Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
3.7.2008 | 18:22
Grimmd og miskunnarleysi
Vísir sendi Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra nokkrar spurningar varðandi umsókn Paul Ramses og starfsemi og vinnureglur Útlendingastofnunar. Svar Björns var svohljóðandi:
(H)vert mál er skoðað fyrir sig af útlendingastofnun, hún leggur mat á umsóknir og kemst að niðurstöðu um afgreiðslu þeirra. Ef fólk er ósátt við þá niðurstöðu er unnt að kæra hana til ráðuneytisins og/eða leita til umboðsmanns alþingis og dómstóla vegna málsins. Réttarstaða útlendinga hér á landi er skýr og á síðasta þingi sameinaðist alþingi um breytingar á útlendingalögum til að skýra þessa stöðu enn betur. Dyflinarsamningurinn er einnig skýr og honum er beitt af aðildarríkjum hans. Að sjálfsögðu er ekkert ólögmætt eða athugavert að beita þeim samningi frekar en öðrum milliríkjasamningum."
Þá veit maður það. Það er kannski ekkert ólöglegt við þessa afgreiðslu. En hún er að sjálfsögðu svo grimm og miskunnarlaus að furðu sætir. Hún er "ómennsk" eins og Atieno Othiembo eiginkona Paul Ramses komst að orði. Ekki má heldur gleyma því að réttur var brotinn á Paul af yfirvöldum.
Það lætur Björn Bjarnason sig engu skipta. Ekki heldur að fjölskyldu var sundrað. Ekki heldur að Paul er í lífshættu ef hann skyldi verða sendur aftur til Kenía frá Ítalíu sem virðist ekki vera mjög hælisleitavænt land.
Hvernig getur maður sem er svo að segja fæddur inn í valdakerfið og situr í skjóli þess, varinn á allar hliðar af stærsta stjórnmálaflokki landsins og ríkisstjórninni, með góðar tekjur áratugum saman svo segja má að hann velti sér upp úr hóglífi og munaði sýnt svona takmarkalausa grimmd og miskunnarleysi gagnvart þeim sem eiga undir högg að sækja? Hvernig er það bara hægt?
Viðbrögð dómsmálaráðherra eru fullkomlega ómennsk.
Auðvitað mun hann samt láta sig engu skipta hvað menn segja um gerðir hans. Hann situr öryggur í sínu skjóli fjarri þjáningu heimsins. Sinnulaus um þjáningu heimsins. Eykur á þjáningu heimsins og ver afstöðu sína með kjafti og klóm.
Og það er fleira uppi í þessu dæmalausa máli.
Haukur Guðmundsson forstöðumaður Útlendingastofnunar sagði í útvarpinu áðan að eiginkona Ramses sé hér ólöglega. Hann segir að henni og eins mánaðar gömlu barninu verði umsvifalaust vísað úr landi. Reyndar sagðist hann ekki geta rætt þetta mál sérstaklega en lét sig samt hafa það að koma hiklaust höggi á konuna fyrir augum allrar þjóðarinnar. Lítilmennska og hræsni Hauks er blátt áfram sjúkleg.
Og af þessum tilgreindu ástæðum segir hann að það sé tómt mál að tala um að fjölskyldunni sé sundrað.
Frá mannúðarsjónamiði er þessi rökfærsla hans fyrir neðan allar hellur. Og það vekur ugg að henni sé beitt af embættismanni ríkisns.
Hvað er eiginlega að gerast á Íslandi að þessi maður skuli óáreittur líðast níðingsverk sitt með brottvísum Paul Ramsens og hóti öðru verra og dómsmálaráðherra landsins skuli verja það af öllu afli?
Mun þjóðin leyfa þessum vondu mönnum að komast upp með þetta?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Keníumaðurinn Paul Ramses, sem íslensk stjórnvöld vísuðu úr landi án þess að taka fyrir mál hans, var fluttur úr landi í morgun með lögregluvaldi.
Hann starfaði um tíma við hjálparstarf Í Kenía sem íslensk stjórnvöld komu að. Ramses tók einnig þátt í borgarstjórnarkosningum í Næróbí í Kenía í desember í fyrra en náði ekki kosningu heldur andstæðingur hans í stjórnarflokki landsins. Eftir kosningarnar urðu margir stjórnarandstæðingar fyrir ofsóknum, Paul óttaðist því um líf sitt og flúði land í janúar síðastliðinn. Kom hann til Íslands og sótti um hæli sem pólitískur flóttamaður af því að hann dvaldi hér um tíma árið 2005 og starfaði eftir það fyrir ABC barnahjálp í Kenía. Paul tók þátt í að stofna skóla í Næróbí með Íslendingum og var það meðal annars stutt af utanríkisráðuneytinu.
Á leið sinni hingað millilenti Paul á Ítalíu. Ákvæði í Dyflinarsamningnum gefur íslenskum stjórnvöldum heimild - en gerir þeim ekki skylt - til að vísa flóttamanni aftur til þess lands sem fyrst veitir vegabréfsáritun og ber því landi, sem sagt Ítalíu í þessu tilviki ef heimildin er notuð, að taka afstöðu um það hvort honum verður veitt pólitískt hæli. Paul á konu og 3 vikna son sem eru hér á landi. Fjölskyldunni hefur því verið stíað í sundur.
Lögmaður Ramses sagði að í gær hafi lögreglan komið inn á heimili Pauls og tekið hann í fangelsi. Þar sat hann í nótt og var svo fluttur út í morgun.
Sagt er að tveir menn hafi þá farið út á flugbrautina, sem mun vera lögbrot, til að mótmæla nauðungarflutningum á Ramses. Þeir voru handteknir og færðir í fangaklefa til yfirheyrslu. Kristján Eyjólfsson fulltrúi lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli lítur á þetta mál alvarlegum augum enda varði athæfið hugsanlega við sex ára fangelsi.
En mig langar mig til spyrja: Hvers vegna handtekur lögreglan ekki forstöðumann Útlendingastofnunar, þegar í stað og yfirheyrir hann fyrir brot stofnunnarinnar á rétti Paul Ramses?
Hvernig skyldi forstöðumanninum annars líða þegar hann kemur í kvöld heim til fjölskyldu sinnar yfir þeim verknaði sínum að hafa stíað annarri fjölskyldu í sundur og stofnað jafnvel lífi fjölskylduföðurins í hættu?
Bara vel? Í það minnsta mun hannh verja gerðir sínar fram í rauðan dauðann - sanniði til- og stjórvöld munu styðja hann samviskusamlega eða öllu fremur án nokkurrar samvisku í því með ráðum og dáðum.
Hvaða glæpur var annars framinn í þessari atburðarás og hverjir eru glæpamennirnir sem ættu skilið að verða dæmdir í að minnsta kosti sex ára fangelsi?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
28.5.2008 | 20:08
Óvirðing við þjóðina
Er það óvirðing við dómara að sjá það sem blasir við að þeir afgreiddu beiðnir um hleranir alveg sjálfvirkt án þess að spyrja um rök eða meta beiðnirnar á nokkurn hátt? Bara stimpluðu. Ekki eru til nein dæmi um að þeir hafi synjað beiðni um hleranir.
Er ekki vænlegra að menn horfist af hugrekki og heiðarleika í augu við það hvernig dómarar brugðust heldur en fara í vörn fyrir þá?
Það er ekki eins og dómarar séu heilagir. Spilltir dómarar! Þeir eru nú ekki einsdæmi.
Þáttur dómarana er kannski alvarlegasti þáttur hleranamálsins. Og það á að ræða þann þátt í stað þess að fá kaldastríðsflog í afneitun.
En það er kannski hægt að skilja að dómsmálaráðherra vilji ekki að ymprað sé á þessu. Könnun á því gæti leitt ljós samþættingu flokksvalds og dómstóla svo geðsleg sem sú hugsun er.
Annars ætti dómsmálaráðherra að tala sem minnst um óvirðingu. Hvernig hann hagar sér bullandi vanhæfur í þessu máli er einhver mesta óvirðing sem stjórnmálamaður hefur nokkru sinni sýnt þjóðinni. Auðvitað kemst hann samt upp með það af því að í pólitík standa menn alltaf með sínum mönnum.
En það hlýtur að vekja óbeit alls sæmilegs fólks.
Dómarar ekki viljalaus verkfæri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.5.2008 | 13:00
Við dæmum alltaf aftur í tímann
Í morgunvaktinni sagði Sif Friðleifsdóttir alþingismaður um hleranirnar að erfitt væri að dæma svona aftur í tímann og það ætlaði hún ekki að gera. Hún sagði líka að þetta hefðu verið lögregluaðgerðir. Kristinn H. Gunnarsson rak það snarlega ofan í hana. Aðgerðirnar hefðu aðeins að forminu til verið lögregluaðgerðir en verið pólitískar fyrst og fremst. Það held ég að fáir efist nú um.
Sif þykist vera voða sanngjörn og víðsýn með því að segjast ekki taka þátt í að dæma aftur í tímann. Samt gerir hún það sjálf. Mat hennar á atburðum fylgir skoðun þeirra stjórnvalda sem létu hlera. Það er hennar "dómur" um atburðina. Að hún skuli ekki fatta það!
Við erum alltaf að meta fortíðina, leggja "dóma" á hana. Sagnfræðin gengur t.d. út á það. Ekki gengur að leggja það út sem eitthvað ámælisvert eins og Sif gerir.
Í hleranamálinu hafa þær forsendur þegar komið fram í gögnum sem gera mönnum fært að leggja dóma á það að þær hafi verið vafasamar. Það felst í því að hleranabeiðnirnar voru oftast ekki rökstuddar og aldrei lagt á þær gagnrýnt mat af dómurum. Þær voru þess vegna gerræði en ekki viðunandi réttarríkisathöfn.
Þetta nægir alveg til að fordæma hleranirnar.
Það þarf virkilega stjórnmálenn til að láta sér yfirsjást þetta.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2008 | 10:41
Hleranirnar voru bara venjulegur ruddaskapur
Það er ekki hægt að afsaka hleranir á 32 íslenskum heimilum árin 1949-1968 með tílvísun til kalda stríðsins. Það er ekki hægt að réttlæta allt sem miður fer í ljósi tíðaranda.
Hleranirnar voru ruddaleg innrás í einkalíf fjölda fólks, ekki bara þeirra sem skráðir voru fyrir númerunum heldur allra heimilismanna og þeirra grunlausu einstaklinga sem hringdu í númerin.
Óhugnanlegast er að hleranabeiðnirnar voru næstum því aldrei rökstuddar og efnisleg afstaða tekin til þeirra heldur runnu þær sjálfkrafa í gegnum dómskerfið. Hlutur dómara er þar sérstaklega ámælisverður. Þeir eiga að gæta réttinda almennings og vera þröskuldur til hindrunar fyrir órökstuddri ásælni stjórnvalda í líf þeirra. Við afgreiðsluna var oft ekki vísað í eina einustu lagagrein. Dómararnir voru með öðrum orðum algjör gagnrýnislaus þý stjórnvalda og brugðust gjörsamlega skyldu sinni við almenning. Þetta mál ætti að verða tilefni til alvarlegra umræðna meðal lögfræðinga. En ætli þeir þegi ekki bara.
Auðvitað á að draga nöfn dómaranna fram í dagsljósið. Það er varla meira óviðeigandi en það að þeir leyfðu hleranirnar.
Flestar fóru þær fram að beiðni Bjarna Benediktssonar ráðherra. Hann hefur almennt verið hafinn upp til skýjanna, að minnsta kosti af samherjum hans í stjórnmálum. Má ekki endurskoða það álit? Er það nokkur sæmilegur maður sem ræðst af fádæma fruntaskap inn í einkalíf samborgara sinna? Svo hélt hann föðurlegar ræður til þjóðarinnar á gamlárskvöld og við ýmis önnur tækifæri án þess að hún hefði grun um hvílíkur úlfur fór þar í sauðargæru.
Auðvitað eiga núverandi stjórnvöld að biðja viðkomandi einstaklinga, niðja þeirra og þjóðina alla afsökunar á þessum dónaskap. En halda menn að Björn Bjarnason geri það? Vitaskuld mun hann verja föður sinn fram í rauðann dauðann eða yppta bara öxlum. Það er venjan meðal stjórnmálamanna undir svona kringumstæðum. Virðing og sæmd þeirra einstaklinga sem brotið var á skiptir engu máli í samanburði við orðstír einhvers stjórnmálarefsins sem líklega var oflofaður fram úr öllu hófi eins og venjan er með slíka menn.
Og þeir munu áreiðalega finnast, aðallega eftirlegukindur frá kaldastríðsárunum, sem munu reyna að réttlæta þessar hleranir og gera sem minnst úr þeim. Sem betur fer er slík þrælslund við stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka á undanhaldi meðal fólks í nútímanum.
Menn vilja bara heiðarleika alls staðar og skiptir þá ekki máli hver stjórnmálaflokkurinn er. Og það á ekki að afsaka stjórnvöld, hver svo sem þau eru, þegar þau koma aftan að þegnunum, hverjir svo sem þeir eru, án rökstudds tilefnis. Það finnst mér grundvallaratriði.
Svo er það mikilvægasta spurningin: Getur ekki alveg verið að núverandi stjórnvöld séu að fremja einhver svívirðileg athæfi gegn okkur borgunum án okkar vitundar?
Viðbót: Viðbrögð dómsmálaráðherra koma reyndar ekki á óvart. Annars er ekki hægt að skilja hvað hann á við með orðunum að dómur sögunnar sé á einn veg. Það er ekki hægt að sjá til hvers þessi orð eiga að vísa. Þess vegna eru þau bara innantóm merkingarleysa. Björn grípur svo til þess skjálkaskjóls að afsaka hleranirnar með kalda stríðinu. Það var algjörlega fyrirsjáanlegt. En þegar kveðinn er upp dómsúrskurður um hleranir hjá einstaklingum verður að vera einhver sérstækari ástæða fyrir því en almennt ástand eða ímundunarafl. Og það ætti ráðherran að vita. Hann vill það bara ekki. Það er greinlegt að Björn sér ekkert athugavert við þá sjálfvirku afgreiðslu sem málin fengu og er það hrollvekjandi þegar dómsmálaráðherra á í hlut. Afstaða ráðherrans sýnir annars hvað honum finnst í lagi í mannlegum samskiptum. Hvað myndi hann segja ef ég æddi inn í svefnherbegi hans á skítugum skónum? Hleranir stjórnvalda á þessum eisntaklingum voru hliðstæður dónaskapur. Það á ekki að afsaka slíkt framferði bara af þvi að stjórnvöld áttu í hlut. En viðbrögð dómsmálaráðherra einkennast bæði af hroka og ragmennsku. Og hann situr sjálfur í skjóli valdsins. Þvílíkur heigull sem hann getur verið.
32 heimili voru hleruð á árunum 1949-1968 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.4.2008 | 10:04
Vörubílstjórar nota bíla sína sem þungavopn
Nú eru vörubílstjórar búnir að loka suðurlandsvegi við Rauðavatn.
Um daginn kom ég þar að sem þeir höfðu lagt bílum sínum í Tryggvagötu. Þetta eru engir smáræðis trukkar. Þá varð mér ljóst hvers vegna lögreglan lætur bílstjórana vaða uppi án þess að grípa til nokkurra aðgerða gegn þeim að heitið geti.
Bílarnir eru eins og þungavopn. Það myndi t.d. lítið þýða fyrir lögregluna að handtaka bílstjórana og færa þá á stöðina því enginn lifandi máttur gæti fært þessa mörgu bíla úr stað sem myndu þá teppa umferðina von úr viti.
Þetta vita bílstjórarnir. Þeir fara um sem sveit alvopnaðra manna sem enginn þorir eða getur staðið á móti.
Þeir haga sér eins og frumstæðir ruddar sem vaða áfram í krafti afls og einskis annars. Eftir er bara að vita hvort þjóðfélagið ætlar að láta það líðast að slíkir menn koma kröfum sínum fram, t.d. þá fáránlegu frekju þeirra um hvíldartímann sem dómbærir menn segja að muni stefna lífi og limum vegfaranda í hættu ef hún nær fram að ganga.
Vörubílstjórarnir eru að fremja eins konar hryðjuverk og nota bíla sína sem vopn líkt og aðrir hafa notað flugvélar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
21.3.2008 | 11:12
Er hlutleysi nokkuð hlutleysi?
Formaður ólympíusambands Íslands, Ólafur Rafnsson, segir að tal um að sniðganga ólympíuleikana sé skaðlegt. Rætt hefur verið um í fjölmiðlum hvort Íslendingar eigi að sniðganga þá til að mótmæla mannréttindabrotum í Kína og einkum meðferðinni á Tíbetum. Hann segir:
Menn verða að gera sér grein fyrir því að þetta er íþróttaviðburður og íþróttahreyfingin er ekki pólitísk í eðli sínu. Þannig að það er varhugavert að menn fari að blanda þessu tvennu saman," segir Ólafur. Hann segir þó að í þessari skoðun sinni felist engin afstaða gagnvart því sem sé að gerast í Kína.
Ólafur segir alla umræðu um að sniðganga Ólympíuleikana vera óheppilega og til þess fallna að skaða þriðja aðila, Ólympíuhreyfinguna.
Allir gera sér grein fyrir því að ólympíuleikarnir eru íþróttaviðburður. Það er hins vegar mikið vafamál hvort íþróttahreyfingin sé eins ópólitísk og Ólafur vill vera láta. Það er að minnst kosti víst að ólympíuleikarnir eru hápólitískt fyrirbæri. Núna eru Kínverjar til dæmis að nota leikana til að sýna auð sinn og vald meðal þjóðanna og vinna sér inn álit til að vega upp á móti gagnrýni á ástandið í mannréttindum í landinu.
Það er ómögulegt að komast hjá því að sjá ólympíuleikana í alþjóða pólitísku ljósi. Þar af leiðir að ólympíuhreyfingin er engan vegin ópólitísk hreyfing. Og það var pólitísk ákvörðun að leyfa Kínverjum að halda leikana.
Er þá hægt að horfa fram hjá því með tilvísin til þess að þetta sé bara '' pólitík'' þegar verið er að brjóta niður þrek og menningarlega reisn fornrar menningarþjóðar sem lengst af sögu sinnar var algjörlega sjálfstæð þjóð með því að segja: Æ, við skiptum okkur ekki af ''pólitík''. Það er verið að drepa menn, hneppa þá í fangelsi fyrir það eitt að krefjast sjálfsvirðingar fyrir þjóð sína og kínversk fangelsi fyrir andófsmenn eru engin heilsuhæli. Þar geta menn frekar búist við pyntingum.
Ólafur segir að í skoðun sinni felist engin afstaða um það sem sé að gerast í Kína.
Það er rangt. Í afstöðu hans felst einmitt stuðningur við kúgarann gegn hinum kúgaða. Það er verið að drepa fólk og hneppa það í fjötra. Er það ekki skýr afstaða með kúgaranum að láta sig það engu skipta?
Hlutleysi er vissulega oft til sem valkostur. En í vissum aðstæðum er hlutleysi ekki neinn raunverulegur valkostur. Þú ert á gangi meðfram vatnsbakka og sérð barn falla í vatnið. Þú hefur um það að velja að reyna að bjarga barninu eða ganga framhjá. Hvort tveggja er verknaður. Siðferðislegt val. Frammi fyrir þessu vali standa nú þjóðir heims.
Það er auðvitað hugsanlegt að andóf heimsins gegn ólympíuleikunum hafi áhrif á þriðja aðila, hina hápólitísku ólympíuhreyfingu. Ef engir yrðu leikarnir myndu hún líklega telja sig hafa orðið fyrir skaða.
Er sá skaði samt ekki lítilfjörlegur í samanburði við heill og hamingju heillar þjóðar sem býr auk þess yfir slíkum auði fornra handrita að íslensku handritin verða harla lítilvæg til samanburðar?
Hér vil ég taka fram utan dagskrár að ég hef alltaf fylgst með ólympíuleikum af miklum áhuga. Ég er enginn andsportisti.
Og það eru fleiri fletir á þessu máli en Tíbetógæfan. Ólympíuleikarnir í Kína eru meðal annars byggðir á miklu ranglæti og miskunnarleysi í garð kínverskra alþýðu. Hreinni þrælkun. Um það hafa borist áreiðanlegar upplýsingar.
Gerum ráð fyrir að Íslendingur vinni til verðlauna á leikunum. Gætum við í ljósi aðstæðna nokkuð fundið fyrir stolti vegna þess? Myndum við ekki fremur hugsa um það blóð sem hefur þurft að renna til að gera ólympíuleikana að raunveruleika, þá grimmd, kúgun og miskunnarleysi sem er í bakgrunni þeirra?
Ég held að það muni allt skárra fólk gera sem ekki hefur algjörlega skorið á manlega samkennd og samúð í brjóstinu en látið glepjast af glýju og glæsileika.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2008 | 18:34
Hótanir og raunveruleiki
Geir Sigurðsson segir að hótanir um að þjóðir heims hætti við að senda lið á ólympíuleikana vegna Tíbets hafi engin áhrif á leiðtoga Kína. En ef ríki heims myndu í alvöru hætta við að senda fólk á leikana yrðu engir ólympíuleikar og smán kínverskra stjórnvalda yrði óumræðileg.
Boltinn er sem sagt hjá þjóðum heims. Þetta er fyrst og fremst siðferðilegt spursmál.
Jú, jú, ég veit að svona hugmyndir fara ekki vel í suma. En þetta er samt einfalt ráð sem myndi ganga upp. Án þátttakenda verða engir ólympíuleikar.
Engu var reyndar líkara í Spegli Ríkisútvarpsins en Geir Sigurðsson, forstjóri Asíusetursins, talaði sem sérstakur fulltrúi kínverskra stjórnvalda á Íslandi.
Aftur var Geir Sigurðsson að bera blak af kínverskum stjórnvöldum í Kastljósi og reyndi allt hvað af tók að gera tíbetska útlaga að ómerkingum. Er ríkisfjölmiðlunum algerlega ofviða að finna einhverja aðra en þennan eina og sama mann til að fjalla um málið?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:55 | Slóð | Facebook
16.3.2008 | 18:22
Hvað gera íþróttahreyfingarnar?
Dalai Lama, landflótta foringi Tíbetbúa, segir að Kínverjar séu að fremja menningarmorð á tíbetsku þjóðinni. Viðbrögð íbúanna síðustu daga virðast draga dám af örvæntingu til að fá athygli umheimsins þegar ólympíuleikarnir eru framundan og allra augu beinast að Kína.
Tíbet hefur nú verið lokað, herlög eru í gildi og sagt er að allt að hundrað manns hafi fallið og sýnir það hörku Kínverja.
En hvað gera íþróttahreyfingar í heiminum? Ætla þær bara að láta sem ekkert sé? Maður gæti ímyndað sér að það yrði ægilegt vopn ef íþróttahreyfingar heimsins settu Kínverjum hreinlega stólinn fyrir dyrnar og segðu: Annað hvort komið þið fram við Tíbeta eins og menn eða það verða engir keppendur á ólympíuleikunum.
Hvaða máli skipta glysgjarnir ólympíuleikar í samanburði við hamingju heillar þjóðar?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.2.2008 | 14:06
Myndbirtingar
Til hvers eru fjölmiðlar að birta myndir af dæmdum sakborningum sem aðeins fá 30 daga skilorðsbundinn dóm og smávægilega sekt? Það er ekki eins og brotið hafi jafnast á við morð eða gróft kynferðisbrot.
Mynd-og nafnbirtingar vegna svo vægra afbrota eru ekkert nema ótuktarskapur sem aðeins þjónar því markmiði að niðurlægja viðkomandi fyrir alþjóð. Ég tala nú ekki um þegar augljóslega er um hálfgerða smælingja að ræða sem ekki hafa afl til að að takast á við hákarlana í þjóðfélaginu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.12.2008 kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006