Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Snjóar snemma í Reykjavík

Í morgun var alhvítt í Reykjavík og mældist snjódýptin 13 cm og er hvergi meiri á landinu. Mun þetta  vera næst mesta snjódýpt sem hefur mælst í októtber í höfuðborginni en mest hefur mælst 15 cm þ. 22. árið 1921. Ekki byrjaði þá að snjóa fyrr en eftir miðjan mánuð. Snjódýptin í morgun mun því vera  mesta snjódýpt sem mælst hefur í Reykjavík svo snemma hausts frá stofnun Veðurstofunnar. Einstaka sinnum hefur fest snjó í september, mest 8 cm þ. 30. 1969. Að jafnaði festir fyrst snjó í Reykjavík fyrstu dagana í nóvember en ýmis frávik eru vitanlega á því.

Alautt að staðaldri í vor varð 25. apríl og hefur snjólausi tíminn því varað í 165 daga. Frá 1924 er það þriðji minnsti fjöldi snjólausra daga að sumri ásamt 1969. Færri voru þeir 1990, 154 dagar, en 1967 voru þeir 158. Meðaltalið frá 1949 eru 200 dagar.  

Á fylgiskjalinu frosti má sjá hve nær alautt varð að vori og fyrst alhvítt að hausti frá 1949 en auk þess svona nokkurn vegin og stundum alveg hve nær alhvítt varð að hausti árin 1924-1948 en ekki hve nær fyrst varð alautt að vori að staðaldri. Um það liggja ekki fyrir upplýsingar á lausu. 

Einnig má þarna sjá síðasta frost að vori og fyrsta frost að hausti frá 1920 en þá var Veðurstofan stofnuð. Þetta eru áreiðanlega upplýsingar. Einnig má sjá það sama fyrir árin 1880 til 1903, sem var á vegum dönsku veðurstofunnar, og líkast til er mikið að marka.

Og loks er það sama árin 1823-1851 og 1872-1879. En það skulu menn taka hæfilega alvarlega. Þar er ekki alltaf um raunverulega lágmarksmælingar að ræða heldur lestur á mæla á ákveðnum tímum og auk þess voru mæliaðstæður ekki eins öruggar og síðar varð. En skemmtun má af því hafa.

Hitt fylgiskjalið er svo hið hefbundna fyrir dagavaktina.

Ekki þori ég svo að hengja mig upp á að villur kunni ekki að leynast þarna.  

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrsta næturfrostið í Reykjavík

Í nótt mældist fyrsta næturfrostið í Reykjavík á þessu hausti, -0,1 stig.

Síðasta frost í vor var 15. maí og var það einnig -0,1 stig.

Frostlausi tíminn var því 142 dagar en hann var að meðaltali 145 dagar á þessari öld (með þessu ári) en 143 dagar öll árin frá 1920. 

Á einstaka veðurstöð við suður og austurströndina hefur enn ekki frosið í haust. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

''Vinsældalisti''!

Það er ekki neinn vinsældalisti sem fréttin fjallar um heldur gæðakvarði sumra eftir ákveðinni aðferð.

Og hann er hér augljólsega aðeins yfir mánuðina júní til ágúst. 

Gaman væri að sjá sambærilegan kvarða þar sem september væri með. Þó hann breyti ekki miklu í sumar getur hann hafa gert það á öðrum sumrum. Í mínum huga ber skilyrðislaust að telja september til sumarmánaða en ekki haustmánaða, sem hér er gert í fréttinni alveg eins og það sé sjalfsagt mál,  þó hann geti stundum verið leiðinlegur eins og aðrir sumarmánuðir. 

Því miður er hér ekki tekið fram hvað hinir sérstöku mánuðir frá júní til ágúst 2013 fengu mörg stig á kvarðanum, aðeins að þau hafi ekki verið mörg.

.  


mbl.is Vont sumar mælt á vinsældakvarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hret í ágúst

Þetta var auma hamfaraveðrið!

Sem betur fer verður maður nú að segja.

Alls staðar á veðurstöðvum var alautt í morgun og engin í byggð mældi frost. 

Smávegis snjór er aðeins á stöku fjallvegi. 

Leyfi mér svo fyrir hretaðdáendur að vísa á þennan gamla bloggpistlil um hret í ágúst.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Reykjavík og Akureyri

Nú vill svo til að meðalhitinn það sem af er ágúst (eftir 23 daga) er nákvæmlega sá sami í Reykjavík og á Akureyri, 10,4 stig. Það er í réttu meðallagi í Reykjavík en 0,1 yfir á Akureyri, miðað við meðallag áranna 1961-1990 sem sumir ætla reyndar vitlausir að verða ef við er miðað!

Þegar rýnt er í hitann kemur fram ýmis konar munur sem er á gangi dægursveiflunnar á þessum stöðum við sama meðalhita. Ef miðað er við mælingar á þriggja tíma fresti er hlýrra á Akureyri en í Reykjavík frá hádegi og framundir kvöld en hlýrra er annars í Reykjavík. Meðaltal hámarkshita er heilu stigi hærra á Akureyri en í Reykjavík en meðaltal lágmarkshita er hálfu stigi hlýrra í Reykjavík en á Akureyri. Dægursveiflan er því 6,8 stig á Akureyri en 5,3 stig í Reykjavík eftir þeim aðferðum sem ég nota við útreikninga á henni.

Alla dagana (24) hefur hámarkshitinn komist í tíu stig í Reykjavík eða meira en þrjá daga hefur hann ekki gert það á Akureyri. Aftur á móti hefur hámarkshitinn í 11 daga á Akureyri farið í 15 stig eða meira en aðeins þrjá daga í Reykjavík. 

Úrkoman í Reykjavík er 48,2 mm en 11,9 mm á Akureyri. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sól og sumar

Í gær mældist 16,1 sólskinsstund í Reykjavík. Sólarstundir síðasta 31 dag eru þar með orðnar 177,5. Meðaltalið í júlí 1961-1990 er 171 stund.

Síðasta 31 dag hefur ástand sólskinsmála því verið fullkomlega eðlilegt miðað við venjuna á sumrin síðustu áratugi.

Þessar síðustu vikur hafa komið sex dagar með tíu klukkustunda sólskini eða meira. 

Meðaltal tíu stunda sólardaga í hverjum sumarmánuði hefur verið mjög jafnt hvar sem borið er niður síðustu áratugi, 8 dagar í júní og júlí og 7 í ágúst en aðeins 3-4 í september.  En á þessari öld er ofurlítill munur en þá hafa verið 10 svona dagar að meðaltali í júní en 9 í júlí og ágúst en 3 í september.

Flestir tíu stunda sólskinsdagar voru 20 í júní 1928 (og reyndar í köldum maí 1958) en í júlí 15 árin 1960, 1974 og 1986 og í ágúst 16,  árin 1929 og 1960. Í september voru flestir tíu stunda sólardagar árið 1957 og voru þá tíu.

Flestir svona dagar í júní til ágúst voru 40 árin 1928 og 1929 en þeir voru næstflestir 38 -  í fyrra!    

Ef við tökum hins vegar mánuðina júní til september er 2012 efst á blaði með 43 daga ásamt 1929. Og næst er 2011 með 42 daga. 

Fæstir hafa tíu stunda sólskinsdagar í sumarmánuðum verið 1 í júní 1988, 1 í júlí 1955 (fyrsta daginn) og 1 í ágúst 1945, 1955 og 1983. Engir tíu stunda dagar komu í september 1938, 1942, 1943, 1945, 1946 og 1996. Mánuðina júní til ágúst voru fæstir dagarnir árið 1925 og 1995, tíu, en ef september er bætt við voru þeir fæstir 14,  árin 1947 og 1955. Á okkar öld hafa þessir dagar verið fæstir 14 fyrir styttra tímabilið en 19 fyrir það lengra, hvort tveggja árið 2003.

Meðaltal daglegs sólskins að sumarlagi í Reykjavík er aðeins um 6 stundir. En í rauninni skipast á dagar með litlu sem engu sólskini, dálitlu sólskini og svo nokkrir dagar með miklu sólskini, tíu sólarstundum eða meira. Í þessum pistli er ekkert skeytt um sól hvers dags innan sólarleysistímabilanna sem getur verið alveg frá 0,0 upp i 9,9. En tíu stunda mælikvarðinn er ekki sem verstur til að gera sér grein fyrir sæmilega góðum einstökum sólardögum. 

Oft getur liðið ótrúlega langur tími milli tíu stunda sólardaga á sumrin í Reykjavík, júní til september. 

Metið er 46 dagar, frá 7. júní til 22. júlí árið 1975!

Nokkur önnur dæmi, stundum frá maí ef langvarandi sólarleysi í júní hefur hafist þá, en ekki tekið með sólarleysi sem hófst seint í ágúst og hélt svo áfram í september, jafnvel allan mánuðinn. Báðar dagsetningarnar teljast alltaf með.

38 dagar; 6.ágúst til 12. september 1955.

34 dagar: 6. ágúst til 9. september 1940, 19. júlí til 21. ágúst 1950; 2. júlí til 4. ágúst 1955, 27. maí  til 29. júní 1988; 17. ágúst til 20. september 1999.  

Þarna er aftur sumarið 1955 sem kemur sem sagt fyrir tvisvar með yfir 30 daga samfellu með minna en tíu stunda sólskini! 

33 dagar: 12. ágúst til 13. september 1930. 

31. dagur: 31. júlí til 30. ágúst 1976; 9.ágúst til 8. september 1991. 

30. dagar: 6. ágúst til 4. september 1961. 

Svo er hellingur af tímabilum með 20 til 30 samfelldum dögum þar sem sól nær aldrei að skína tíu stundir eða meira. 

Og svo sumarið 2013 sem af er til samanburðar: 26 dagar: 23. maí til 19. júní; 19. dagar: 4. -22. júlí.

Á Íslandi er fullkomlega óraunhæft, þrátt fyrir sumarið í fyrra og hittið fyrra, að ætlast til þess að sólin skíni dag eftir dag frá morgni til kvölds.        

 

 


Meðalhiti júlí kominn upp í meðallag í Reykjavík

Meðalhitinn í Reykjavík er nú kominn upp í meðaltalið 1961-1990 sem oftast er miðað við. Ekki blés byrlega fyrir honum frameftir en í hlýindunum síðustu viku hefur hann braggast mjög. Annars hefur verið hálf ergilegt fyrir borgarbúa að vera í sjávarloftinu þegar hitinn í sveitunum hefur verið yfir tuttugu stigum dag eftir dag. Reyndar nældi höfuðborgin í 20,2 stig á laugardaginn. En grundvöllur hefur verið í háloftunum fyrir meira en 20 stigum þar dag hvern allan hlýindatímann ef vindur hefði  staðið almennilega af landi. 

Hitasyrpan þar sem sjávarloft nær ekki til er að verða nokkuð merkileg fyrir hvað hún hefur staðið lengi, ekki síst á hálendinu. Á Brú á Jökuldal hefur hámkarkshiti náð tuttugu stigum eða meira samfellt í níu daga. Það er sjaldgæft að veðurstöð nái því þó engan veginn sé það dæmalaust. Ýmsar aðrar stöðvar hafa haft um eða yfir 20 stiga hiti í vikutíma eða meira. 

Hér fyrir neðan er til gamans mynd af gangi hitanns á sjálfvirku stöðinni á Grímsstöðum dagana 21.-27. Í dag fór hitinn þar enn yfir 20 stig. Svipað hefur þetta verið á mönnuðu stöðinni.  

Meðalhitinn á Akureyri er 0,9 stig yfir meðallagi og er 0.8 stigum hærri en í Reykjavík. En nú er það austurland sem gerir það best í mánuðinm og svo hálendissveitirnar á norðausturlandi. Þar uppi er hitinn meira en tvö stig yfir meðallagi.  En hiti er vel yfir meðallagi víðast hvar frá Vestfjörðum ti suður austfjarða.  

En nú er þessum hlýindum sem staðið hafa síðustu daga að ljúka og kannski verður bara vandræðaveður um verslunarmanahelgina og verst þar sem best hefur verið síðustu daga! 

Í tilefni skruggulátanna í gær á hálendinu vísa ég á þrumupistil sem ég skrifaði í fyrrasumar eftir smá  þrumuveður sem þá gerði en jafnaðist ekki á við það í gær. Í pistlinum eru rakinn helstu sumarþrumuveður síðustu áratuga.

t_1v_1209501.gif


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júlí hálfnaður

Nú er júlímánuður rúmlega hálfnaður. Meðalhitinn í Reykjavík er þá 9,5 stig eða 0,8 stig undir meðaltali sömu daga 1961-1990 en 2,2 stig undir meðaltali þessara daga á 21. öld. En eins og ég og fleiri höfum margbent á er ekki raunhæft að miða við það mjög svo afbrigðilega tímabil þegar við metum hitafar mánaða. 

Eigi að síður hlýtur það sem af er mánaðarins að teljast kalt í Reykjavík og þó bara sé miðað við meðaltalið 1961-1990. Ekki hefur verið kaldara þegar júlí er rúmlega hálfnaður síðan 1993 og aftur 1992. Það var áður en uppsveiflan mikla hófst í sumarhita. En þetta gerðist líka 1989, 1983, 1979 og 1970 en hitinn var jafn og núna fyrri hluta júlí 1973 og 1949. 

Maður er farinn að búast við því að mánuðurinn allur endi jafnvel undir  tíu stigum í Reykjavík sem ekki hefur gerst síðan 1992, 1989, 1985, 1983, 1979, 1975 og 1970. En árið 1970 hafði það ekki gerst síðan í júlí 1922. Þá ríkti hlýindatímabilið hið fyrra á 20. öld. Hið síðara hófst nálægt aldarlokum og stendur enn - eða hvað? 

Á Akureyri er meðalhitinn 10,1 eða 0,2 stig undir meðallaginu 1961-1990. Á Fljótsdalshéraði og inni á fjörðunum á austurlandi og jafnvel líka við ströndina hefur þetta verið vel hlýr júlí. Og þar og annars staðar fyrir austan og norðan var júní í hlýjasta lagi. Gleymum því ekki í núveandi hamförum! 

Úrkoman í morgun í Reykjavík, 53 mm,  er hreinlega orðinn aðeins meiri heldur en meðallag alls júlímánaðar 1961-1990!  Eftir að Veðurstofan var stofnuð 1920 var hún meiri 1998, 1997, 1984, 1971 (já, þann góða mánuð), 1954, 1926, 1925 og 1926. 

Úrkoman samanlögð síðan i byrjun júní er svipuð og 2003 en var meiri 1984, 1977, 1969 og 1925 en ekki rigningarsumarið alræmda 1955. Aðalrigningarnar voru þá eftir og einnig í ýmsum öðrum frægum rigningarsumrum. Kannski eigum við það líka eftir!

Sólarstundirnar í Reykajvík eru nú 68 en voru færri fyrri hluta júlímánaðar 2005, 2003, 1999, 1997, 1992, 1984, 1983, 1980, 1979,1978, 1977, 1976, 1975 (já, 6 fyrri hluta júlímánuðir í röð), 1973, 1972, 1969, 1959, 1955, 1954, 1953, 1949, 1947, 1945, 1937, 1935, 1934, 1933, 1930, 1926, 1925 og 1923. 

Ísland er ekki beint sólskinsland!  

Ef við tökum júní og fyrri hluta júlí samans  var sólarminna 2003, 1988,1986, 1983, 1979, 1971,1969, 1962, 1934, 1926, 1925 og 1923.

Úrkoman það sem af er júlí er mikil víðast hvar um land en ekki bara í aðallega í einum landshluta og er þetta fremur fátítt. Ótrúlega víða, nema helst á norðaustur og austurlandi, er úrkoman þegar komin upp fyrir meðallag alls júlímánaðar og þar sem hún er það ekki er hún á mörgum stöðvum farin að nálgast meðallagið. Á fáeinum stöðvum, aðallega austanlands, hefur þó verið lítil úrkoma.

Ég var búinn að týna í sarpinn til birtingar nokkrar sannar hryllingssögur um fyrri tíma sólarleysi í fjölda samfelldra daga en verð að láta það bíða að sinni.

Á meðan: Sleikjum nú sólina þegar hún gefst!

Og svo er spáð hlýrra veðri. 

Viðbót 22.7. Meðalhitinn í Reykjavk er nú komin upp í tíu stig og mun líklega ekki fara aftur niður fyrir það til mánaðarloka. En þetta er samt ekki gott.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sumargæðin

Skörin er nú farin að færast upp í bekkinn í sumargæðunum þegar Papey er orðin hlýjasti staður landsins!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Enn hlýrra

Í dag fór hitinn á landinu víða enn hærra en i gær. Hlýjast varð 26,1 stig á Egilstaðaflugvelli.

Aftur fór hitinn eins og í gær yfir 20 á fimm mönnuðum veðurstöðvum: Akureyri og Torfur, 23,7 stig, 22,3 á Grímsstöðum, 21,8 á Bergsstöðum og 20,7 á Sauðanesvita. Litlu munaði svo á Mánárbakka þar sem hitinn fór i 19,9 stig (21,2 stig á sjálfvirku stöðinni kl. 19 og hefur þá hugsanlega komist yfir 20 á þeirri mönnuðu sem kemur í ljós á morgun).

Hér fyrir neðan er list yfir allar stöðvar sem í dag mældu 20 stig eða meira. Athygli vekur að Vopanfjörður er ekki á honum fremur en i gær. En hins vegar Grímsey! Glaðasólskin fylgir hitanum á norðaustur og austurlandi.  Þetta er nokkuð langur listi! Sunnlendingar láta sér kannski fátt um finnast.

Brúsastaðir í Vatnsdal 21,3, Sauðárkróksflugvöllur 23,5, Stafá 22,9, Siglufjörður 21,6, Héðinsfjörður 21,5, Ólafsfjörður 20,5,  Grímsey 20,5, Hámundarstaðaháls 21,0, Möðruvellir í Hörgárdal 23,0, Víkurskarð 21,3, Staðarhóll 24,0 Fljótsheiði 21,5, Végeirsstaðir 23,6, Reykir 22,3, Sóleyjarflatamelar 21,3, Þeistareykir 22,6, Húsavík 25,2, Gerðisbrekka á Tjörnesi 22,7, Ásbyrgi 25,2, Mývatn 21,1, Hólasandur 21,2, Mývatnsheiði 21,1, Mývatnsörfæi 21,3, Svartárkot 20,0, Krafla 21,3, Gæsafjöll 21,2, Rauðinúpur 21,0, Hálsar 20,7, Brú á Jökuldal 23,3, Möðrudalur 23,4,  Möðrudalsöræfi 21,8, Biskupsháls 21,4, Upptyppingr 20,9, Jökuldalur 22,9, Sandvíkurheiði 22,1, Vopnafjarðarheiði 23,0, Egilsstaðir 26,1, Hallormsstaður 26,0, Hallormsstaðaháls 22,3 Eyjabakkaar 20,9 Vatnsskarð eystra 22,2, Brúðardalur 24,5, Fagridalur 22,7, Fjarðarheiði 21,2, Þórdalsheiði 22,5, Seyðisfjörður 23,5, Neskaupstaður 21,6, Eskifjörður 21,4, Kollaleira 21,0,  Breiðdalsheiði 21,8.

Klukkan 21 var hitinn á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði 20,1 stig.  Vopnafjörður er þá kominn í tuttugustigaklúbbinn.

Viðbót11.7. Eftir kl. 18 í gær fór hitinn á mönnuðu stöðvunum á Mánarbakka í 20,0 stig og 20,5 á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Þar með mældist 20 stiga hiti eða meira á 7 mönnuðum veðurstöðvum Dagurinn nær þó ekki 9. ágúst í fyrra sem var talsvert hlýrri austanlands en þessi dagur. 

Þetta er samt vel af sér vikið og veitir ekki af því nú er mjög að kólna. Hitinn núna er aðeins 8 stig í Reykjavík sem verður að teljast í algjörum ruslflokki og hann hefur sigið niður fyrir 10 stig á Akureyri.           


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband