Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Hversdsagsleikinn

Það er undarlegt að mér finnst alltaf svo gaman fyrstu daganna eftir áramótin en einkanlega fyrstu dagana eftir þrettándann. En þó því aðeins að snjólaust sé og sæmilega lyngt veður.

Þetta hefur byrjað þannig að ég hef einhvern tíma á þessum dögum verið á rölti um bæinn einmitt í svipuðum aðstæðum og eru í dag, kyrru veðri og snjólausu - og svo aftur seinna og enn þá aftur. Og þá hefur smám saman skapast einhver stemmning, einhverjar kenndir og minningar sem síðan hafa loðað við þetta. 

Mest finnst mér gaman eftir þrettándann þegar búið er að taka niður jólaskreytingarnar og hversdagsleikinn er orðinn alsráðandi. Hann á vel við mig. Það venjulega. Það fábreytta. Það kyrrláta og hlédræga.

Sá sem ekki kann að meta hversdagsleikann kann ekki að meta lífið sjálft.

Þetta er kannski ófrumleg og hversdagsleg staðhæfing er hún er samt alltaf jafn sönn.   


Grimmd

Er hægt að verja svona nokkuð með einhvers konar rökum, trúarlegum, réttlætislegum eða þjóðfélagslegum? 

Hvað hugsar manneskja í þessum aðstæðum innan um æstan múg síðustu mínúturnar í lífi síinu? Þau stjórnvöld sem láta svona líðast eiga sér enga réttlætingu.


Engum er skemmt nema skrattanum

Það er sem sagt alveg ljóst að það hefur ekkert upp á sig að ræða um trúmál á Moggablogginu. Þá mætir bara fjandinn sjálfur á svæðið í ljósum logum og á hala hans sitja tíu þúsund trúlausir drýsildjöflar!

Engum er skemmt nema skrattanum.


Trúarbragðafræðsla í skólum

Í Morgunblaðinu í dag er merkileg grein um trúarbragðafræðslu í skólum. Í henni tekur Guðmundur Ingi Markússon trúarbragðafræðingur undir orð séra Þórhalls Heimissonar um slaka stöðu trúarbragðafræðinnar í skólum, allt upp í háskólastig og segir að það þurfi að styrkja stöðu trúarbragðafræðslunnar.

En svo kemur aðalatriðið. Guðmundur Ingi telur að í umræðunni undanfarið hafi lítill greinarmunur verið gerður á trúarbragðafræðum og kristnum fræðum. Og hann neitar því að kristinfræðin í kennsluefni íslenskra skóla falli undir trúarbragðafræði (og þar af leiðandi undir trúarbragðafræðslu, bæti ég við). 

Trúarbragðafræði, segir Guðmundur Ingi, er veraldleg fyrst og síðast. Kristin fræði falli hins vegar   undir trúaruppeldi. Það eigi að vera í höndum kirkjunar. Guðmundur telur að það sé grundvallaratriði að skólarnir séu veraldlegar stofnanir. Þeir eigi að sjálfsögðu að fjalla um kristna trú og kirkju og hlut hennar í menningu og sögu þjóðarinnar en það verði að vera af veraldlegum sjónarhóli trúarbragðafræðinnar. Hann nefnir síðan þær mörgu  veraldlegu fræðigreinar sem þau fræði sækja aðferðafræði sína til.  

Þarna finnst mér Guðmundur Ingi Markússon hitta naglann á höfuðið. Í nýársprédikun sinni sagði biskupinn að brýnt væri "að stórefla kristnifræði í skólunum, jafnframt aukinni fræðslu í almennum trúarbragðafræðum."

Hér sýnist mér að biskup vilji fyrst og fremst auka trúaruppeldi í skólum með því að stórefla þá kristnifræði sem þegar er fyrir í námsskrá og kennsluefni en samrýmist ekki hlutlausu fræðslustarfi en er fremur trúaruppeldi. 

Blasir þetta ekki við hvað þeir vilja: Fyrst mikil kristnifræði - trúaruppeldi - síðan einhver almenn fræðsla um trúarbrögð.

Og þetta held ég að sé einmitt grunntónninn hjá flestum þeim sem tekið hafa til máls undanfarið um Það að nauðsynlegt sé að auka kristinfræði í  skólunum. Meira trúaruppeldi! 


Nýjársdagur

Hann hefur alltaf sérsaka stöðu í mínum huga. Á nýjársdag 1980 hætti ég að drekka áfengi. Þegar ég vaknaði þann dag vissi ég að ég myndi aldrei drekka meira. Mig hefur aldrei langað í vín og aldrei átt í neinni baráttu.

Það var eins konar frelsun.

Það er aldrei að vita hvort maður lifir til ársloka. Mér er alveg sama. Fyrir nokkrum árum gerðist undarlegur atburður í lífi mínu sem kenndi mér að það er ekkert að óttast hvað dauðann varðar.   

Á síðasta ári dó besti vinur minn sem ég hafði nær dagleg samskipti við í aldarfjórðung.

Þannig er lífið. Það hverfur að lokum. Allt hverfur að lokum.

Nema eitt.

 


Drottinn minn dýri!

Þetta var alveg makalaus flugeldasýning! Ég hef bara aldrei vitað annað eins!

En svo verður ekkert meira fyrr en um næstu áramót.  

Þangað til: Beware!Tounge

Óska  ykkur öllum gleðilegs árs með mildum vetri, gróðravori og besta sumri í manna minnum!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband