Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015
29.11.2015 | 13:25
Stopular úrkomu og snjólagspplýsingar
Í nótt mældist frostið á Brúarjökli -23,1 stig. Og er það reyndar mesta frost sem mælst hefur þennan dag á landinu frá því a.m.k. 1949. Gamla metið var -22,7 sem kom á Brú á Jökuldal árið 1973. En þetta segir samt ekki sérlega mikið um mikla kulda í nóvember því þessi dagur er með óvenjulega hátt lágmarksgildi miðað við nóvemberdaga. Þann 23. árið 1996 fór frostið jafnvel í 30,1 stig á sjálfvirku stöðinni á Neslandatanga við Mývatn (og -30,4 daginn eftir). Það er fyrsta dagsetning að vetri sem frost á landinu fer í 30 stig eða meira en fyrsta dagsetning fyrir 25 stiga frost er 4. nóvember og var það líka árið 1996 og einnig á Neslandatanga. Hér er miðað við frá og með 1949.
Snjódýpt í morgun var mæld 30 cm í Reykjavik. En á Ólafsfirði var hún 50 cm. Hugsanlega hefur snjódýptin þar í gær verið meiri en í Reykjavík sem þá var með mestu snjódýpt á landinu miðað við upplýsingar sem bárust en þann dag komu ekki neinar upplýsingar um snjólag á Ólafsfirði.
Á Akureyri hefur verið gefin upp alauð jörð frá 23. nóvember en daginn áður var gefin upp snjódýpt uppá 23 sentímetra. Síðan kom allmikil hláka og má vera að snjólaust hafi orðið um tíma en síðustu tvo daga í frosti allan sólarhringinn hefur úrkoman þar mælst yfir 6 mm. Þar hlýtur því að vera dálítill snjór á jörðu. Athygli var vakin á þessu atriði hér í gær í athugasemd við bloggfærslu dagsins. Það er auðvitað lélegt að ég skuli ekki hafa áttað mig á þessu en það eru ansi mörg atriði sem ég þarf að fylgjast með daglega til að halda úti fylgiskjalinu við þessa bloggsíðu.
Reyndar eru upplýsingar frá ýmsum veðurstöðvum um úrkomu og snjóalög sem koma inn á vef Veðurstofunnar óþolandi stopular og hefur svo lengi verið þó skeytastöðvar séu yfirleitt góðar.Ein stöð gefur kannski einhvern dag upp mestu snjódýpt sem þá mælist á landinu en svo koma bara engar upplýsingar frá henni í marga daga. En þegar þetta gerist gefur vefurinn upp með plúsmerki að engar upplýsingar hafi borist frá viðkomandi stöð. Það er hins vegar nýlunda að stöðvar gefi upp alauða jörð þegar allar líkur benda til að svo sé þó ekki.
En kannski er þetta liður í þeim breytingum á veðurþjónustu sem Veðurstofan hefur tilkynnt á heimasíðu sinni með talsverðum tilþrifum!
Viðbót: Úrkoman í dag frá kl. 9-18 á Akureyri var 8,8 mm í frosti og hvergi meiri á landinu. Nú verður spnanndi að sjá hvort þar verði enn alauð jörð í fyrramálið!
Viðbót 30.11.: Snjódýpt á Akureyri í morgun var 33 cm.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 1.12.2015 kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.11.2015 | 11:37
Næst mest snjódýpt í nóvember í Reykjavík
Í morgun mældist snjódýptin í Reykjavik 32 sentímetrar. Það er þá næst mesta snjódýpt sem þar hefur mælst í nóvember frá því Veðurstofan byrjaði að mæla hana. Metið er 38 sentímetrar frá 24.nóvember 1978. Úrkoman í morgun mældist 20,6 mm og 12,3 mm í fyrradag eða 33 mm á tveimur sólarhringum. Láta mun nærri að 1 mm af úrkomu jafngildi einum sentímetra af snjó.
Eins og í gær er snjódýptin í Reykjavik sú mesta á landinu sem fregnir eru af. Það er sjaldgæft.
Það er samt öðru nær en að sérstakt fannfergi sé nú á landinu. Hvergi er mikill snjór nema þá í höfuðborginni ef menn vilja kalla það svo og ekki er alls staðar alhvít jörð og sums staðar er alveg snjólaust, einkum á suðaustanverðu landinu, en einnig í Bolungarvík og á Akureyri.
Mest snjódýpt í nokkrum mánuði í Reykjavík er 55 cm 18.janúar 1937. En sú mesta á landinu 279 cm við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum 19.mars 1995.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.11.2015 | 13:47
Mestur snjór á landinu í Reykjavík
Í morgun var jörð alhvít í fyrsta sinn á þessu hausti í Reykjavík. Og það munar aldeilis um það. Snjódýptin var mæld 21 cm sem er sú mesta á landinu ásamt Ólafsfirði. En Ólafsfjörður er snjóasveit en Reykjavik er snjóléttur staður og þar er sárasjaldan mestur snjór á öllu landinu einhvern dag.
Síðast var alhvítt í höfuðborginni í vor 11. apríl og hefur því verið snjólaust í 228 daga. Það er 24 dögum lengur en meðaltal þessarar aldar og 28 dögum lengur en meðaltalið frá og með 1949. Flestir hafa þessir dagar verið 248 árið 2000 en þá varð jörð alhvít 12. desember og hefur aldrei orðið alhvítt svo seint á hausti í Reykjavik. Fæstir hafa snjólausu dagarnir frá vori til hausts verið 144 árið 1990. Snjólausir dagar í Reykjavík milli vors og hausts hafa reyndar ekki verið fleiri en nú síðan dagafjöldametið var sett árið 2000.
Þetta er mesta snjódýpt í nóvember í Reykjavík síðan 7. nóvember 1993 þegar snjóýptin var jafnmikil, en meiri 1979 (29 cm), 1978 (38 cm) og 1930 (26 cm). Snjódýptin núna er því sú fjórða til fimmta mesta í Reykjavík frá því Veðurstofan var stofnuð árið 1920.
Meðalhitinn á landinu er enn meira en eitt stig yfir meðallagi. En nú fer að halla undan fæti með kuldakasti til mánaðarloka.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 28.11.2015 kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2015 | 13:00
Skólabókardæmi um blíðviðri og ekki blíðviðri að vetri
Menn hafa verið að lofa kuldann sem var í gær og fyrradag, meira að segja veðurfræðingar í sjónvarpinu, og kallað það fallegt vetrarveður og jafnvel "veðurblíðu". En í dag er bjart og stillt veður í Reykjavík og kominn 4 stiga hiti. Það er bara veður í allt öðrum og betri gæðaflokki en kuldinn sem var en samt er auðvitað sami veturinn.
Enginn er þó að lofa sérstaklega þetta (alvöru) góðviðri að vetrarlagi en menn virðast alveg óskaplega veikir fyrir mjög köldum dögum. Þá er gjarnan talað um "veðurblíðu" fyrir nú utan alla fegurðina sem menn lofa þá hástöfum.
Með allri virðingu blæs ég á þennan veðursmekk! Þetta er einfaldlega vondur veðursmekkur!
Svona eins og að taka Justin Bieber fram yfir Bítlana.
Þessi veðurbreyting sem nú hefur orðið er reyndar alveg skólabókadæmi um þann mun sem getur verið á vetrarveðri sem út um glugga virðist þó vera svipað. En það er alveg furðulegt að alltaf hlaupa menn upp og tala um "veðurblíðu" þegar kuldinn ríkir en eins og þeir skynji bara ekki hvað veður eins og er í dag er honum mikla æðra og betra!
Ég hef áður vikið að þessu atriði hér á blogginu, hvað mönnum sé tamt að tíunda vetrarkulda sem veðurblíðu en láti sér fátt um finnast þegar svo alvöru blíða kemur að vetrarlagi.
En nú kom einstaklega gott tækifæri til að árétta hvað ég á við.
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.11.2015 | 17:29
Úrkomumesti mánuður á veðurstöð á landinu
Nóvember árið 2002 var ekkert venjulegur mánuður hvað veðurfar snertir á landinu. Mánaðarúrkoman á Kollaleiru í Reyðarfirði mældist þá 971,5 mm sem féll á 25 úrkomudögum. Það er mesta úrkoma sem fallið hefur á einum mánuði á íslenskri veðurstöð. Úrkoman á Hánefsstöðum í Seyðisfirði var svo 907, 9 mm, í Neskaupstað 784,9 mm, á Desjamýri í Borgarfirði eystra 736,2 mm, á Höfn í Hornafirði 672,4 mm og á Gilsá í Breiðdal 656,4 mm.
Til að gera sér einhverja hugmynd um það hve gríðarlegt magn þetta er sem mældist á Kollaleiru má geta þess að meðalárskoma í Reykjavík á þessari öld er 874 mm. Og úrkoman á Kollaleiru þennan mánuð er reyndar meiri en nokkru sinni hefur fallið á heilu ári á sumum veðurstöðvum sem athugað hafa í marga áratugi,svo sem í Æðey, Hrútafirði, Blönduósi, Skagafirði, við Mývatn og á Hólsfjöllum en allt eru þetta reyndar staðir þar sem úrkoma mælist lítil. En fyrr má nú samt vera!
Þessi gríðarlega úrkoma var aðallega bundin við austurland en á öllu vestanverðu landinu var úrkoman minni en í meðallagi en allra minnst á Stafni í Svartárdal, aðeins 3,1 mm.
Mesta sólarhringsúrkoma var ekkert óskaplega mikil miðað við það sem hún hefur mest orðið, 169,9 mm á Neskaupstað þann 17. En á austurlandi komu margir dagar með stórrigningu þó allsherjar met hafi ekki verið slegin.
Ástæðan fyrir þessari miklu úrkomu austanlands voru mjög eindregnar austanáttir. Og ekki á neinn venjulegan hátt eindregnar heldur var þetta einfaldlega mesti austanáttamánuður allra tíma.
Þetta var hlýr mánuður. Alls staðar var meðalhitinn yfir frostmarki í byggð. Víða var snjólaust og hvergi var mikill snjór. Þó voru 6 dagar alhvítir á Kollaleiru og með því meira á landinu. Meðalhitinn í Reykjavík var 4,7 stig en 4,2 á Kollaleiru. Hlýjast var 6,5 stig í Vík í Mýrdal. Hæsti hiti mánaðarins var ekki sérstaklega hár miðað við hvað landsmeðalhitinn var mikil, 13,6 stig. Í hinni miklu austanátt fór lítið fyrr sunnan og suðvestanáttum sem koma með mestan vetrarhita. Hámarkshiti mánaðarins mældist svo á vægast sagt óvenjulegum stað þegar um nóvember er að ræða sem einnig má kannski þakka austlægu áttunum, nefnilega á Lambavatni á Rauðasandi, allra vestast á landinu.
Veðurfar | Breytt 20.11.2015 kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2015 | 12:43
Hlýtt og blautt
Meðalhitinn það sem af er mánaðarins í Reykjavík er nú 4,9 stig eða 2,6 yfir meðallaginu 1961-1990 en 1,5 stig yfir meðallagi þessarar aldar. Á Akureyri er meðalhitinn 3,1 og er það 2,5 stigum yfir meðallaginu 1961-1990. Landsmeðalhita má lauslega áætla 2,2 stig yfir meðallagi þessarar aldar.
Enn er mikið eftir af mánuðinum og kólnandi veður framundan. Þetta segir þvi ekki neitt um meðalhitann í mánaðarlok þó forskotið sé nokkuð.
Úrkoman í Reykjavík þessa fyrstu tólf daga er þegar kominn tæpa 3 mm yfir meðalúrkomu alls nóvembermánaðar árin 1961-1990. Hlutfallslega hefur mest úrkoma verið á suðvesturlandi. Mestu munar um úrkomuna í Reykjavík þann sjötta sem var 23 mm og þann ellefta en þá var hún 11,5 mm. Rignt hefur eitthvað alla daga mánaðarins. Reyndar hefur úrkoman verið mest síðla kvölds og að næturlagi. Aldrei hefur rignt meira en 5,7 mm frá klukkan 9-18 og var það þann 5. en aðra daga á þeim tíma hefur úrkoman aldrei náð tveimur millimetrum.
Á Akureyri er úrkoma innan við 5 mm og svipað á sjálfvirku úrkomustöðinni á Möðruvöllum í Hörgárdal.
Að kvöldi hins fimmta fór hitinn í Reykjavík í 11,0 stig en eftir reglum Veðurstofunnar verður sá hiti bókfærður til þess sjötta og er þá jafn mesta hiti sem mælst hefur þann dag í borginni frá a.m.k. 1948, ásamt 6. nóvember 2007, en ef miðað er við þann fimmta er hann mesti hiti sem mælst hefur þann dag sömu ár. Þrettán stiga hiti hefur reyndar mælst seint í nóvember í Reykjavík og tólf stig tvo daga í desember, sá síðari svo seint sem 14. desember 1997.
Snjólaust má heita í byggð. Hvergi er alhvít jörð en lítillega flekkótt í Svarfaðardal, Svartárkoti, Vopnafirði og Borgarfirði eystra. Ekki er hægt að segja að veturinn hafi enn komið yfir landið. En auðvitað kemur að því.
Og í þessum skrifuðu orðum byrjaði að snjóa í Reykajvik og er jörð að verða hvít!
Mánaðarvöktun veðurs | Breytt 16.11.2015 kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006