Færsluflokkur: Bloggar

Snjólaust á láglendi

Í morgun var jörð talin alauð á Tjörn í Svarfaðardal en það er ein af sárafáum veðurstöðvum á landinu þar sem jörð var ekki orðin alauð eftir hlýindi síðustu daga. 

Hugsanlega er jörð ekki alauð í Fljótum en þaðan hafa ekki komi upplýsingar um snjóalög nokkra síðustu daga en þegar síðast fréttist var þar flekkótt. Annars staðar er einfaldlega alauð jörð á landinu á veðurstöðvum nema í Svartárkoti þar sem jörð er flekkótt. Stöðin sú er í 405 metra hæð yfir sjó. Á Grímsstöðum á Fjöllum, í 390 metra hæð, hefur jörð verið alauð í nokkra daga. Kannski væri hægt að leika þar golf!

Nú eru kuldaskil væntanleg yfir landið og búast má við að þá snjói sums staðar.

En merkilegt er þetta snjóleysi svo seint í nóvember.

24:11: Í morgun var alauð jörð í Fljótum og er því alls staðar snjólaust á snjóathugunarstöðvum nema hvað flekkótt er í Svartárkoti.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Linnulausir góðviðrisdagar

Síðasti veðurpistill, en þeim er nú farið að fækka undanfarið hvað sem verður, var um hlýja daga seint í september í Reykjavík. Síðan hafa komið ýmis góðir dagar eftir árstíma þó þeir hagi sér ekki alveg eins og dagar í september. 

Í október, sem í heild var ekki sérlega hlýr, var sá sjöundi hlýjasti að meðalhita þann dag í Reykjavík, 11,8 stig sem þætti ágætt um hásumarið. Og dálítið sást til sólar. Hámarkshitinn þann dag var líka dagsmet, 14,9 stig. Þann 9. október skein sólin í höfuðborginni jafn lengi og hún hefur mest skinið áður, í níu og hálfa klukkustund. Daginn áður munaði um hálftíma að sólskins dægurmet þess dags yrði slegið.

Fyrsta næturfrostið kom þann 12. október -1,7 stig. Síðast í vor fraus 17. apríl og frostlausi tíminn var því 178 dagar.

Fyrst varð alhvítt í haust 21. oktober og var þá snjódýpt í borginni 12 cm sem er fremur í meira lagi eftir árstíma. Snjór var líka daginn eftir en svo ekki meira. Snjólausi tíminn, alauð jörð,  var frá 29. mars eða í 207 daga. Frostlausi tíminn er sá lengsti síðan 1941, þegar hann var 186 dagar og 1939 þegar frostlausu dagarnir milli vors og hausts voru 201. Snjólausu dagarnir núna milli vors og hausts voru hins vegar aðeins fáum dögum fleiri en meðaltal svona síðustu 70 ára.  

Það sem af er nóvember hafa fjórir dagar í Reykjavík slegið dagshitamet að meðalthita, sá 13. með 10,6 stig, 15. með 9,8 stig, 19. með 9,3 stig og í gær 9,1 stig. Þann 15. skein sólin meira að segja í 4,1 eina klukkustund. Þann dag komst hámarkshitinn 11,5 stig sem er met fyrir þann dag. Reyndar voru slegin hámarkshitamet hvern dag 12.-15.nóvember og auk þess þann 20. (sjá fylgiskjalið). Aldrei áður síðan byrjað var að mæla hefur hámarkshiti í nóvember, eins og ég ákvarða hann, náð tíu stigum fjóra daga í röð eins og nú í borginni. Og þó mánuðurinn sé ekki liðinn eru dagar með tíu stiga hámarkshita í Reykjavik orðnir 7 og hafa aðeins verið fleiri í öllum nóvember árin 2011 og 1945 en þá voru þeir 9. Nóvember 1945 er sá hlýjasti sem mælst hefur í Reykjavik, með meðalhita upp á ótrúleg 6,1 stig.

Mánuðurinn í heild er núna kominn í 5,7 stig í Reykjavík að meðalhita og hefur aðeins verið hlýrra fyrstu 21. dagana árin 2011, 6,5 stig og 1945, 7, 6 stig. Á Akureyri er meðalhitinn víst í 10. hlýjasta sæti þessa daga. 

Auk fylgiskjalsins er hér skjal sem sýnir síðasta vorfrost og fyrsta haustfrost og síðasta alhvítan dag að vori og þann fyrsta að hausti í Reykjavík mörg ár aftur í tímann.   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Grimmd og ódrengsskapur valdsins

Ég hef ekki haft mig neitt í frammi varðandi þetta lekamál en fylgst með umræðunni og alltaf haft nokkra samúð með innanríkisráðherra þrátt fyrir hennar mistök á ýmsum sviðum. Umræðan hefur vissulega á köflum verið hörð - reyndar á alla kanta - en líka oft og tíðum málefnaleg og ekki hörð. Ýmislegt kemur auðvitað fram um jafn mikið rætt málefni.

Þessi túlkun forsætisráðherra er hins vegar verulega hrollvekjandi í einsýni sinni og grimmileik.

Og allir ráðamenn og þeir sem að málinu hafa komið af valdsins hálfu hafa ekki einu sinni haft fyrir þvi að nefna nafn þess manns sem var eina fórnarlambið, Tony Osmos.

Það er óhugnanlegt að vita af valdinu svona algjörlega skeytingarlausu og virðingarlausu um venjulegt fólk. 

Forsætisráðherra er ekki þess verður að binda skóþveng Tony Osmos.

 


mbl.is Þjóðin læri af lekamálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blíðviðrisdagar seint í september

Athugið: Fylgiskjalið, sem greinir frá daglegu veðri, er áfram virkt þó ekki bætist við nýjar bloggfærslur. 

Í gær, 25. september, komst hitinn ekki hærra en 9,4 stig í Reykjavík (9,6 í dag). Það er fyrsti dagurinn sem hitinn nær ekki tíu stigum siðan 19. maí. Þetta er aðeins betra en í langtíma meðallagi því síðasti dagurinn að meðaltali síðan 1920 í Reykjavík með tíu stiga hámarkshita er 21. og 23. september (22. hafði það af). 

Nú má segja að hausti að.

Þrátt fyrir það koma alloft hlýir dagar síðasta þriðjunginn í september. Þá er oftast skýjað en góðir sólardagar með hlýindum eru sjaldgæfir því aðal sólaráttin í Reykjavík er vitaskuld af norðri og hún vill vera köld þegar orðið er þetta áliðs sumars. Vel hlýir sólardagar eru samt ekki óþekktir seint í september. 

Frá 1920 er meðalhiti allra síðustu tíu dagana í  september í  höfuðborginni 7,0 stig en kólnar jafnt og þétt á hverjum degi, meðaltal hámarkshita 9,5 stig en meðalfjöldi sólskinsfjölda 34,5 stundir. Fyrir það sem af er þessari öld eru samsvarandi tölur 7,4, 9,8 og 35. 

Ef við miðum við 13 stiga hámarkshita með tíu stunda sólskini fáum við eftirfarandi daga í leit okkar að sólríkum blíðviðrisdögum síðasta þriðjunginn í september í Reykajvík, fyrst er árið, þá dagsetningin og loks sólarstundirnar. 

2006: 21. 13,0°, 10,2 sólarstundir. 

2000: 28. 13,9°, 10,1 st. 

1999: 21. 16,4°, 10 st. Glæsilegur dagur!

1993: 21. 13,9°, 10,5 st.

1967: 26. 13,2°, 10 st. Þetta var fyrsti september sem ég fylgdist með veðri. Þarna komu þrír dagar í röð með tíu stunda sól eða meira, 25. með 10,6  sólarstundir (hámarkshiti 11,4°),  sá 26. og loks 27. með 10,8 sólskinsstundir (hámarkshiti 10,3°). Þann 26. var hámarkið um klukkan 18. Ég var þá niður við tjörn í blíðunni. Og ég hef aldrei gleymt þessum degi og hann er fyrir mér hinn erkitýpiski síð september blíðviðrisdagur. 

Mikið sólskin er því miður oftast ávisun á kulda seint í september í Reykjavík. Sólríkustu síðustu tíu dagarnr í  þessum mánuði voru 1975 þegar sólin skein í einar 86 stundir en hann er líka fjórði kaldasti þessa tíu daga (eftir 1974, 1954 og 1969). Já, næst sólríkustu síðustu tíu septemberdagarnir voru  1974, 75 klukkustundir, og það má fullyrða að þeir séu einmitt þeir köldustu alveg frá því Veðurstofan var stofnuð, 2,2 stig að meðaltali. Sólríkasti endasprettur september á þessari öld var 2005 þegar sólin skein í 62 stundir en fyrir þessa síðustu tíu daga er hann einmitt sá kaldasti það sem ef er öldinni þá daga, 3,1 stig. 

En áfram með blíðviðrisdaga í Reykjavík seint í september. Tíu stunda sólskinsmælikvarðinn er auðvitað nokkuð strangur svo síðla árs. Stundum koma vel hlýir dagar á þessum tíma þegar sólar nýtur talsvert, fyrir nú utan þá hlýju sólarlausu eða sólarlitlu, og fólk mun upplifa sem sannkallaðan sumarauka þó sólin skíni ekki í heilar tíu stundir.

Þar er efst á blaði síðasti septemberdagurinn árið 1958. Þá komst hitinn í 16,9 stig og sólin skein í 8,4 stundir. Þetta er mesti hiti sem nokkru sinni hefur mælst í Reykjavík svo seint á sumri. Hitinn var enn 15,7 stig klukkan 18 en þá er skipt milli sólarhringa hvað hámarkshita varðar á Veðurstofunni. Og svo vægast sagt ólánlega vildi þá til að sá hiti er enn þann dag í dag talinn mesti hiti sem mælst hefur í höfuðborginni - í október! En síðustu fimm dagararnir í september 1958 voru afar hlýir en þessi var samt toppurinn og sá eini sem sólin lét sjá sig að ráði. 

Næst síðasta daginn í september 1992 fór hitinn í 16,8 stig í Reykjavík og sólin skein í næstum því fjórar stundir. Það var alltaf sól annað kastið og mönnum fannst þetta sjaldgæfur dýrðardagur.

September 1935 var óvenjulegur í Reykjavík fyrir það að vera bæði vel hlýr og nokkuð sólrikur, miðað við september. Síðasti hlutinn var engin undantekning frá mánuðinum í heild og þann 28. fór hittinn  14,6 stig og sólin skein í næstum því sjö klukkustundir.

Varla þarf svo að taka það fram að sannkallaðir blíðvirðrisdagar síðustu tíu dagana í september eru öllu tignarlegri fyrir norðan og austan heldur en hér syðra. 

En stöðuna í september núna má sjá í fylgiskjalinu.

 

 

         


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eini 20 stiga septemberdagurinn í Reykjavík

Þennan dag, 3. september, árið 1939 mældist mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í september, 20,1 stig. Og er þetta í eina skiptið sem hiti í höfuðstaðnum hefur mælst 20 stig eða meira í september. Lágmarkshiti næturinnar fór ekki lægra en í 14,4 stig. En sólarstundir voru aðeins tvær.  

Á þessum degi mældist svo hitinn á Hvanneyri 22,7 stig og 22,3 í Síðumúla og er það mesti septemberhiti sem mælst hefur í Borgarfirði fram á þennan dag. Á suðurlandi fór hitinn í 20,9 stig á Þingvöllum og 20,0 á Hæli í Hreppum.

Mesti hiti á landinu mældist hins vegar á Sandi í Aðaldal, 23,0 stig en á Akureyri mældust 21,0 stig. Tuttugu stiga hiti eða meiri mældist á 11 veðurstöðvum af 31 sem voru með hámarksmæla eða um 35% sem er ansi gott á septemberdegi. Vandræðastöðinni Lambavatni á Rauðsandi er hér sleppt en hún skráði 25,0 stig sem ekki er hægt að taka alvarlega.

Lægð var suðvestur af landinu en hæð yfir norðurlöndum sem beindi hlýju lofti til landsins. Fremur hæg austan eða suðaustanátt var, þurrt eða úrkomulítið vestan til og nokkuð bjart yfir norðvestanlands og í innsveitum fyrir norðan en mikil rigning á suðusturlandi og austfjörðum. Næsta morgun mældist úrkoman t.d. 34,3 mm á Teigarhorni við Berufjörð, 31,3 mm á Fagurhólsmýri og 11,6 á Seyðisfirði.  

Þessi hlýi dagur var hluti af mjög hlýrri syrpu sem hafði byrjað 31. ágúst og hélst í svo sem viku.

September 1939 er svo í heild sá hlýjasti sem mælst hefur í Reykjavík og annar af þeim tveimur hlýjustu á landinu. Meðalhitinn í Reykjavík var 11,4 stig eða jafn þeim ágúst sem nú var að líða, 2014.

Varla þarf svo að minna á það að þennan dag lýstu Bretar og Frakkar Þjóðverjum stríð á hendur en þeir höfðu ráðist inn í Pólland 1. september. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Verkin láta til sín taka

Frá Höfðatorgsreitnum berst nú dag eftir dag nær stöðugur sónn frá morgni til kvölds, eins og heljarinnar ryksuga sé í gangi. 

Og þetta er bara væg byrjunin. Bráðum fara þeir að sprengja og væntanlega fleyga enn einu sinni.

Í raun og veru eru þarna í gangi eins konar hávaða hryðjuverk. Ókunnugir menn sem ekki kynna sig ryðjast inn á heimli fólks um margra ára skeið og umturna þar öllu svo venjulegt heimilislif að degi til leggst niður mánuðum saman hvað eftir annað í mörg ár. Vonlaust að opna glugga, oft ekki hægt að hlusta á hljómflutningstæki, útvarp eða sjónvarp svo ánægja sé að, tala í síma eða fá fólk í heimsókn.

Kannski ætti frekar að kalla þetta pyntingar en hryðjuverk því þetta brýtur fólk hreinlega niður með árunum. 

En Pétur Guðmundsson forstjóri Eyktar ypptir örugglega öxlum yfir því. Hann lætur þetta viðgangast.Og ekki hefur hann haft sinnu á því að tala til íbúana í eigin persónu um eitt né neitt.

Hvað með heilbrigðiseftirlitið? Gefur það grænt ljós á áratuga ofbeldi af þessu tagi?

Því ofbeldi er þetta og ekkert annað. Ofbeldi verktaka í krafti auðs og valds sem skeytir ekki um neitt nema eigin hag og valtar yfir þá sem fyrir verða eins og þeir séu ekki til. 

Jæja, eru þetta stóryrði? Þetta eru nú samt bara orð.

Og þau blikna algjörlega í samanburði við verkin sem þarna láta til sín taka.


Sólskinstíð

Kvartanir vegna sólarleysis í höfuðstaðnum eru nú alveg horfnar.

Það er ekki nema von.  Fjöldi sólskinstunda það sem af er ágúst eru nú orðnar 125 sem er fimm stundum meira en meðaltal síðustu tíu ára fyrir þessa daga og 17 stundum meira en meðaltalið 1961-1990.

Ef við tökum síðustu 30 daga eru sólarstundirnar orðnar 190 og eftir daginn í dag fara þær mjög líklega upp fyrir 200 stundir og þá erum við að upplifa algjört meðalástand fyrir sól fyrir dagana 20. júlí til 20. ágúst á þessari öld sem hefur verið óvenjulega sólrík að sumarlagi.

Það er því engin þörf að kvarta meðan blessuð sólin skín. 

Viðbót 21.8.: Sólskinsstundir í gær voru 14,4 í Reykjavík og þar því orðnar 204 síðasta 31 daginn.  Það þætti alveg ágætt í hvaða heilum sumarmánuði sem væri en litlu skiptir um sólskindstundafjölda hvar skipt er milli daga yfir hásumarið til að velja mánaðarlengd.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Martröð fyrir nágrennið

Þessar framkvæmdir á Höfðatorgi hafa verið sannkölluð martröð fyrir íbúa í grenndinni. Þær hófust með byggingu langa hússins við Borgartún og háa turnsins um 2007 með tilheyrandi spreningum og höggborum eða fleygum. 

Þegar það er ekki í gangi hefur verið ýmis konar annað ónæði frá framkvæmdunum. Að vísu hefur verið friður með köflum. En alltaf er byrjað aftur og aftur og aftur.

Framkvæmdir við fyrirhugaðan íbúðaturn og bílakjallara er sagt að ljúki árið 2016.

Það verður ekki líft í húsum við Bríetartún og víðar þegar byrjað verður á bílakjallaranum fyrir 170 stæði sem boðað  er í fréttinni að byrji bráðlega. Aðeins í fárra metra fjarlægð. 

Þá eru eftir tvö önnur háhýsi á reitnum með tilheyrandi gauragangi.

Allt i allt verður þetta meira en heill áratugur.

Það er umhugsunarvert hvers vegna skipulagsyfirvöld leyfa svona langdregnar framkvæmdir  í miðju íbúðarhverfi. Samt hefur til dæmis Hjálmar Sveinsson sagt að hann hafi skilning á því ónæði sem íbúar verða fyrir þegar framkvæmdir með nýtísku hávaðatólum fara fram inni í rótgróinni íbúðabyggð. En sá skilningur kemur ekki í veg fyrir að leyfi sé veitt fyrir framkvæmdum á sama blettinum ár eftir ár eftir ár nánast í bakgarði íbúa. Dæmi eru um ónæði eftir miðnætti.

Á sínum tíma sagði einhver framkvæmdahrólfurinn við Höfðatorg í Morgunblaðinu að íbúar sýndu framkvæmdunum skilning. En skilningurinn virðist bara eiga að ganga í eina átt. Ætlast er til að íbúarnir sýni Eykt  skilning sem ekki aðeins veldur ónæðinu heldur hefur breytt þessu friðsama hverfi í hreina martröð sem boðað er að haldi áfram í mörg ár í viðbót. Það að Eykt sýni íbúunum skilning er hins  vegar ekki einu sinni til umræðu. Fólk reynir að sýna skilning og þolinmæði vegna ónæðis af völdum framkvæmda sem varir í nokkra máuði og lýkur síðan. En þegar ónæði stafar af sama reit árum saman eða jafnvel heilan áratug með hléum og fólk veit aldrei hverju það á von hlýtur það að hafa áhrif á skilninginn.

Morgunblaðið fylgist náið með framkvæmdunum í fréttapistli eftir fréttapistli  í eins konar  aðdáunarstíl. En ég hef ekki enn séð að blaðið svo mikið sem gefi því umhugsun hvað þessar framkvæmdir valda íbúum í nágrenninu miklu og langdregnu  ónæði. Jú, það var reyndar einu sinni á það minnst en núllað með þessu skilningstali framkvæmdahrólfsins.

Morgunblaðið vitnar iðulega í mig, jafnvel á forsíðu, þegar um veðrið er ræða, síðast á þriðjudaginn. 

Blaðinu er alveg óhætt að vitna líka í mig um ónæðið sem framkvæmdir á Höfðatorgi valda íbúunum í nokkurra metra fjarlægð! Það er alveg guðvelkomið.

 Vesgú!


mbl.is Pétur kaupir Höfðatorgslóðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesti hiti í ágúst - Og góðviðri í dag á suðurlandi

Þennan mánaðardag árið 2004 mældist mesti hiti sem mælst hefur á landinu í ágúst. Á sjálfvirku stöðinni við Egilsstaði fór þá hitinn í 29,2 stig. Þetta var einnig hlýjasti dagur á landinu að meðalhita frá a.m.k. 1949 og einnig að meðaltali hámarkshita, 15,9 og 21,6 stig. Þá stóð yfir í fáeina daga einhver mesta, ef ekki mesta, hitabylgja sem gengið hefur yfir landið síðan Veðurstofan var stofnuð árið 1920. Ekki verður henni gerð hér frekari skil en til stendur á þessari bloggsíðu að fjalla síðar um helstu hitabylgjur sem komið hafa síðan 1920.

Í dag var svo sól og blíða á suðurlandi. Hiti fór yfir 20 stig á flestum stöðvum frá Mýrdalssandi, um suðurlandsundirlendi og upp á Kjalarnes. 

Hársbreidd var frá því að tuttugu stigin mældust á kvikasilfrinu í Reykjavik þar sem hitinn varð 19,7 stig en 20,0 á sjálfvikru stöðinni. Hins vegar komst hitinn í 21,9 stig á Korpu, 21,2 á Geldingarnesi og 20,6 á Hólmsheiði. Á Skrauthólum á Kjalarnesi fór hitinn í 21,0 stig en á vegagerðastöðvunum við Blikadalsá og Kjalarnesi og við Sandskeið fór hitinn í 21,8 og 20,2 stig. 

Hlyjast á landinu var hins vegar á Sámsstöðum í Fljótshlíð þar sem hitinn fór í 22,8 stig.  Á vegagerðaStöðinni við Markarfjót fór hitinn í 22,2 stig, 21,6 á sjálfvirku stöðvunum á Þingvöllum og Þykkvabæ og 21,2 á kvikasilfursmælinum á Eyrarbakka. Víðar á suðurlandi mældist rétt rúmlega 20 stig. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólarleysi syðra en hlýindi norðaustanlands

Í dag var mjög hlýtt á norðaustanverðu landinu en þó langt frá öllum metum. Hiti fór víða á þessu svæði yfir 20 stig og mest 23,0 á Hallormsstað en 22,9 á Egilsstaðaflugvelli. 

Í gær var svo yfir tuttugu stiga hiti um allan Borgarfjörð, alveg frá Hvanneyri til Húsafells  þar sem hitinn varð 21,1 stig en sama í Kolási við Munaðarnes. Hiti náði líka 20 stigum í Landsveit og á Þingvöllum.

Meðalhitinn færist hratt upp á við. Hann er nú 11,2 stig í Reykajvík sem 0,1 stigi kaldara en meðaltal fyrstu 20 daga mánaðarins síðustu 30 ár en hálfu stigi undir meðaltali þessar aldar. Sýnir  það nú hvað hún hefur verið hlý. Meðaltalið 1961-1990 er aðeins 10,5 stig fyrir þessa daga. 

Á Akureyri er meðalhitinn núna 12,2 stig og líka á Húsavík en 12,3  stig á Torfum og 12,1 á Möðruvöllum en þessir staðir voru þeir hlýjustu í júní. Á Egisstöðum er meðalhitinn  11,9 stig en 12,0 á Hallormsstað.

Úrkoman er nú orðin meiri en en í meðallagi alls mánaðarins 1971-2000 mjög víða. Sérstaklega er úrkoman mikil á norðvesturlandi þar sem hún er sums staðar orðin meiri en hún hefur nokkru sinni mælst í öllum júlí. Gildir það reyndar líka um fáeinar aðrar stöðvar annars staðar.

Í Reykjavík er úrkoman nú 77 mm og hefur aðeins meiri verið fyrstu 20 dagana í júlí árin 1926,  86,5 mm og 1921, 81,6 mm. Á Akurureyri er úrkoman 68 mm en 62 mm á Hallormsstað en meiri á Egilsstöðum., 83 mm, sem sagt meiri en í Reykjavík!

Blessuð sólin, sem elskar allt, hefur skinið í Reykjavík í svo mikið sem í 51 stund sem er minna en nokkru sinni fyrir utan 29 stundir í júlí 1926 og 32 stundir 1989. Engar upplýsingar er að hafa um sólskinsstundir á Akureyri eða annars staðar.

Þennan dag árið 1986 mældist mesti kuldi sem mælst hefur í byggð á Íslandi í júlí, -4,1  stig í Möðrudal.

Þetta gæti sem sagt verið verra!  

Fylgiskjalið er á sínum stað með Reykajvik og landið á blaði 1 en Akureyri á blaði 2.

Viðbót 29.7. Meðalhitinn á Akureyri er nú kominn í slétt 13 stig. Enginn almanaksmánuður hefur náð jafn hátt síðan í júí 1955. Á Torfum í Eyjafirði er meðalhitinn 13,1 stig. Því miður er að kólna og ekki víst að htinn verði í þessum tölum við mánaðarlok.  Í dag var sól á suðurlandi og fór hitinn víða yfir 20 stig, mest 22,6 á Sámsstöðum í Fljótshlíð.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband