Færsluflokkur: Bloggar

Hlýr páskadagur eftir erfiðan vetur

Í nótt fór hitinn á sjálfvirka hitamælinum á Dalatanga upp í 17,0 stig en 15,5  á kvikasilfursmælinum. Í Bjarnarey fór hitinn í 15,6 stig á sjálfvirkum mæli. Hver tala sem valin er gerir þetta methitadag fyrir 5. apríl frá 1949 en einhver dæmi eru um meiri hita á árunum þar á undan. Þetta er vorveður. - Í bili.

En ekki byrjaði samt apríl beint vorlega. Aðfararnótt þess fyrsta fór frostið í 17,0 stig á Hellu og næstu nótt í -17.3 stig á Þingvöllum. Þetta er í meira lagi þó alloft hafi orðið kaldara þessa  daga frá stofnun Veðurstofunnar og reyndar ýmsa aðra daga síðar í aprílmánuði.

Sólin síðasta dag marsmánaðar í Reykjavík var 12,2 stundir og vantaði aðeins 0,1 stund til að jafna mesta sólskinið sem mælst hefur í hundrað ár þennan dag. En mjög kalt var þennan dag.

Meðalhiti vetrarmánuðina desember til mars var -0,10 stig Reykjavík. Það er 1,4 stig undir meðallaginu það sem af er þessari öld en innan við 0,1 stig undir meðallaginu 1961-1990. Allir vetrarmánuðirnir voru undir frostmarki í Reykjavík nema mars og hefur það ekki gerst að þrír mánuðir í röð séu þar undir frostmarki síðan 1994-1995 en þá voru allir vetrarmánuðir undir frostmarki.

Þetta er kaldasti vetur í Reykjavík síðan árin 2000 og 1999 sem voru lítið eitt kaldari og svo frá 1995 sem var allmiklu kaldari og næstu tveir vetur þar á undan voru líka aðeins kaldari.

Á Akureyri var meðalhitinn -0,55, tiltölulega hlýrra en í Reykjavík, 0,3 stig undir meðallagi þessarar aldar og á þessari öld voru veturnir þar árin 2008-2010 og 2001-2002 kaldari. 

Í Stykkishólmi var vetrarhitinn -0,12, sá kaldasti síðan 2002. Þar voru allir veturnir 1997-2002 kaldari nema 1999. Það er 0,8 stig undir meðaltali það sem af er þessarar aldar.

Á landinu í heild sýnist mér veturinn í fljótu bragði og án þess að öll kurl séu kominn til grafar álíka kaldur og veturinn 2000 en aðrir vetur síðan hafa verið hlýrri. 

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 70, í desember vpru þeir 25, 21 í janúar, 10 í febrúar og 14 í mars.Það er 25 dögum yfir meðaltali þessarar aldar en 10 og 11 dögum yfir meðaltölunum 1961-1990 og 1931-1960 en lítill munur var á snjólagi á þeim tímabilum þó hitamunur væri mikill en kannski hefur það eitthvað með skráninguna að gera. Og hafa ekki verið jafn margir alhvítir dagar í Reykajvík síðan veturinn 1999-2000 en þá voru þeir 89 (68 veturinn 2000-2001). Mestur var snjórinn í vetur í desember. Snjódýpt var aldrei sérstaklega mikil.  

Þetta er þá óneitanlega fremur kaldur og snjóamikill vetur miðað við síðustu 20 ár en sætir þó litlum tíðindum ef til lengri tíma er litið án þess að fara sérstaklega langt aftur.

Ekki má svo gleyma því að nóvember síðastliðinn var einn sá hlýjasti sem mælst hefur, sá hlýjasti á tveimur næst elstu veðurstðövunum,Grímsey og Teigarhorni, næst hlýjasti í Reykjavik og sá þriðji hlýjasti á elstu veðurstöð landsins, Stykkishólmi. Og alveg snjólaus í Reykjavík

Það voru kannski ekki síst hvassviðrin sem gerðu þennan vetur alræmdan í hugum fólks og verður fróðlegt að sjá uppgjör Veðurstofunnar um það atriði og fleiri varðandi þennan vetur. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vorið er að koma!

Veður á Íslandi er oft breytilegt og vægast sagt umhleypingasamt og öfgakennt. Í nótt komst frostið til dæmis niður í 17 stig á Hellu en hlýindi eru á leiðinni og það er órækur forboði þeirra að nú á hádegi var hitinn kominn í 18,2 stig á Tófuhorni í Lóni.

Þessi hlýindi munu síðan fara sigurför um landið síðar í dag og næstu daga. Og sólin verður í toppformi um land allt. Búinn að gríra vel upp eftir sólmyrkvann.

Í fylgiskjalinu má sjá allan mars og þar kemur meðal annars fram að gærdagurinn var sá sólrikasti sem enn hefur komið á árinu í Reykjavik.

Vorið er komið!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vetrartaut

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um veturinn. Eitt atriði vil ég þó drepa á. Það kemur samt ekki vindi eða umhleypingum við heldur hitastiginu,

Í fyrsra skipti síðan veturinn 1994-1995 hafa þrir vetarmánuðir í röð,desember til febrúar, verið undir frostmarki að meðalhita í Reykjavík, desember -0,8, janúar -0,3 og febrúar -0,1. Veturinn 1994-1995 bætti svo við mars og varð hann kaldasti mánuður þess vetrar ásamt febrúar. Meðalhiti vetrarmánaðanna var -1,0, -2,0 -2,1, -2,1. Meðalhiti vetrarins var þá -1,8 stig og er reyndar kaldasti vetur í Reykjavik síðan 1918 en einstaka vetarmánuðir hafa verið kaldari en nokkur mánuður þessa vetrar var. Og þessi vetur er miklu kaldari en núlíðandi vetur.

Meðalhitinn í mars er nú kominn í 0,8 stig í Reykjavik og er ekki sérlega liklegt að hann verði undir frostmarki alveg á næstunni en kuldakast sem kæmi síðar í mánuðinum gæti samt komið honum þangað niður.

Kaldasti vetur í Reykjavík, alla fjóra mánuðina, sem af er þessari öld var 0,2 stig árið 2002 (-0,2 árin 2000 og 1999).

Hvað sem segja má um veturinn núna í Reykjavík (og á landinu) er hann engan veginn sérlega kaldur. Og ekki snjóþungur eftir  að desember sleppti. En það eru illviðrin sem setja mark sitt á hann.

Fylgiskjalinu er svo alltaf haldið við jafnvel þó ekki sé þétt bloggað.

Einnkennilegt er svo það að allar veðurtöflur vegagerðarstöðvanna eru frosnar á 24. febrúar en línuritin virka.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrsta sólskin á árinu i höfuðborginni

Í gær mældist sólskin í rúmlega hálfa aðra klukkustund í Reykjavík. Og það er í fyrsta sinn sem sólskin þar mælist á þessu ári!

En það eru svo sem engin sérstök tíðindi. Meðaltal sólarstunda 11 fyrstu dagana í janúar frá 1924 eru fimm klukkustundir. Áður hefur ekki mælst sól þessa daga árin 1938, 1950, 1954, 1964, 1983, 1984, 1992, 1993 og 2002.

Öll þessi ár var mjög hlýtt þessa fyrstu 11 daga ársins nema 1983, 1984, 1992 og 1993. Þá var ansi kalt og miklu kaldara en í ár.   

Mest sólskin þessa daga var 1959 þegar sólskinsstundirnar voru 24,5. En í þeim mánuði voru fyrstu 11 dagar ársins þeir köldustu að meðaltali í Reykjavík frá 1918. Það vill oft verða að miklu vetrarsólskini fylgi miklir kuldar.

Nú er ekki hægt að tala um kulda. Hitinn er í meðallagi í Reykjavik en meira en hálft stig yfir því á Akureyri. Snjórinn hefur kannski þau huglægu áhrif að manni finnst meira vetrarríki en hitastigið eitt segir til um. Og svo er reyndar um einu stigi kaldara í Reykjavík en meðaltalið á þessari hlýju öld fyrstu 11 dagana í janúar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Árið 2015

Fylgiskjalið fyrir árið 2015 er nú komið inn. Það sýnir hita, úrkomu og sól hvern dag í Reykjavík (blað 1) og Akureyri (blað 2) og auk þess mesta og minnsta hita á landinu dag hvern og ýmislegt fleira (blað 1).

Þó lítið sé enn liðið af árinu eru flest dagsmetin fyrir þessa staði og landið komin á sinn stað í dagatalinu.

Þau sjást með því að skrolla upp og niður og til hliðar!

Vonum svo að þetta verði gott veðurár.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Árið 2014 í heild

Nú er hægt að sjá allt árið 2014 á fylgiskjalinu. Þarf bara að skrolla upp og niður og til hliðar!

Árið er það næst hlýjasta bæði í Reykjavík og Akureyri en á sumum elstu veðurstöðvunum það allra hlýjasta. 

Og ekki kæmi mér á óvart þó það merji það að vera það hlýjasta á landinu í heild þegar öll kurl koma til grafar.

Meira um árið seinna og veðurfar þessarar aldar hér á Allra veðra von.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Kulda og illviðratíð

Umskiptin sem gengu í garð í desember frá því sem var í nóvember hafa víst ekki farið framhjá neinum.

Meðalhitinn í Reykjavík það sem af er mánaðar er 2,1  stig undir hinu kalda meðaltali 1961-1990 en 1,0 undir því á Akureyri.

Alls staðar á athugunarstöðvum er alhvít jörð nema í Stykkishólmi, á Miðfjarðarnesi og Eyrarakka þar sem jörð er flekkót. Mest snjódýpt er 60 cm við Mývatn.

Nánari daglegar upplýsingar eru í fylgikskjalinu.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Íbúar við Höfðatorg lagðir í hættu

"Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við miklum vindstrengjum við Höfðatorg og í Borgartúni við háhýsin sem þar eru. Vindstrengirnir eru það miklir að þeir geta verið hættulegir gangandi vegfarendum og þeim sem eru á reiðhjólum. Fólk er varað við að vera þarna á ferðinni."

Svo segir í frétt Rkisútvarpsins.

En hvað með íbúa við Höfðatorg?

Eftir að hótelið var reist við torgið eru oft miklir vindstrengir, jafnvel í blíðuveðri, sem aldrei voru áður, vestur eftir öllu Bríetartúni og reyndar allt í kringum Höfðatorg. Að ekki sé nú minnst á hinn skrímslaturninn.

Íbúarnir verða auðvitað að sinna sínum erindum og kaupa í matinn og því um líkt. Þeir eru því neyddir til að leggja sig í hættu á stundum. 

Fleiri turnar eru fyrirhugaðir á Höfðatorgi.

Hvernig verður ástandið þegar þeir hafa allir risið?

Og síðast en ekki síst: Finnst yfirvöldum bara sjálfsagt að leyfa verktötum að byggja mörg háhýsi sem hvert og eitt, hvað þá mörg saman, skapar vindstrengi sem geta verið gangandi íbúum í nágrenninu verulega hættulegir nokkrum sinnum á vetri miðað við það hvernig íslenskt veðurfar hagar sér?

Hafa skipulagsyfirvöld ekkert hugsað út í þetta? Eru þar eintóm flón sem gera sér enga grein fyrir því hvernig háhýsi breyta vindadfari umhverfis sig á nokkuð stóru svæði?

Og hvað nú ef einhver íbúi á leið heim til sín úr matvörubúðinni fýkur út í hafsauga?

Ætlar forstjóri Eyktar eða skipulagsfulltrúi borgarinnar að bæta skaðann ef hann brotnar ofan frá og niður úr?

Er ekkert mannvit í skipulagi þessa ólánsreitar sem Höfðatorg er?


Hverjar eru launkakröfur lækna

Fjármálaráðherra, opinber embættismaður sem ber mikla ábyrgð, hefur gefið sterklega í skyn, nefnt prósentuna beinum orðum,   að  læknar krefjist launahækkana upp á 50%. Formaður samninganefndar lækna neitar því. 

Ekki er auðvelt að trúa því að fjármálaráherra ríkisstjórnar, hvaða skoðun sem stjórnmálaandstæðingar hans kunna að hafa á honum, sé að fara með ábyrgðarlaust fleipur eða ósannindi fyrir alþjóð um jafn viðkvæma og afdrifaríka kjaradeilu fyrir almenning varðandi þær aðstæður þar sem hann er veikastur fyrir í bókstaflegri merkingu.

Það stendur því upp á lækna að leggja spilin á borðið.

Það er einfaldlega sjálfsögð kurteisi og tillitssemi við þjóðina og sjúklinga  að læknar kunngeri um launakröfur sínar svo almenningur sem verður verst úti í deilunni viti hverjar þær eru.

Getur hugsast að læknar óttist að missa samúð 80% almennings ef þeir upplýsa um þær?


Snjór um land allt

Nú hafa þau umskipti orðið eftir snjóleysið í nóvember að alhvítt er á öllum veðurathugunarstöðvum nema hvað flekkótt er talið í Borgarfirði, Vopnafirði, Hornafirði - og Grímsstöðum á Fjöllum, merkilegt nokk! Mest er snjódýptin talin 104 cm á Lamvabatni á Rauðasandi, tala sem maður í fljótu bragði efast þó um.

Fylgiskjalið er á sínum stað.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband