Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Júlí byrjar illa

Ekki er hægt að segja að júlí byrji annað en illa. Og það alls staðar á landinu. Þetta er stórt skref niður á við í veðurgæðum almennt á landinu frá því í júní. 

Samt hafa verið þrír góðir sólardagar síðustu sex daga i Reykjavík!

Spáð er hlýrra veðri. 

Nú er hásumar og þess vegna getur verið að einhver lausung verði á blogginu og fylgikskjalinu á næstunni eins og verið hefur síðustu viku.

Í fylgiskjalið er kominn enn nýr dálkur, lengst til hægri á blaði 1, er sýnir meðaltal mesta hámarkshita á landinu viðkomandi dag frá 1949.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Frábærum júnímánuði lokið

Nú er lokið alveg fyrirtaks júnímánuði sem þó hefur orðið að þola meiri rógburð og illmælgi í sinn garð en ég man eftir að nokkur sumarmánuður hafi orðið að afbera síðan ég byrjaði að fylgjast með daglegu veðri. Hann lét þó illar tungur ekkert á sig fá og lauk síðasta deginum með sumar og sólskinsstæl hér í höfuðborginni!

Meðalhitinn i Reykjavík er 9,9 stig sem er 0,3 stigum meira en meðaltalið á hlýindaskeiðinu 1931-1960, hvað þá kuldaskeiðinu 1961-1990 sem oftast er miðað við, en reyndar um hálfu stigi  kaldara en meðaltalið á þessari öld sem er svo afbrigðilega hátt að það getur varla enst til margra ára og að mínum dómi er fremur vafasamt að taka mið af meðaltali svo fárra ára. 

Úrkoman var 65,6 mm sem verður að teljast í meira lagi. Eins og hitinn hefur verið óvenjulega mikill í júní í Reykjavík á þessari öld hefur úrkoman einnig verið mjög lítil, aðeins um 36 mm en var 53 mm að jafnaði 1961-1990. Ekki hefur mælst meiri úrkoma í júní síðan 1992.  Úrkomudagar voru 24 en voru 14 að meðaltali á þessari öld en 18 árin 1961-1990. Þeir voru jafn margir í júní árið 2006 en hafa aðeins verið fleiri í júní árin 1960 (sem reyndist í heild sjaldgæft sólarsumar) og skítasumarið 1983. Það er samt ekki rétt að líkja þessum júni við júní 1983 sem  var miklu kaldari og úrkomumeiri en svipaður að sól. Var hann þó skárstur sumarmánaðanna það árið. 

Það er kannski einmitt sólin sem kom mest á óvart í þessum mánuði! Framan af virtist eins og hann ætlaði að verða sá sólarminnsti en á endasprettinum vippaði hann sér glæsilega upp í 13 sæti frá botninum!

Á Akureyri var úrkoman svo sem ekki neitt neitt, um 9mm mm en meðalhitinn var 11,4 stig og hefur þar ekki orðið jafn hlýtt í júní síðan 1953. Aðeins  fimm júnímánuðir hafa þar verið hlýrri frá 1882. Á Fljótsdalshéraði og á austfjörðum virðist þetta einnig vera einn af fimm hlýjustu júnímánuðum. En merkilegast er að í Grímsey sýnist þetta í fljótu bragði vera allra hlýjasti júní og einnig á Raufarhöfn ásamt þó júní 1953 þar. Eru þetta þó útkjálkar miklir sem eiga oft erfitt uppdráttar frameftir sumri.

Alls staðar er mánuðurinn yfir meðallagi hlyindaáranna 1931-1960, hvað þá kuldatímabilsins 1961-1990. Á landinu öllu virðist hitinn meira að segja vera langt yfir meðallaginu á þessari öld sem er þó enn hærra en 1931-1960.

Þetta verður því að kallast afar góður júní. 

Hann var þó óneitanlega fremur úrkomusamur og sólarlítill á suðurlandi en þar á móti kemur að hann var þar líka hlýr eins og annars staðar. Það er algjörlega út i hött, að mínum dómi, að tala um að ekkert sumar hafi verið í Reykajvík og þar fram eftir götunum. Ég er mjög andvígur því að setja einfalt samasemmerki á milli sólskins og sumars. Að sólin ein sé mælikvarði á það hvað við getum kallað sumarveður.                             

Júní á þessari öld hefur yfirleitt verið í Reykjavík einstaklega hlýr, þurrviðrasamur (jafnvel til baga) og sólríkur. Þetta má reyndar segja um sumarið i heild. Menn verða að átta sig á því að þetta ástand er það afbrigðilega og þess er varla að vænta að það haldi áfram mikið lengur álíka stöðugt og það hefur verið.

Þessi júní  er þó enn mjög ákveðið í þeim hlýindafasa sem einkennt hefur þessa öld eins og ljóst má vera á þeim staðreyndum sem ég var að telja upp. En auðvitað koma hlýir og góðir mánuðir þó misjafnt niður í fjölbreyttu veðurlandi eins og okkar. Nú var það norðurland og austurland sem fengu þykkasta  rjómann. 

Það er vitaskuld fremur bagalegt fyrir sóldýrkendur (en ég er einn af þeim æstustu þeirra á meðal) þegar sólarleysi hrjáir þeirra landshluta. Það ætti þó ekki að vera einrátt í mati nokkurs manns á veðurfari mánaðar almennt. Nú  eru menn ekki bundnir við sína þúfu eins og var fyrr á árum heldur flækjast um og flakka víða. Menn ættu líka að vera sæmilega meðvitaðir um veðurfarsástandið í heild á landinu gegnum þær margháttuðu upplýsingar sem finna má í fjölmiðlum og á netinu. Að emja og orga yfir því í almennri gósentíð sem á fáa sína líka að þeirra landshluti sé í þetta skiptið ekki alveg á fremsta bekk finnst mér bera vitni um ótrúlega veðursjálfhverfu (nýtt orð og gagnlegt!) og heimtufrekju  en jafnframt eindæma sauðshátt í skynjun á umhverfinu, landinu okkkar á einhverju besta veðurskeiði sem þjóðin hefur líklega nokkru sinni upplifað. 

Eins og ég hef sagt hefur 21. öldin verið afburða hlý og veðragóð, jafnt að sumri sem vetri. Ekki er hægt að búast við því áfram alveg von úr viti. 

Og hvað gera menn, úr því þeir hrökkva upp af standinum yfir þessum hlýja og góða júní, ef þeir fá til dæmis fremur blautan og sólarlítinn júlí með meðalhita upp á 10,6 stig í Reykjavík (nákvæmlega í núgildandi meðallagi, 1961-1990) hvað ekki hefur reyndar skeð síðan ég man ekki hvenær en var svo algengt veðurlag fram á þessa öld að menn tóku ekki einu sinni eftir því hvað þá að þeir hafi farið yfrum í sjálfsvorkunn, fussi og sveii.

Og nú er kannski einmitt komið að þessu! Júlí heilsar vægast sagt kuldalega, nú þegar þessi orð í tíma töluð eru töluð er hitinn 7,6 í vorri ástkæru og veðursælu höfuðborg! Og stórt skref niður á við frá flestum dögum í júní.

Já, svei mér ef sumarið 1983 er ekki snúið aftur!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nú er ekkert sumarveður

Nú má þó með sanni segja að sé ekkert sumarveður hér í höfuðborginni!

Í Reykjavík komst hitinn aldrei í tíu stig en var lengst af um 8 stig og svipað alveg frá Hornafirði vestur um til Vestfjarða. Og það er mikil hryssingur. Heldur skárra var fyrir norðan þangað til fer að kvölda. 

Þetta er æði ólíkt því sem verið hefur. Þrátt fyrir lítið sólskin í Reykjavík hefur veðrið þar í júní þangað til í gær verið æði langt frá því sem var í dag og er hiklaust hægt að kalla að hafi verið sumartíð. Þetta geta menn séð mjög skýrt í fylgiskjalinu. 

''Víðast hvar á landinu hefur verið ágæt tíð í mánuðinum en einkanlega þó fyrir norðan og austan. Og þó sólarlítið hafi verið á suðurlandi hefur alls ekki verið kalt. Það gæti hafa verið suðvestanhryðjur með meðalthita undir átta stigum í stað um tíu stiga. Slíkt veðurlag var nánast regla í júní þegar ég var upp á mitt besta!''  

Þannig tók ég til orða fyrir nokkrum dögum í bloggpistli. 

Og veðrið í dag er nákvæmlega það sem ég átti við með þessum orðum hvað gæti hafa verið og er ekki sjaldgæft. Og þetta veðurlag í dag er þó bara eitt sýnishorn af mörgum vondum sem hefðu getað verið ríkjandi allan júní i stað þeirrar ekki óhagstæðu veðráttu sem var á suðurlandi og hreinnar öndvegistíðar á norður og austurlandi.

Það er ekki allt sama veðrið þó sólarlítið sé og jafnvel úrkomusamt. Lengst af í júní var sumar um allt land.

En nú er það ekki lengur. Nú fer líka meðalhiti mánaðarins að hrynja en hefur reyndar ekki marga daga til þess.

Það er svo sannarlega ekkert sumarveður! 

Og spáin er eiginlega hrollvekjandi!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Júní kominn af sólarleysisbotninum

Eftir fáeina sólardaga eru sólskinsstundir þessa júnímánaðar komnar upp í 90 í Reykjavík. Mánuðurinn er þá ekki lengur á botninum miðað við það sem liðið er af honum eins og hann var lengi framan af. Ellefu júnímánuðir hafa verið sólarminni að 23 dögum liðnum. Mánuðurinn í heild getur þó enn orðið nálægt botninum. Ef ekki bætast við fleiri sólskinsstundir yrði hann fjórði sólarminnsti júni frá 1911. 

Sólskinsdagar með 10 klukkustunda sól eða meira eru nú orðnir þrír. Þeir urðu ekki fleiri í öllum júní 1940, 1958, 1959, 1960, 1962 og 1999. Að lokum urðu þó sumrin 1958 og 1960 mikil sólskins og gæðasumur í Reykjavík. Árið 1988 voru tíu stunda sólskinsdagar aðeins einn í júní en tveir 1988.

Nokkrir mjög sólríkir júnímánuðir hafa komið undanfarin ár. Í fyrra var júní sá næst sólríkasti og 2008 sá fjórði. Sólarminnsti júní á þessari öld var 2006 með 143 sólarstundir en meðaltal aldarinnar er 209 stundir en þær voru 161 árin 1961-1990 en oftast er miðað við það meðallag. Það er kannski ekki síst í ljósi þessara óvenjulegu staðreynda sem mönnum bregður við þegar sólskin í júní er af skornum skammti. En slíkt gerist. Og það gerist líka að koma heilu sumrin þar sem varla sér til sólar. 

En eigum við ekki að vona að þessari miklu sólarleysisskorpu sé nú lokið. Það sem eftir lifi sumars komi nokkrir sólardagar innan um sólaleysisdagana eins og venjulega en ekki verði bara sólarleysi! 

Það er enn býsna hlýtt. Í Reykjavík er hitinn nokkuð yfir meðallagi hlýju áranna 1931-1960 og langt yfir því á Akureyri. Þetta og margt fleira má sjá í fylgiskjalinu. 

Nú er alls staðar talin alauð jörð á veðurstöðvum nema á Tjörn í Svarfaðardal.

Viðbót 25.6.: Í morgun var í fyrsta skipti á þessu sumri talin alauð jörð á öllum veðurstöðvum.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Snjólaust í Fljótum

Í gær  var loks talið snjólaust við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum. Þó alautt sé talið á stöðinni geta samt verið skaflar í skorningum og skvompum í sveitinni.

Á ýmsum þeim stöðvum þar sem snjór var einna mestur og þrálátastur í vetur hefur verið snjólaust í nokkra daga svo sem á Grímsstöðum á Fjöllum, Lerkihlíð í Vaglaskógi og Þverá í Dalsmynni. Hins vegar er enn ekki alautt við Mývatn, Tjörn í Svarfaðardal og á Bassastöðum í Steingrímsfirði. Ekki hafa nýlega komið upplýsingar frá Svartárkoti og ekki frá Ólafsfirði í margar vikur. Þar er líklega allt enn á kafi í snjó! 

Það er reyndar komin 18. júní svo varla er hægt að hrópa sérstakt húrra fyrir því að snjólaust sé orðið.  En miðað við ástandið í lok maí megum við happi hrósa yfir því hvað hlýtt hefur verið það sem af  er júní. Eindæma blíða alveg! Það gæti hafa verið þrálát norðanátt  allan tímann með næturfrostum og lítill leysingu. 

Þegar talað er um það hvort sumarið sé komið við hvað á þá að miða? Norðausturhornið eða suðvesturhornið? Eða hvað eiginlega?

Víðast hvar á landinu hefur verið ágæt tíð í mánuðinum en einkanlega þó fyrir norðan og austan. Og þó sólarlítið hafi verið á suðurlandi hefur alls ekki verið kalt. Það gæti hafa verið suðvestanhryðjur með meðalthita undir átta stigum í stað um tíu stiga. Slíkt veðurlag var nánast regla í júní þegar ég var upp á mitt besta! 

En sólarleysið er samt sem áður að verða næstum því hamfaralegt hér í höfuðborginni svo við borgarbúar megum nú líka taka upp hamfarahjal eins og tíðkast víða annars staðar á landinu.

Verst finnst mér að hafa ekki ljósar nætur þó eigi að heita bjartasti tími ársins.

Skammdegið hefur tekið völdin.

Það eru engar smávegis hamfarir í júní!

En veðurlag er hverfult fyrirbæri. Það getur vel komið sólríkur júlí og ágúst á suðurlandi með linnulausum norðaustanáttum og tilheyrandi hamförum á norðurlandi.   

Við lifum á hamfarakenndum tímum! 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólinskinsmálin

Þegar júní er nú hálfnaður eru sólskinsstundirnar í Reykjavík aðeins 28,8 og hafa aldrei verið færri fyrri helming mánaðarins síðan mælingar hófust þar 1923. Ekki veit ég hver staðan  var eftir fyrstu 15 dagana í júní 1914 þegar sólskinsmælingar voru á Vífilsstöðum en þá mældist sólarminnsti júní á höfuðborgarsvæðinu, aðeins 61 klukkustund. Við þurfum þrjá góða sólardaga til að slá hann út. 

Úrkoman er hins vegar það sem af er mánaðar um 5 mm undir meðallagi þessarar aldar sömu daga í Reykjavík. Þetta er sem sagt ekki rigningarmánuður enn sem komið er heldur sólarleysismánuður. Í fyrra var næst sólríkasti júní  Reykjavík sem mælst hefur í borginni og hefur aðeins einn júní og einn maí verið sólríkari af öllum mánuðum í árinu. Fyrri helming mánaðarins mældust þá 160 sólskinsstundir. Munurinn á júní núna og í fyrra er því mikill.

Meðalhitinn er enn 1,4 stig yfir meðallagi í Reykjavík. Það hefur þó verið að kólna dálítið síðustu daga og má því segja að veðrið hafi fremur versnað en hitt hér á Reykjanesskaganum frá því ég skrifaði síðasta sólskinspistil. Klukkan 18 í dag var reyndar blankalogn í Reykjavík og súld en aðeins 8 stiga hiti eins og verið hefur mest allan daginn. En þetta er nokkurn vegin leiðinlegasta júníveður sem hægt er að hugsa sér að mínum dómi. Alskýjuð vestanmolla. 

Það hefur þó eiginlega verið sól og blíða víðast hvar á landinu í dag og í gær nema hér í Reykjavík! Á Akureyri  fór hitinn í 17,6 stig í dag og þar var talið heiðskírt kl. 18 sem er sjaldgæft í veðurathugun en ekki má telja heiðskírt nema ekki sjáist ský á himni. Meðalhitinn á Akureyri er 3,6 stig yfir meðallagi en er samt á smávegis niðurleið eins og eðlilegt er þar sem hlýindin miklu sem voru um daginn eru um garð gengin.

Ég reikna svo ekki með að létti til í höfuðborginni fyrr en í fyrsta lagi um réttir! 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sumar og sól

Þegar 11 dagar eru liðnir af júní er meðalhitinn í Reykjavík 10,3 stig. Það er 0,6 stigum yfir meðallagi fyrir þá daga á þessari öld. Hitinn í júní á 21. öld í höfuðborginni hefur þó verið í hæsta máta afbrigðilegur. Síðustu tíu ár tuttugustu aldar var meðalhiti þessara daga aðeins 8,2 stig og meðalhitinn öll árin frá 1949 til 2012 var 9 stig. Meðalhitinn 1971-2000 var 8,3 stig. 

Þeirri hitasprengju sem staðið hefur nánast alla þessa öld í júní er því aldeilis ekki lokið. Hitinn í Reykjavík það sem af er mánaðar eru þó eiginlega smámunir miðað við hitann víða á norður og austurlandi. Á Akureyri er meðalhitinn 12,3 stig og 12,0 á Egilsstöðum. Jafnvel á Raufarhöfn er meðalhitinn 11,2 stig sem er svo mikið yfir öllum hugsanlegum meðaltölum að ég næ ekki einu sinni upp í það! Tvö dagshitamet fyrir sólarhringsmeðalhita hafa verið sett á Akureyri miðað við tímann frá og með 1949, þann 4. og 6.

Frá þeim þriðja hefur hiti sjö daga farið í tuttugu stig eða meira einhvers staðar á landinu og oftast á nokkrum stöðvum. Á suður og vesturlandi er líka vel hlýtt eins og tölurnar frá Reykjavik vitna um. Í fyrrinótt fór hitinn þar til dæmis ekki lægra en í 11 stig.

Það er því fullkomlega óðs manns æði að tala um það, eins og gengur þó eins og faraldur á netinu, að það hafi ekki komið neitt sumar og spurt er geðveikislega: Hve nær ætlar sumarið eiginlega að koma? 

Þennan júní, að fyrstu tveimur dögunum frátöldum, hefur einmitt verið sumarveður á landinu og það i betri kantinum. En það hefur verið lítið sólskin syðra. Það er hins vegar eins og furðu margir setji samasemmerki á milli sumarveðurs og sólskins. Ef sólin glennir sig hér í Reykjavík í 8 stiga hámarkshita, sem æði oft hefur gerst fyrstu dagana í júní og sólskinið er þá oft reyndar einstaklega brilljant þrátt fyrir  næturfrostin, er sumar að þeirra áilti, en ef skýjað er og 18 stiga hiti, eins og í fyrradag er ekkert sumar í þeirra huga. 

En hvernig er þetta þá með sólina í Reykjavík núna í júní?

Ég fletti upp í mínum dularfyllstu leyndarskrám og þá kom þetta í ljós: 

Sólskinsstundir fyrstu 11 dagana í júní eru svo margar sem 15,4 í borginni. Þær hafa reyndar aldrei verið jafn fáar þessa daga frá því mælingar hófust 1923. Sem sagt eins lengi og elstu menn muna!

Þar með fá sólarsinnar ofurlitla uppreisn sinnar æru!

En það breytir ekki því að nú er alveg hörku sumar! Sumarveður felst ekki bara í sólskini eins og ég sagði áðan. Það felst líka í ýmsu öðru, ekki síst hitanum. Nú hefur til dæmis verið hlýtt og notalegt kvölds og morgna ekki síður en um hádaginn en í miklu sólskinsveðri svo snemma sumars er oftast ekki út komandi fyrir kulda strax og sólar nýtur ekki og reyndar jafnvel þó hennar njóti. 

Sumarið er varla byrjað. En strax 1. eða 2. júní var kvartað yfir því á netinu að ekkert sumar ætlaði að koma, rétt eins og menn væru vanir því að þá væri sumarið komið á fullan blús í okkar landi. 

Þess skal hér getið að ef alla daga skini sólin eins lengi og hún hefur mest gert hvern dag væru sólskinsstundir nú í Reykjavík 194 eða 17,6 að meðaltali á dag. Ef sólin skini hins vegar eins og hún hefur minnst gert hvern dag þessa fyrstu ellefu daga væru sólarstundirnar einfaldlega engar. 

Og nú dúkkar upp eitt mikilvægt atriði sem vegur allmjög að æru sólskinssinna!

Þó sólarstundir séu svona fáar í Reykjavík þessa fyrstu daga júnímánaðar eru slíkar dagasyrpur með litlu sólskini út af fyrir sig svo algengar í öllum sumarmánuðum að það tekur varla að nefna það. Þær eru eitt af einkennum íslensks sumars. Hér koma yfirleitt nokkrir sólskinsdagar á stangli, stundum reyndar fáeinir í röð, innan um marga sólarlitla daga.

Annars var maí vel sólríkur í Reykjavík. Margir góðir sólskinsdagar komu, oft verið færri í öllum sumarmánuðum, sem voru líka það hlýir að menn nutu þeirra í botn með því að lepja sitt latte á stéttinni fyrir framan Café París við Austurvöll. Ekki seinna vænna áður en skuggavarpið ógurlega svelgir allan völlinn! 

En það er eins og sumir hafi steingleymt þessu. 

Það vill svo til að þessi sólarleysissyrpa kemur í alveg blábyrjun sumars eftir alveg eðlilegan sólarmaí og vel það, en  það er engin ástæða til að setja dæmið þannig upp að ekkert sumar hafi verið. Það er einfaldlega fjarstæða.

Mórallinn í þessum pistli er sem sagt þessi:

Í fyrsta lagi hefur verið bullandi sumarveður á landinu í júní og líka á suðurlandi þó það hafi verið betra fyrir norðan og austan. Í öðru lagi er ekki hægt að setja einfalt samasemmerki milli sumars og sólskins. Sumarveður sé bara sólskin og ekkert annað. Í þriðja lagi var maí sólríkur í Reykajvík og apríl reyndar sá næst sólríkasti frá upphafi mælinga. Það er ekki eins og ekki hafi sést neitt til sólar eftir að vetrinum lauk.

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu tuttugu stigin

Í dag mældist í fyrsta sinn á þessu ári 20 stiga hiti eða meira á landinu.

Hlýjast varð 22,0 stig á Raufarhöfn. 

Í Ásbyrgi varð hitinn 21,0 stig, 20,3 á Húsavík og 20,0 á Möðruvöllum í Hörgárdal.

Mestur hiti á mannaðri stöð voru slétt 20,0 stig á Mánárbakka (20,7 á sjálfvirku stöðinni) en það er satt að segja ekkert vit í því lengur að greina mönnuðu stöðvarnar frá þeim sjálfvirku. 

Ekki er útilokað að hiti eigi enn eftir að komast í 20 stig á stöku stað á norðausturlandi og austfjörðum. 

Meðaltal mesta hita á landinu þennan dag er um sextán stig, mestur varð hann 1941, 25,7 stig en minnstur 1975, 9,5 stig. Þessar tölur fyrir dag hvern má  sjá í hinu óbifanlega fylgiskjali, fylgnasta sér skjali landsins! 

Maí sem var að líða var svo engan vegin jafn galinn og af er látið! 

Svo er bara að sjá til hvernig júní og sumarið í heild spjarar sig. 

Viðbót: Ekki náðust fleiri tuttugu stig en Eskifjörður komst nærri því með 19,5 stig um sjö leytið.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólríkur maí í Reykjavík en fremur hlýr á Akureyri

Í gær mældist í Reykjavík mesti hiti þar sem af er ársins, 14,5 stig. Sólarhringsmeðaltalið var 9,1 stig eða 1,3 stig yfir meðallagi.

Meðalhiti mánaðarins í borginni er nú 5,6 stig sem er 0,6 stig undir meðallagi.

Á Akureyri er meðalhitinn 5,3 stig sem er 0,2  stig YFIR meðallagi. 

Ef við skiljum frá fyrstu tvo daga mánaðarins, sem voru afar kaldir, er meðalhiti allra hinna daganna í Reykjavík 0,2 stig undir meðallagi en 0,4 stig YFIR því á Akureyri.

Landshitinn í öllum mánuðinum er líklega alveg við meðallagið. Þetta hefur ekki verið kaldur maí í heild. Hitastaðan breytist líklega ekki mikið þá daga sem eftir er af mánuðinum.   
 
Hvergi er nú talinn alhvít jörð á veðurstöðvum en skaflar eru enn þar sem mestur var snjórinn. 

Sólskin er þegar komið vel yfir meðallag í þessum maí í Reykjavík þó enn séu þrír dagar eftir af mánuðinum. Úrkoman er í kringum meðallag og er víða svipaða sögu að segja. Þetta er sem sagt engan veginn kaldur og þurr maímánuður eins og vilja koma æði oft.

Allmargir góðir sólardagar með hámarkshita yfir 10 stig komu í Reykjavík fyrir og um miðjan mánuð. Slíkt er nú bara alls ekki algengt.

Hvort sem við tökum nú allan mánuðinn eða skiljum frá fyrstu tvo dagana er með engu móti hægt að tala um sérstaka kulda í maí. Þetta er svona í heildina nokkurn veginn eins og við erum vön gegnum árin. Þegar á allt er litið er þessi maí alveg sæmilegur og engin ástæða til að láta eins og hann sé algjör hörmung. Ég veit bara ekki hvað veldur þeim söng sem þó er mjög hávær á fasbókarsíðum. 

Hins vegar hafa komið ljúfari maímánuðir. Því er ekki að neita. En það hafa líka komið margir miklu verri án þess þó að þeir hafi vakið sérstaka athygli fyrir hörmungar. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vor eða ekki vor

Þegar tveir þriðju af maí er liðinn er meðalhitinn í Reykjavík 0,4 stig undir meðallagi. Það er nú varla neitt til að tala um í mæðutón. Þó eru menn í Reykjavík einmitt með hann sums staðar á netinu. Í fyrra var  kaldara en núna þegar 20 dagar voru liðnir af maí. 

Á Akureyri er meðalahitinn 0,3 stig YFIR meðallagi. Hitinn er líklega yfir meðallagi eða nálægt því víðast hvar á norður og austurlandi, jafnvel í Grímsey og á Raufarhöfn, en tiltölulega kaldara í sumum sveitum langt frá sjó.  

Þetta er meðallagið 1961-1990 sem er hin opinbera og alþjóðlega viðmiðun. Ef hins vegar er tekin aðeins þessi öld er meðalahitinn á landinu all nokkuð undir meðallagi. En það er kannski ekki hægt að miða allt við þessi hlýju ár. 

Snjó er nú að taka upp þar sem hann var fyrir sem var reyndar ekki víða á láglendi. Aðeins er nú talið alhvítt á einni stöð, Skeiðsfossi í Fljótum,  þar sem mestur snjór hefur einmitt verið. Í morgun var snjódýptin þar 50 cm og hefur minnkað um hálfan metra á einni viku.

Í ágætu samtali við bónda í Fljótunum í Landanum nýverið sagði bóndinn að miklu meiri snjór hafi til dæmis verið 1995 og 1989. Bæði þau ár var mars miklu kaldari en nú en apríl var svipaður.

Ekki er þetta samt gott ástand núna þar sem snjórinn hefur verið mestur. En mér finnst samt almennt allt of mikið gert úr því að nú séu einhver sérstök vorharðindi á landinu. Jafnvel einhverjar hamfarir.

Það sem veldur þessari tilfinnningu held ég að sé fyrst og fremst fréttir fjölmiðla sem eru ekki í jafnvægi en einblína á verstu svæðin og gera þar jafnvel meira úr en efni standa til. Það er til dæmis sláandi að snjóruðningar eru myndaðir grimmt til að sýna fram á fannfergið en einstaka sinnum sjást yfirlitsmyndir þar sem glögglega má sjá að snjórinn almennt er auðvitað ekki jafn mikill og snjóruðningarnir, meira og minna búnir til af mannavöldum, gefa tilefni til að halda. 

Ef ekki væri þessi snjór á hluta landsins myndi engum detta í hug að tala um að vorið léti á sér standa svo nokkru verulegu næmi. Mönnum fyndist allt i lagi með þessa vorkomu.Og  snjóalögin sem slík á sumum svæðum er sérstakur kapítuli sem hér verður ekki farið út í. En þau eru ekki teikn um raunveruleg harðindi eins og hafa stundum komið að vetri og vorlagi á Íslandi. Það var reyndar alhvít jörð ansi lengi fyrir norðan, alveg frá nóvember, en sá snjór er einfaldlega horfinn á flestum stöðum, til dæmis á Akureyri.

Annað sem gæti valdið tilfinningu manna fyrir löngum og hörðum vetri og seinkuðu vori er það að háveturinn var einstaklega mildur, mars svo aftur kaldari en samt yfir meðallagi, en apríl tiltölulega fremur kaldur, en ekki neitt meira en það, bara fremur kaldur,  en alls ekki afar kaldur. 

Og svo er eitt í viðbót. Þó allt lulli þetta allra síðustu vikur kringum meðallagið þá vantar afgerandi hlýja daga, ekki síst syðra, svo sem 13-15 stiga hita eða meira í sól. En fyrir norðan hafa slíkir dagar verið að koma undanfarið. Það er einmitt þegar slíkir dagar fara að koma í maí sem manni finnst að vorið sé nú komið. Æði oft er þó skortur á slíkum dögum í maí. 

En við erum lánsöm að búa ekki við fellibylji og skýstrokka!

Og mikið var gaman að heyra í Elínu Björk Jónasdóttur í Speglinum að tala um skýstrokka. Afhverju er ekki oftar talað við hana?

   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband