Harðindi eða ekki harðindi

Nú þegar aðeins er um vika eftir af apríl er staðan sú að meðalhitinn í Reykjavík er 2,2 stig eða 0,5 stig undir meðallagi. Ekki er það nú mikið frávik og varla til að kvarta yfir í stórum stíl. Frá 1949 hefur tuttugu sinnum verið kaldara í apríl í Reykjavík fyrstu 23 dagana, síðast árið 2006. Serm sagt næstum því þriðja hvern apríl.   

Á Akureyri er meðalahitinn nú -0,2 stig eða 1,3 stig undir meðallagi.Það er samt ekkert óskaplegt miðað við það sem alloft gerist. Þar hafa örfáir dagar verið taldir alhvítir í apríl en flestir daga flekkóttir af snjó. En Akureyri er reyndar ekki snjóþngsti staðurinn fyrir norðan núna. Það er samt ekki hægt að segja, að mínu viti, að einhver sérstök harðindi hafi ríkt undanfarið hvað hitann snertir fyrir norðan eða annars staðar.

Eins og menn ættu að vita var veturinn afskaplega mildur, einkum þó sunnanlands en hann var líka mildur annars staðar. Líka fyrir norðan. Hins vegar hefur sú öfugþróun orðið að kaldara hefur verið í mars og það sem af er apríl en í janúar og febrúar en þeir mánuðir voru sjaldgæflega hlýir.

Tveir dagar aðeins hafa verið alhvítir í Reykjavík í apríl og er það enn undir meðallagi. En það er líka nokkuð öfugsnúið að ekki skuli hafa sést snjór í apríl í borginni fyrr en allra síðustu daga. En þessi snjór hverfur strax. Veturinn var mjög snjóléttur í Reykjavík og á öllu suðurlandi.

Sums staðar fyrir norðan er aðra sögu að segja. En bara sums staðar. Það má glögglega sjá á  mynd frá þeim 21. Snjóþyngslin hafa verið í Þingeyjarsýslum inn til landsins (en þó ekki sérlega venju fremur við Mývatn og á Hólsfjöllum), á utanverðum Eyjafirði og Skagafirði. Þarna eru reyndar sumar mestu snjóasveitir landsins. Það sem er sérstakt er að sums staðar fyrir norðan kom snjór snemma og hefur ekki náð að leysa en bætir bara í hann. Reyndar fer ekki að bræða snjó fyrir norðan í stórum stíl í mestu snjóasveitum fyrr en komið er vor og bætir í hann alveg þangað til og stundum lætur vorið nú á sér standa. Ég held að snjóalög séu ekkert sérstakelga afbrigðileg ef horft er nokkur ár aftur í tímann en ekki get ég tékkað á því hér og nú.

Ekki geri ég lítið úr erfiðleikum bænda á þeim svæðum þar sem snjóþyngsli eru mest. En það varla hægt að segja almennt að harðindi ríki eða hafi ríkt á landinu eða að vorið sé eitthvað verulega afbrigðilega á eftir tímanum. Það gengur heldur ekki að gera ástandið á verst settu svæðunum að eins konar samnefnara fyrir allt landið. Hins vegar er spáin næstu daga ekki geðsleg. Ég held reyndar að fjárfellirinn í hretinu mikla í september valdi því mest hve vonda tilfinningu menn sums staðar hafa fyrir snjóalögum þessa vetrar. Ef það hefði ekki komið held ég að mönnum fyndist þessi vetur ekkert hafa verið sérlega vondur. Hvað þá ef litað er lengra aftur en síðustu árin með sínum afbriglegu hlýindum sem varla standa endalaust.

Og þegar menn tala um að vorið láti á sér standa, sem virðist vera nýjasta orðræðu vortískan, má alveg muna að  apríl er nú ekki liðinn og ekki er hægt að gera sér vonir um raunverulegt vorveður á Íslandi í þeim mánuði nema einstaka sinnum dag og dag.

Þetta vor er sem sagt bara allt svona nokkurn veginn í lagi miðað við það sem viðgengist hefur. Ekki samt alveg! En það er ekkert sérstaklega mikið á eftir tímanum. Og alls ekki meira en Framsóknarfokkurinn!

Myndin stækkar vel við tvísmellun. Blágrænu svæðin eru snjólaus en rauðu  með snjó. Og þetta er i apríl áður en snjóa tekur almennilega að leysa og alls ekki annars staðar en á mesta láglendi. Snjólétt er víðast hvar í byggð.

modis_2013_04201_1199122.jpg

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ísland og óspillta náttúran

Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifar í dag grein í Morgunblaðið sem heitir ,,Hjó sú er hlífa skyldi.'' Hann leggur út af þeim orðum fyrrverandi umhverfisráðherra (af öllum mönnum!) að vitað hafi verið að Kárahjúkavirkjun myndi skaða lífríki Lagarfljóts en það væri bara viðunandi vegna efnalegs ábata. Tekur Þröstur þetta hugarfar aldeilis á beinið. Greinin er eins og töluð út úr mínu hjarta og þar er líka ýmislegt merkilegt skrifað almennt um ástandið á íslenskri náttúru. Þar segir m.a.: ,,Erlendir ferðamenn eru lokkaðir hingað með slagorðinu „njótið óspilltrar náttúru“. Hvar er svo þessi „óspillta“ íslensk náttúra? Jú, hún birtist okkur í nær algjöru skógleysi, víðáttumiklum uppblæstri, rótnöguðum úthaga, framræstu votlendi, ofveiddum fiskimiðum og útdauðum geirfugli. Að jöklum, hæstu fjallstindum og nýrunnum hraunum undanskildum, er fátt eitt eftir sem minnir á „óspillta“ náttúru. Þó endurtökum við þennan spuna í sífellu.''

Þröstur hefði mátt bæta við að búið er að eyðileggja flesta aðgengilega gjallgíga með efnistöku.

En margir trúa þessari þjóðsögu um óspilltu náttúruna. Í kosningaumræðum á RUV um umhverfismál nýlega sagði Róbert Marshall að ,,ósnortin náttúra'' væri okkar helsta söluvara. Þetta sagði hann eins og ekkert væri. Virðist trúa því eins og nýju neti. Er hann þó fremur umhverfissinni en virkjanasinni. 

Í Náttúrufræðingnum 1.-4. hefti 2012 er greinin: ,,Landið var fagurt og frítt. -Um verndun jarðminja''. Þá grein ættu menn nú að lesa. Þar er farið yfir þessi mál og komist að svipaðri niðurstöðu um ,,óspilltu'' náttúruna og Þröstur Ólafsson í sinni grein enda hefur þetta lengi legið í augum uppi. Ísland er eitthvert spilltasta land að náttúrufari á byggðu bóli. Ekki er í greininni í Náttúrufræðingum horft fram hjá þeirri miklu röskun sem virkjanir hafa haft á náttúru landsins. Og þar er hvatt til skipulagðra aðgerða til verndunar jarðminja á Íslandi, eins og það er nefnt.   

Umhverfismálin ættu að vera meginmálið fyrir Íslendinga í þessum kosningum og á öllum tímum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Afskræmt réttlæti

Menn geta rétt ímyndað sér þann sársauka og sorg sem barnaníðingar valda fjölskyldum sínum og það í jafnvel í nokkrar kynslóðir. Þessi mun þó líklega sleppa frá réttvísinni.

Hliðstætt mál hefur komið upp í öðru kauptúni úti á landi.

Ekki er gott að taka lögin í eigin hendur. En það er samt alveg óbærileg tilhugsun að þessir níðingar og aðrir slíkir þurfi ekki að gjalda gerða sinna fyrir dómstólum en það verði aðrir að gera miskunnarlaust sem sannarlega er hægt að kalla fórnarlömb þeirra.

Það er algjör afskræming á réttlætinu og engu samfélagi samboðið. 

Ekki er hreinlega hægt að una því og fólk á að láta það sterklega í ljósi.

Geri þó ekki ráð fyrir að einn einasti starfandi lögmaður muni hafa orð á þessum vanda opinberlega.

Fyrir dómi lýsti hinn dæmdi yfir iðran. En ætli sá sem kærður hefur verið fyrir barnaníð áratugum saman af tveimur konum lýsi nokkurn tíma yfir iðran. Og ætli þeirri kæru verði ekki bara vísað frá af sama saksóknara og dró ekki af sér með að keyra þetta mál í gegn.

Sá sem öllu veldur sleppur. Þeir sem fyrir verða liggja í því.

Réttlæti þolenda í hnotskurn. 

Hvað skyldu annars vera margar fjölskyldur og einstaklingar í landinu sem þjást vegna gamalla kynferðisbrota og aldrei hafa séð neins konar réttlæti og munu aldrei sjá? Svo er eins og megi ekki einu sinni nefna það. Afbrotafræðingar og lögfræðingar sem komu fram með fingurinn á lofti með að menn megi ekki taka lögin i eigin hendur, sem í sjálfu sér er rétt, horfa algerlega framhjá þessu atriði, þeim  sársauka og því ranglæti, eins og það sé ekki til. Fyrir þeim er það heldur ekki til. Og með slíkum  einhliða áherslum eru þessi fræðimenn á vissan hátt að taka sér stöðu gegn þolendum. Gera þá en ekki gerendurna að vörgum í véum í þjóðfélaginu. Með ásökunarfingurinn á lofti ef eitthvað ber útaf en þegja mest þunnu hljóði yfir gerendunum. Þegar þessir fræðimenn stigu fram var það beinlinis vegna sérstaks máls, þó ekki væri það nefnt, þegar fórnarlamb kynferðisofbeldis lamdi gerandann en ekki var það samt  þetta tiltekna mál sem verið var að dæma í. En sömu fræðimenn hafa aldrei stigið fram vegna sérstaks kynferðisbrots. Þar er allt á almennum nótum. Þetta segir sína sögu um það hvað hreyfir við þeim.   

Gerandi sem lagt hefur fjölskyldu sína í nokkra ættliði í rústir getur einfaldlega stigið fram og játað gerðir sínar án þess að eiga nokkuð á hættu gagnvart lögunum. En ef þolendurnir blaka við honum stendur ekki á því að þeir séu látnir finna fyrir því af fullum þunga og miskunnarleysi.

En þetta forðast fræðimennirnir og farísearnir að ræða. Og með þögninni styðja þeir ranglætið og viðhalda því. 

Ranglætið í þessu dæmi felst auðvitað ekki í því að maður sé dæmdur fyrir líkamsárás, þó dómurinn sé ótrúlega harður miðað við aðstæður og ekki síst dóma í kynferðisbrotum gegn börnum, heldur felst ranglætið í því að þeir sem brotið hafa gegn börnum og skilja kannski eftir sig eyðingarslóð í fjölskyldum skuli komast upp með það eins og ekkert sé og sú mynd sé jafnvel af þeim dregin í dómstólum og fjölmiðlum að þeir séu í fórnarlömb sem hljóta skuli bætur þó fórnarlömb þeirra sjálfra megi bara éta það sem úti frýs.

Meðan kærurnar sem tvær konur hafa lagt fram á hendur eldri manninum um kynferðisbrot gegn þeim áratugum saman meðan þær voru börn eru ekki teknar til greina og mál höfðað gegn manninum er þessi dómur og allur málarekstrurinn hreint níðingsverk.

 


mbl.is Dæmdur fyrir árás á Þórshöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smávegis um mars og veturinn

Mars sem var að líða virðist í fljótu bragði vera að hita á landinu lítið eitt yfir meðallaginu 1961-1990, tæpt hálft stig, en hins vegar tæplega einu stig undir meðallaginu 1931-1960. Tiltölulega kaldast er á norðausturlandi en hlýjast a suðvestur og vesturlandi.

Þetta er samt kaldasti vetrarmánuðurinn, desember til mars.

Veturinn var hins vegar mjög hlýr í heild. Aðeins fjórir vetur hafa verið hlýrri á landinu, 1929, 1964, 2003 og 1847 og þetta gildir einnig um Reykjavík en ekki Akureyri þar sem allmargir vetur hafa verið hlýrri. Mestu munar um hlýindin í febrúar og janúar. Í Reykjavík var þriðji hlýjasti febrúar en janúar sá sjöundi hlýjasti.  Á Akureyri var fjórði hlýjasti febrúar en janúar sá 16. hlýjasti. Í Vestmannaeyjum var janúar sá 4.-5. hlýjasti og febrúar sá næst hlýjasti. Þar er þetta þriðji hlýjasti vetur en ekki var athugað þar árið 1847. 

Úrkoman var aðeins um helmingur af  meðallaginu Reykjavík í mars. Víðast hvar var í þurrara lagi, einkanlega á Fljótsdalshéraði og við austurströndina þar sem þetta virðist vera einn af allra þurrviðrasömustu marsmánuðum.

Mánuðurinn kom á óvart með því að krækja í áttunda sætið yfir sólríkustu marsmánuði í Reykjavík og var það sólskin að mestu leyti í seinni hluta mánaðarins en sólarlítið var fyrri hlutann. 

Snjóalögum var æði misskipt milli suðurlands og norðurlands.

Í Reykjavík varð fyrst alhvítt 21. nóvember og þar urðu alhvítir dagar 22. Enn getur auðvitað orðið alhvítt í borginni en varla verða það margir dagar. Á Akureyri varð fyrst alhvítt 31. október og var alhvítt allan nóvember, 28 daga í desember, 29 í janúar, 14 í febrúar (seinni hlutinn var fremur snjóléttur) og 25 daga i mars eða samtals 126 daga. Alhvítt er enn á Akureyri og snjódýptin 10 cm. 

Nánara uppgjörs um mars og þennan merkilega vetur er svo áreiðanlega að vænta fljótlega frá Veðurstofunni.

Apríl er mættur til leiks í fylgiskjalinu. Reykjavík og landið á blaði 1. Akureyri, drottning norðurlands, á blaði 2!   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mesti hiti á landinu í mars

Hiti hefur einu sinni komist í tuttugu stig eða meira í mars á Íslandi. Það var hinn 29. árið 2012. Þá fór hitinn á sjálfvirkri stöð Veðurstofunnar á Kvískerjum í 20,5 stig. Trausti Jónsson veðurfræðingur fjallaði um þennan atburð á bloggi sínu. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur spáði líka í þessa hitabylgju sem stóð í nokkra daga. Litlu munaði á hitinn á mannaðri stöð næði eldra slíku meti en á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði komst hitinn í 18,2 stig þann 26.  Nimbus karlinn var hins vegar illa úti að aka  meðan mest gekk á sem líklega hefur  stafað af spennu og taugaæsingi! Hann fylgdist þó vel með almennt þessa dagana meðan hitabylgjan stóð yfir. 

Elsta hitamet að vetri sem enn stendur á mannaðri veðurstöð var aftur á móti sett 27. mars árið 1948 á Sandi í Aðaldal, 18,3 stig. Það var mælt í gamaldags hitamælaskýli sem fest var á húsvegg.

Mörg hitamet sem komu þennan dag á landinu standa enn. Þar skal fyrst nefna marsmetið í Reykjavík, 14,2 stig. Í Reykjavík var á þessum tíma komið sérstætt mælaskýli líkt og nú tíðkast. Þennan dag, sem var laugardagurinn fyrir páska, var sléttur fjórtán stiga hiti kl. 14 að íslenskum miðtíma þegar veðurathugun var gerð, minna en hálfskýjað og áttin var austsuðaustan sex vindstig. Það hefur verið alveg þokkalegt skjól í görðum og mönnum hefur þótt þetta vera ótrúlega góður dagur.     

Á nokkrum veðurstöðvum sem lengi hafa athugað hefur síðan ekki komið eins hár hiti í mars: Stykkishólmi 15,5, Gjögri 13,4, Akureyri 16,0, Reykjahlíð við Mývatn 13,1, Grímsstöðum 14,1 og Hallormsstað 16,5 stig. Allt mælt þ. 27. Þann dag var hæð yfir NV-Evrópu en lægð suður af Grænlandi og landið laugað í hlýjum loftsstraumi eins og sést á korti hér að neðan. 

Næst mestu hitarnir í mars komu síðasta dag mánaðarins hafísaárið 1965. Það sérstaka var að hans gætti eingöngu á suður-og vesturlandi og mældist þá langmesti hiti sem mælst hefur á suðurlandsundirlendi í mars: Sámsstaðir, 17,9 (17,5 kl. 15), Hella 16,8, Akurhóll, 16,5, Hæll 13,5, Þingvelir 13,5. Einnig var  mjög hlýtt í Borgarfirði: 15,8 stig á Hvanneyri og  15,2 í Síðumúla. en í Reykjavík hélt metið frá 1948. Þennan dag var austan eða suðaustanstrekkingur við suðvesturströndina en annars staðar lyngt og víða léttskýjað. Kannski olli hafísinn því að hitinn fyrir norðan náði sér ekki á strik. Mistur var í lofti þennan dag. Það þótti vorlegt á þeim árum en mistrið var í rauninni efnamengun frá Bretlandseyjum. Í Reykjavík skein sól fram á hádegi en síðan byrgði mistrið hana en hitinn fór í 13 stig. 

Árið 1956 fór hitinn á Dalatanga upp í 17,4 stig þ. 27. Þá var veðri öðru vísi farið en í þeim hitabylgjum sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni, allhvöss sunnan og suðvestanátt með mestu hlýindunum á Austfjörðum.

Þann 28. mars árið 2000 kom álitleg hitabylgja. Þá mældist hitinn 16,6 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði á kvikasilfursmæli en á sjálfvirku stöðinni á Eskifirði fór hitinn í 18,8 stig. Það var þá hæsta hitatala sem skráð hafði verið á íslenskri veðurstöð i mars.

Hér fyrir neðan má sjá veðurkort frá hádegi frá nokkrum þeirra daga sem hér er frá sagt og auk þess kort sem sýna ástand mála í 850 og 500 hPa flötunum, í kringum 1400 og 5000 m hæð. Þar sést hitinn í þessum hæðum en einnig má átta sig á veðurkerfunum við jörð. Biðst forláts á því að fyrir handvömm vantar kvarðann á efstu kortin en hann sést neðar. 

Smápistil um mesta kulda í mars má sjá hér.  

rrea00120120329.gif

Rrea00119480328

Rrea00219480328

hæð. Þar sést hitinn í þessum hæðum en einnig má átta sig á veðurkerfunum við jörð.

Rrea00119480328

Rrea00219480328

  Rrea00119650331

Rrea00219650331

  






 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband