Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016
24.6.2016 | 19:54
Hitabylgjan í júní 1939
Mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi svo trúverðugur þyki er 30,5 stig á Teigarhorni við Berufjörð, rétt norðan við Djúpavog þann 22. júní 1939. Sama dag mældust 30,2 stig á Kirkjubæjarklaustri. Þetta eru einu dæmin um það að yfir 30 stiga hiti mælist á fleiri en einni veðurstöð á landinu sama daginn. Gerðist þetta í mikilli hitabylgju sem stóð í fáeina daga.
Laugardaginn 18. júní var norðaustan og austan átt á landinu og nokkur rigning á norðausturlandi. Engin hitabylgjublær var í lofti en mesti hiti varð 17,6 og var það í Reykjavík. Þar var rúmlega hálfskýjað síðdegis og loftþrýstingur 1007,8 hPa síðla dags. Lægð var suðaustur af landinu en langt suður í hafi sá til mikillar hæðar yfir Azoreyjum. Daginn eftir var vaxandi hæðin og hlýindi hennar farin að teygja sig vel í norður suðvestur af landinu. Loftvægi á landinu sjálfu var mjög hækkandi og var orðið 1023,2 hPa síðdegis í höfuðstaðnum. Á einni veðurstöð náði hitinn yfir tuttugu stig, 22,5 stig á Hallormsstað. Í Reykjavík voru 16,5 stig og sólin skein þar í sjö klukkustundir.
Þann 20. teygði hryggur úr hæðinni, sem færðist norðar, yfir landið og allt til norðaustur Grænlands en grunn lægð var vestur undan. Klukkan 8 að morgni (kl. 9 eftir núverandi klukkustillingu) var hlýjast 16 stig á Blönduósi og Kirkjubæjarklaustri en sex veðurstöðvar mældu síðar um daginn 20 stiga hita eða meira, mest 24,5 á Hallormsstað en hinar stöðvarnar voru m.a. Akureyri, Reykjahlíð við Mývatn og Kirkjubæjarklaustur. Hitinn fór þennan dag hærra í Reykjavík (ásamt þeim 24.) en nokkurn annan dag í þessari hitasyrpu, 18,7 stig, þó sólar gætti ekki að ráði, og einnig kom mesti hitinn þessa daga á Kjörvogi við Reykjarfjörð á Ströndum, 18,9 stig. Hægviðri var um allt land. Á þessum tíma voru veðurstöðvar sem mældu hámarkshita 31 að tölu og nokkrar stöðvar til viðbótar mældu hita á föstum athugunartímum þó þær væru ekki búnar hámarksmælum. Í þessari talningu sem hér fer á eftir er stöðin á Lambavatni á Rauðasandi ekki talin með en hámarksmælingar þar á þessum árum voru mjög ótrúverðugar en Grímsey er höfð með þó tímaritið Veðráttan hafi eitthvað hikað við það. Ekki mældu allar stöðvar heldur á sama tíma, allar þó kl 8 að morgni en skeytastöðvar einnig klukkan 12 og 17 en veðurfarsstöðvar kl. 14 og 21 (22 eftir núverandi klukkustillingu).
Þann 21. júní, hafði hæðin náð sér vel á strik með miðju rétt fyrir sunnan landið og raunveruleg hitabylgja var á landinu. Hæð 500 hPa flatarins yfir landinu var yfir 5900 metrar sem er einsdæmi. Skýjað var vestanlands og á Vestfjörðum en léttskýjað annars staðar. Meðalhiti allra stöðva klukkan 8 um morguninn var 15,3 stig og hitinn var þá þegar orðinn 24 stig á Akureyri, 21 á Kirkjubæjarklaustri og og Fagurhólsmýri og 20 á Grímsstöðum á Fjöllum og Hólum í Hornafirði. Kaldast var 9 stig á Dalatanga. Seinna um daginn fór hitinn á Akureyri í 28,6 stig sem varð mesti hiti á landinu þennan dag og methiti í júní á Akureyri til 1974. Sólarhringsmeðalhitinn var þar 20,9 stig. Á Kirkjubæjarklaustri fór hitinn í 28 stig, var það kl. 17, og þar var meðalhitinn 21,8 stig. Á Hallormsstað fór hitinn í 26 stig og 25 á Mælifelli í Skagafirði, Hlíð í Hrunamannahreppi og Vík í Mýrdal. Hitinn í Vík er mesti hiti sem þar hefur mælst í júní enn þann dag í dag. Í Miðfirði mældist einnig mesti hiti sem þar um slóðir hefur mælst í júní, 24,0 stig í Núpsdalstungu inni í dalnum. Þetta var besti dagurinn við Húnaflóa og kl. 14 var 20 stiga hiti á Blönduósi en þar var ekki hámarksmælir. Í Skagafirði var hitinn jafn mesta hita sem þar hefur mælst i júní. Hlýtt var einnig á suðurlandsundirlendi. Á Sámsstöðum fór hitinn í 22,6 stig sem þar er júnímet á mönnuðu stöðinni sem mjög lengi var starfrækt en var lögð niður fyrir nokkrum árum. Á Þingvöllum voru 21,0 stig (sama næsta dag) og Eyrarbakka, 21,9 stig og fór hitinn þarna hærra en aðra daga í syrpunni. Í Hornafirði var þetta líka hlýjasti dagurinn ,23,1 stig, svo og í Bakkafirði, 23,4 og í Fagradal í Vopnafirði,23,5 stig. Á Suðureyri við Súgandafjörð fór hitinn hæst í þessari syrpu, 17,5 stig (aftur þ. 23.). Á Flateyri voru 18,8 stig lesinn á mæli kl. 14 en þar var ekki hámarkshiti en ekki er útilokað að hiti hafi þar farið í raun í 20 stig. Þar var þó skýjað og jafnvel súldarvottur. En hvergi mældist meiri hiti en þetta á Vestfjörðum í þessari hitabylgju. Í Síðumúla í Hvítársíðu mældist líka mesti hitinn í bylgjunni, 18,0 stig, sem verður að teljast lítið á þeim stað. En hitabylgjan náði sér aldrei á strik á vesturlandi.
Á myndinni, sem stækkar við smell,sést loftvægi við sjávarmál og hæð 500 hPa flatarins kl. 24 þann 21. Loftþrýstingur var afar mikil. Í Stykkishólmi var mesti loftþrýstingur sem mælst hefur á landinu í júní, 1040,4 hPa þ. 21. Geysimikil hæðarmiðja sunnan við land teygði sig yfir landið og norður fyrir Grænland og Svalbarða og austur til Skandinavíu. Hitinn var 10 stig í 850 hPa fletinum yfir öllu sunnanverðu landinu. Olli hitinn miklum vaxtavöxtum í ám fyrir norðan. Við Grjótá á Öxnadalsheiði tepptist vegurinn vegna vatnavaxta og snéru áætlunarbílar við. Mikill vatnagangur var á þessum slóðum næstu daga. Meðaltal lágmarkshita á landinu var 11,0 en hámarkshita 21,7 og meðaltal þessa 16,3 stig. Ekki mun það fara langt frá sólarhringsmeðalhitanum, en líklega þó dálitlu hærra en hann. Af 31 veðurstöð með hámarksmæla mældu 22 stöðvar tuttugu stig eða meira eða 71 af hundraði stöðva. Þar fyrir utan var 20 stiga hiti eða meira lesin af mælum á athugunartímum á þremur stöðvum á sem ekki voru búnar hámarksmælum. Sjá fylgiskjal. Af bæjarlífinu í Reykjavik var það helst að frétta að kappleikur fór fram milli breska knattspyrnuliðsins Islington Corinthians ,sem lék hér nokkra leiki, og úrvalsliðs Reykjavíkur. Bretarnir unnu 1:0. Þeir hafa löngum verið seigir og vitað hvað þeir vilja!
Miðvikudaginn 22. náði hitabylgjan hámarki enda mjög hlýtt loft yfir öllu landinu, 10-12 stig i 850 hPa fletinum sem var í um 1600 metra hæð. Ameríska endurgreiningin reiknar þykktina 5670 metra yfir miðju landi sem er meira en reiknað hefur verið fyrir nokkurn annan dag. Hæðin ríkti yfir öllu þó grunn lægð við norðaustur Grænland væri á hreyfingu suðaustur eftir. Klukkan 8 að morgni var hitinn 16,3 stig að meðaltali á landinu, víða bjart en vart við þoku við Faxaflóa og áfram var skýjað á vesturlandi og á Vestfjörðum og meira skýjað en daginn áður í Húnavatnssýslum og Skagafirði. Vindur var áfram vestlægur þó víða væri hægviðri. Hlýjast var um morguninn 23 stig á Kirkjubæjarklaustri, Hæli í Hreppum og Sandi í Aðaldal en kaldast 11 stig í Papey. Seinna um daginn fór hitinn á Teigarhorni í 30,5 stig en 30,2 á Kirkjubæjarklaustri en 28,5 á Fagurhólsmýri. Aldrei hefur mælst jafn mikill hiti á þessum stöðum í nokkrum mánuði. Sólarhringsmeðaltalið á Klaustri var hvorki meira né minna en 23,6 stig og mun vera eitt af því allra hæsta fyrir nokkurn dag á nokkurri veðurstöð. Á Akureyri var meðalhitinn 21,6 stig sem er ekki aðeins met fyrir júní heldur nokkurn dag ársins en samanburðurinn nær til ársins 1936. Á Teigarhorni var meðalhitinn um 17 stig en hinn mikli hámarkshiti stóð þar stutt við. Á Grímsstöðum á Fjöllum og á Sandi í Aðaldal komu júnímet í hámarkshita sem enn standa, 25,2 og 26,5 stig. Á Akureyri fór hitinn í 26,5 stig og 26,0 á Hallormsstað þar sem sólarhringsmeðaltlaið var 19,0 stig. Á suðurlandsundurlendi var hitinn 21-24 stig, 24 í Skagafirði og 21 stig í Miðfirði. Hitinn náði einnig út til stranda norðaustanlands og austan eins og daginn áður. Um miðjan dag voru 23, 5 stig lesinn á mæli á Seyðisfirði og 22,0 á Raufarhöfn en hámarksmælingar voru ekki á þessum stöðum.
Eins og daginn áður fór hitinn í tuttugu stig inn til landsins alls staðar á veðurstöðvum nema í Borgarfirði. Meðaltal lágmarkshita á landinu var 10,6 stig en hámarkshita 21,7 en meðaltal þessa 16,3 stig. Klukkan 17 var V eða NV átt, allhvasst á annesjum norðan lands en hægviðri austan lands og sunnan Hiti var þá 13-15 vestanlands en víðast um eða yfir 20 í öðrum landshlutum, mest 27 á Fagurhólsmýri. Tuttugu stiga hita eða meira mældu 23 veðurstöðvar eða 74 af hundarði. Þetta er eitthvert allra hæsta hitabylgjuhlutfall sem þekkt er. Auk þess mældu á athugunartímum fjórar stöðvar slíkan hita sem ekki voru með hámarksmæla. Meðaltal hámarkshita þessa tvo daga, 21. og 22. er í beinum tölum hærra en nokkra aðra daga síðan Veðurstofan var stofnuð árið 1920. Þann 11. ágúst 2004 var meðaltalið 21,55 stig og 20,8 stig þann 30. júlí 2008. En þess bera að gæta að gæta við samanburðinn að mæliaðstæður voru aðrar og einnig fjöldi og dreifing veðurstöðva. Þess skal svo getið að meðaltal hámarkshita á landinu í hitabylgjunni 20. og 21. júli 1944 var 21,5 og 20,8 stig. Ljóst er að þessir dagar 1939 eru í flokki allra hlýjustu daga sem mælst hafa hvað hámarkshita snertir. Ýmislegt var á seyði í bænum. Gamla bíó var að sýna myndina María Walewska með stórstjörnunum Grétu Garbo og Charles Boyer. Á Hótel Islandi söng Kristján Kristjánsson í fyrsta skipti nýtt lag eftir Sigfús Halldórsson. Dægurlög voru leikin í útvarpinu síðast um kvöldið. Ball var i Alþýðuhúsinu þar sem hljómsveit Bjarna Böðvarssonar lék fyrir dansi. Ekki fer miklum sögum af því hvað var að gerast í þeim landshlutum þar sem hitinn varð mestur. En í heimsmálunum vofði önnur heimstyrjöldin yfir.
Næst dag (23.) var enn hlýtt á suður og suðausturlandi og í Dölunum en farið að kólna norðanlands og austan,einkum með kvöldinu. En þessi dagur var eina bestur á Snæfellsnesi af öllum dögunum þar, með sólskini og 16 stiga hita i Stykkishólmi. Ef Stykkishólmur hefði verið eina veðurstöð landsins eins og hann var lengi hefði ekki mátt sjá af hitafarinu þar einu saman að óvenjuleg hitabylgja væri á landinu. Hlýja hæðin var nú komin vestur fyrir þó hlýinda hennar gætti enn á landinu og áfram var mjög víða bjartviðri. Reyndar var fágætlega hlýr blettur rétt fyrir sunnan land með 15 stiga hita í 850 hPa fletinum en tíu stiga línan ná þvert yfir land frá Snæfellsnesi og til sunnanverðra austfjarða. Vindurinn var að verða norðan og norðaustanstæður. Hitinn fór nú mest í 26,6 á Kirkjubæjarklaustri en 20-22 á suðurlandsundirlendi og 21 stig í Dölunum. Mesti hiti í Reykjavík þessa daga mældist þennan dag, 18,7 stig, en á rafstöðinni við Elliðaár fór hitinn í slétt tuttugu stig. Sólin skein í 16,3 klukkustundir í borginni og var þetta þar einna besti dagurinn þessa hlýju daga. Þetta var einnig hlýjasti dagurinn í Vestmanneyjum, 17,3 stig.Um kvöldið gerði Valur jafntefli 2:2 við breska liðið í hörðum leik. Á myndinni sést hlýi bletturinn í 850 hPa fletinum og fleira aðfararnótt 23. júni eftir hinn sjaldgæflega hlýja dag.
Þann 24. voru enn hitar hér og hvar þó mestu hlýindin væru komin vestur fyrir land og hæðin farin að veikjast. Í Reykjahlíð við Mývatn fór hitinn þá hæst í þessari hitabylgju, 25,4 stig, og einnig hæst á Hamraendum i Miðdölum,23,6 stig. Á suðurlandsundirlendi fór hitinn sums staðar í 20-22 stig. Hátíðahöld hófust þennan dag á Hvanneyri í tilefni af 50 ára afmæli skólans. Þar varð þó ekki meiri hiti en 14 stig. Í Reykjavík gætti sólar nokkuð og hitinn fór í 15,1 stig. Daginn eftir skein sólin þar í norðanátt aftur á móti í heilar 18 stundir sem er með því allra mesta sem gerist, en hitinn fór í 15,3 stig. Þennan dag mældist tuttugu stiga hiti aðeins á einni stöð, 21,8 í Reykjahlíð. Þar hafði þá mælst tuttugu stiga hiti eða meira sex daga í röð. En tuttugu stiga hiti hafði mælst einhvers staðar á landinu í sjö daga í röð.
Hvergi mældist svo tuttugu stiga hiti mánudaginn 26. júní. Hlýjast varð 17,0 stig í Síðumúla. Svalt loft hafði færst yfir allt landið með norðanátt og víða voru skúrir en bjart á suðvesturlandi. Glaðasólskin var enn í Reykjavík, 16,4 stundir, og hitinn fór í 13,5 stig. Sigurgeir Sigurðsson var vígður biskup þennan dag.
Ekki er alveg einfalt mál að bera þessa hitabylgju saman við mestu hitabylgjur síðustu ára. Í fyrsta lagi voru aðrar mæliaðstæður, mælt var í skýlum sem hengd voru á húsveggi, en síðustu áratugi hafa verið notuð frístandandi skýli. Í öðru lagi hafa verið hámarksmælingar á öllum veðurstöðvum frá því um 1960 en í júní 1939 voru aðeins 31 veðurstöð með hámarksmælingar af 50 veðurstöðvum (Lambavatni sleppt, en Grímsey með). Af þeim stöðvum sem ekki voru með hámarksmæli mældist 20 stiga hiti eða meira með fullri vissu á fimm stöðvum en mjög líklega á einhverjum fleirum til víðbótar. En sennilega mældist ekki 20 stiga hiti á nokkrum stöðvum vestanlands og á annesjum fyrir austan. Vel er hins vegar hægt að bera þessa hitabylgju saman við hitabylgjuna miklu í júní 1949 þegar 30 stöðvar af 51 veðurstöð (án Lambavatns),margar enn mælandi í veggskýlum, voru með hámarksmælingar og hefur hitabylgjan 1939 vinninginn yfir hana með heitustu dagana. Hitabylgjan í júní 1939 hlýtur að teljast mesta hitabylgja sem komið hefur í júnímánuði sem mælingar ná yfir, bæði hvað varðar fjölda stöðva með tuttugu stiga hita eða meira og ekki síst hæsta mældan hita, tvær þrjátíu stiga mælingar takk!
Í fylgkiskjalinu má sjá hitann hvern dag á langflestum veðurstöðum sem starfandi voru, lágmark og hámark og meðaltal þess og auk þess í aukadálkum mesta hita sem lesinn var hvern dag á mæla á athugunartímum á þeim stöðvum sem ekki voru með hámarksmæla.
Hér má svo sjá ýmislegt um hitametið á Teigarhorni og fleira.
Bloggar | Breytt 25.6.2016 kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006