Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Óvenjulegar rigningar

Það er ekki ofsögum sagt af rigningunni það sem af er mánaðarins.

Ótrúlega víða er úrkoman það sem af er (11 dagar) orðin meiri en hún var að meðaltali alls júlímánaðar  viðmiðunartímabilið 1961-1990 eða tímabilið 1971-2000 (lítill munur er á meðaltali þessara tímabila fyrir stöðvar sem mælt hafa þau bæði) eða þá meðaltöl jafn lengi og athugað hefur verið á þeim stöðvum sem ekki eru til meðaltöl fyrir þessi ár. Mjög víða hefur þá náttúrlega fallið meiri úrkoma þessa daga en nokkru sinni áður hefur mælst fyrstu 11 daga mánaðarins. 

Staðir þar sem úrkoman er þegar komin yfir meðallag alls mánaðarins eru svo margir og víða að fljótlegra er að geta um nokkra staði þar sem þetta hefur ekki gerst.

Þar er Reykjavík efst á blaði en einnig stöðvar á suðurlandsundurlendi og á suðausturlandi og þeirra á meðal virðist vera Kvísker (þar eru nú sjálfvirkar mælingar), úrkomusamasta stöð landsins, og einnig Hólar í Dýrafirði. En þarna hefur samt verið talsverð úrkoma þó hún hafi ekki enn slegið út meðaltal alls mánaðarins. 

Sem sagt: Við erum einfaldlega að lifa mesta úrkomutímabil fyrsta þriðjungs júlímánaðar næstum því alls staðar sem gengið hefur yfir í a.m.k. síðustu hálf öld eða svo. 

Ekki er hægt að kalla slíkt neitt dæmigert ástand. Það flokkast undir það óvenjulega. 

Hitinn er hins vegar á engan hátt óvenjulegur í heild þessa daga. Fremur í hlýrra lagi allvíða, annars staðar í kringum meðallag og hvergi neinir kuldar, allra síst á annesjum og útkjálkum.

En auðvitað verður lítið úr sæmilegum hitanum fyrir fólk í þessari vætutíð.

Það er þó bót í máli hvað hitinn heldur sér og vonandi að þegar skiptir um farið á veðrinu verði aftur sumar og sæla.

Það gæti samt dregist í nokkur ár!! 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Leiðinlegur öfugsnúningur

Veðrið hefur sannarlega breytt um takt.

Það er komið allt annað veður en ríkti í júní sem alls staðar var hægviðrasamur og hlýr en úrkomusamur sums staðar.

Þetta veður núna er ekki hægt að líta á sem órofa samfellu frá veðrinu í júní.

Það er nokkrum þrepum neðar á sumarkvarðanum. 

Og einhver leiðinlegasti öfugsnúningur sem hugsast getur.

Fylgiskjalið fylgist með eins og fyrri daginn.  Blað 1 fyrir Reykjavík og landið, blað 2 fyrir Akureyri.


mbl.is „Þetta er hálfgert skítviðri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Merkilegur júnímánuður liðinn

Sá júní sem var að liða var sannarlega óvenjulegur. Hann er líklega einn af tveimur hlýjustu júnímánuðum yfir landið í heild og á suðvesturlandi var hann með þeim allra úrkomusömustu en mjög hægviðrasamur.

Meðalhitinn á landinu í byggð var í kringum 10 og hálft stig sem er mjög svipað og 1933 sem hingað til hefur verið talinn hlýjasti júní síðan mælingar hófust. Kannski er einhver smávægilegur hitamunur á þessum mánuðum sem kemur þá í ljós síðar. Meðalhitinn er þá meira en tvö og hálft stig yfir meðallaginu 1961-1990, um tvö stig yfir hlýja meðallaginu 1931-1960 og um það bil hálft annað stig yfir meðallagi þessarar aldar. Aðeins fjórir eða fimm aðrir júnímánuðir hafa náð tíu stiga landsmeðalhita í þessari röð frá þeim hlýjustu, 1933, hugsanlega 1871, 1909, 1941, 1953 og 1941.

Í Reykjavík var meðalhitinn 11,2 og mun vera sá fjórði hlýjasti en hlýrri voru 2010, 1871 og 2003. Það er athyglisvert að 11 stiga júnímánuðir hafa þrír komið í Reykjavík síðustu tólf ár en þar á undan komu aðeins tveir á um 135 árum.

Meðalhitinn á Akureyri er 12,2 stig. En árið 1933 var hann 12,3 stig og hefur sá júní verið talinn sá hlýjasti þar. Hins vegar er það óþægilegt að einhver óvissa mun vera um þá tölu. 

Hlýjasti júnímánuður á veðurstöð hefur hingað til verið talinn 12,7 stig á Húsavík árið 1953. Sú tala er þó álitin grunsamleg. En á Torfum í Eyjafjarðardal mældist meðalhitinn í okkar júní líka 12,7 stig og má þá kannski hefja þá tölu upp í þann virðingarsess að vera talinn hlýjasti júní á íslenskri veðurstöð. 

Meðalhitinn fór yfir tólf stig á tveimur öðrum veðurstöðvum, 12,2 í Ásbyrgi og 12,0 á Möðruvöllum í Hörgárdal. Tólf stig júnímánuðir á veðurstöðvum eru auðvitað nauðasjaldgæfir, aðeins á Akureyri 1933, Húsavík 1953, sem áður segir, og svo 12,0 á Kirkjubæjarklaustri 1941.  

Okkar mánuður setti met að meðalhita júní víða um land. Líka á suður og vesturlandi þrátt fyrir úrkomuna. Þess verður þó að gæta að mannaðar stöðvar hafa víða lagst af og sjálfvirkar komið í staðinn og sumar þeirra eru ekki alveg á nákvæmlega sama blettinum og gömlu hitamælaskýlin voru. Samanburður er því ekki alltaf alveg einfaldur. En við spáum hér ekkert í þetta. Í staðinn verða nefnd nokkur spektakúlar met á veðurstöðvum er nokkuð lengi hafa athugað sem komið hafa í þessum mánuði. Innan sviga er gamla metið og hvenær athuganir hófust fyrir júnímánuð á viðkomandi stöð. 

Fyrstan ber að telja Stykkishólm þar sem júní hefur verið athugaður síðan 1846, 10,9 stig (10,8 2010). Þetta er mannaða stöðin.

Grímsey, sem hefur athugað frá 1874, 9,7 stig ( 8,6, 1953 og 1909). Ekkert smáræðis hlýindastökk á íshafseyjunni!

Hæll/Árnes 11,6 (11,5 2010; 1880).

Hvanneyri 11,8 (11,4 2010; 1924). Þetta er mesti meðalhiti sem mælst hefur í júní á veðurstöð á öllu suður-og vesturlandi vestan við Mýrdalsjökul og reyndar alveg norður og austur um til Möðruvalla.

Grímsstaðir 11,1 (10,8 1953; 1907).  Mestu hlýindin núna að tiltölu eru í héruðunum þarna í grennd.

Nautabú í Skagafirði 11,4 (10,7 2003; 1937).

Sámsstaðir í Fljótshlíð 11,5 (11,1 1933; 1928),

Hveravellir 8,8 (8,5 2010; 1963).    

Á mörgum stöðvum, þar sem ekki voru sett mánaðarmet, er mánuðurinn samt mjög nærri metinu. 

Úrkoman í Reykjavík var 116,9 mm. Það er er næst mesta úrkoma sem þar hefur mælst í júní og sú mesta frá því Veðurstofan var stofnuð 1920. Úrkoman var 129,0 mm árið 1887. Aðeins þessa tvo júnímánuði hefur hefur úrkoman mælst meiri en 100 mm. 

Úrkoman sem ég hef frétt af var tiltölulega einna mest einmitt í Reykjavík. Kemur þar vel á vonda! Vinir mínir á fasbók hafa sumir farið hamförum úrkomunnar vegna! Úrkoman var þó tiltölulega meiri á Grímsstöðum en í Reykjavík (en miklu minni í raunverulegu magni), merkilegt nokk, og í Borgarfirði og Dölunum. Hvergi nema í Reykjavík hefur úrkoman, svo ég viti, þó verið með því allra mesta sem mælst hefur á stöðvum sem lengi hafa mælt. Og það var fremur lítil úrkoma víða fyrir norðan og austan og á Vestfjörðum. Og í Vestmannaeyjum!

Ekki var sólinni fyrir að fara í höfuðstaðnum. Hún skein aðeins í 115,4 stundir sem er um 50 stundum minna en meðallagið og lítið eitt minna en í júní í fyrra. Minni sól var 1995, 1988, 1986,1969, 1925 og síðast en ekki síst 1914 þegar sólinni þóknaðist að láta sjá sig í 61 stund. Fáeinir góðir sólardagar komu þó fyrstu vikuna í júní núna.

Hvergi mældist frost í byggð í þessum mánuði.  

Hér hefur verið drepið á fáeinar veðurfarslegar staðreyndir um þennan merkilega mánuð. Þeim verður ekki haggað hvernig sem menn meta þennan mánuð huglægt að öðru leyti. Frekara uppgjör er að finna á vef Veðurstofunnar. Og þar sést að þessi illræmdi júní að sumra mati var alveg einstaklega hægvirðasamur! Þó sums staðar hafi verið rigning var þó fráleitt "rok og rigning"!

Það eru alltaf merkileg tíðindi veðurfarslega þegar einhver mánuður mælist sá hlýjasti eða næst hlýjasti á landinu í heild og allvíða sá hlýjasti sem mælst hefur á einstökum stöðvum og annars staðar nærri því.

Og það skyldi þó ekki vera að norðlendingar fái sitt besta sumar eins og gerðist í kjölfar júní 1933!

Þá mega sunnlendingar víst biðja fyrir sér!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fáfengileg veðurtölfræði fyrir 17. júní

Nú hafa liðið 70 þjóðhátíðardagar en dagurinn í dag er sá 71.

Meðalhiti þessa dags á lýðveldistímanum í höfuðborginni er 9,6 stig en 10,5 á þessari öld. Hæsti meðalhiti var 13,1 stig árið 2005 en lægstur 4,8 árið 1959, þann illræmdasta 17. júní hvað veðrið snertir.

Meðaltal hámarkshita þennan dag síðustu 70 árin er 12,2 stig. Hlýjast varð 17,4 stig árið 2005 og minnsti hámarkshiti var 7,3 stig 1959.

Meðaltal lágmarkshita er 7,1 stig en lægst 2,3 stig 1959 en mestur hefur lágmarkshitinn verið 9,5 stig árið 1955. 

Engin úrkoma hefur mælst í Reykjavík að morgni 18. júní, sem mælir þá úrkomu frá kl. 9 á þjóðhátíðardaginn og áfram fram á næsta morgun í 33 skipti af 70 eða í 47% daga. Það hefur því ekki alltaf verið "rok og rigning". Úrkoma meiri en 1 mm hefur mælst í 21 dag.  Mest mældist 13,7 mm árið 1988.

Meðaltal sólskinsstunda á þjóðhátíðardaginn er 5,1 klukkustund í borginni. Mest sól var árið 2004, 18,3 stundir en 11 sinnum hefur alls engin sól mælst, síðast 1988. Sól hefur skinið meira en tíu klukkustundir í 13 daga. Nokkuð ber á því að sautjándinn sé sólríkur í Reykjavík nokkur skipti í röð eða þá rigningarsamur og þungbúinn nokkur skipti í röð.

Mesti hámarkshiti á Akureyri á lýðveldistímanum er 23,5 stig árið 1969 sem er jafnframt mesti hiti sem mælst hefur á þjóðhátíðardaginn á öllu landinu en sami hiti mældist 1977 í Reykjahlíð við Mývatn. Minnsti lágmarkshiti á Akureyri er 0,4 stig árið 1959. Tölur fyrir meðalhita á Akureyri liggja ekki fyrir nema frá og með 1949 en síðan þá er meðalhiti mestur á 17. júní 15,1 stig árið 1969 en kaldast 1,5 stig 1959.

Hlýjasti þjóðhátíðardagurinn að meðaltali frá 1949 á öllu landinu var 1966 11,2 stig á skeytastöðvum en sá kaldasti var 1959, 1,8 stig.  Minnsti hámarkshiti á landinu á sautjándanum alveg frá 1944 er 10,6 stig þann hræðilega dag 1959. Hér verður ekki farið út í illvirði á 17. júní en 1959 myndi þar áreiðanlega verða ofarlega á blaði. Mesti kuldi sem mælst hefur á þjóðhátíðardaginn á landinu er -4,8 stig á Skálafelli árið 2010 en í byggð -2,9 stig á Staðarhóli í Aðaldal árið 1981.

Sólríkasti 17. júní á landinu er örugglega 1991 þegar sólin mældist 15-18 stundir á öllum mælingastöðum nema á Melrakkasléttu þar sem voru 10 stundir af sól. Þetta er sólríkasti 17. júní á Akureyri með 18 klukkustunda sólskin. 

Mest úrkoma að morgni 18. júní á landinu hefur mælst 167,1 mm á Gilsá í Breiðdal árið 2002. 

Dagurinn í dag er mjög hlýr fyrir norðan og austan og hefur hitinn þegar allvíða þar farið yfir tuttugu stig, mest 22,7 á Húsavík. 

Á fylgiskjali má sjá kort af veðrinu á Íslandi kl. 17 (kl. 18 að núverandi hætti) 17. júní árið 1944. Kortið stækkar ef smellt er á það.  

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Góð júníbyrjun

Þegar júní er hálfnaður er meðalhitinn í Reykjavík 11,5 stig sem er 2,9 stig yfir meðallagi sömu daga  1961-1990 en 1,6 stig yfir meðallaginu á 13 fyrstu árum þessarar aldar. Meðalhitinn fyrri hluta júní hefur aðeins verið hærri árið 2002 en var þá 12,0 stig. Síðar kólnaði í þeim mánuði og lokatalan varð 11,3 stig sem gerir hann þó að næst hlýjasta júní sem mælst hefur í borginni en sá hlýjasti var 2010 með 11,4 stig. En þá voru mestu hlýindin seinni hluta mánaðarins.

Því miður er ekki sérlega góð spá það sem eftir er mánaðarins, ef nokkuð er þá að marka slíkar langtímaspár,  svo kannski gerir okkar júní engar sérstakar rósir í hitanum þegar hann er allur. 

Ekki geri ég ráð fyrir að mönnum finnist rigningar hafa verið til leiðinda í borginni það sem af er júní. Eigi að síður vantar aðeins um 5 mm upp á það að úrkoman sem af er nái meðalúrkomu alls júnímánaðar 1961-1990. Sólskinsstundir eru 12 stundir fram yfir meðallagið. Þó hafa aðeins komið þrír miklir sólardagar en þann 6. mældist jafn mikil sól í borginni og mest hefur áður mælst, 17,6 klukkustundir og næsta dag aðeins minna. 

Á Akureyri er meðalhitinn núna 11,3 stig eða 2,5 stig yfir meðallaginu 1961-1990. 

Á veðurstöðinni við Þyril í Hvalfirði er meðalhinn tólf stig. 

Tuttugu stiga hiti eða meira hefur mælst á landinu sjö daga af þessum 16 sem verður að teljast allgott.  

Í dag hlýnaði loksins almennilega á austfjörðum og fór hitinn í 22,1 stig á Kollaleiru í Reyðarfirði og 20,5 á Seyðisfirði. Þrátt fyrir það að kaldast hafi verið að tiltölu á austfjörðum er júníhitinn þar það sem af er samt okkru hlýrri en allur júní var að meðaltali á þessari hlýju öld. Hvergi á landinu er því hægt að tala um kulda í heild í mánuðinum, aðeins mismunandi mikil hlýindi.

En kannski mun fara að kólna svo ekki er víst að þessi hlýindi haldist út allan þennan júní.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mestu hlýindum lokið

Nú er mestu hlýindunum lokið í bili. Í dag komst hiti hvergi í 20 stig á landinu. Þetta voru reyndar ekki nein sérstök hlýindi. Hiti náð tuttugu stigum eða meira aðeins á suðurlandsundirlendi og í Borgfarfirði að undanskildum fyrsta degi tuttugu stiga syrpunnar. Hitinn náði 20 stigum á þessum stöðvum en ekki er skeytt um sjálfvirku stöðina á Hjarðarlandi heldur aðeins þá mönnuðu. 

5.  20,0 Egilsstaðaflugvöllur.

6. 21,1, Hjarðarland,  21,0 Þingvellir og Bræðratunguvegur ( vegagerðarstöð), 20,9 Árnes, 20,5 Hvanneyri og Skálholt (vegagerðarstöð), 20,2  Hjarðarland. 

7. 21,8 Húsafell, 20,7 Litla-Skarð, 20,5  Þingvellir, 20,4 Kolás, 20,2 Veiðivatnahraun, 20,0 Hjarðarland og Stafholtsey.

8. 21,0 Hvanneyri, 20, 9 Húsafell, 20,8 Þingvellir, 20,6  Litla-Skarð, 20,4 Kolás, 20,3 Veiðivatnahraun, 20,2  Lyngdalsheiði. 

 

Við þetta er að bæta að 20,8 stigin frá Þingvöllum voru mæld kl, 13 í gær en eftir það komu ekki upplýsingar en kannski koma þeir seinna. Ekki er útilokað að þar hafi mælst mesti hitinn í gær og jafnvel það sem af er ársins. 

Í gær mældist svo mesti hitinn sem enn hefur komið í Reykjavík þó ekki væri hann meiri en 16,5 stig.

Mikil sól var dagana  6. og 7. í Reykjavík og fyrri daginn var jafnað sólskinsmetið þann dag í  borginni, 17,6  klukkustundir.   

Eftirmáli 10.6. Jú, það fór eins og mig grunaði að mestur hiti þ. 8. mældist á Þingvöllum, þaðan sem  upplýsingar létu standa á sér en hafa bú borist, en þar fór hitinn í 22,1 stig þennan dag og er það þá mesti hiti sem enn hefur mælst á landinu þetta sumar. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Veðurreyndur silfurreynir

Silurreynirinn við Grettisgötu 17, sem stendur til að fella, hefur búið við reykvískt veðurfar frá 1908. Hann man kuldaskeið 19. aldar sem náði þó vel fram á tuttugustu öld og þar með frostaveturinn 1918, hlýskeiðið sem hófst upp úr 1920, hafísárin sem hófust 1965 og kuldaskeiðið í kjölfarið sem stóð næstum út 20. öldina og loks hið mikla hlýindaskeið það sem af er 21. aldar. Að fella svo reynda og veðurvitra lífveru sem á allt sitt undir sveiflum náttúrunnar er hreinlega glæpur.   

 

Þá er júní kominn á skrið og byrjar alveg sæmilega.

Fylgiskjalið fylgist með.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Elsta veðurminningin

Þennan dag árið 1960 mældist mesti hiti sem mælst hefur í nútímahitamælaskýli í Reykjavík, 20,6 stig. Um það má lesa í þessari bloggfærslu.

En frá þessum degi er líka elsta veðurminningin sem ég á  hvað varðar veðurfarslegt atriði sem ég get dagsett upp á dag. Hef alltaf munað að um kvöldið var sagt við mig að í dag hafi mælst 21 stigs hiti í bænum.

Ég var tólf ára og hafði engan sérstakan áhuga fyrir veðri.

Sá áhugi kviknaði ekki fyrr en sumarið 1967, kannski eftir á að hyggja vegna veðurkortanna í sjónvarpinu sem þá voru nýlega farin að birtast.  Um vorið las ég Veðurfræði Jóns Eyþórssonar og eitthvað var ég byrjaður að fylgjast með veðrinu um það leyti.

Það var hins vegar nákvæmlega 11. júlí 1967 sem ég byrjaði að fylgjast kerfisbundið með daglegu veðri og hef gert það síðan. 

Mér er þessi mikla veðurdella mín hálfgerð ráðgáta. Ég var að verða tvítugur þegar hún kom yfir mig og hún er síðasta stóra áhugamálið sem ég hef tileinkað mér en ég hef mörg áhugamál. Og nú má segja að þetta sé það sterkasta.

Netið hefur auðvitað eflt þennan áhuga á seinni tímum en netið er það besta sem fyrir veðurdellumenn gat komið.

Mér finnst róandi að pæla í veðrinu. Það gengur bara sinn gang óháð vitleysisganginum í mannlífinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlý vorbyrjun

Ekki er hægt að kvarta yfir þessari vorbyrjun. Í Reykjavík er spretta gróðurs líklega hálfum mánuði fyrr en venjulega. 

Meðalhitinn i Reykjavík er nú 8,15 stig eða  3,4 stig yfir meðallaginu 1961-1990 en  0,3 stig yfir meðallagi þessarar aldar fyrir fyrstu tíu daga maímánaðar. Aðeins var hlýrra þessa daga að meðaltali árin 2011, 2006, 1961 og 1935. Nærri því eins hlýtt var 2008

Ómögulegt er þó að segja til um hvernig mánuðurinn mun reynast í hitanum þegar hann er allur. Maímánuðirnir 2011 og 2006 voru aðeins í kringum meðallagið 1961-1990 en 1961 var með hlýjustu mánuðum og 1935 er hlýjasti maí sem mælst hefur í Reykjavík. Maí 2008 varð vel hlýr.  Ef okkar mái héldi núverandi hitafráviki hvers dags upp á við  til loka myndi hann þó sló 1935 út og verða hlýjasti maí sem mælst hefur í Reykjavík. En það mun líklega ekki verða.

Á Akureyri er meðalhitinn núna 6, 2 stig eða 2,7 stig yfir meðallaginu 1961-1990.

Úrkoman sem af er má heita í meðallagi bæði  í Reykjavík og á Akureyri og það hjálpar auðvitað til með gróðurinn að úrkoman sé nægjanleg. 

Sólskinsstundir i Reykjavík eru níu fleiri en meðaltalið fyrstu tíu dagana segir til um. 

Ekki hægt að kvarta yfir þessu. Svo er bara að sjá hvað verður með framhaldið. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlýindi

Það hefur víst ekki farið framhjá hinum vorþyrstu að hlýtt hefur verið á landinu í gær og í dag. Í gær komst hitinn mest í 18,1 stig í Skaftafelli en í dag 16,3 á Húsafelli. Ekki eru þetta þó dagsmet, hvað þá mánaðarmet. Hiti hefur nokkrum sinnum komist yfir 20 stig á landinu í apríl og það svo snemma sem þann þriðja.

Slkilyrði hafa verið í háloftunum fyrir um 17 stiga hita eða jafnvel meira á Reykjavíkurvæðinu og víðar en ekki hefur það skilað sér til jarðar. En þetta er sá hiti sem við bíðum eftir hér í Reykjavk að fari að koma í apríl. Mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í apríl eru snautleg 15,2 stig. þ. 29. árið 1942. En talsvert meiri hiti hefur mælst víða á suður og vesturlandi. En tuttugu stiga hiti hefur aldrei mælst í apríl nema austan til á landinu á nokkrum stöðum. Í dag fór hitinn í Reykjavik í 13,1 stig og 11,1 í gær en á Akureyri komst hitinn í dag í 14, 5 stig en 13,5 í gær. Mesti hiti sem mælst hefur í Reykjavík á sumardaginn fyrsta er 13,5 stig.

Þó engin met hafi hafi verið slegin er þetta svo mikill hiti að hann mun ekki standa nema í fáa daga. Meðaltal hámarkshita í Reykjavík 23. apríl. nær ekki sjö stigum. Í Reykjavík er það ekki fyrr en um 20. maí sem hámarkshiti að staðaldri nær tíu stigum að meðaltali hvern dag og það stendur fram undir 20. september. Það er hins vegar mjög um þetta leyti, kringum sumardagin fyrsta, sem hámarkshiti á landinu að staðaldri nær 10 stigum og stendur fram í miðjan október. En auðvitað geta hlýir dagar komið og farið snemma vors og á haustin. 

Meðalhiti þessa mánaðar er  tvö stig yfir meðallagi í Reykjavík en tvö og hálft á Akureyri, miðað við 1961-1990, en rúmlega eitt stig á báðum stöðunum miðað við síðustu tíu ár. Næstu daga mun meðalhitinn enn rísa.

Snjólaust hefur verið á Akureyri í um það bil viku og víða annars staðar norðanlands er enginn snjór eða bara flekkótt jörð, jafnvel á Hólsfjöllum og við Mývatn, en alhvít jörð  er þó enn á stöku stað. 

Fylgiskjalið fylgist með. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband