft á dag en ég fæ aldrei neinar heimsóknir því vinir mínir eru orðnir svo feitir og fúlir að þeir geta ekki einu sinni rogast með sjáfa sig upp í þær hæðir þar sem ég bý grannur og glaður.

Sumir íbúarnir í húsinu hérna eru reyndar svo miklir slóðar að þeir láta ruslapokana bara gossa ofan af svölum og þar liggja þeir þar til viðkomandi snyrtimenni á leið í bæinn og nennnir að hirða þá  upp og stinga þeim í tunnuna. Ef ég mætti ráða mundi ég stinga þeim sjálfum í tunnuna.

Það  er verulega ískyggilegt hvað Íslendingar eru miklir sóðar. Það er oft ekki líft á þröngu almannafæri fyrir skítalykt af einhverjum ljótum köllum. Það er næstum því komin öld síðan Halldór Laxness var að hvetja landsmenn til að fara nú að þvo sér og hætta að hrækja á gólfið. En það hefur lítinn árangur borið. Nú þykir jafnvel fínt að hrækja bara á allt og alla þar sem menn standa. Jafnvel smástelpur skyrpa á mann stórum gommum. Tyggjóið á götunum er lika alveg klístrað. Um þetta mætti skrifa svæsið og sóðalegt mál en verður ekki gert fyrr en betur liggur á mér.

Ég er nefnilega alveg búinn eftir helvítis tiltektina. En nú er líka allt orðið glerfínt fyrir gestina sem ekki munu koma.

Þá er að bara að drasla allt út aftur fyrir næstu helgi.  


Kaninn kvaddur

Jæja. Nú er Kaninn farinn af vellinum. Og mikið sakna ég hans. Það er ekki þar með sagt að ég sé ekki feginn að losna við hann en maður getur nú saknað þeirra sem óhjákvæmileg örlög skilja frá manni. 

Þegar ég var lítill, og ég var alveg hlægilega lítill þegar ég var lítill og alls ólikur því stórmenni sem ég er nú, voru það mínar mestu sælustundir að læðast niður í kjallarakompu sem tilheyrði íbúð foreldra minna. Þar var útvarpstæki og utan á því var ein skrýtin klukka sem gat vakið mann upp af værum blundi ef maður stillti hana til þess. Þetta fannst öllum alveg klukkað. Svona skondin tæki voru í tísku á 6. áratugnum, the fifties, svo allir skilji nú örugglega hvað ég er að skrifa um svona létt og leikandi. Ég setti á kanann og fékk öll nýjustu rokklögin beint í benjar og þau hrísluðust út um allan líkamann og alla sálina sem þá var víst hrifnæm barnssál eða eitthvað þaðan af miklu verra. Þegar ég heyrði Elvis fyrst syngja Heartbreak Hotel í mars 1956 urðu tímamót í barnsálinni.

Síðan hefur hjarta mitt verið mölbrotið því þennan dag skildi ég fyrst sorg heimsins. En líka gleði lífsins.

Elvis var auðvitað lang stærsta gleðin. Og hann er enn mesta gleðin í lífi mínu fyrir utan þórðargleði einstaka sinnum. Chuck Berry var líka æðislegur með Rock and Roll Music, en út á það gekk einmitt lífið fyrir utan fótbolta og þrístökk, tilgangslausasta hopp í heimi, sem Silfurmaðurinn kom stökkvandi með inn í hugarheim ungra drengja á þessum köldustu kaldastríðsárum. En það var aldrei kalt í kompunni minni í kjallarnum heldur Great Balls of Fire. Þetta lag, með Jerry Lee Lewis súperrokkara, hélt ég alltaf í barnslegu sakleysi mínu að Jerry Lewis skrípaleikari væri að syngja en hann var þá eftirlæti allra í þrjúbíói. Jim Carrey er dyggur lærisveinn hans.

Nú hefur rokkið sigrað hana veröld og er hluti heimsmenningarnnar. Í Ríkisútvarpinu heyrðist á fifties bara harmoníkkuvæl og sinfóníugaul. Þar þekktu menn ekki sinn menningarlega vitjunartíma. En Kanaútvarpið gerði það.

Eftir að ég uppgövtaði hvað sinfóníugaulið er mikil gargandi snilld, nokkrum árum eftir heartbreakið, fattaði ég að það voru frábærir þættir í kananum með þessari hreint geggjuðu músik. Á sunnudögum voru tónleikar New York Fílharmóníunnar fluttir í heild af fílefldum hljóðfæraleikurum sem gátu auðveldlega valdið margra tonna þungum Mahlersinfóníum, en það gátu amlóðarnir í íslensku Sinfóníunni alls ekki.

Þegar kanaútvarpið var upp á sitt besta, á fifties og snemma á sixties, var það menningarlegasta og besta útvarpsstöð í landinu.

Engin spurning.  Og takk fyrir það.


Bókaveður

Þegar fyrstu haustlægðirnar ganga yfir með hvínandi roki og ausandi rigningu finnst mér svo notalegt að fara á bókasafnið og fá mér bækur. Margar bækur. Og þungar bækur.  Rogast svo heim með bókvitið í plaspoka á móti grenjandi storminum. Þegar ég kem hundvotur og veðurbarinn inn úr dyrunum smokra ég mér úr regngallanum og bregð mér í bókmenntahaminn, tek símann og allar græjur úr sambandi, treð sérhönnuðum töppum í útstæð eyrun á mér, fæ mér ilmandi kaffi og heitar kleinur, slengi mér í besta sófann og fer að lesa. Og svo les ég og les. Þetta gerði ég einmitt í dag.

Mest gaman er að lesa þegar rigningin er svo stríð að maður sér ekki út um gluggana fyrir risastórum dropum og rakamóðu. Alveg eins og var í dag. Í dag var einmitt drauma bókaveðrið. Og ég las draumabókina mína. Ekki voru það samt Andrarímur. Og ekki var það neinn andskotans reyfari. Ég er alltof merkilegur með mig til að lesa slíkt djönk. Svoleiðis á maður að sjá í bíó og éta poppkorn með og svelgja nokkra stórflöstur af kók. En kaffi og kleinur eru fyrir bókmenntirnar í heimahúsum.

Ég las bókina Pöddur: skordýr og áttfætlur, í ritstjórn Hrefnu Sigurjónsdóttur og Árna Einarssonar.

Þetta er nú það sem ég hef helst til málanna að leggja um bókmenntirnar í  þessu illviðrasama landi. 


Blogg, blogg, blogg

Íslendingar skíttöpuðu sem betur fer fyrir Dönum í landsleiknum í fótbolta. Það hefði líka orðið félegt ef við hefðum unnið glæstan sigur, segjum 14:2. Þá hefði örugglega orðið ferlegt fjöldafyllerí út um allan bæ svo kalla hefði til margar víkingasveitir með alvæpni til að berja á bullunum. Blóðið hefði streymt um götur og torg og Geir Jón farið fullkomlega á límingunum.  

En allt fór þetta betur en áhorfðist. Og þetta var alveg yndislegur dagur. Blessuð blíða og ég byrjaður að blogga. Það gerist nú ekki á hverjum degi. Bara í dag.  Aldrei aftur. Aldrei í lífinu. En á morgun verður þó enn þá meira gaman. Djöfull skal ég þá blogga. Og hinn daginn. Og alla mína daga þar til yfir lýkur. Vinir mínir og einstaka óvinir segja að ég verði áreiðanlega með elstu mönnum. Það er því mikið æviblogg framundan. Blogg alla morgna. Blogg alla eftirmiðdaga. Blogg öll kvöld. Blogg allar nætur. Blogg, blogg, blogg!

Og guð gefi mér kæruleysi til að blogga aldrei að yfirlögðu ráði heldur ávallt fullkomlega umhugsunarlaust og út í hött.

Þegar ég hafði rétt sett punktinn aftan við þessa ódauðlegu línu kom Trausti Jónsson og færði mér bunka af gömlum embættismannabréfum um þau skelfilegu harðindi og óárán sem alltaf voru í gamla daga áður en blessuð gróðurhúsáhrifin voru fundin upp. Þá átu kindurnar gorið úr hverri  annarri og þótti gott. Aumt var að sjá Árna Finnsson og þennan aulalega efnafræðing sem var með honum í gær í Kastljósinu að ræða myndina eftir Al Gore um gróðurhúsáhrifin. Var ekki hægt að fá einhvern harðvítugan veðurfræðing á móti Árna?

Við Trausti fórum svo á Kaffi Mílanó. Við ræddum um veðrið. Og líka heilmikið um lífið.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband