Metsólskin í Reykjavík í kuldanum

Þessi maí byrjar að vísu ekki með látum en meira sólskini í Reykjavík en dæmi eru um áður fyrstu dagana í maímánuði síðan sólskinsmælingar hófust þar fyrir um 90 árum. Sólarstundirnar eru nú orðnar næst flestar sem mælst hafa fyrstu fimm dagana, 74,3 en voru 76, árið 1931. Eftir daginn í dag munu sólskinsstundirnar liklega slá út fyrstu fimm maídagana 1931, ef við reiknum með 15 stundum, og munu þá slá út fyrstu sex dagana í maí 1924 og 1931 sem sólríkustu fyrstu sex dagarnir í maí í Reykjavík í sögu mælinga.

Í fyrradag mældist meira sólskin í höfuðborginni en nokkru sinni hefur mælst þennan dag, 16,0 stundir og þann þriðja var metjöfnun fyrir þann dag, líka 16,0 klukkustundir af sólskini. 

Hitanum er þó ekki fyrir að fara. Meðalhitinn í Reykjavík er 2,3 stig undir meðallaginu úrelta 1961-1990 en 3,0 stig undir meðallagi þessarar aldar. Það er alls ekki einsdæmi en vel samt í sjaldgæfara lagi

Á Akureyri er meðalhitinn -0,1 stig, þrjú stig undir meðallaginu 1961-1990. Meðalhitinn er undir frostmarki alveg frá Skagafirði austur og suður um til sunnanverða austfjarða. 

Viðbót 7.maí kl. 19. Sólarstundir í gær, þ. 6., í Reykjavík voru 16,1 klst og hafa aldrei mælst fleiri 6. maí. Og þar með er það staðfest að fyrstu sex dagarnir í maí eru þeir sólríkustu í mælingasögunni, 90,4 stundir en gamla metið var 85,2 í maí 1924. Í dag, þ. 7. má gera ráð fyrir að sólskinsstundirnar verði 15-16 og á morgun verður þá komið sólskinsmet fyrir fyrstu 7 dagana í maí. Þetta er því óneitanlega einstök sólskinstíð. En meðalhitinn það sem af er mánaðarins hefur enn lækkað, bæði í Reykjavík og á Akureyri enda var gærdagurinn sá næst kaldasti á landinu sem komið hefur í þessum maí. Ekki bætir svo dagurinn í dag úr skák. Þó dagurinn sé ekki búinn er hann með minnsta hámarkshita þessa daga í maí bæði á landinu og í Reykjavík og meðalhitinn verður ekki til að hrópa húrra fyrir. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Mig minnir að það hafi verið vorið 79 sem var fjandi kalt. Sannkallað úlpuveður fram á sumar. Mér hefur fundist að núna sé slíkt vor í loftinu. En ég er ekki veðurfræðingur, og get ekki tekið ábyrgð á svona persónulegri skynjunarveðurspá.

Það gleður mig að með mjög köldu vori fylgir heittelskaða himintunglið, sem gefur öllu jarðlífinu lífsmöguleika. 

HEITTELSKAÐA HIMINTUNGLIÐ ER SÓLIN SJÁLF, SEM ER LÍFGJAFI AllS LÍFS Á JÖRÐINNI.

Allt sem sólin skín á, á tilverurétt á jörðinni.

Mér finnst að það verði rigningartíð í lok Júní-mánaðar, og í byrjun Júlí-mánaðar. En Ég þori ekki að segja þetta með vissu. Ég skil ekki af hverju ég skynja svona vel veðurfar, og fleira í tilverunni.

Enginn skilur allt, en allir skilja eitthvað.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.5.2015 kl. 14:25

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það sem af er maímánaðar var miklu kaldara 1979 en nú og líka 1982 og 1979 héldu kuldarnir áfram svo að segja til mánaðarloka. Maí 1979 er langkaldasti maí sem mælst hefur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.5.2015 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband