Færsluflokkur: Mánaðarvöktun veðurs

Vorið lætur á sér standa í Reykjavík en blómstrar á Akureyri!

Það sem af er wundershönen Monat Mai als alle Knospen sprangen er meðalhitnn á Akureyri næstum því hálft stig yfir meðallagi en næstum því heilt stig undir því í Reykjavík! 

Reykvíkingar eru því orðnir æði langeygðir eftir vorinu og öfunda óskaplega Akureyringa af blessaðri vorblíðunni.

Ef þið trúið mér ekki skulið þið bara kíkja á fylgiskjalið. 

Ekki lýgur það!

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mannaðar veðurstöðvar

Sem vesæll veðuráhugamaður er ég sammála því að net mannaðra  veðurstöðva sé orðið of gisið  þó þær sjálfvirku séu þarfaþing og mætti fjölga fremur en fækka.

Það er sárt að horfa á eftir mönnuðum stöðvum sem athugað hafa í áratugi, hátt upp í heila öld, eins og Stórhöfða, Lambavatni, Hæli, Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustri. Ekki bætir úr skák þegar sjálfvirkar stöðvar sem eiga að vera ígildi þeirra mönnuðu sem hverfa eru alls ekki á sama stað eins og raunin er um Árnes (fyrir Hæl) og Stjórnarsand (fyrir Klaustur) að ógleymdri þessari hörmung við Mývatn.

Allra verst er þó þegar langtíma mannaðar stöðvar eru lagðar niður en ekkert kemur í staðinn eins og raunin er um Norðurhjáleigu (þar á undan Mýrar í Álftaveri) og kannski Vík í Mýrdal. Maður er svo dauðhræddur um sama verði uppi á teningnum með Stafholtsey og allt undirlendi Borgarfjarðar verði þá  án veðurathugunarstöðvar. 

Til fróðleiks og nostalgíu ætla ég telja upp þær mönnuðu stöðvar fyrir almennar athuganir sem voru við líði þegar ég byrjaði að fylgjast með veðri 1967 eða einhverjum árum seinna en eru nú aflagðar og ekki hafa fengið mannaðan staðgengil í grenndinni og sumar ekki heldur sjálfvirkan, skeytastöðvar eru með svartletri: Elliðaárstöð, Hólmur,  Víðistaðir, Straumsvík, Mógilsá, Akranes, Hvanneyri, Andakílsárvirkjun, Fitjar í Skorradal, Síðumúli (kannski er Stafholtsey gild sem staðgengill), Haukatunga, Arnarstapi, Hamraendar í Dölum, Búðardalur (hugsanlega er Ásgarður einhvers konar staðgengill), Reykhólar, Flatey á Breiðafirði, Lambavatn á Rauðasandi, Kvígindisdalur, Suðureyri, Æðey, Hornbjargsviti,  Hrútafjörður, Barkarstaðir í Miðfirði, Blönduós, Hraun á Skaga, Nautabú, Grímsey, Torfufell í Eyjafjarðardal, Reykjahlíð við Mývatn, Sandur í Aðaladal, Staðarhóll, Húsavík, Garður í Kelduhverfi, Raufarhöfn, Skoruvík á Langanesi, Þorvaldsstaðir í Bakkafirði, Brú á Jökuldal, Hof í Vopnafirði, Dratthalastaðir, Egilsstaðir, Hallormsstaður, Skriðulaustur, Neskaupstaður, Kollaleira (mér skilst að veðurathugunarmaðurinn þar hafi hröklast burt vegna ofstækis virkjanasinna), Kambanes, Papey, Fagurhólsmýri, Kirkjubæjarklaustur, Vík í Mýrdal, Stórhöfði, Sámsstaðir, Hella, Hæll, Búrfell, Jaðar, Þingvellir, Reykir við Hveragerði, Reykjanesviti, Hveravellir

Kannski gleymi ég einhverjum stöðvum eða yfirsést eitthvað.  

Ekki veit ég alveg ástæðuna fyrir þessum gífurlegu breytingum. Ýmsar þjóðfélagsbreytingar spila þar inn í og eflaust fjárhgsástæður. 

Ekki á ég von á því að tilvonandi ríkisstjórn muni sýna þörfum Veðurstofunnar mikinn skilning. Fremur má búast við að hún skeri niður um allan helming og vilji helst einkavæða allt draslið. 

Einkavæðing veðurathugana og veðurupplýsinga væri það versta sem fyrir gæti komið. Tala nú ekki um ef aðgangur að veðurupplsingunum yrði þá seldur dýrum dómum. 

Í lokin tek ég fram að frá 1. maí er sú breyting gerð á mánaðarveðurvaktinni hér á Allra veðra von að Hveravellir er flokkuð sem hálendisstöð en hefur áður verið höfð meðal byggðastöðva. 

En ég býst varla við að þessi breyting eigi eftir að halda vöku fyrir mörgum!  

Viðbót 12.5.:  Nú á hádegi hafa engar upplýsingar borist frá Kirkjubæjarklaustri-Stjórnarsandi síðan kl. 4 í nótt. Þegar það gerist að ekkert kemur frá sjálfvirku stöðvunum varar það stundum vikum saman. Þetta er eitt af því óhagræði, eitt af mörgum, sem fylgir því að leggja niður mannaðar veðurstöðvar.Svo er það einkennilegt að jörð hefur verið talin alhvít á Stórthöfða í Vestmannaeyjum nú í margra morgna í röð.


mbl.is Net mannaðra veðurstöðva of gisið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Létt og leikandi

Já, auðvitað kom vorið létt og leikandi eins og músik eftir Mozart. Þess var líka algjörlega að vænta þrátt fyrir það að sumir töluðu eins og ekkert myndi vora þetta árið í einhverjum mesta veðurbarlómi og eymdarsöng sem heyrst hefur á landinu frá því í Sögum úr Skaftáreldi eftir Jón Trausta.

Í dag komst hitinn í 10,5 stig í Reykjavík í glaða sólskini sem er nokkuð gott eftir árstíma en fyrir austan fjall og í Hvalfirði voru 13,1 stig.

En ballið er bara rétt að byrja. Í maí hlýnar venjulega ansi skarpt og við erum ekki nærri komin að skemmtilegasta og heitasta partinum. 

Bráðlega verður snjórinn í Fljótum bara wagnerísk martraðarminning úr Niflheimum en raunveruleikinn verður endalaus mozartsæla undir flippuðum góðviðrihimni með ívafi af Bítlunum: Lucy in the sky with diamonds.   

Fylgiskjalið ætlar ekki að láta það æsilega vorblót framhjá sér fara! 

The times they are a-changin'. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Veðurstöð í Fljótin

Mikið væri nú gaman að fá sjálfvirka veðurstöð í Fljótin. Þó ekki við Skeiðsfossvirkjun þar sem er úrkomu og snjómælingastöð heldur t.d.í grennd við Ketilás. Fyrir löngu var í allmörg ár veðurathugunarstöð úti við sjó á Hrauni eða Hraunum (hvort er það?). En mér finnst áhugaverðast að veðurstöð væri inni í dalnum. 

En mikið er lagið við þetta myndband leiðinlegt og flutningurinn enn leiðinlegri. Óneitanlega er nafn lagsins, Undur vorsins, samt kaldhælðislegt miðað við ástandið! 

Í morgun var snjódýptin 162 cm við Skeiðsfossvirkjun. Metið í maí er 176 cm árið 1995.  


mbl.is Fljótin á kafi í snjó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrirvarar

Það þarf að taka þessa frétt að nýtt kuldamet fyrir byggð í maí hafi verið sett með -17,6 stiga frosti á Grímsstöðum með þó nokkrum fyrirvara.

Gamla metið, sem sagt er að hafi verið slegið, -17,4 þ. 1. 1977 á Möðrudal á Fjöllum, var mælt á kvikasilfursmæli en þá voru engar sjálfvirkar hitamælingar.

Þessi mæling í nótt á Grímsstöðum -17,6 stig var gerð á sjálfvirkan mæli sem alveg er nýbúið að setja upp. Ekki efa ég að mælingin sé í sjálfu sér rétt. Hins vegar mældist á kvikasilfursmælinum á Grímsstöðum ,,aðeins'' -14,5 stig. Munurinn er sláandi, 3,1 stig. Mesta frost sem mælst hefur í mái á Grímsstöðum á kvikasilfursmæli er -16,4 stig sem mældist svo seint í mánuðinum sem þann 19. í hrylingsmaímánuðinum  1979 og sömu nótt mældust -17,0 stig á Brú á Jökuldal á pjúra kvikasilfur.

Menn verða að mínu áliti aðeins að hugsa sig um stundum þegar þessar sjálfvirku stöðvar rjúka upp með íslandsmet í  kulda eða hita. 

Hvað kuldann snertir í byrjun þessa mánaðar, sem vissulega er ekkert grín, hafa samt ekki fallið nein kuldamet fyrir maí nema á einni stöð, að því er ég best veit, sem athugað hafa til dæmis í kuldaköstunum í maí 1982, 1979, 1977, 1967 eða 1968 til dæmis eða þá 1955 og 1943 og enn aftar, hvorki á stöðvum sem hafa verið mannaðar allan tímann eða á stöðvum sem voru mannaðar lengi en hafa svo haldið áfram á seinni árum sem sjálfvirkar. 

Þessi eina stöð er Hella á Rangárvöllum sem athugað hefur frá 1958. Þar mældist mest á kvikasilfrið -8,2 stig þ. 18. 1979 en í nótt mældist þar á sjálfvirku stöðinni -10,3 stig. En er þetta í rauninni sama stöð?

Á nokkrum þrælmönnuðum stöðvum sem hófu að mæla kringum 1990 hafa met hins vegar fallið. 

En gömlu súperkuldametin í maí frá 1982 og fyrr standa á þeim stöðvum sem staðið hafa vaktina allan tímann til þessa dags.

Það er enginn vafi í mínum huga að þessi sjálfvirka Grímsstaðamæling er ekki vitnisburður um mesta maíkulda sem komið hefur á landinu í byggð eftir að hitamælingar hófust. 

Nú er ég reyndar að taka saman smá dót um þessi alræmdu kuldaköst í maí á fyrri tíð og birti það kannski á þessari síðu.

Ef ég dett þá ekki dauður niður í miðjum klíðum úr kulda og vosbúð!

Viðbót: Ég er víst þegar búinn að skrifa svona pistil um hret í maí.

 


mbl.is Nýtt kuldamet fyrir maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næst sólríkasti apríl í Reykjavík

Í gær var útlit fyrir að apríl sem var að líða yrði annað hvort þriðji eða annar sólríkasti apríl í Reykjavík.  Sólin skein svo í  13,8 klukkustundir í gær. Þar með urðu sólskinsstundirnar í mánuðinum 229,1.

Þetta er þá næst sólríkasti april sem mælst hefur í Reykjavík frá upphafi mælinga árið  1911. Metið er frá árinu 2000 þegar sólin skein í 242,3 stundr. Þriðji er april 1924 með 224,7 sólskinsstundir.

Meðalhitinn í Reykajvik er 1,9 stig í apríl eða eitt stig undir meðallagi. Frá 1901 hafa 30 mánuðir verið kaldari  eða næstum því fjórði hver mánuður. Á þessum tíma hafa fimm arpílmánuðir verið undir frostmarki, sá síðasti 1983.

Á Akureyri er meðalhitinn -0,4 stig eða 1,7 stig undir meðallagi. Þetta virðist ansi kalt en þó hafa einir 17 aprílmánuðir frá 1901 verið kaldari, sá síðasti 1988. 

Alhvítir dagar í Reykajvík voru tveir og tveir dagar voru flekkóttir af snjó. Á Akureyri voru alhvítir dagar taldir þrír! En allir hinir flekkóttir.

Á mestu snjóasvæðunum, á Tröllaskaga, norðausturlandi í sveitunum og í Steingrímsfirði var víða alhvítt eða því sem næst allan mánuðinn. Á Grímsstöðum á Fjöllum þar sem bætt hefur í snjóinn síðustu daga, en var ekkert óskaplegur lengir frameftir, er snjódýptin nú orðinn 75 cm og veit ég ekki annað en það sé snjódýptarmet þar fyrir maí. En snjódýptarmetið þar fyrir april var fjarri því að vera slegið. Langt er í að snjódýptarmertið á Mýri í Bárðardal sé slegið fyrir maí en þar er ekki djúpur snjór. Á Sauðanesvita gæti kannski líka verið met á ungri og óreyndri stöð í hretviðrum lífsins, 18 cm, en á Siglunesi voru reyndar 115 cm snjódýpt 1. maí 1989!

Við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum, einhverri mestu snjóasveit landsins, er snjódýptin nú 167 cm en maímetið er 176 cm frá 1. maí 1995.

Mest snjódýpt sem mælst hefur á landinu á hádegisdegi verkalýðins er 204 cm - já, rúmir tveir metrar- mælt á Gjögri árið 1990.

Og enginn kvartaði! 

Hvað eigum við annars að segja um þennan apríl? Í stuttu máli:  Hann gæti hafa verið verri. 

Miklu verri! 

 


mbl.is Þriðji mesti sólskinsapríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Sólríkur apríl!

Apríl er nú kominn upp í sjötta sæti i Reykjavík fyrir sólríka aprílmánuði. Og enn skín sólin eins og hún eigi lífið að leysa. Það er vel mögulegt að mánuðurinn endi sem þriðji eða jafnvel næst sólríkasti apríl sem mældur hefur verið í Reykjavík.

Það er samt synd að segja að það sé vorlegt og er eins og versni með hverjum degi eftir því sem á líður. Ástandið er nokkuð undarlegt eftir hinn milda hávetur.

Þetta er samt vonandi bara tímabundin sveifla fremur en boðberi válegra veðurfarsbreytinga. 

Í nótt fór frostið við Mývatn í -18,5 stig og varð hvergi meira í byggð. Þetta er aðeins 0,5 stig undir dagshitametinu sem mælt var á mannaðri stöð í Möðrudal árið 1977. Enn og aftur endurtek ég þó hvílík vitleysa það var að setja sjálfvirku stöðina á Neslandatanga. Meðan mannaða stöðin var enn við Reykjahlið var áberandi kaldara á Neslandatanga í öllum mánuðum. Og ekki var munurinn á hámarks og lágmarkshita minni. Stundum var mannaða stöðin við Reykjahlið með einna hæsta ef ekki hæstan hita í sumarmánuðunum á landinu en Neslandatangi hefur aldrei blandað sér í þá baráttu. Hvað lágmarkshitann snertir er neslandatangi eiginlega út úr öllu korti með kuldann oftast nær miðað við Reykjahlíð. Og nú er búið að leggja niður mönnuðu stöðina í Reykjahlíð nema úrkomumælingar en þangað ætti auðvitað að flytja þessa fáránlegu stöð á Neslandatanga. 

Annar svona stöðvaskandall er sjálfvirka stöðin á Seyðisfirði og reyndar mætti nefna fleiri.

En nóg um það. Upp með sólskinsskapið og vorfílinginn! 

Mjög kalt loft er nú yfir landinu og það versta er að enginn alvöru bati virðist sjáanlegur.

Þess vegna ríður á að halda sólskinsskapinu og bjartsýninni. Og eftir stjórnarskiptin mun þetta allt lagast og spretta þúsund blóm í haga og jafnvel upp um öll fjöll og firnindi!

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Harðindi eða ekki harðindi

Nú þegar aðeins er um vika eftir af apríl er staðan sú að meðalhitinn í Reykjavík er 2,2 stig eða 0,5 stig undir meðallagi. Ekki er það nú mikið frávik og varla til að kvarta yfir í stórum stíl. Frá 1949 hefur tuttugu sinnum verið kaldara í apríl í Reykjavík fyrstu 23 dagana, síðast árið 2006. Serm sagt næstum því þriðja hvern apríl.   

Á Akureyri er meðalahitinn nú -0,2 stig eða 1,3 stig undir meðallagi.Það er samt ekkert óskaplegt miðað við það sem alloft gerist. Þar hafa örfáir dagar verið taldir alhvítir í apríl en flestir daga flekkóttir af snjó. En Akureyri er reyndar ekki snjóþngsti staðurinn fyrir norðan núna. Það er samt ekki hægt að segja, að mínu viti, að einhver sérstök harðindi hafi ríkt undanfarið hvað hitann snertir fyrir norðan eða annars staðar.

Eins og menn ættu að vita var veturinn afskaplega mildur, einkum þó sunnanlands en hann var líka mildur annars staðar. Líka fyrir norðan. Hins vegar hefur sú öfugþróun orðið að kaldara hefur verið í mars og það sem af er apríl en í janúar og febrúar en þeir mánuðir voru sjaldgæflega hlýir.

Tveir dagar aðeins hafa verið alhvítir í Reykjavík í apríl og er það enn undir meðallagi. En það er líka nokkuð öfugsnúið að ekki skuli hafa sést snjór í apríl í borginni fyrr en allra síðustu daga. En þessi snjór hverfur strax. Veturinn var mjög snjóléttur í Reykjavík og á öllu suðurlandi.

Sums staðar fyrir norðan er aðra sögu að segja. En bara sums staðar. Það má glögglega sjá á  mynd frá þeim 21. Snjóþyngslin hafa verið í Þingeyjarsýslum inn til landsins (en þó ekki sérlega venju fremur við Mývatn og á Hólsfjöllum), á utanverðum Eyjafirði og Skagafirði. Þarna eru reyndar sumar mestu snjóasveitir landsins. Það sem er sérstakt er að sums staðar fyrir norðan kom snjór snemma og hefur ekki náð að leysa en bætir bara í hann. Reyndar fer ekki að bræða snjó fyrir norðan í stórum stíl í mestu snjóasveitum fyrr en komið er vor og bætir í hann alveg þangað til og stundum lætur vorið nú á sér standa. Ég held að snjóalög séu ekkert sérstakelga afbrigðileg ef horft er nokkur ár aftur í tímann en ekki get ég tékkað á því hér og nú.

Ekki geri ég lítið úr erfiðleikum bænda á þeim svæðum þar sem snjóþyngsli eru mest. En það varla hægt að segja almennt að harðindi ríki eða hafi ríkt á landinu eða að vorið sé eitthvað verulega afbrigðilega á eftir tímanum. Það gengur heldur ekki að gera ástandið á verst settu svæðunum að eins konar samnefnara fyrir allt landið. Hins vegar er spáin næstu daga ekki geðsleg. Ég held reyndar að fjárfellirinn í hretinu mikla í september valdi því mest hve vonda tilfinningu menn sums staðar hafa fyrir snjóalögum þessa vetrar. Ef það hefði ekki komið held ég að mönnum fyndist þessi vetur ekkert hafa verið sérlega vondur. Hvað þá ef litað er lengra aftur en síðustu árin með sínum afbriglegu hlýindum sem varla standa endalaust.

Og þegar menn tala um að vorið láti á sér standa, sem virðist vera nýjasta orðræðu vortískan, má alveg muna að  apríl er nú ekki liðinn og ekki er hægt að gera sér vonir um raunverulegt vorveður á Íslandi í þeim mánuði nema einstaka sinnum dag og dag.

Þetta vor er sem sagt bara allt svona nokkurn veginn í lagi miðað við það sem viðgengist hefur. Ekki samt alveg! En það er ekkert sérstaklega mikið á eftir tímanum. Og alls ekki meira en Framsóknarfokkurinn!

Myndin stækkar vel við tvísmellun. Blágrænu svæðin eru snjólaus en rauðu  með snjó. Og þetta er i apríl áður en snjóa tekur almennilega að leysa og alls ekki annars staðar en á mesta láglendi. Snjólétt er víðast hvar í byggð.

modis_2013_04201_1199122.jpg

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ísland og óspillta náttúran

Þröstur Ólafsson hagfræðingur skrifar í dag grein í Morgunblaðið sem heitir ,,Hjó sú er hlífa skyldi.'' Hann leggur út af þeim orðum fyrrverandi umhverfisráðherra (af öllum mönnum!) að vitað hafi verið að Kárahjúkavirkjun myndi skaða lífríki Lagarfljóts en það væri bara viðunandi vegna efnalegs ábata. Tekur Þröstur þetta hugarfar aldeilis á beinið. Greinin er eins og töluð út úr mínu hjarta og þar er líka ýmislegt merkilegt skrifað almennt um ástandið á íslenskri náttúru. Þar segir m.a.: ,,Erlendir ferðamenn eru lokkaðir hingað með slagorðinu „njótið óspilltrar náttúru“. Hvar er svo þessi „óspillta“ íslensk náttúra? Jú, hún birtist okkur í nær algjöru skógleysi, víðáttumiklum uppblæstri, rótnöguðum úthaga, framræstu votlendi, ofveiddum fiskimiðum og útdauðum geirfugli. Að jöklum, hæstu fjallstindum og nýrunnum hraunum undanskildum, er fátt eitt eftir sem minnir á „óspillta“ náttúru. Þó endurtökum við þennan spuna í sífellu.''

Þröstur hefði mátt bæta við að búið er að eyðileggja flesta aðgengilega gjallgíga með efnistöku.

En margir trúa þessari þjóðsögu um óspilltu náttúruna. Í kosningaumræðum á RUV um umhverfismál nýlega sagði Róbert Marshall að ,,ósnortin náttúra'' væri okkar helsta söluvara. Þetta sagði hann eins og ekkert væri. Virðist trúa því eins og nýju neti. Er hann þó fremur umhverfissinni en virkjanasinni. 

Í Náttúrufræðingnum 1.-4. hefti 2012 er greinin: ,,Landið var fagurt og frítt. -Um verndun jarðminja''. Þá grein ættu menn nú að lesa. Þar er farið yfir þessi mál og komist að svipaðri niðurstöðu um ,,óspilltu'' náttúruna og Þröstur Ólafsson í sinni grein enda hefur þetta lengi legið í augum uppi. Ísland er eitthvert spilltasta land að náttúrufari á byggðu bóli. Ekki er í greininni í Náttúrufræðingum horft fram hjá þeirri miklu röskun sem virkjanir hafa haft á náttúru landsins. Og þar er hvatt til skipulagðra aðgerða til verndunar jarðminja á Íslandi, eins og það er nefnt.   

Umhverfismálin ættu að vera meginmálið fyrir Íslendinga í þessum kosningum og á öllum tímum.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Smávegis um mars og veturinn

Mars sem var að líða virðist í fljótu bragði vera að hita á landinu lítið eitt yfir meðallaginu 1961-1990, tæpt hálft stig, en hins vegar tæplega einu stig undir meðallaginu 1931-1960. Tiltölulega kaldast er á norðausturlandi en hlýjast a suðvestur og vesturlandi.

Þetta er samt kaldasti vetrarmánuðurinn, desember til mars.

Veturinn var hins vegar mjög hlýr í heild. Aðeins fjórir vetur hafa verið hlýrri á landinu, 1929, 1964, 2003 og 1847 og þetta gildir einnig um Reykjavík en ekki Akureyri þar sem allmargir vetur hafa verið hlýrri. Mestu munar um hlýindin í febrúar og janúar. Í Reykjavík var þriðji hlýjasti febrúar en janúar sá sjöundi hlýjasti.  Á Akureyri var fjórði hlýjasti febrúar en janúar sá 16. hlýjasti. Í Vestmannaeyjum var janúar sá 4.-5. hlýjasti og febrúar sá næst hlýjasti. Þar er þetta þriðji hlýjasti vetur en ekki var athugað þar árið 1847. 

Úrkoman var aðeins um helmingur af  meðallaginu Reykjavík í mars. Víðast hvar var í þurrara lagi, einkanlega á Fljótsdalshéraði og við austurströndina þar sem þetta virðist vera einn af allra þurrviðrasömustu marsmánuðum.

Mánuðurinn kom á óvart með því að krækja í áttunda sætið yfir sólríkustu marsmánuði í Reykjavík og var það sólskin að mestu leyti í seinni hluta mánaðarins en sólarlítið var fyrri hlutann. 

Snjóalögum var æði misskipt milli suðurlands og norðurlands.

Í Reykjavík varð fyrst alhvítt 21. nóvember og þar urðu alhvítir dagar 22. Enn getur auðvitað orðið alhvítt í borginni en varla verða það margir dagar. Á Akureyri varð fyrst alhvítt 31. október og var alhvítt allan nóvember, 28 daga í desember, 29 í janúar, 14 í febrúar (seinni hlutinn var fremur snjóléttur) og 25 daga i mars eða samtals 126 daga. Alhvítt er enn á Akureyri og snjódýptin 10 cm. 

Nánara uppgjörs um mars og þennan merkilega vetur er svo áreiðanlega að vænta fljótlega frá Veðurstofunni.

Apríl er mættur til leiks í fylgiskjalinu. Reykjavík og landið á blaði 1. Akureyri, drottning norðurlands, á blaði 2!   


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband