Er hlutleysi nokkuð hlutleysi?

Formaður ólympíusambands Íslands, Ólafur Rafnsson, segir að tal um að sniðganga ólympíuleikana sé skaðlegt. Rætt hefur verið um í fjölmiðlum hvort Íslendingar eigi að sniðganga þá til að mótmæla mannréttindabrotum í Kína og einkum meðferðinni á Tíbetum. Hann segir:

„Menn verða að gera sér grein fyrir því að þetta er íþróttaviðburður og íþróttahreyfingin er ekki pólitísk í eðli sínu. Þannig að það er varhugavert að menn fari að blanda þessu tvennu saman," segir Ólafur. Hann segir þó að í þessari skoðun sinni felist engin afstaða gagnvart því sem sé að gerast í Kína.

Ólafur segir alla umræðu um að sniðganga Ólympíuleikana vera óheppilega og til þess fallna að skaða þriðja aðila, Ólympíuhreyfinguna.

Allir gera sér grein fyrir því að ólympíuleikarnir eru íþróttaviðburður. Það er hins vegar mikið vafamál hvort íþróttahreyfingin sé eins ópólitísk og Ólafur vill vera láta. Það er að minnst kosti víst að ólympíuleikarnir eru hápólitískt fyrirbæri. Núna eru Kínverjar til dæmis að nota leikana til að sýna auð sinn og vald meðal þjóðanna og vinna sér inn álit til að vega upp á móti gagnrýni á ástandið í mannréttindum í landinu. 

Það er ómögulegt að komast hjá því að sjá ólympíuleikana í alþjóða pólitísku ljósi. Þar af leiðir að ólympíuhreyfingin er engan vegin ópólitísk hreyfing. Og það var pólitísk ákvörðun að leyfa Kínverjum að halda leikana. 

Er þá hægt að horfa fram hjá því með tilvísin til þess að þetta sé bara '' pólitík'' þegar verið er að brjóta niður þrek og menningarlega reisn fornrar menningarþjóðar sem lengst af sögu sinnar var algjörlega sjálfstæð þjóð með því að segja: Æ, við skiptum okkur ekki af ''pólitík''. Það er verið að drepa menn, hneppa þá í fangelsi fyrir það eitt að krefjast sjálfsvirðingar fyrir þjóð sína og kínversk fangelsi fyrir andófsmenn eru engin heilsuhæli. Þar geta menn frekar búist við pyntingum. 

Ólafur segir að í skoðun sinni felist engin afstaða um það sem sé að gerast í Kína. 

Það er rangt. Í afstöðu hans felst einmitt stuðningur við kúgarann gegn hinum kúgaða. Það er verið að drepa fólk og hneppa það í fjötra. Er það ekki skýr afstaða með kúgaranum að láta sig það engu skipta? 

Hlutleysi er vissulega oft til sem valkostur. En í vissum aðstæðum er hlutleysi ekki neinn raunverulegur valkostur. Þú ert á gangi meðfram vatnsbakka og sérð barn falla í vatnið. Þú hefur um það að velja að reyna að bjarga barninu eða ganga framhjá. Hvort tveggja er verknaður. Siðferðislegt val. Frammi fyrir þessu vali standa nú þjóðir heims.

Það er auðvitað hugsanlegt að andóf heimsins gegn ólympíuleikunum hafi áhrif á þriðja aðila, hina hápólitísku ólympíuhreyfingu. Ef engir yrðu leikarnir myndu hún líklega telja sig hafa orðið fyrir skaða. 

Er sá skaði samt ekki lítilfjörlegur  í samanburði við heill og hamingju heillar þjóðar sem býr auk þess yfir slíkum auði fornra handrita að íslensku handritin verða harla lítilvæg til samanburðar? 

Hér vil ég taka fram utan dagskrár að ég hef alltaf fylgst með ólympíuleikum af miklum áhuga. Ég er enginn andsportisti. 

Og það eru fleiri fletir á þessu máli en Tíbetógæfan. Ólympíuleikarnir í Kína eru meðal annars byggðir á miklu ranglæti og miskunnarleysi í garð kínverskra alþýðu. Hreinni þrælkun. Um það hafa borist áreiðanlegar upplýsingar.

Gerum ráð fyrir að Íslendingur vinni til verðlauna á leikunum. Gætum við í ljósi aðstæðna nokkuð fundið fyrir stolti vegna þess? Myndum við ekki fremur hugsa um það blóð sem hefur þurft að renna til að gera ólympíuleikana að raunveruleika, þá grimmd, kúgun og miskunnarleysi sem er í bakgrunni þeirra?

Ég held að það muni allt skárra fólk gera sem ekki hefur algjörlega skorið á manlega samkennd og samúð í brjóstinu en látið glepjast af glýju og glæsileika. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll.  Ég tek heils hugar undir þetta með þér.

Sniðgöngum þessa blóðugu hápólitísku Ólympíuleika sem kúgararnir í Kína eru að efna til. Tilgangur þeirra er alveg ljós eins og þú bendir réttilega á. Heiðrum ekki skúrkinn.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 21.3.2008 kl. 12:21

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég er sammála þér, Sigurður, og ykkur Predikaranum báðum.

Nú eru tíbezkir íbúar í Tíbet taldir 6 milljónir eða tæplega það (sjá HÉR), en 7,5 milljónir Kínverja (sjá HÉR). "Talið er að um 70–80% af um 270.000 íbúum Lhasa séu af kínversku bergi brotin" (Bogi Þór Arason, blm. Mbl.). Á þessu má sjá, hve langt Kína-kommúnistar eru komnir áleiðis með að leggja smám saman undir sig allt landið með því að Kínavæða það. Fyrri tölurnar jafngilda því, að Danir hefðu skilið svo við okkur Íslendinga, að nú væru hér 129.000 manns íslenzkir, 161.000 Danir og 23.000 aðrir útlendingar! (þetta er þó líklega væg ágizkun um fjölda útlendinganna, 23.000 af um 313.000 landsmönnum).

Menn athugi, að þjóðernishreinsanir (ethinc cleansing) Kínverja fara ekki aðeins fram með því að flytja Tíbeta burt í fangabúðir og af svæðinu, en milljónir Kínverja inn í Tíbet, heldur einnig í því formi að banna Tíbetum að eiga fleiri börn en eitt og með þvinguðum fósturdrápum og ófrjósemisaðgerðum, á meðan Kínverjarnir í Tíbet fá undanþágu frá "eins barns reglunni" í Kínaveldi og er leyft að eignast tvö börn! Á tiltölulega stuttum tíma leiðir þetta til langtum meiri smækkunar hinnar eiginlegu Tíbetþjóðar og algerrar kínverskuvæðingar landsins, sem orðin er mikil nú þegar, t.d. í höfuðborginni – en einnig var á löngu árabili bannað að tala tíbezku í skólum landsins.

Með því að þegja og gera ekkert – með því að mæta þægir á Ólympíuleikana – eru Íslendingar því EKKI að sýna hlutleysi, heldur taka afstöðu með svívirðilegri valdbeitingu kínverska kommúnistaflokksins við þessa fátæku og áður sjálfstæðu fjallaþjóð.

En við getum vel gert það, sem gera ber í þessu máli. Mætum á morgun, laugardag, kl. 3 fyrir framan kínverska sendiráðið á Víðimel 27 til að sýna Tíbetum samstöðu okkar. Lítið á hvatningarskrif Birgittu Jónsdóttur listakonu um málið! Henni fannst ófært að segja "já" í huga sínum við réttlæti til handa Tíbet, en gera ekkert í málinu. Ef við metum okkar eigin sjálfstæði, ættum við ekki með vanrækslu okkar, heigulsskap og leti að neita stærri þjóð eins og Tíbetum um hið sama. Það er ekki oft sem við fáum tækifæri til að sýna samstöðu okkar með mannréttindum með þessum hætti. Og ef vinstrimenn eins og Ögmundur Jónasson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Birna Þórðardóttir og Stefán Pálsson geta gert það (þau voru á mótmælafundinum við sendiráð Kína 17. marz), þá ættu hægri- og miðjumenn að geta gert það sama.

Svo má benda á eitt til viðbótar vegna þinnar ágætu greinar, Sigurður: Kínverjar hafa eytt og rænt miklu af handritum Tíbeta, m.a. í hinni andmenningarlegu, andtrúarlegu "Menningabyltingu". Ekki nóg með það, heldur var yfir 6.000 helgistöðum Tíbeta lokað eða þeim breytt í annað og styttur bræddar upp í hundraða tonna tali (sjá nánar HÉR og hér í Mbl.). Kínverjar stunda þannig hryðjuverk gegn menningu og þjóðerni Tíbeta – minnumst þess næst, þegar við hlustum á fagurgala þeirra á skjánum.

Jón Valur Jensson, 21.3.2008 kl. 14:36

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta með handritaeyðinguna er satt og rétt. Og þar fóru bækur sem ekki eiga sínar líka í víðri veröld.

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.3.2008 kl. 15:15

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Varstu búinn að sjá þetta, Siggi?

Lára Hanna Einarsdóttir, 22.3.2008 kl. 02:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband