Kaldur sumardagurinn fyrsti

Í dag varð mesti hiti á landinu 6,7 stig í Skaftafelli. Það er fyrsti dagurinn í tíu daga í röð sem hámarkshiti landsins nær ekki tíu stigum. 

Það er sem sagt búið að vera eins konar sumar í tíu daga! En nú hefur sumarið farið í sumarfrí í bili.

Oft hefur samt verið kaldara sumardaginn fyrsta í Reykjavík og á landinu. En líka miklu hlýrra, sannkölluð vorblíða. Þennan dag er veðrið breytilegt eins og alla aðra daga.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Góð vorbyrjun en slæmt kuldakast framundan

Þegar tveir þriðju eru liðnir af aprílmánuði er meðalhitinn í Reykjavík 3,1 stig sem er 0,9 stígum yfir meðallaginu 1961-1990 (sem í apríl var aðeins lítið eitt kaldara en 1931-1960) en 0,4 stigum undir meðallagi þessarar gósenaldar. Átta af fimmtán aprílmánuðum aldarinnar hafa verið hlýrri en þessi fyrsta þriðjunginn. 

Á Akureyri er meðalhitinn 4,1 eða 3,2 stig yfir meðallaginu 1961-1990.

Sólskinsstundir hingað til eru 63,9 stundir í Reykjavík. Það er rúmum 40 stundum undir meðallagi þessarar aldar og hafa engir fyrstu tveir þriðjungar apríl verið svo sólarlitlir á þessari öld í Reykjavík og ekki síðan 1997.

Úrkoman það sem af er mánaðar er 46 mm eða um 90% af meðalúrkomu þessa daga á öldinni en 7%  yfir meðalúrkomu sömu daga 1961-1990. Það er sem sagt votviðrasamara í hlýindunum á þessari öld heldur en á kuldaskeiðinu 1961-1990! Sólskinsstundirnar á þessari öld eru að meðaltali 25 stundum fleiri fyrstu 20 dagana í apríl en á tímabilinu 1961-1990. Sem sagt: Á okkar öld er því hlýrra, sólríkara og úrkomusamara en á kuldaskeiðinu þessa 20 fyrstu daga í apríl og reyndar á öllum tímum ársins. Á Akureyri er úrkoman nú 12,6 mm. 

Mikil hlýindi hafa verið síðustu daga, einkum fyrir norðan og austan, og ekki hægt að segja annað en að vel hafi vorað. Því miður er ekki útlit fyrir að framhald verði á því. Spáð er mjög hastarlegu kuldakasti eftir árstíma fyrir og um helgina. Má búast við miklu frosti miðað árstíma. Menn geta fylgst með því í fylgiskjalinu og borið það saman við það sem kaldast hefur mælst sömu daga áður.

     


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Óboðleg og óþolandi frekja

Eigandi American Bar er auðvitað í fullum rétti að flagga amerískum fána til að vekja athygli á starfsemi sinni og hvers eðlis hún er.

Alþingismenn hafa ekkert boðvald yfir sjálfstæðum atvinurekstri.

Það er Frekja og Ofríki með stórum staf að þeir skuli samt skipta sér af honum með stóryrðum og í raun segja honum fyrir verkum. Vilji deila og drottna yfir öðrum.

Og þetta er það sem er óboðlegt og óþolandi í þessu máli.

Hvernig geta þingmenn annars þolað það að ganga inn og út úr alþingishúsi sem skartar skjaldarmerki erlends konungsríkis?

Eru þessir vanstilltu frekjudallar líka fífl?

 


mbl.is Algjörlega „óþolandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loftslagsumræðan

Enginn er ég framsóknarmaður. Og ekki efa ég að hlýnun jarðar af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum sé staðreynd og menn eigi að reyna að sporna við henni. Ég hef þó lítið sem ekkert í alvöru tekið þátt í umræðum um veðurfarsbrytingar, komið einstaka sinnum með smáskot, stundum bara í stríðni. Þessi umræða hefur mér sýnst að stórum hluta svo vanhugsuð, óstillt, ofsafengin og öfgakennd á flesta kanta að hún er ekki fyrir viðkvæma. Ekki batnar það svo þegar umræðan tengist beinlínis pólitískum flokkadráttum og pólitískri óvild.

Frábært dæmi um þetta er hvað gerðist þegar Framsóknarflokkurinn lýsti því yfir í drögum að ályktun að spennandi yrði að geta nýtt þau tækifæri sem hlýnun veðurfars hefði hér á landi fyrir landbúnaðinn. Orðið "spennandi" er fremur óheppilegt og verður vonandi fellt út í lokagerð ályktunarinnar en það á ekki algerlega að skyggja á meginhugunina: Að nýta einfaldlega þau jákvæðu "tækifæri" sem hlýnunin þó veitir á okkar svæði og eru mjög raunveruleg. Hlýnunin hér á þessari öld er um eitt stig yfir árið sem er eiginlega bylting og gróður landsins hefur brugðist vel við eftir því. En reyndar er ólíklegt að hlýnunin haldi áfram lengi af alveg sama krafti þrátt fyrir undirliggjandi hlýnun jarðar. Hún sýnir samt hvað hlýnun á Íslandi við ysta haf, af hverju sem hún stafar, er afdrifarík fyrir gróður og landbúnað miðað við það að ekki hefði hlýnað eða þá beinlinis kólnað eins og gerðst til dæmis á hafísárunum. Ef ekki má sjá þessa staðreynd og tala um að nýta sér það sem hún býður upp á þó áhrif hlýnunar séu víða vond annars staðar á jörðunni og vinna beri þess vegna almennt gegn henni, ef ekki má nefna þetta sem vissan ábata án þess að menn fyllist afskaplegri vanþóknun og fordæmingu með mjög sterku pólitísku ívafi þá er það í mínum huga einfaldlega enn ein sönnun á þeirri óstillingu og hatursfengna ofstæki sem einkennt hefur umræðuna um loftslagsbreytingarnar hér á landi og miklu viðar þrátt fyrir fáeinar heiðarlegar undantekningar.

Þetta heiftarlega fanatíska upphlaup á netmiðlum um drögin að ályktun Framsóknarflokksins um landbúnaðarmál er ekki nein sönnun á siðleysi Framsóknarflokksins eins og látið hefur verið í veðri vaka, hvaða skoðun sem menn annars hafa á þeim flokki, heldur miklu fremur sönnun á ónýtri og vanstilltri umræðuhefð sem hér er ríkjandi um loftslagsmál.

Hógvær eftirþanki: Landsmenn hafa aldeilis nýtt sér út í ystu æsar þau spennandi tækifæri sem hlýindi og veðurblíða þessarar aldar hefur skapað í útivist, strolli og lattelapi undir berum himni og ætla nú alveg vitlausir að verða þegar smábreyting er orðin á.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýr páskadagur eftir erfiðan vetur

Í nótt fór hitinn á sjálfvirka hitamælinum á Dalatanga upp í 17,0 stig en 15,5  á kvikasilfursmælinum. Í Bjarnarey fór hitinn í 15,6 stig á sjálfvirkum mæli. Hver tala sem valin er gerir þetta methitadag fyrir 5. apríl frá 1949 en einhver dæmi eru um meiri hita á árunum þar á undan. Þetta er vorveður. - Í bili.

En ekki byrjaði samt apríl beint vorlega. Aðfararnótt þess fyrsta fór frostið í 17,0 stig á Hellu og næstu nótt í -17.3 stig á Þingvöllum. Þetta er í meira lagi þó alloft hafi orðið kaldara þessa  daga frá stofnun Veðurstofunnar og reyndar ýmsa aðra daga síðar í aprílmánuði.

Sólin síðasta dag marsmánaðar í Reykjavík var 12,2 stundir og vantaði aðeins 0,1 stund til að jafna mesta sólskinið sem mælst hefur í hundrað ár þennan dag. En mjög kalt var þennan dag.

Meðalhiti vetrarmánuðina desember til mars var -0,10 stig Reykjavík. Það er 1,4 stig undir meðallaginu það sem af er þessari öld en innan við 0,1 stig undir meðallaginu 1961-1990. Allir vetrarmánuðirnir voru undir frostmarki í Reykjavík nema mars og hefur það ekki gerst að þrír mánuðir í röð séu þar undir frostmarki síðan 1994-1995 en þá voru allir vetrarmánuðir undir frostmarki.

Þetta er kaldasti vetur í Reykjavík síðan árin 2000 og 1999 sem voru lítið eitt kaldari og svo frá 1995 sem var allmiklu kaldari og næstu tveir vetur þar á undan voru líka aðeins kaldari.

Á Akureyri var meðalhitinn -0,55, tiltölulega hlýrra en í Reykjavík, 0,3 stig undir meðallagi þessarar aldar og á þessari öld voru veturnir þar árin 2008-2010 og 2001-2002 kaldari. 

Í Stykkishólmi var vetrarhitinn -0,12, sá kaldasti síðan 2002. Þar voru allir veturnir 1997-2002 kaldari nema 1999. Það er 0,8 stig undir meðaltali það sem af er þessarar aldar.

Á landinu í heild sýnist mér veturinn í fljótu bragði og án þess að öll kurl séu kominn til grafar álíka kaldur og veturinn 2000 en aðrir vetur síðan hafa verið hlýrri. 

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 70, í desember vpru þeir 25, 21 í janúar, 10 í febrúar og 14 í mars.Það er 25 dögum yfir meðaltali þessarar aldar en 10 og 11 dögum yfir meðaltölunum 1961-1990 og 1931-1960 en lítill munur var á snjólagi á þeim tímabilum þó hitamunur væri mikill en kannski hefur það eitthvað með skráninguna að gera. Og hafa ekki verið jafn margir alhvítir dagar í Reykajvík síðan veturinn 1999-2000 en þá voru þeir 89 (68 veturinn 2000-2001). Mestur var snjórinn í vetur í desember. Snjódýpt var aldrei sérstaklega mikil.  

Þetta er þá óneitanlega fremur kaldur og snjóamikill vetur miðað við síðustu 20 ár en sætir þó litlum tíðindum ef til lengri tíma er litið án þess að fara sérstaklega langt aftur.

Ekki má svo gleyma því að nóvember síðastliðinn var einn sá hlýjasti sem mælst hefur, sá hlýjasti á tveimur næst elstu veðurstðövunum,Grímsey og Teigarhorni, næst hlýjasti í Reykjavik og sá þriðji hlýjasti á elstu veðurstöð landsins, Stykkishólmi. Og alveg snjólaus í Reykjavík

Það voru kannski ekki síst hvassviðrin sem gerðu þennan vetur alræmdan í hugum fólks og verður fróðlegt að sjá uppgjör Veðurstofunnar um það atriði og fleiri varðandi þennan vetur. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband