Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Hlý aprílbyrjun í Reykjavík

Meðalhitinn fyrstu 11 daga mánaðarins er 5,7 stig í Reykjavík. Það er 4,0 stig yfir meðallaginu 1961-1990 en 2,8 stig yfir meðallagi þessarar aldar fyrir sömu daga. Jafnhlýtt var fyrstu 11 apríldagana 1955 en enga aðra mánuði fyrir þau ár, frá 1949, sem dagsmeðaltöl liggja laus fyrir. En sterkar líkur eru á því, eftir upplýsingum sem til eru um eldri hitamælingar þó ekki séu það raunverulega dagsmeðaltöl, að hlýrra hafi verið 1929 en einkum 1926 þessa fyrstu daga.
 
En ekki er hægt að kvarta yfir byrjuninni á þessum apríl hvað hitann varðar.
 
En nú er sem sagt að kólna þó varla sé hægt að kalla það almennilegt páskahret en um þau má hér um lesa. 

mbl.is Páskahretið verður á sínum stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Veturinn er búinn

Þá er vetri lokið samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu Veðurstofunnar. Hann er talinn frá desember til mars.

Ekki er hægt að segja annað en veturinn hafi kvatt fremur hlýlega í höfuðborginni. Þar komst hitinn í 10,6 stig í gær og er það enn sem komið er mesti hiti ársins þar á bæ. Meðalhitinn var 2,1 stig eða 1,6 stig yfir meðallaginu 1961-1990 en 0,3 stig yfir meðallaginu það sem af er þessarar aldar. Á Akureyri var meðalhitinn 0,9 stig sem er 2,1 stig yfir meðallaginu 1961-1990 en 0,5 yfir meðallagi  aldarinnar. Á landinu er hitinn alls staðar hátt yfir meðallaginu 1961-1990 og vel yfir meðallagi okkar aldar. 

Hið sama er að segja um veturinn í heild. Allir vetrarmánuðirnir voru hlýrri  en meðaltal þessarar aldar nema desember sem var ansi kaldur. Janúar var hins vegar sá tíundi hlýjasti sem mælst hefur en janúar í fyrra var reyndar sá 8. hlýjasti. 

Veturinn í ár var talsvert kaldari en í fyrra en mun samt vera sá fjórði hlýjasti á þessari óvenjulega hlýju öld. Hlýrra var 2003, 2006 og 2013. Þó fullkomið uppgjör fyrir þennan vetur sé ekki komið fram er hægt að átta sig á þessu. 

Þetta var því engan veginn kaldur vetur.  En þegar að úrkomunni kemur birtist nokkuð óvenjulegt. 

Viðast hvar var mikil úrkoma í mars á landinu. Í Reykjavík var hún 115 mm (meðallagið er 82 mm) en til samanburðar náði hún ekki 13 mm í febrúar. Öfgar?? Úrkoman var undir meðallaginu 1961-1990 yfir allan veturinn í Reykjavík og munar þar mest um febrúar. Á Akureyri var úrkoman 104 mm í mars sem er vel yfir tvöfaldri meðalúrkomu en í febrúar var úrkoman þar einnig tvöföld. Í janúar var úrkoman þar enn fremur vel fyir meðallagi og næstum því tvöföld úrkoma var þar í desember. Á Akureyri er veturinn í heild sá næst úrkomumesti síðan mælingar hófust 1928. Aðeins veturinn 1989 var lítillega meiri úrkoma.

Það eru þó smámunir miðað við úrkomuna á austurlandi.  Á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði, þar sem mælingar hófust 1994, er þetta lang úrkomusamasti veturinn með heildarúrkomu upp á tæpa 1030 mm! Á Dalatanga, þar sem mælt hefur verið frá 1938 er þetta þriðji úrkomusamasti veturinn, á eftir 1974 og 1990. Ekki var mikill snjór á þessum stöðum því vegna hlýindanna féll mikið af úrkomunni sem regn.

Sjór var talsverður víða á landinu i desember en snjólítið miðað við venju var víðast hvar í byggðum eftir áramót þar til seint í mars. Jafnvel í sjóasveitum eins og á Ólafsfirði var svo til snjólaust lengi vel. En frá þessu voru undantekningar. Vegna hinnar miklu úrkomu austanlands og sums staðar annars staðar var mikill snjór á fjallvegum og einstaka veðurathugunarstöð í byggð. Þeirra á meðal er Akureyri. Þar var fyrst alhvítt 31. október og í nóvember voru alhvítir dagar þar 23 og aftur í desember, alhvítt alla daga í janúar og febrúar og í mars sýnist mér alhvítir dagar hafa verið 29. Ekki veit ég í fljótu bragði hvernig þetta kemur út með tilliti til annarra vetra en örugglega er þetta með mestu snjóavetrum á Akureyri. 

Ekki var snjó fyrir að fara í höfuðborginni,  22 alhvítir dagar voru í desember, 4 í janúar, enginn í febrúar og  7 virðist mér í mars.

Furðu sólarlítið var í Reykjavík í mars, aðeins um 73 klukkustundir og meir en 20 stundum færri en í febrúar en sólarstundir í mars eru að meðalatali  111.

Þær tölur sem hér hafa verið nefndar geta breyst lítillega þegar öll kurl koma til grafar. 

Fróðlegt verður að sjá uppgjör Veðurstofunnar um þennan hlýja vetur sem óneitanlega var þó nokkuð einkennilegur í hátt og sums staðar æði vetrarlegur . Og gaman verður að sjá hvernig Emil okkar H. Valgeirsson metur þennan mars.

Fylgiskjlalið fyrir april er í gangi.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Handrukkarar

Hve nær fara íslenskir hrokagikkir að rukka fyrir veðrið?
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Síðasti vetrarmánuðurinn

Hvað skyldi svo mars, síðasti vetarmánuðurinn, bera í skauti sér.

Fylgiskjalið nósnar um það. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fjórði þurrasti febrúar í Reykjavík

Þessi febrúar reyndist vera sá fjórði þurrasti sem mælst hefur í Reykjavík frá 1885. Úrkoman var 13,6, mm en var minnst 1966 4,9 mm, 9,0 mm í þeim ískalda febrúar 1885, og 10,0 mm árið 1900. Árið 1838 mældi Jón Þorsteinsson 8 mm í Reykjavík en þær mælingar eru kannski ekki alveg sambæirlegar við síðari mælingar. Úrkomudagar voru núna fimm en frá stofnun Veðurstofunnar 1920 hafa þeir fæstir verið þrír í febrúar 1947, þeim sólríkasta sem mælst hefur og fimm í febrúar 1977. Árið 1966, í úrkomuminnsta febrúar, voru þeir hins vegar 7. 

Úrkomuminnsti febrúar sem mælst hefur á landinu í heild er talin vera árið 1900 en næstur kemur frá þeim tíma 1977, 1901 og 1966. Þess má geta að febrúar árið 2010 er talinn sá 11. þurrasti frá 1900 á landinu. Allir búir að gleyma honum!

Sá febrúar sem nú er að líða kemst varla mjög hátt á þurrkalista alls landsins því sums staðar hefur verið veruleg útkoma. En nokkur þurrkamet einstakra stöðva sem allengi hafa athugað veit ég um: Í Stafholtsey í Borgarfirði hefur alls engin úrkoma mælst (stöðin er um 25 ára). Í febrúar 1977 mældust 0,2 mm í Síðumúla í Hvítársíðu. Í Stykkishólmi er þetta næst þurrasti febrúar, alveg frá 1857 en minnst var árið 1977. Á Bergsstöðum í Skagafirði hefur ekki mælst minni febrúarúrkoma eða í nokkrum mánuði, 0,4 mm, frá 1979.  Á Þingvöllum, þar sem er sjálfvirk úrkomustöð en var lengi mpönnuð, hefur líklega ekki mælst minni úrkoma í febrúar.  Kannski minnir þessi mánuður núna nokkuð á  febrúar 1977. Þá var þrálát  austanátt eins og nú og meturrkar, í alveg bókstaflegum skilningi, á vesturlandi og mjög þurrt var á norðvestanverðu landinu. En okkar mánuður er miklu mildari en 1977.

Hiti mánaðarins er hár miðað við febrúar eins og sjá má i fylgiskjalinu.     

Búið er að setja þennan mánuð inn í úrkomutöfluna í færslunni  Úrkoma í Reykjavík.  

Vona að ég móðgi engan þó mér finnst þessi febrúar hafa verið góður fyrir Reykvikinga og reyndar allur veturinn sem af er. Ekki hversdagslegt t.d. að hiti komist í 8 stig í glaða sólskini síðasta daginn  í febrúar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Metkuldar

Í nótt mældist mikið frost á landinu. Á Neslandatanga við Mývatn fór það niður í -28,2 stig. Það mun vera dægurmet fyrir kulda fyrir 18. febrúar á landinu! Gamla metið var aðeins -20,2 stig og var mælt í Reykjahlíð við Mývatn árið 1966. Dagurinn stóð óneitanlega vel við höggi með sitt hæsta dagslágmark fyrir allan mánuðinn! Mesti kuldi sem mælst hefur í öllum febrúar á landinu er -30,7 stig hinn 4. árið 1980 í Möðrudal.  

Í Möðrudal mældist í nótt -26,1 stig, -25,6 í Svartárkoti, -21,8 á Brú á Jökuldal og -20,8 á Staðarhóli í Aðaldal.

Kaldast varð í byggð en ekki á fjöllum. Kaldast á fjöllum var -27,6 stig á Brúarjökli, -27,3 stig við Kárahnjúka og -26,9 við Upptyppinga.

Allt eru þetta sjálfvirkar stöðvar.  Ekki hafa enn komið upplýsingar frá mönnuðu stöðvunum en það er eitt af framafaraskrefum Veðurstofunnar að taka hitaupplýsingar frá þeim út af almenna vef sínum en þó eru opnar leynileiðir þangað daginn eftir viðkomandi dag. Á sjálfvirku stöðinni á Grímsstöðum á Fjöllum, þar sem líka er kuldavænasta mannaða stöðin, varð frostið reyndar ''aðeins'' -17,1 stig. 

Viðbót 19.2.: Í nótt bættu kuldarnir um betur. Frostið fór í -28,9 stig í Svartárkoti. Það er líka dagshitamet í kulda á landinu fyrir 19. febrúar. Gamla metið var -24,0 stig á Grímsstöðum 1911. 

 


Það fréttnæmasta um nýliðin janúar

Það er ekki sérlega fréttnæmt að alhvítt hafi verið á Akureyri allan mánuðinn eins og segir þarna í fyrirsögn fréttarinnar. Það gerist næstum því fjórða hvern janúar. Fréttnæmara er að þetta mun vera tíundi hlýjasti janúar á landinu en sá næst hlýjasti við Berufjörð á austfjörðum þar sem mælt hefur verið frá 1873. En allra fréttnæmast er þó það, miðað við óvenjuleika, að þetta er eini janúar síðan mælingar hófust þar sem ekki hefur mælst frost á íslenskri veðurstöð. Á Vattarnesi fór hiti aldrei lægra en í 0,4 stig og 0,0 stig í Seley.

Ýmislegt er reyndar óvenjulegt við þennan janúarmánuð eins og hér má lesa. 

Af sérstökum ástæðum hef ég ekki getað sinnt fylgiskjalinu um tíma. En nú er það komið. Það birtir ýmsar veður upplýsingar hvers dags fyrir Reykjavík (blað1) , Akureyri (blað 2) og landið (blað 1) . Hægt er að sjá janúar með því að skrolla upp skjalið. 

 


mbl.is Alhvít jörð á Akureyri allan janúar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Dægurmet í kulda í Reykjavík

Ég fæ ekki betur séð en dagurinn í gær, 5. desember, sé að meðaltali um það bil kaldasti 5.desember í Reykjavík síðan mælingar hófust með sæmilegu nútímasniði. Meðalhiti sólarhringsins var -10,6 stig. Til eru áreiðanlegar tölur, eða hátt upp í það með góðum vilja, fyrir daglegan meðalhita til 1935, og enginn dagur þann tíma virðist örugglega slá þennan út í kulda, en þar á undan má ýmislegt ráða um sólarhringsmeðaltal daga af hámarks-og lágmarksmælingum. 

Og þó ótrúlegt sé get ég ekki fundið líklegan jafningja þessa dags í kulda í Reykjavík hvað meðalhita snertir allar götur til 1880 nema árin 1936 og 1885, en ég held þó 5. desember þessi ár  hafi verið heldur mildari en nú.  Þá miða ég við þær skráðu tölur sem fyrir liggja en sleppi þá öllum fyrirvara og vangaveltum um ólíka mælihætti gegnum tíðina. En þetta er samt ekki alveg víst heldur sennilegt að mínu áliti. Og í það minnsta hefur alveg örugglega ekki komið kaldari 5. desember síðan 1949 og mjög líklega frá 1935 en ég vil sem sagt þó meina miklu lengur. 

Þetta kemur manni eiginlega á óvart. Og þetta gildir aðeins um sólarhringsmeðaltalið en ekki mesta frostið sem mælst hefur. Þessi dagur setti ekki met í Reykjavík hvað það varðar. En aðeins einn dagur hefur þó slegið hann út að því leyti, 5. desember 1885, þegar mældust -13,4 kuldabolastig en núna -12,6 eða -12,5 á kvikasilfrinu en -12,9 á sjálfvirka mælinum. Og þetta gildir bara um 5. desember. Kaldari dagar svo um munar hafa komið síðar í desember og í öðrum vetrarmánuðum í ýmsum árum. 

Desember er á Veðurstofunni talinn fyrsti vetrarmánuðurinn. Við skulum nú vona að þessi kaldi dagur sé ekki fyrirboði um harðindi og óárán.

Viðbót:  Í gær, 6. desember, var kaldasti sólarhringur að meðaltali sem mælst hefur þann dag á Akureyri frá a.m.k. 1949 og lágmarkshitinn í dag, 7. er lægsti lágmarkshiti sem þar hefur mælst 7. desember frá sama tíma. Sjá fylgiskjalið. Þetta var sem sé alvöru kuldakast.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fylgiskjalið komið inn

Fylgiskjalið sem er burðarás þessa veðurbloggs hefur ekki virkjast i nokkra daga og er ekki enn séð fyrir endann á þeim vandræðum en mér tókst þó að setja það inn áðan.

Fylgiskjalið sýnir daglegan gang ýmissa veðurþátta fyrir Reykjavík og landið á blaði 1 en fyrir Akureyri á blaði 2.

Vek sérsaka athygli á dægurhitameti fyrir landið í fyrradag. Þá mældust á kvikasilfursmnælinn á Dalatanga 19,0 stig rétt eftir kl. 18 (sem eftir reglum Veðurstofunnar eru skráðar á þ. 27, en anarkistinn Nimbus virðir engar reglur) en 20,2 á sjálfvirka hitamælinum. En það er yfirlýst stefna Nimbusar að taka aðeins mark á kvikasilfursmælingum á þeim veðurstöðvum sem mæla hita bæði með kvikasilfursmæli og sjálfvirkum.

Rétt einu sinni kemur nú ekki upp síðan á vef Veðurstofunnar með upplýsingum um mannaðar veðurstöðvar á þriggja tíma fresti með ýmsum krækjum líka á sjálfvirkar stöðvar. En frá þeim mönnuðu sjást þarna upplýsingar um mælingar á þriggja tíma fresti og hámarks og lágmarksmælingar á hita og mælda úrkomu. Margar eyður eru í  töflunum vegna þess að búið er að leggja margar mannaðar stöðvar niður. En allmargar eru enn við lýði.

Mér finnst óskiljanlegt að þessar upplýsingar um mannaðar stöðvar eftir spásvæðum, sem eru reyndar á gamla vefnum séu ekki uppfærðar og settar með pompi og pragt á þann nýja þar sem auðvelt yrði að ganga að honum. Þess í stað húkir hann ár eftir ár á gamla vef Veðurstofunnar og dettur alltaf út annað kastið. 

Þetta minnir reyndar á það að mér finnst ýmsu á vef Veðurstofunnar vera að hraka. En ég nenni ekki að gera frekari grein fyrir því að sinni.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þurrviðrasamt það sem af er

Nú þegar 20 dagar eru liðnir af október er meðalhitinn í Reykjavík 5,3 stig sem er 0,4 stig yfir meðallaginu 1961-1990 fyrir þá daga. Október er sá mánuður sem minnst hefur hlýnað síðustu árin og er meðalhitinn á þessari öld fyrir allan mánuðinn 4,9 stig eða sama og hlýindaárin 1931-1960, en flestir aðrir mánuðir ársins á þessari öld eru komnir vel upp fyrir það meðaltal.

Á Akureyri er meðalhitinn 3,5 stig sem er aðeins 0,1 stig yfir meðallaginu 1961-1990. 

Ekki er hægt að segja að þessi hiti sé neitt sérstakur, einir 17 mánuðir hafa verið hlýrri í Reykjavík fyrstu 20 dagana frá 1949, sá síðasti 2010. Hlýjast var 1959, 7,7, stig og líklega einnig árið 1946 en 1965 var meðalhitinn 7,2 stig. Kaldast var 1981, 0,6 stig, og sennilega mjög svipað 1926 og 1917.

Sólskinsstundir í höfuðborginni eru orðnar 54 sem 6 stundum minna en meðaltalið 1961-1990 en 13 stundum minna en meðaltal þessarar aldar fyrir fyrstu 20 daga mánaðarins.

Úrkoman er aðeins 11,8 mm í Reykjavík. Hún hefur aðeins verið minni árin 1993 og 1966 síðan Veðurstofan var stofnuð 1920 fyrir þessa daga. En heildar úkomumagn mánaðar getur gjörbreyst á jafnvel einum degi ef svo vill verkast og sólarstundirnar geta líka tekið stakkaskiptum á fáum dögum.  

Á Akureyri er úrkoman 21,8 mm.

Fyrir utan fjögurra daga hlýindi hefur þessi mánuður ekki verið á neinn hátt merkilegur hvað hita og sól varðar en úrkoman er enn mjög lítil víðast hvar. Og afar hægviðrasamt virðist hafa verið og loftþrýstingur mikill, ekki ósvipað og í fyrra, en um þetta hef ég þó ekki nákvæmar upplýsingar. Að þessu leyti er mánuðurinn óvenjulegur enn sem komið er.   

Nú er spáð kuldakasti sem virðist ætla að standa til mánaðarloka, ef marka má spárnar, og er þá næsta víst að hitinn mun fara niður fyrir öll meðallög í Reykjavík.

Og kannski fáum við aftur snjó í borginni að ég tali nú ekki um fyrir norðan. Í gær mátti heita snjólaust á veðurstöðvum en í morgun var flekkótt jörð á Ströndum

Þegar upp verður staðið mun þetta líklega teljast skítamánuður!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband