Dægurmet í kulda í Reykjavík

Ég fæ ekki betur séð en dagurinn í gær, 5. desember, sé að meðaltali um það bil kaldasti 5.desember í Reykjavík síðan mælingar hófust með sæmilegu nútímasniði. Meðalhiti sólarhringsins var -10,6 stig. Til eru áreiðanlegar tölur, eða hátt upp í það með góðum vilja, fyrir daglegan meðalhita til 1935, og enginn dagur þann tíma virðist örugglega slá þennan út í kulda, en þar á undan má ýmislegt ráða um sólarhringsmeðaltal daga af hámarks-og lágmarksmælingum. 

Og þó ótrúlegt sé get ég ekki fundið líklegan jafningja þessa dags í kulda í Reykjavík hvað meðalhita snertir allar götur til 1880 nema árin 1936 og 1885, en ég held þó 5. desember þessi ár  hafi verið heldur mildari en nú.  Þá miða ég við þær skráðu tölur sem fyrir liggja en sleppi þá öllum fyrirvara og vangaveltum um ólíka mælihætti gegnum tíðina. En þetta er samt ekki alveg víst heldur sennilegt að mínu áliti. Og í það minnsta hefur alveg örugglega ekki komið kaldari 5. desember síðan 1949 og mjög líklega frá 1935 en ég vil sem sagt þó meina miklu lengur. 

Þetta kemur manni eiginlega á óvart. Og þetta gildir aðeins um sólarhringsmeðaltalið en ekki mesta frostið sem mælst hefur. Þessi dagur setti ekki met í Reykjavík hvað það varðar. En aðeins einn dagur hefur þó slegið hann út að því leyti, 5. desember 1885, þegar mældust -13,4 kuldabolastig en núna -12,6 eða -12,5 á kvikasilfrinu en -12,9 á sjálfvirka mælinum. Og þetta gildir bara um 5. desember. Kaldari dagar svo um munar hafa komið síðar í desember og í öðrum vetrarmánuðum í ýmsum árum. 

Desember er á Veðurstofunni talinn fyrsti vetrarmánuðurinn. Við skulum nú vona að þessi kaldi dagur sé ekki fyrirboði um harðindi og óárán.

Viðbót:  Í gær, 6. desember, var kaldasti sólarhringur að meðaltali sem mælst hefur þann dag á Akureyri frá a.m.k. 1949 og lágmarkshitinn í dag, 7. er lægsti lágmarkshiti sem þar hefur mælst 7. desember frá sama tíma. Sjá fylgiskjalið. Þetta var sem sé alvöru kuldakast.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fylgiskjalið komið inn

Fylgiskjalið sem er burðarás þessa veðurbloggs hefur ekki virkjast i nokkra daga og er ekki enn séð fyrir endann á þeim vandræðum en mér tókst þó að setja það inn áðan.

Fylgiskjalið sýnir daglegan gang ýmissa veðurþátta fyrir Reykjavík og landið á blaði 1 en fyrir Akureyri á blaði 2.

Vek sérsaka athygli á dægurhitameti fyrir landið í fyrradag. Þá mældust á kvikasilfursmnælinn á Dalatanga 19,0 stig rétt eftir kl. 18 (sem eftir reglum Veðurstofunnar eru skráðar á þ. 27, en anarkistinn Nimbus virðir engar reglur) en 20,2 á sjálfvirka hitamælinum. En það er yfirlýst stefna Nimbusar að taka aðeins mark á kvikasilfursmælingum á þeim veðurstöðvum sem mæla hita bæði með kvikasilfursmæli og sjálfvirkum.

Rétt einu sinni kemur nú ekki upp síðan á vef Veðurstofunnar með upplýsingum um mannaðar veðurstöðvar á þriggja tíma fresti með ýmsum krækjum líka á sjálfvirkar stöðvar. En frá þeim mönnuðu sjást þarna upplýsingar um mælingar á þriggja tíma fresti og hámarks og lágmarksmælingar á hita og mælda úrkomu. Margar eyður eru í  töflunum vegna þess að búið er að leggja margar mannaðar stöðvar niður. En allmargar eru enn við lýði.

Mér finnst óskiljanlegt að þessar upplýsingar um mannaðar stöðvar eftir spásvæðum, sem eru reyndar á gamla vefnum séu ekki uppfærðar og settar með pompi og pragt á þann nýja þar sem auðvelt yrði að ganga að honum. Þess í stað húkir hann ár eftir ár á gamla vef Veðurstofunnar og dettur alltaf út annað kastið. 

Þetta minnir reyndar á það að mér finnst ýmsu á vef Veðurstofunnar vera að hraka. En ég nenni ekki að gera frekari grein fyrir því að sinni.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Plebbalegt kosningavígorð

''Kjósum betra veður í Reykjavík''!

Þetta er ugglaust plebbalegasta vígorð sem notað hefur verið í nokkurri kosningabaráttu á Íslandi.

Reyndar hefur veðurfar í Reykjavík tekið miklum breytingum til hins betra á þessari öld miðað við það sem var svona 30 til 40 síðustu ár tuttugustu aldar. 

Mánuðurinn er nú í kringum meðallagið 1961-1990  að hita í Reykjavík  en meira en heilt stig undir því á Akureyri. Er þetta meðallag þó eitt hið kaldasta fyrir nóvember sem hægt er að finna. Nóvember var sá mánuður sem mest kólnaði eftir hlýindatímabilið hið fyrra á tuttugustu öld.

Framundan virðist vera umhleypingar, ýmist sæmilega hlýtt eða verulega kalt.

Ekki blæs því sérlega byrlega fyrir meðalhitann í þessum mánuði.

Fylgiskjalið fylgist með ósköpunum! 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þurrviðrasamt það sem af er

Nú þegar 20 dagar eru liðnir af október er meðalhitinn í Reykjavík 5,3 stig sem er 0,4 stig yfir meðallaginu 1961-1990 fyrir þá daga. Október er sá mánuður sem minnst hefur hlýnað síðustu árin og er meðalhitinn á þessari öld fyrir allan mánuðinn 4,9 stig eða sama og hlýindaárin 1931-1960, en flestir aðrir mánuðir ársins á þessari öld eru komnir vel upp fyrir það meðaltal.

Á Akureyri er meðalhitinn 3,5 stig sem er aðeins 0,1 stig yfir meðallaginu 1961-1990. 

Ekki er hægt að segja að þessi hiti sé neitt sérstakur, einir 17 mánuðir hafa verið hlýrri í Reykjavík fyrstu 20 dagana frá 1949, sá síðasti 2010. Hlýjast var 1959, 7,7, stig og líklega einnig árið 1946 en 1965 var meðalhitinn 7,2 stig. Kaldast var 1981, 0,6 stig, og sennilega mjög svipað 1926 og 1917.

Sólskinsstundir í höfuðborginni eru orðnar 54 sem 6 stundum minna en meðaltalið 1961-1990 en 13 stundum minna en meðaltal þessarar aldar fyrir fyrstu 20 daga mánaðarins.

Úrkoman er aðeins 11,8 mm í Reykjavík. Hún hefur aðeins verið minni árin 1993 og 1966 síðan Veðurstofan var stofnuð 1920 fyrir þessa daga. En heildar úkomumagn mánaðar getur gjörbreyst á jafnvel einum degi ef svo vill verkast og sólarstundirnar geta líka tekið stakkaskiptum á fáum dögum.  

Á Akureyri er úrkoman 21,8 mm.

Fyrir utan fjögurra daga hlýindi hefur þessi mánuður ekki verið á neinn hátt merkilegur hvað hita og sól varðar en úrkoman er enn mjög lítil víðast hvar. Og afar hægviðrasamt virðist hafa verið og loftþrýstingur mikill, ekki ósvipað og í fyrra, en um þetta hef ég þó ekki nákvæmar upplýsingar. Að þessu leyti er mánuðurinn óvenjulegur enn sem komið er.   

Nú er spáð kuldakasti sem virðist ætla að standa til mánaðarloka, ef marka má spárnar, og er þá næsta víst að hitinn mun fara niður fyrir öll meðallög í Reykjavík.

Og kannski fáum við aftur snjó í borginni að ég tali nú ekki um fyrir norðan. Í gær mátti heita snjólaust á veðurstöðvum en í morgun var flekkótt jörð á Ströndum

Þegar upp verður staðið mun þetta líklega teljast skítamánuður!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tuttugu stiga hiti í október

Tuttugu stiga hiti eða meira hefur mælst á nokkrum veðurstöðvum á Íslandi. Þær eru allar við sjóinn á svæðinu frá Vopnafirði til Reyðarfjarðar nema tvær, Reyðará á Siglunesi og Hallormsstaður.

Á þessu svæði voru fáar veðurstöðvar með hámarksmælingar fyrr en eftir miðja tuttugustu öld. 

Það var því ekki fyrr en  6. október 1959 að fyrst var skráður tuttugu stiga októberhiti á Íslandi, 20,9 stig á Seyðisfirði, en stöðin var þá nýbyrjuð með hámarksmælingar. Ekki er að efa að slíkur hiti hefði mælst áður ef stöðvar hefðu verið eins þéttar og nú er til dæmis.

Í október 1944 mældust til dæmis 19,4 stig á Húsavík þ. 4. og daginn eftir 19,0 á Sandi í Aðaldal en  mælingar voru þá ekki á hitavænustu stöðunum fyrir austan. 

Næst eftir 1959 mældist tuttugu stiga hiti, 20,0 stig slétt, þ. 20. 1962 á Seyðisfirði og á sama stað þ. 21. 1964, 20,9 stig. 

Í byrjun október 1973 dró heldur betur til tíðinda. Fyrstu tvo dagana mældist víðar tuttugu stiga hiti eða meira en á nokkrum öðrum dögum í mælingasögunni. Fyrsta daginn kom íslandsmetið í október, 23,5 stig á Dalatanga. Á miðnætti var hitinn aðeins 9,8 stig og svipað hafi verið um kvöldið 30. september en kl. 3 um  nóttina þann fyrsta var hitinn á athugunartíma 22,6 stig og 22,7 kl. 6 en þá var lesið 23,5 stig á hámarksmæli. Meðalhiti sólarhringsins varð 16,8 stig. Þennan sama dag fór hitinn í 20,2 stig á Reyðará við Siglunes en næsta dag í 22,0 stig á Seyðisfirði 20,6 á Vopnafirði og 20,0 á Hallormsstað. Klukkan 9 um morguninn þennan dag var hitinn á Seyðisfirði 21,0 stig, en 22,0 kl. 15 og enn 18,0 stig kl. 21. Fyrsta október hafði hitinn á staðnum ekki farið hærra en í 19,0 stig.  

Í október 1975 mældust 20,0 stig þ. 11. á  Seyðisfirði. 

Á Seyðisfirði fór hitinn í 22,0 stig þ. 14.  árið 1985 og 20,7 á Neskaupstað og daginn eftir voru skráð  20,9 stig á Kollaleiru sem komu þó líklega í raun kvöldið áður.  

Þann 7. október 1992 mældust 21,7 stig í Neskaupstað og á Dalatanga, 21,2 á Vopnafirði, 21,1 á Seyðisfirði og 20,4 stig á Kollaleiru.  

Mjög hlýtt var 22. október 2003. Þá fór hitinn í 22,1 stig á Dalatanga og sólarhringsmeðalhitinn var 16,7 stig. Þá mældist og 20,8 stig á Kollaleiru á kvikasilfri en 22,3 stig á sjálfvirku stöðinni á Neskaupstað og 21,3 stig á þeirri sjálfvirku á Eskifirði. 

Árið 2007 mældust 20,2 á Sjaldþingsstöðum í Vopnafirði þ. 19. en 21,0 á þeirri sjálfvirku á Seyðisfirði.   

Loks mældust svo 20,3 stig á sjálfvirku stöðinni á Kollaleiru þ. 10. í þessum mánuði, á fimmtudaginn. 

Á þessu sést að tuttugu stiga hiti í október er engan vegin sjaldgæfur á austurlandi.

Litlu munaði á Sauðanesvita 14. október 1999 en þar mældust þá 19,8 stig og þann 15. árið 1985 á Akureyri þegar mældust 19,5 stig. 

Í Reykjavík hefur mesti hiti í október mælst ekki nema 15,6 stig þ. 21. árið 2001 í glaða sólskini (opinbera októbermetið, 15,7 stig, er í rauninni mæling frá kl. 18 þ. 30.september 1958).

Mesti októberhiti sem mælst hefur á suður og suðvesturlandi (frá Mýrdal til Snæfellsness) er aðeins 16-17 stig. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband