Fylgiskjalið hættir

Í nokkur ár hefur þessi bloggsíða birt daglegt fylgiskjal um ýmsa veðurþætti fyrir Reykjavik, Akureyri og allt landið. Skjalið hefur alltaf verið virkt, jafnvel þá daga  sem engar nýjar bloggfærslur hafa komið.

Þetta hefur verið talsverð fyrirhöfn.

Nú þegar mæliháttum fyrir hita i Reykjavík hefur verið breytt er fyrirhöfnin enn meiri og svo þvælin að engu tali tekur.

Ég nenni þá ekki að standa í þessu lengur frá og með nýjársdegi.

Hins vegar mun ég kannski enn um sinn ef tækifæri gefst blogga um veðurfarslegt efni eða eitthvað sem kemur upp í daglegu veðri.

Þetta fylgkiskjal var auðvitað einkaframtak og enginn hefur verið að biðja mig um það!

Eigi að síður  kann ég Veðurstofunni litlar þakkir fyrir að vera staðráðin í  að stórskaða  veðurmælingar í landinu. Og það án þess að láta svo lítið að nefna það einu orði við almenning.

Það er hreint út sagt hrokafull stofnanahegðun og ósamrýmanleg nútímaháttum um upplýsingar til almennings.

Þeir sem fylgdust með fylgiskjalinu voru mjög stöðugur hópur og ég þakka þeim fyrir áhugann. 


Úrkomumet í janúar

Þennan dag, 10. janúar,  árið 2002 mældist mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur í nokkrum mánuði á landinu á veðurstöð. Úrkoman var 293,3 mm á Kvískerjum. Þetta er talsvert meiri úrkoma heldur en að meðaltali mælist fyrstu þrjá mánuði ársins í Reykjavik og reyndar meiri úrkoma heldur en einstaka sinnum hefur mælst á heilu ári á þeim veðurstöðvum þar sem úrkoma er jafnaði lítil. Á einum sólarhring! Þetta gerðist í mikilli sunnanátt og fór hiti þennan dag í 15,8 stig á Eskifirði og 15,0 á Dalatanga.

Mikil hlýindi voru framan af mánuðinum og þann 6. mældist mesti hiti sem mælst hafði í Reykjavík í janúar, 10,6 stig (var slegið þ. 4. 2014,10,7°). Sama dag mældist mesti janúarhiti í Borgarfirði, 11,8 stig á Hvanneyri og 11,2 stig í Stafholtsey. En hæsti  hiti mánaðarins á veðurstöð kom þann 6. þegar 16,2 stig mældust á Seyðisfirði og sama dag fauk janúarmetið á Nautabúi í Skagafirði þar sem hitinn fór í 12,5 stig. Þann 16. kom mesti janúarhiti sem mælst hefur við Mývatn, 10,2  stig í Reykjahlíð. Á suðaustanverðu landinu voru janúarhitamet einnig slegin í mánuðinum, 10,6 stig þ.7 á Kirkjubæjarkalustri en daginn áður 10,6 stig í Vík í Mýrdal og sama dag og aftur þann næsta 10,0 stig á Vatnsskarðshólum. Loks voru met slegin á suðurlandsundirlendi, 11,3 stig á Hellu þ.6. og sama dag 10,2 stig á Jaðri í Biskupstungum og Hjarðarlandi og 10,0 stig þ. 4. í Þykkvabæ. Síðasta þriðjung mánaðarins kólnaði mjög svo meðalhiti alls mánaðarins varð ekki ýkja hár þó hann væri vel yfir meðallagi. 

Mánaðarúkoman á Kvískerjum þennan mánuð árið 2002 var 905,3 mm og er það mesta mánaðarúrkoma sem mælst hefur á veðurstöð í janúar og sú næst mesta í nokkrum mánuði. Þetta er á einum mánuði rúmum 20 mm meiri úrkoma en meðalársúrkoman í Reykjavík á þessari öld. Á Fagurhólsmýri og í Snæbýli var úrkoman einnig sú mesta sem mælst hefur í janúar.

Janúar 2002 var þvi engan veginn hversdagslegur vetrarmánuður.


Beðið eftir storminum

Í nótt fór frostið í Möðrudal á Fjöllum í -21,0 stig í hægum vindi. 

Snjódýptin í Reykjavik er nú fallin niður í 28 sentímetra. Hún er ekki lengur meðal mestu snjódýptar á landinu eins og hún var um tíma en þó sú mesta sem fregnir eru af á öllu sunnanverðu landinu, sunnan Borgarfjarðar.

Mest er snjódýptin núna hins vegar við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum, 86 sentímetrar. Á Akureyri er hún 70 sentímetrar. 

Og nú bíðum við eftir storminum ógurlega. Vindhraðinn er kominn upp í 25m/s á Stórhöfða.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Enn bætir í snjóinn í Reykjavík

Snjódýptarmetið í Reykjavík í desember hefur nú enn verið slegið. Snjódýptin var 44 cm í morgun. Það er reyndar meiri snjódýpt í nokkrum mánuði síðan um mánaðarmótin janúar febrúar árið 1952 en þá komst snjódýptin í sama snjóakastinu í 42 cm þann 31. janúar og í 48 cm 1.og 2. febrúar. Mest hefur snjódýptin í Reykjavík mælst 55 cm 18. janúar 1937. Sá snjór stóð þó afar stutt við. Varla gafst ráðrúm til að mæla hann!    

Snjórinn í dag er þá sá þriðji mesti í nokkrum mánuði siðan mælingar hófust fyrir rúmum 90 árum í Reykjvik. 

Ég man vel eftir þessum snjó 1952 sem barn í Laugarneshverfinu. Hann hvarf ekkert strax.

Þetta er sem sagt aftakaástand sem Reykvíkingar geta búist við að upplifa svo sem einu sinni eða tvisvar á ævi sinni. Það hefur því lítið upp á sig að segja: "við búum á Íslandi" eða "svona er Ísland" eins og sumir eru að segja núna í þeirri meiningu að þetta sé svo alvanlagt íslenskt ástand. Það er það nefnilega alls ekki fyrir Reykjavik nema á margra áratuga fresti að meðaltal.  

Við síðasta bloggpistil hér á undan fylgir skjal um snjóalög í Reykjavík frá því Veðurstofan var stofnuð. Þar sést hve Reykjavík er í rauninni snjóléttur staður.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Snjódýptarmet í desember í Reykjavík

Snjódýptin i morgun í Reykjavík mældist 42 sentímetrar. Það er nýtt met fyrir desember.

Gamla metið var 33 sentímetrar frá 29. desember 2011. 

Aðeins hefur mælst meiri snjódýpt en þetta í nokkrum mánuði 5. febrúar 1984 (43 cm), 1. og 2. og febrúar 1952 (48 cm), 31. janúar 1952 (42 cm) en þetta var í sama snjóakasti, 18. janúar 1937 (55 cm).

Hér fylgir með skjal um snjóalög í Reykjavik í mánuði hverjum. Frá hægri til vinstri: snjólagsprósenta mánaðarins (100% er alhvítt alla daga), mest snjódýpt (án dagsetninga), fjöldi alauðra daga, fjöldi alhvitra daga og loks lengst til hægri fjöldi alhvítra daga eftir árum og er þá byrjað í september og fram í maí. 

Myndin er tekin í morgun eftir að birta tók. Stækkar ef smellt er á hana.

dsc04427_1273472.jpg

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband