Undarlegar mælingar

Nokkrar undarlegar mæliniðurstöður hafa sést á vef Veðurstofunnar í dag.

Í fyrsta lagi var sólarhringsúrkoman í morgun gefin upp sem 39 mm á Brjánslæk. Ekki trúi ég því.

Í öðru lagi var skráður hámarkshiti á Akureyri frá kl. 18 í gær til kl. 9 í morgun sagður 22,0 stig. Erfitt er að koma því heim og saman við mælingar á mönnuðu stöðinni á athugunartímum og þá ekki síður samfelldar mælingar á sjálfvirku stöðinni. Síðdegis í dag fór hitinn á Akureyri hins vegar í slétt tuttugu stig. 

Í þriðja lagi var hámarkshitinn í Æðey núna kl 18 tilfærður sem 24,0 stig. Það væri met á stöðinni í hvaða mánuði sem væri. Á Ísafirði var reyndar 18 stiga hiti mest í dag en annars staðar minna í Djúpinu. Ég er vantrúaður á þessa tölu í Æðey þó ekki þori ég að hengja mig upp á að hún sé ekki rétt. Hæsti hiti sem þar hefur nokkru sinni mælst er reyndar hlægilega lágur. Þetta er enginn hitastaður.

En það er aldrei að vita! 

Nú er víst allt hvort eð er vitlaust í veðurmálunum í heiminum, hitabylgja í Ameríku, rigningar í Bretlandi og Rússlandi og helvítis kuldar bara á norðurpólnum!

Á þessu er náttúrlega bara ein skýring, enda hefur veðrátta heimsins aldrei áður hlaupið út undan sér: 

GRÓÐURHÚSAÁHRIFIN ÓGURLEGU!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júlí

Þá er að vita hvort júlí, sem oftast er hlýjasti mánuður ársins, slær einhver veðurmet eins og júní gerði á ýmsan hátt, eða verður bara flatur og lágkúrulegur eins og íslenskt þjóðlíf.

Fylgiskjalið lætur ekki deigan síga þó það komi einn dag á eftir áætlun af því að skjalavörðurinn brá sér bæjarleið.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júnímánuður með ólíkindum

Það má með sanni segja að júní sem var að líða hafi verið þurrviðrasamur og sólríkur. 

Hann er meira að segja þurrasti júní sem mælst hefur í Stykkishólmi alveg frá 1857.

Þurrkamet fyrir júní hafa verið sett á fjölmörgum veðurstöðvum vestanlands, með mislanga mælingasögu, allt frá Faxaflóa og að Ströndum og Tröllaskaga.

Ekki var þó þurrkametið slegið í Reykjavík. 

Svo kemur það í ljós í fyrramálið hvort þetta sé ekki næst sólríkasti júní sem mælst hefur í Reykjavík og þar með einn af fimm sólríkustu mánuðum sem mælst hafa nokkru sinni í höfuðborginni. 

Loks er mánuðurnn alveg við það að komast inn á lista yfir tíu hlýjustu júnímánuði í Reykjavík en fremur kalt var reyndar víða á austanverðu landinu. 

Þessi kosningamánuður var sem sagt ekkert venjulegur. Það má jafnvel segja að hann sé um sumt með hreinum ólíkindum eins og ýmislegt í úrslitum forsetakosninganna! 

Viðbót 1.7.: Júní sem var að líða er sá næst sólríkasti sem mælst hefur í Reykjavík og þriðji sólríkasti mánuður yfirleitt sem þar hefur mælst. Og þetta er sólríkasti mánuður sem komið hefur í borginni eftir maí 1958. Það er því engin þörf að kvarta þegar blessuð sólin skín. - Þrátt fyrir allt.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband