Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
26.7.2008 | 12:18
Kjarni málsins um boðið á ólympíuleikana
Í Kastljósi í gær og í þættinum Í vikulokin í útvarpinu áðan var rætt um það hvort rétt sé af forsetanum og menntamálaráðherra að mæta á ólympíuleikana. Í báðum þáttunum var talað um það að þó mannréttindi væru brotin í Kína sé réttlætanlegt að hafa við það samskipti eins og við mörg önnur ríki sem brjóta mannréttindi og menn verði að vera samkvæmir sjálfum sér.
Mat manna á þessu atriði fer sem sagt eftir pólitískum skilningi á því hvers konar samskiptum beri að halda uppi við Kína en ekki sérstökum atriðum sem varða bara ólympíuleikanna.
Lítum á! Þú færð boðskort í mikla veislu. En í boðskortinu er beinlínis tekið fram að ákveðnir gestir séu útilokaðir frá boðinu og það fer ekki framhjá þér að um er að ræða bæði fordómafulla stimplun og mismunun. Myndi ekki renna á þig tvær grímur að þiggja boðið?
Í boðsbréfum Kínverja vegna ólympíuleikana er þetta einmitt svona. Þar er sérstaklega tekið fram að sumt fólk, t.d. geðfatlaðir, fólk með eyðni og fátækt fólk sé ekki velkomið í veisluna. Enginn nefnir þetta með geðsjúka í umræðum hér á landi og ég hef á tilfinningunni að fólk sem vill láta taka sig alvarlega, eins og það sem var í Kastljósi og Í vikulokin, hreinlega skammist sín fyrir að gera það. Það er ekki nógu fínt.
Þessi atriði með mismunum í boðbréfum Kínverja út af fyrir sig, hvað sem líður almennum mannréttindabrotum og efnahagslegum og stjórnmálalegum samskiptum Íslendinga við Kínverja, ætti að vera alveg nægjanlegt til að forystumenn þjóðarinnar ættu að hafna boðinu um að vera viðstaddir ólympíuleikana.
Menn fara ekki í boð þar sem bein mismunun og fordómar gegn fólki eru sérstaklega teknir fram í boðsbréfinu. Mat manna á því hvort eigi að þiggja boð á ólympíuleikana ætti að hníga að því hvort rétt sé að þiggja þetta tiltekna boð, vegna þess hvernig að því er staðið, en ekki um annars konar almenn samskipti við Kína.
Hvers vegna sér enginn þetta svona einfalt nema ég? Allir eru að tala um þetta á almennum nótum stjórnmála-og viðskiptasambanda og vísa til annarra ólympíuleika sem ollu pólitískum deilum, t.d. leikana í Moskvu þar sem engum hópum manna var þó vísað frá.
Ég næ þessu bara ekki.
Annars er þetta ekki í fyrsta skipti sem mér finnst að kjarni einhvers máls sé annar en allir aðrir eru að tala um.
Og hvernig ætli standi nú á þv?
Undir lokin fóru menn Í vikulokunum að tala um veðrið. Stjórnandinn sagði eitthvað á þá leið að þetta væri einkennilegt veður í gær og í dag, hvasst og bjart en samt hlýtt. En það er ekkert sérlega hlýtt í dag í Reykjavík og eiginlega vafasamt hvort hægt sé að tala um sama veður þar og í gær en þá var ekkert hvasst fyrr en fór að líða vel a daginn. En þetta er afar algengt í umræðum manna eftir að virkilega hlýr dagur kemur í Reykjavík. Menn halda áfram að tala eins og einhver sérstakur hiti sé í loftinu þó hann sé liðinn hjá. Svo spurði stjórnandinn hvort einhver myndi eftir svona veðri áður. Rámaði þá einn viðmælandinn í hitabylgjuna í ágúst 2004 sem var miklu magnaðari en þessi, en hins vegar alltof hægviðrasöm og ekki hvöss. Ef vindur hefði þá erið snarpari af landi hefði orðið enn hlýrra en raunin varð á hér í bænum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.7.2008 | 16:44
Að kaupa sér réttlæti
Yfirlýsingar í minningargreinum vegna andláts eins Hafskipsmannsins hafa vakið athygli. Það er auðvitað viðkvæmt mál að menn fjalli um gömul og ný deilumál í minningargreinum. Dauðinn vekur alltaf upp sorg og sárar tilfinningar. Mér mundi ekki detta í hug að blogga af slíku tilefni ef Vísir. is hefði ekki þegar gert það að fréttaefni og menn í stórum stíl í minningargreinum látið sterk orð fjalla um gamalt mál sem var og er enn umdeilt með þjóðinni.
Það var nýmæli í einni af minningargreinunum í Morgunblaðinu að ein þeirra hafði fyrirsögn, "Ábyrgð og réttlæti" eins og hver önnur blaðagrein eða bein yfirlýsing. Þetta var líka yfirlýsing fremur en eitthvað annað frá Björgólfi Guðmundssyni og Páli Braga Kristjónssyni um það að unnið sé að því að gera upp Hafskipsmálið. Í frétt Vísis is. segir:
"Fregnir hafa borist af því að hópur sérfræðinga á vegum Björgólfs hafi misserum saman unnið að því að velta við öllum steinum í málinu. Í minningargrein Björgólfs og Páls Braga um Ragnar segir að undanförnu hafi bakgrunnur Hafskipsmálsins og málareksturinn verið tekinn til gaumgæfilegrar skoðunar, með það að markmiði að leiða allan sannleika málsins í ljós. Af þeirra hálfu sé Hafskipsmálið ekki uppgert."
Nú þekki ég sögu Hafskipsmálið ekki vel og hef engar sérstakar skoðanir á henni. Fulla samúð hef ég þó með öllum sem telja sig vera rangindum beitta.
Það er hins vegar ýmislegt sem vekur upp spurningar í frétt Vísis. Hafskipsmálið varð dómsmál og voru endanlegir dómar kveðnir upp. Þeim dómum verður ekki breytt nema málið verður endurupptekið.
Stefnir þessi sérfræðingavinna á vegum Björgólfs að því að fá dómsvöld til þess að taka málið aftur upp? Auðvitað er ekkert að því en saksóknari metur hvort ástæða er til að taka máið aftur upp en ekki málsaðilar.
Hins vegar finnst manni að fremur en að endurupptöku fyrir dómstólum sé stefnt að því að koma út einhvers konar skýrslu sem eigi að segja "sannleikann" um málið og hún eigi svo að tala sínu máli frammi fyrir almenningi og yfirvöldum við hliðina á dómsniðurstöðunni, sem hafi þá ekki sagt sannleikann um málið, eða kannski öllu heldur gegn henni. Þó hinn formlegi dómur standi þá eftir sem áður óhaggaður sitjum við þá uppi með einhvers konar annað álit sem fyrst og fremst á að vinna samúð almennings. Það álit er beinlínis keypt af þeim sem dómar féllu á og hlýtur að vera erfitt að fallast á trúverðugleika slíkrar rannsóknar eða "uppgjörs".
Mörgum finnst þeir hafa verið óréttir beittir af dómstólum. Næstum því allir þeirra hafa orðið að sætta sig við það. Minna má á að margir telja að sakborningarnir í Geirfinnsmálinu hafi orðið fyrir dómsmorðum. Í þeim hópi var jafnvel Davíð Oddsson meðan hann var enn forsætisráðherra. Endurupptöku málsins hefur verið hafnað og þeir sem dæmdir voru hafa ekki efni á því að fá sérfræðinga til að vinna "uppgjör" um málið sem síðan verði kynnt fjölmiðlum með látum, allt til þess að gera þá saklausa fyrir sjónum manna þó lögformlega dómsorðið standi.
Það sem er verið að boða í þessari fordæmislausu minningargrein Björgólfs og Páls Braga í Morgunblaðinu er þetta: Að upp sé að rísa eins konar óformlegur dómstóll auðmanna sem gefi þeim sem til þeirra teljast aukadómsúrskurð um orsök, eðli og niðurstöðu mála.
Og það er auðurinn einn sem gerir þeim kleyft að kaupa sér aflát verka sinna framhjá dómstólunum. Það er ekki réttætið sem slíkt sem gerir það jafnvel þó réttlætið kunni að hafa verið dótum troðið. Það eru peningarnir og ekkert nema peningarnir.
Morgunblaðið verður svo að svara því fyrir landsmönnum, sem skrifa mikið af minningargreinum í blaðið, hvort það ætli að leyfa það í framtíðinni að menn skrifi greinar og eins konar ádeilur með sérstakri fyrirsögn í minningargreinum þar sem menn geta haldið áfram að reka gömul og ný deilumál. Ef blaðið ætlar ekki að gera þetta framvegs verður það að svara því hvers vegna brugðið var út af venjunni í þetta skiptið. Hvers vegna minningargreinadálkum Morgunblaðsins var breytt í nokkurs konar orrustuvöll fyrir réttlæti handa nokkrum auðmönnum landsins. Njóta þeir sérréttinda hjá blaðinu?
Vísi is. birtir ýmis ummæli landsfrægra manna sem komu fram í minningargreinum blaðsins við þetta tækifæri:
Hafskipsmálið er vonandi síðasta galdrabrennan" á Íslandi,"
Pétur Sveinbjarnarson.
...stærsta og alvarlegasta réttarfarshneyksli Íslandssögu síðari tíma."
Sigurður Hafstein.
Hafskip var knúið í gjaldþrot."
Helgi Magnússon.
Samfélag okkar á eftir að horfast í augu við sjálft sig vegna Hafskipsmála..."
Styrmir Gunnarsson.
Alltaf hefur mér þótt það misráðið að nota minningargreinar til ásakana því það eru alltaf einstaklingar sem fyrir þeim verða þó ekki séu þeir nafngreindir og þeir eiga óhægt um vik að bregðast við þeim vegna þeirra viðkvæmu aðstæðna sem dauðsföll eru. Menn eru í þessum minningargreinum Morgunblaðsins jafnvel kallaðir dusilmenni og tækifærissinar sem hafi verið í hatursherferð. Geta menn ekki komið þessu að í almennum blaðagreinum um sögu Hafskipsmálsins?
Margir komu að Hafskipsmálinu, rannsóknarlögreglumenn, lögfræðingar, saksóknarar, dómarar og síðast en ekki síst fjölmiðlar, t.d. Helgarpósturinn sem margir telja að hafi átt stóran þátt í málinu.
Og á nú að fara að efna til galdrabrenna gegn þessu fólki meira og minna? Það voru einstaklingar em rannsökuðu málin og dæmdu þau og það voru einstaklingar sem skrifuðu um það í fjölmiðla, "dusilmenni" og "tækifærissinnar". Er allt í lagi að efna til nýrra galdrabrenna ef það eru "réttir" menn sem settir verða á bálið?
Eins og áður segir hef ég samúð með öllum þeim sem beittir eru rangindum og er hvorki með eða móti neinum í Hafskipsmálinu.
Það sem er hins vegar að gerast frammi fyrir allra augum er þetta: Auðmenn þykjast geta keypt sér réttlætið með eigin rannsóknum og eigin niðurstöðum. Og þeir vefja Morgunblaðinu um fingur sér og fá það til að brjóta einhverja rótgrónustu hefðirnar á síðum blaðsins: að minningargreinar verði ekki vettvangur þjóðfélagslegra átaka.
Þetta hvort tveggja finnst mér ískyggileg þróun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
8.7.2008 | 16:37
Rafræn dagbók um mótmæli og fleira
Það er sagt að bloggið sé "rafræn dagbók". Ég hef reyndar haldið handskrifaða dagbók síðan 3. maí 1962 en nú ætla ég að skrifa dagbók rafrænt fyrir þennan dag, so far.
Ég vaknaði hress og glaður og leit til veðurs. Það er alveg skítsæmilegt. Fór galvaskur að mótmæla í Skuggasundi í hádeginu. Þar voru ekki margir en það segir ekkert um hug þjóðarinnar til máls Páls Ramses. Mótmæli sem einstaklingar boða til eru alltaf fámenn. Það þarf félagasamtök eða einhverja hálf opinbera aðila til að fjölmenni fari að mótmæla. En þessi mótmæli hafa samt þýðingu langt framyfir fjöldann sem mætir á degi hverjum.
Stefán Pálsson flutti snjalla ræðu og sagði að Páll hafi átt í höggi við atvinnumenn. Hugsa sér að hafa atvinnu af því að valda saklausu fólki þjáningum! Þráinn Bertelson talaði líka og sagðist hafa samvisku. Eva Hauksdóttir, norn, framdi að lokum magnaðan nornaseið.
Í dagókum eiga menn að vera persónulegir og hreinskilnir og helst ganga fram af lesendum. Þess vegna ætla ég að játa þann veikleika minn að hafa alltaf fundist Björn Bjarnason mjög áhugaverður maður. Það er eitthvað á bak við frontinn sem mér finnst merkilegt. Ég hef heldur aldrei vitað nokkurn mann sem horfir eins mikið á mig og hann. Meðan ég var að krítisera allt og alla sem tónlsitargagnrýnandi sá ég hann oft á tónleikum. Og hann horfði svo mikið á mig. Hvað var hann að pæla? Ég horfi á þá sem mér finnst vera eftirtektarverðir. Horfi framhjá hinum. Og ef einhver sýnir mér áhuga sýni ég honum áhuga. Þetta er alltaf gagnkvæmt. Spáðu í mig og ég spái í þig, sagði Megas.
Já, ég játa intressu mína í Birni Bjarnasyni.
Well, en áfram með smérið og mótmælin. Þar voru ýmis stórmenni. Þar var Steingrímur J. Sigfússon og Mörður Árnason og Bjarni Harðarson. Allir voru þeir mjög alþingismannalegir. Bjarni er líka maður sem mér finnst eitthvað sjarmerandi við, þó ekki væri nema bókabúðin á Selfossi. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var líka eins og drottning og var svo sjarmerandi að það leið næstum því yfir mig. En sú persóna sem sló alla aðra út í sjarmanum var tíkin Lúna sem var með húsbónda sínum, Stefáni Unnsteinssyni vini mínum.
Það er skítt hjá forsætisráðherra að segja það eitt að að í afgreiðslu máls Páls Rameses hafi í einu og öllu verið farið eftir lögum og reglum. Það er reyndar vafasamt af því að í lögunum er gert ráð fyrir mati á mannúðarsjónarmiðum. Það er ekki eithvað sem stendur utan við lögin. Afhverju átta menn sig ekki á þessu? Eru menn ekki læsir? En með þessum orðum er forsætisráðherra einfaldlega að leggja blessun sína yfir brottvísun Páls. Ekkert hafi verið athugavert við hana. Hvað æðstu ráðamenn eru alltaf sjálfum sér líkir.
Ég var að fá ímeil frá sjálfri Tótu pönkínu. Hún lætur vel af sér þó hún sé hætt að blögga. Hún kenndi mér að blogga og allt sem ég kann í blogstælum er stælt eftir henni og nú ég þykist sjálfur alltaf vera að hætta að blogga henni til samlætis en hætti samt aldrei. Ég held að bloggið sé uppfinning djöfulsins! Já, ég er að verða þæl trúaður í seinni tíð. Ég ætla að klára að blogga um veðrið í öllum mánuðum ársins. Svo hætti ég og sest í háhelgan stein.
Það skásta við bloggið er að það gefur hverjum bloggara færi á að sýna á sér ýmsar hliðar. Menn geta bloggað um alvarleg þjóðfélagsmál jafnt sem látið eins og fífl.
Vel á minst. Frægur bloggari heimsótti mig í gær. Í dagbók eiga menn að vera hreinskilnir og ég vona að ég megi segja frá þessu. Þetta var hvorki meira né minna en hún Anna Karen. Hún var reyndar að skoða hann Mala fyrst og fremst. Enda er hann eitt af undrum veraldar. Frá því ég fékk Mala er hér stöðugt rennerí af aðdáendum og sumir koma með gæludýrin sín til að líta goðið augum. Áður kom hér aldrei nokkur maður eða nokkurt annað kvikindi.
Mjá, það held ég nú.
Jæja, þá er þessari rafrænu dagbók lokið í bili og ég þarf að fara að undirbúa bloggfærslu um sjóðheitustu júlímánuði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.7.2008 | 11:48
Félagsleg húsaleiga hækkar
Á Vísi is. er frétt um það að félagsleg húsaleiga hafi hækkað um hvorki meira né minna en 6% við síðustu vísitölubreytingu en þær verða ársfjórðungslega. Þess er einnig getið að Félagsbústaðir hafi sótt um að fá að hækka grunnleiguna um 10% en Velferðarráð Reykjavíkurborgar hefur ekki enn tekið afstöðu til þeirrar beiðni. Ástæðan fyrir hækkunarbeiðninni segja Félagasbústaðir að sé fjárhagserfiðleikar fyrirtækisins.
En hvað um fjárhagsstöðu leigjendanna sem vitað er að er fólk sem ekki hefur fjárhagsgetu til að kaupa sér íbúð eða leigja á frjálsum markaði? Nái grunnhækkunin sem Félagsbústaðir vilja fá fram hefur húsaleigan hækkað um 16%.
Hvað ef leigan hækkar svo um 6% ársfjórðungslega vegna vísitölubreytinga. Það gerir 24% hækkun á ári. Þarf nú ekki að fara að vísitölubinda húsleigubætur svo fólk neyðist ekki til að hrekjast út úr félagslegu leiguhúsnæði?
Hætt hefur verið að niðurgreiða húsaleigu með fastri prósnetutölu af leiguupphæð en í staðinn hafa verið teknar upp sérstakar húsaleigubætur þar sem tekið er mið af fjárhagsstöðu hvers og eins við ákvörðun húsaleigu. Hjá flestum er sagt að leigan lækki en hún getur hafa hækkað hjá sumum.
Jórunn Frímannsdóttir forstöðumaður Velferðarsvið Reykjavíkurborgar skrifaði grein um þessar breytingar í Morgunblaðið. Hins vegar hefur ekki verið haft fyrir því að gera hverjum og einum leigjanda grein fyrir því hvernig húsaleigubætur hans eru reiknaðar. Leigjendurnir fá bara innheimtuseðil með nýrri upphæð án nokkurra skýringa á breyttri upphæð húsaleigubóta. Þetta er mikið tillitsleysi við leigjendur í máli sem snertir eins mikið afkomu þeirra eins og húsaleigan er og þetta er ekki Reykjavíkurborg sem sveitarfélagi sæmandi.
Það kostar kannski peninga að gera þetta. En það er enginn afsökun. Sumt er óhjákvæmilegt.
Hið opinbera getur ekki verið þekkt fyrir að sýna skjólstæðingum sínum svona mikið tillitsleysi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.7.2008 | 11:59
Því er ekki að leyna
Að ýmislegt er óljóst varðandi mál Paul Ramses. Mér finnst til dæmis að þau hjá ABC, sem sagt er að hafi sönnungargögn um það að Ramses sé á dauðalista í Keníu, ættu að birta gögnin opinberlega. Gögnin hafa hvergi birst svo ég viti. Þessi líflátsógnun er sterkasta röksemdin fyrir því að Paul Ramses verði veitt hér hæli sem pólitískum flóttamanni.
Nú er ég ekki að draga trúverðugleika Paul Ramses í efa. Aðeins að benda á það að beinar staðreyndir eru grundvöllur allra mála.
Sitt hvað fleira sem mál hans varðar mætti vera stutt órækum gögnum frá hlutlausum aðila. Ekki treysti ég Útlendingastofnun og vitnisburður annarra þarf auðvitað líka traustra heimilda við.
Útvarpið var að skýra frá því að utanríkisráðherra vildi ekki gefa upp afstöðu sína til þess hvort hún vilji að reynt verði að fá Paul Ramses aftur til Íslands. Hvers vegna ekki? Hún hefur sagt að sér sé umhugað um málið. Afhverju getur ráðherran þá ekki gefið hug sinn upp til þjóðarinnar? Þjóðin hlýtur að eiga heimtingu á því miðað við fyrri yfirlýsingar utanríkisráðherra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.7.2008 | 01:58
Flóttamaður að gamni sínu?
Nýjasta útspil dómsmálaráðherra er þetta:
"Ómar Valdimarsson, áður um árabil alþjóðastarfsmaður í Afríku, nú fréttamaður á Stöð 2, sagði frá því í kvöldfréttum, að pólitískir flóttamenn þekktust ekki frá Kenýa, fyrir utan einn, sem hefði afhjúpað opinbert hneykslismál og flúið fyrir nokkrum árum. Hvorki starfsmenn alþjóðastofnana né fjölmiðlamenn í Kenýa teldu nokkurn þurfa að flýja land vegna pólitískra ofsókna, eftir að stjórnmálafriður varð í landinu fyrr á þessu ári."
Ég játa að ég veit ekki hvernig á að bregðast við þessari frétt Ómars eða hvað hæft er í henni. Ætli menn séu virkilega að fara um hálfan hnöttinn bara að gamni sínu til að sæta því öryggisleysi sem flóttamenn þurfa að búa við?
Á athugasemdum við ýmsar færslur á bloggsíðum eru hinar og þessar dylgjur um það að Paul Ramses sé kannski grunsamlegur, sé jafnvel á flótta undan því að hafa framið voðaverk í heimalandi sínu. En sem svar við einni hófsamri en nafnlausri athugasemd við bloggfærslu um það að Ramses þyrfti ekkert að óttast í Kenía sendi kona inn orð sem ég leyfi mér að birta hér.
"Ég þekki Paul Ramses persónulega en ég, ásamt manninum mínum, sé um kirkjustarf fyrir útlendinga í Hvítasunnukirkjunni.
Ég fékk ásamt 2. öðrum að tala við hann kvöldið áður en hann var sendur úr landi. Það sem hann sagði okkur um ástandið í landinu passar við það sem ég hef síðan lesið mér til um. Hann sagði okkur einnig að hans stjórnmálaflokk og Odinga hefði tekist að knýja fram aðild að ríkisstjórn. Þrátt fyrir það hafði hann góða ástæðu til að ætla að hann væri enn í mikilli hættu, hann var raunverulega hræddur um hvað myndi gerast ef hann yrði sendur aftur til Kenýa og hafði miklar áhyggjur af konu sinni og syni. Ástæðan er m.a. sú að lögreglan í héraðinu hans var að leita hans, ekki aðeins vegna stjórnmála afskipta hans heldur einnig vegna þess að hann átti að hafa fengið 6. milljónir sendar frá Íslandi þegar hann stjórnaði ABC í Kenýa og falið þær einhversstaðar, þetta er bull og vitleysa eins og Þórunn Helgadóttir hjá ABC getur staðfest, vegna þessa leitaði lögreglan m.a. af honum í miðstöð ABC.
Áður en hann flúði úr landi, hafði hann verið handtekinn og beittur ofbeldi og pyntaður af lögreglunni ásamt 24. öðrum karlmönnum, þetta gerðist 3. janúar. Vegna þessa hafði hann liðið miklar kvalir, líkamlega og sálarlegar og var hjá sálfræðingi á vegum Rauða Krossins vegna þess.
Hann var raunverulega hræddur um að vera sendur til baka og hann hafði raunverulegar ástæður fyrir ótta sínum. Hann kom ekki til Íslands að gamni sínu eða til að liggja á kerfinu. Hann kom til að hann og kona hans og sonur gætu lifað við öryggi. Hann vann fyrir þeim á veitingastað í Rvk. og þau leigðu sér íbúð sem þau borguðu sjálf af. Þau eru ekki eitthvað hyski sem eru hingað komin af því það er svo gaman að vera hérna! (ekki að þú hafir sagt það nafnlaus, en ég hef séð marga segja það og það gerir mig bálreiða, það gæti ekki verið fjarri sannleikanum!)
Vonandi varpaði þetta einhverju ljósi á aðstæður þeirra.
Kv. Kristín Jóna"
Þetta finnst mér athyglisverð orð og ekki úr vegi að íhuga þau meðfram þeim boðskap sem berst frá dómsmálaráðherra og Útlendingastofnun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
5.7.2008 | 14:21
Útlendingalögin árétta mannúðarsnjónarmið
Mörður Árnason varaþingmaður hefur mælst til þess að dómálaráðherra taki upp mál Paul Ramses og kalli hann aftur til landsins. Það er Birni í lófa lagið að gera ef hann vill.
Á heimasíðu sinni í gær sakaði ráðherran gagnrýnendur sína í þessu máli um að stjórnast af tilfinningasemi en stjórnsýslan yrði hins vegar að styðjast við lagaleg rök í gerðum sínum.
Auðvitað! Og einmitt það var ekki gert. Lög þarf reyndar alltaf að túlka og skýra eftir eðli þeirra og anda. Meðal þeirra atriða eru mannúðarrök sem dómsmálaráðherra mundi líklega kalla tilfinningaleg rök í niðrandi merkingu. Í skilningi sínum á anda, já, beinlís bókstaf laganna, hefur Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra einmitt orðið á í messunni eins og sýnt verður fram á hér að neðan.
Í fyrsta lagi er ekki skylt að fara eftir heimild Dyflínarsamningsins um að senda flóttamenn til þess lands sem fyrst tók við þeim. Það er frjálst val eins og á milli góðs og ills.
Haukur Guðmundsson fullyrðir að eiginkona Paul Ramses dvelji hér ólöglega. Reyndar hafa engar frekari skýringar á þessu komið og það hefur m.a. Toshiki Toma prestur innflytjenda gagnrýnt. Ef lagaskilningur Hauks er að þessu leyti eins klár og í því atriði sem nú verða færð rök fyrir býð ég ekki í trúverðugleika staðhæfingar hans
Jafnvel þótt eiginkonan dveldi hér ólöglega stendur nefnilega svo í Lögum um útlendinga, 11.gr., skilyrði dvalarleyfis: "Veita má útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fulnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendings við landið."
Það er sem sagt ótvírætt tekið fram í landslögum að taka beri tillit til mannúðarsjónarmiða, öðru nafni tilfinningalegra raka.
Í 20. gr. segir að heimilt sé að vísa útlendingi úr landi ef hann dvelur ólöglega í landinu. Það er ekki skylt. Það er matsatriði út frá mannúðarsjónarmiðum meðal annarra sem ekki aðeins eru innbyggð í anda laganna heldur stendur þar beinlínis skýrum stöfum. Auk þess er sérstaklega tekið fram í lögunum að brottvísun af einmitt þessum ástæðum, ólöglegri dvöl (og ýmsum fleirum reyndar) "skuli ekki ákveða ef það með hliðsjón af málsatvikum og tengslum útlendingsins við landið munu fela í sér ósanngjarna ráðstöfum gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans."
Þegar ég í færslu minni í gær gagnrýndi Sigmar Guðmundsson í Kastljósi fyrir að vera illa undirbúinn og sýna linkind við forstjóra Útlendingastofnunar hafði ég meðal annars þessi atriði í huga í Lögum um útlendinga.
Aðalröksemd Hauks um það að gæta verði jafnræðisreglu" við afgreiðslu mála og eitt verði þá yfir alla að ganga fellur því um sjálfa sig af því að lagabókstafurinn segir annað. Hann gerir sérstaklega ráð fyrir frávikum vegna eðli mála. Allt það eðli hnígur að mannúðarsnjónarmiðum.
Þegar Björn Bjarnason skrifar "Ákvarðanir innan stjórnsýslunnar byggjast á þeim ramma, sem þeim eru settar í lögum og reglum", og þykist þar með vera að hafna tilfinningum, blasir við að stofnunin leit einmitt framhjá mikilvægum lagaboðum í afgreiðslu þessa máls.
Jú, Haukur neitar því að Paul Ramses hafi haft mikil tengsl við Ísland. Hann neitar því þá eflaust að taka beri nokkuð mark á skráðum mannúðarákvæðum Útlendingalaganna. Verkin hans tala.
Sú "tilfinningalega" gagnrýni sem andstæðingar dómsmálaráðherra hafa sett fram í þessu máli hnígur auðvitað að þessum mannúðarþáttum sem eru festir í landslög um útlendinga. Hún er ekki einhver óljós tilfinningasemi. Hún er krafa um að landslög séu ekki fótum troðin.
Það var þó gert miskunnarlaust við afgreiðslu máls Paul Ramses. Og það er hrikalegt að sjálfur dómsmálaráðherrann skuli verja það athæfi.
En hann getur enn séð sig um hönd.
Virt landslög og sýnt kristilega mannúð í verki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.7.2008 | 00:21
Já, Björn við höfum tilfinningar!
Í dag skrifar Björn Bjarnason dómsmálaráðherra þetta á heimasíðu sinni:
"Haukur Guðmundsson, settur forstjóri útlendingastofnunar, sat fyrir svörum hjá Sigmari í Kastljósi. Besti vitnisburður um, að Haukur hafi staðið sig vel, sést á því, að eindregnir andstæðingar niðurstöðu Hauks og samstarfsfólks hans meðal bloggara telja Sigmar ekki hafa verið nógu harðan í spurningum sínum! Þessu fólki er því miður ekki annt um, að rök fyrir niðurstöðunni séu skýrð, heldur vilja reka það með vísan til tilfinninga. Ákvarðanir innan stjórnsýslunnar byggjast á þeim ramma, sem þeim eru settar í lögum og reglum."
Já, Björn, við höfum tilfinningar og okkur svíður í hjartað. Þekkir þú þá tilfinningu?
Nei, það gerir þú ekki. Ef þú gerðir það myndirðu ekki í fínu ráðherrajakkafötunum þinum verja Hauk Guðmundsson og hrósa honum í hástert og stæra þig af snilld hans.
Já, og svo veist þú alveg eins vel og aðrir að í andstöðunni við gerðir þínar og undirsáta þinna hafa komið fram ýmis rök. En þú sérð þau ekki eða gerir lítið úr þeim eins og rökum Eiríks Bergmanns Einarssonar.
Það hafa komið fram bæði rök og tilfinningar. Þú og Haukur hafið vissulega ýmis rök.
En þið hafið engar tilfinningar.
Á verkunum skulum við þekkja ykkur.
Og það gerir þjóðin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:36 | Slóð | Facebook
4.7.2008 | 20:22
Viðbrögð Mala við Hauki og Sigmari í Kastljósinu
Hvernig stendur á því að hann Sigmar sem oft er grimmur eins og vargur við þá sem hann spyr út úr var eins og slytti þegar hann ræddi við Hauk Guðmundsson? Sigmar sýndist heldur ekki hafa undirbúið sig neitt. Hann virtist taka yfirlýsingu Hauks um ólöglega dvöl eiginkonu Ramses gilda að öllu leyti og spurði engra nánari spurninga út í hvernig því væri farið, hvað þá að hann spyrði óþægilegra spurninga. Ég er handviss um að vel undirbúinn spyrill sem eitthvað hefði kynnt sér lagabókstafi hefði getað leit ýmislegt í ljós. Skýringarlausa staðhæfingu Hauks Guðmundssonar er ekki hægt að taka alvarlega og Sigmar átti einmitt að sýna fram á það. Hefði það verið fagleg vinnubrögð.
Einkennilegt var annars að horfa á Hauk. Hann er maður sem lætur engan bilbug á sér finna og samviskan vefst ekki fyrir honum eða það sem kallað er "mannúð". Enda hefur hann reglurnar á hreinu. Og hann mun óhikað halda áfram á sinni braut. Björn Bjarnason treystir honum líka fullkomlega.
Það fauk í hann Mala yfir linku Sigmars og vélrlænu miskunnarleysi Hauks. Ég náði myndum af því þegar hann mótmælti hástöfum og þegar hann varð svo heitur að hann varð bókstaflega að kæla sig niður.
Loks er bónusmynd af því þegar Mali var að blása á kertið þegar hann átti eins árs afmæli.
Mali er góður köttur. Og í augum guðs er betra að vera góður köttur en vondur maður.
Mali að prótestera.
Mali að kæla sig niður.
Mali að blása á afmæliskertið.
Hægt er að stækka myndirnar mjög með því að smella þrisvar á þær.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
4.7.2008 | 14:25
Koma verður í veg fyrir enn verri glæp
Eftir fréttum að dæma er yfirvofandi á næstu dögum að eiginkonu Paul Ramses og eins mánaðar gömlu barni þeirra hjóna verði vísað úr landi. Það verður væntanlega gert af skyndingu og með leynd. Það ríður þess vegna á því að góðir menn haldi vöku sinni og reyni að koma í veg fyrir þá nauðungarflutninga með öllum ráðum.
Það er umhugsunarvert hve fjölmiðlar hafa í raun sýnt þessu máli lítinn áhuga eins og Jónas Kristjánsson hefur bent á og hann segir réttilega að málið sá hápólitískt. Það varðar hvernig flóttamannapólitík við viljum reka og reyndar líka hvaða mannúðarsjónarmið við viljum halda í heiðri.
Við erum ekki bundin af þessum Dyflínarsamningi en hins vegar íslensum lögum. Tengsl Paul Ramses við Ísland og jafnvel íslensk stjórnvöld eru öllum kunn og alveg vafalaus. Í lögum um útlendinga nr. 96/2002, 46. gr. rétt til hælis, stendur skýrum stöfum:
"Ekki skal endursenda flóttamann til annars ríkis skv. c-, d- og e-lið 1. mgr. ef hann hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd."
Það er því ljóst að Útlendingastofnun undir verndarvæng dómsmálaráðherra er að brjóta grundvallarlög á Ramses auk þeirra lagabrota sem fólust í málsmeðferðinni og lögmaður hans hefur lýst.
Samkvæmt fréttum er komið fram við Ramses sem glæpamann og hann er í fangelsi á Ítalíu og gæta hans fjórir vopnaðir verðir.
Nú eru þeir í starholunum til að vísa eiginkonu Ramses og barni úr landi. Fólk finnur auðvitað til vanmáttar síns í þessu máli frammi fyrir miskunnarlausum stjórnvöldum. En reynslan sýnir samt að stundum hefur mótstaða almennings haft áhrif á stjórnvöld. Og kannski er einn liðsmaður almennings í sjálfri ríkisstjórninni. Utanríkisráðherra hefur lýst því yfir að henni sé umhugað um þetta mál. Getur hún þá ekki sýnt umhyggju sína í verki og beitt áhrifum sínum til að fá Paul Ramses aftur til landsins til fjölskyldu sinnar í stað þess að henni verði allri vísað út landi til sitt hvors landsins. Getum við staðið undir því siðferðilega sem þjóð að slíkt gerist?
Það veður að koma í veg fyrir þann glæp með öllum ráðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006