Loksins tíu stiga hiti á landinu

Í dag mældist hitinn mestur á landinu 10,9 stig á Árnesi, 10,5 á Þingvöllum, 10,1 á Húsafelli og Kálfhóli og 10,0 stig í Stafholtsey. Síðasttalda mælingin er á kvikasilfursmæli á mannaðri stöð en allar hinar eru frá sjálfvirkum veðurstöðvum. Þetta er í fyrsta sinn í mánuðinum sem hiti fer einhvers staðar í tíu stig eða meira.

Og var kominn tími til. 

Þrátt fyrir sólina var ekki hægt að hrópa húrra fyrir hitanum í Reykjavík sem þar varð mestur í dag aðeins 5,8  stig. Meðalhitinn í borginni eftir gærdaginn er einungis 1,8 stig og frá stofnun Veðurstofunnar 1920 hefur ekki verið kaldara fyrstu ellefu dagana í maí nema 1982 (1,6°), 1979 (-0,7°!) og 1943 (um 0,4 stig). Eftir fyrstu 11 dagana í maí 1924 var hitinn líklega svipaður og núna en dagameðaltöl liggja ekki á lausu. 

Sólin hefur skinið í 144,2 stundir í höfuðborginni og aldrei meira fyrstu ellefu maídagana frá því mælingar hófust. Í 19 maímánuðum hefur mælst minna sólskin allan mánuðinn í Reykjavík en það sem af er þessum, síðast í maí 2008!

Á Akureyri er meðalhitinn enn undir frostmarki,-0,3 stig, og sömu sögu er að segja af flestum stöðvum á norður og austurlandi. Þar er hitinn einfaldlega enn undir frostmarki. 

Reyndar er meðalhitinn í uppsveitum suðurlands og vesturlands, þrátt fyrir sólskinið litlu skárri, aðeins um frostmark. 

Þar er þó enginn snjór en það er samt ekki hægt að segja að nokkuð vor sé þar í lofti, hingað til, eins og fjölmiðlar tala þó um dag eftir dag, samkvæmt því furðulega veðurskyni að sólskin sé eini mælikvarðinn á veður. Það sé bara sumar og sól ef sólin skín glatt um hádaginn þrátt fyrir mikilð næturfrost og sólahringsmeðaltöl sem rétt merja að vera yfir frotmarki. 

Það sem af er maí er sem sagt með kaldasta móti alls staðar. Það er ekki hægt að segja að vor sé syðra en vetur fyrir norðan og austan.

Það hefur bara alls staðar verið vetur, marslegt  hitafar, en í norðanátt snjóar ekki á suðurlandi.

En nú fer þetta víst að lagast.        

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Metsólskin í Reykjavík í kuldanum

Þessi maí byrjar að vísu ekki með látum en meira sólskini í Reykjavík en dæmi eru um áður fyrstu dagana í maímánuði síðan sólskinsmælingar hófust þar fyrir um 90 árum. Sólarstundirnar eru nú orðnar næst flestar sem mælst hafa fyrstu fimm dagana, 74,3 en voru 76, árið 1931. Eftir daginn í dag munu sólskinsstundirnar liklega slá út fyrstu fimm maídagana 1931, ef við reiknum með 15 stundum, og munu þá slá út fyrstu sex dagana í maí 1924 og 1931 sem sólríkustu fyrstu sex dagarnir í maí í Reykjavík í sögu mælinga.

Í fyrradag mældist meira sólskin í höfuðborginni en nokkru sinni hefur mælst þennan dag, 16,0 stundir og þann þriðja var metjöfnun fyrir þann dag, líka 16,0 klukkustundir af sólskini. 

Hitanum er þó ekki fyrir að fara. Meðalhitinn í Reykjavík er 2,3 stig undir meðallaginu úrelta 1961-1990 en 3,0 stig undir meðallagi þessarar aldar. Það er alls ekki einsdæmi en vel samt í sjaldgæfara lagi

Á Akureyri er meðalhitinn -0,1 stig, þrjú stig undir meðallaginu 1961-1990. Meðalhitinn er undir frostmarki alveg frá Skagafirði austur og suður um til sunnanverða austfjarða. 

Viðbót 7.maí kl. 19. Sólarstundir í gær, þ. 6., í Reykjavík voru 16,1 klst og hafa aldrei mælst fleiri 6. maí. Og þar með er það staðfest að fyrstu sex dagarnir í maí eru þeir sólríkustu í mælingasögunni, 90,4 stundir en gamla metið var 85,2 í maí 1924. Í dag, þ. 7. má gera ráð fyrir að sólskinsstundirnar verði 15-16 og á morgun verður þá komið sólskinsmet fyrir fyrstu 7 dagana í maí. Þetta er því óneitanlega einstök sólskinstíð. En meðalhitinn það sem af er mánaðarins hefur enn lækkað, bæði í Reykjavík og á Akureyri enda var gærdagurinn sá næst kaldasti á landinu sem komið hefur í þessum maí. Ekki bætir svo dagurinn í dag úr skák. Þó dagurinn sé ekki búinn er hann með minnsta hámarkshita þessa daga í maí bæði á landinu og í Reykjavík og meðalhitinn verður ekki til að hrópa húrra fyrir. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

"Kuldaskeið"

Ef maður les netmiðla, það er að segja fréttamiðla á netinu, blogg og fasbók, er alveg sláandi að svo virðist sem fjöldi manns, kannski flestir, standi í þeirri trú að nýtt "kuldaskeið" sé framundan. Og muni standa í nokkra áratugi.

Nú er það staðreynd að á þessari öld hafa verið svo mikil hlýindi að þess eru engin dæmi í samfellt jafn mörg ár. Fyrstu 14 ár þessarar aldar eru um 0,8 stigum hlýrri á landinu hvað ársmeðalhita snertir en  síðustu 14 ár 20. aldar, vetarhitinn um 1,1 stigi en sumarhitinn um 0,7 stigum hlýrri. Og það er varla raunhæft að vænta þess að hlýindi af slíkri stærðargráðu haldi áfram af sama krafti alveg von úr viti. Einhver kólnun virðist óumflýajanleg en fall úr allra hæstu hæðum er ekki það sama og kuldatíð. 

Af 20 hlýjustu árum á landinu sem hafa mælst alla mælingasöguna hafa 8 verið á okkar öld, þeirra á meðal þau tvö allra hlýjustu og var árið í fyrra annað þeirra! Varla sterkur fyrirboði kuldaskeiðs! Kaldasta árið á þessari öld á landinu, 2005, var hlýrra en öll ár 1987-2000 nema tvö en eitt var svipað.  

Séu þessi 14 ár okkar aldar hins vegar borin saman við það langtímameðaltal hita sem enn er miðað við, 1961-1990, er munurinn á ársmeðalhita meiri en heilt stig, svo ótrúlegt sem það hljómar. Öll 30 árin á því skeiði voru kaldari en 2005 nema fimm. En vitaskuld ber þess þá að gæta að þarna eru 14 ár borin saman við 30. Þetta sýnir samt hve mikil hlýindi við búum nú við og hvers konar hitafar er sterkast í minni og upplifun fólks. 

Í ljósi þeirra óvenjulegu hlýinda sem ríkt hafa á þessari öld má svo spyrja hvers konar ástand  beri að kalla "kuldakskeið" þó eitthvað kólni frá þeim methlýindum. Ef næstu 14 ár væru t.d. að ársmeðalhita 0,4 stigum kaldari en það sem af er á þessari öld, væru þau samt sambærileg við hlýindaskeiðið 1931-1960. Væri þá hægt að kalla það raunverulegt "kuldaskeið"? Að mínu að vísu takmarkaða viti ber að tala fremur gætilega og af varakárni í alvöru umræðum um veðurfarsbreytingar. Jafnvel orðin sjálf sem notuð eru geta verið varasöm eða jafnvel villandi.

Svo má líka deila um það hvenær núverandi hlýindaskeið hófst, sumir segja 1996, aðrir vilja miða við upphaf okkar aldar en frá þeim tíma hafa til dæmis ÖLL árin í Reykjavik náð meira en fimm stigum í meðalhita og þar með verið hlýrri en árin voru þar að meðaltali á hlýindaskeiðinu 1931-1960 nema árið 2013 sem var í þó alveg í því meðallagi. Að teygja núverandi hlýndaskeið aftur um 25 ár eins og gert er þarna í yfirliti Morgunblaðsins (í blaðinu sjálfu) finnst mér nokkuð langsótt þó þá væri tekið að mildast frá því kuldaskeiði 20. aldar sem hófst með hafísárunum.    

Já, "kuldaskeiðið". Eins og ég gat um áðan er engu líkara af netmiðlum en að margir standi í þeirri trú að það SÉ framundan. Eins og það sé bara óhjákvæmilega framtíðin.

Ástæðan er sú að einn ágætur veðurfræðingur og aðeins einn hefur boðað nýtt "kuldaskeið" sem muni vara í ein 30 ár. Þetta hafa fjölmiðlar haft eftir honum hvað eftir annað undanfarið. Ekki hefur þeim samt dottið í hug að leita álits annarra íslenskra veðurfræðinga um þetta atriði. Þetta má því með kalla dálitla kranablaðamennsku, að endurtaka spurningalaust í sífellu eitt sjónarmið og láta sem önnur séu ekki til.

Af þeim kveinstöfum sem margir hafa verið með hástöfum eftir að loksins núna kom vetur í kaldara lagi miðað við þessa öld (þó ekki kaldari en svo að mesta frost  vetrarins í Surtsey var -4,9 stig og mældist fyrir fáum dögum!) finnst mér það eiginlega ábyrgðarhluti að fjölmilar séu hvað eftir annað að birta algjörlega einhliða framtíðarsjónarmið um veðurfar og reyni ekki að leita annarra viðhorfa. 

Spár eru auðvitað spár en ekki raunveruleiki og menn geta bollalagt um þær í mismikilli alvöru. En með algjörlega einhliða upplýsingum um spár um veðurfar, en reynslan í vetur sýnir sannarlega að veðurfar skiptir fólk miklu máli, má hæglega skapa  andrúmsloft, stemningu og væntingar, sem mótar heilt þjóðfélag, ef dæma má eftir þeim glugga sem netmiðlar og aðrir fjölmiðlar eru inn í  samfélagið.

Það væri því ekki út í hött að fjölmiðlar spyrðu fleiri en einn íslenskan veðurfræðing hreint út um það hvaða framtíðarsýn þeir hafi um veðurfar næstu ára eða áratuga og þeir færi rök fyrr máli sínu byggð á staðreyndum, gögnum og skynsamlegum líkum. Það yrði mörgum eflaust kærkomið til fróðleiks og pælinga. Og gæti jafnvel hreinlega komið í veg fyrir að þjóðin fari nú alveg af hjörunum af ótta við meint harðindi og hallæri! Íslenskir veðurfræðingar skipta tugum, hver öðrum sprenglærðari og snjallari!

Er það eitthvað tabú eða feimnismál að fram komi í fjölmiðlum fleiri en eitt álit um framtiðarhorfur veðurfars?

Það er varla neitt einhuga samkomulag um þær horfur, sem hægt er að gera að nokkurs konar opinberum sannleika af því ekkert annað kemur fram, nema þá um undirliggjandi almenna hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa á okkar mjög svo veðurfarslega breytilega landssvæði. 


mbl.is Nýtt kuldaskeið gæti tekið við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlánar ekki í Reykjavík

Í dag fór hámarkshiti í Reykjavík ekki hærra en í -0,9 stig. Hámarkshiti 26. apríl hefur ekki verið lægri þar síðan 1969 en þá var hann -3,9 stig og 1927 þegar hann var -1,3 stig.

Þetta er því ekki beinlínis hversdagslegt en þó eru nokkur dæmi um annað eins um þetta leyti og enn síðar á vori. Þann 29. apríl 1975 var hámarkshitinn -5,3 stig og -3,5 stig 30. apríl 1982. Fyrstu þrjá dagana í maí 1982 hlánaði svo ekki í Reykjavik og ekki tvo fyrstu  maídagana 1979. Svo seint sem 7.-9 maí 1943 hlánaði ekki heldur í Reykjavík í hrikalegu kuldakasti. Síðasti dagurinn frma á vorið sem ekki hefur hlánað Reykajvík allan sólarhringinn eftir að Veðurstofan var stofnuð 1920 er hins vegar 10. maí 1955 þegar hitinn fór ekki hærra en -0,3 stig.

Síðast að vori sem ekki hefur hlánað á öllu landinu var 21. apríl árið 1949 þegar frostið varð hvergi minna en 1,5 kuldabolastig. Þann 8.maí 1943 var mesti hiti á landinu, 0,0 stig, lesinn á mæli kl 17 í Grindavík en hvegi hlánaði á veðurstöðvum þann dag þar sem voru hámmarkshitamælingar sem ekki voru Grindavík.

Víða á landinu hefur ekki hlánað í nokkra daga í þessu kuldakasti núna.

Sólarhringsmeðaltalið í kulda í Reykjavík þessa köldu daga hefur ekki verið í hættu.

Slæmt er það en gæti verið verra!      


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Snjór eykst í sumarbyrjun

Snjólítið var á landinu síðasta vetrardag eftir nokkuð löng hlýindi. Á suður og vesturlandi mátti heita alveg snjólaust á snjóathugunarstöðvum og einnig víðast hvar á austurlandi og víða um norðurland. Jörð var flekkótt víða á vestfjörðum, kringum Tröllaskaga, í hálendisbyggðum á norðausturlandi og á stöku öðrum stöðum. Hvergi var alhvítt nema ef til vil í Súgandafirði (þaðan bárust ekki upplýsingar)og svo í Vaglaskógi þar sem mældist mest snjódýpt á landinu, 51 cm.

Í gær, sumardaginn fyrsta, var hins vegar orðið alhvítt allvíða á norðurlandi,við Ísafjarðardjúp og reyndar einnig í Breiðdal fyrir austan.

Í morgun hefði enn bætt við snjóinn. Þá var orðið alhvítt víðast hvar á norðurlandi, nema í hálendisbyggðum þar sem áfram var flekkótt jörð af snjó og sömuleiðis var alhvítt frá Vopnafirði suður til Seyðisfjarðar, á Ströndum, sums staðar við Ísafjarðardjúp og alveg suður í Dali. Snjódýptin í Vaglaskógi var kominn upp í 72 cm og var sem fyrr sú mesta á landinu. Flekkótt jörð var á sunnanverðu Snæfellsnesi og á Mýrum en annars staðar má heita snjólaust á suður og vesturlandi og sunnanverðum austfjörðum. 

Meðalhitinn það sem af er mánaðar féll í gær í Reykjavík um 0,2 stig á einum degi. Sumardeginum fyrsta!

En sólin skein í gær í tólf og hálfa klukkustund! Frostið í nótt var -3,3 stig í Reykajvík en -7,4 stig í Svartárkoti. Á hádegi í dag var alls staðar frost nema með suðaustur og suðurströndinni, frá Berufriði og vestur um til Reykjavíkur þar sem hitinn var slétt eitt stig. Og sólin skein og skein! 

Sumarið er þá víst komið!

Enda fögnuðu ýmsir á fasbók veðrinu í gær alveg óskaplega. Sögðust ekki muna dýrlegri fyrsta sumardag!

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband