Sólríkur maí í Reykjavík en fremur hlýr á Akureyri

Í gær mældist í Reykjavík mesti hiti þar sem af er ársins, 14,5 stig. Sólarhringsmeðaltalið var 9,1 stig eða 1,3 stig yfir meðallagi.

Meðalhiti mánaðarins í borginni er nú 5,6 stig sem er 0,6 stig undir meðallagi.

Á Akureyri er meðalhitinn 5,3 stig sem er 0,2  stig YFIR meðallagi. 

Ef við skiljum frá fyrstu tvo daga mánaðarins, sem voru afar kaldir, er meðalhiti allra hinna daganna í Reykjavík 0,2 stig undir meðallagi en 0,4 stig YFIR því á Akureyri.

Landshitinn í öllum mánuðinum er líklega alveg við meðallagið. Þetta hefur ekki verið kaldur maí í heild. Hitastaðan breytist líklega ekki mikið þá daga sem eftir er af mánuðinum.   
 
Hvergi er nú talinn alhvít jörð á veðurstöðvum en skaflar eru enn þar sem mestur var snjórinn. 

Sólskin er þegar komið vel yfir meðallag í þessum maí í Reykjavík þó enn séu þrír dagar eftir af mánuðinum. Úrkoman er í kringum meðallag og er víða svipaða sögu að segja. Þetta er sem sagt engan veginn kaldur og þurr maímánuður eins og vilja koma æði oft.

Allmargir góðir sólardagar með hámarkshita yfir 10 stig komu í Reykjavík fyrir og um miðjan mánuð. Slíkt er nú bara alls ekki algengt.

Hvort sem við tökum nú allan mánuðinn eða skiljum frá fyrstu tvo dagana er með engu móti hægt að tala um sérstaka kulda í maí. Þetta er svona í heildina nokkurn veginn eins og við erum vön gegnum árin. Þegar á allt er litið er þessi maí alveg sæmilegur og engin ástæða til að láta eins og hann sé algjör hörmung. Ég veit bara ekki hvað veldur þeim söng sem þó er mjög hávær á fasbókarsíðum. 

Hins vegar hafa komið ljúfari maímánuðir. Því er ekki að neita. En það hafa líka komið margir miklu verri án þess þó að þeir hafi vakið sérstaka athygli fyrir hörmungar. 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birnuson

Alveg rétt. Ekki má heldur gleyma því að á þessum árstíma skiptir miklu að ekki komi frost að ráði. Þess vegna var þetta góður maímánuður.

Birnuson, 31.5.2013 kl. 01:31

2 identicon

Þetta sumar er allavega ekki að byrja neitt sérstaklega vel. Skítakuldi alla daga alltafhreint.

spritti (IP-tala skráð) 1.6.2013 kl. 09:17

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Á Íslandi er júní talin fyrsti sumarmánuðurinn. Maí er ekki að enda neitt illa og nú er spáð um og yfir 20 stiga hita fyrir norðan. Þetta er allt að koma!

Sigurður Þór Guðjónsson, 1.6.2013 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband