Færsluflokkur: Mannlífið

Villidýrið inni í okkur

Loksins er símanúmerabirtirinn minn kominn í lag en hann hefur verið í stakasta ólagi í marga mánuði. Síðan hef ég setið við símann með sælubros á vör og beðið eftir því að hringt yrði í mig. En það hefur enginn hringt. 

Aldrei skal neitt vera gaman þegar á að vera gaman!

Í dag keypti ég heimspekibækur Róberts H. Haraldssonar en þær vantaði í heimspekibókaasafnið mitt. Það er sérstætt við Róbert sem heimspeking að hann hefur þó nokkrar mætur á Freud og fer ómjúkum höndum um þennan Popper sem hefur verið í miklu áliti fyrir meint morð hans á Freud. Greining Róberts á ritgerð Freuds á "Undir oki siðmenninningar" sýnir þó að Freudinn er enn á lífi og furðulega ern eftir aldri.

Meðal annarra orða: Hvað skyldi Freud hafa sagt um klám? Áreiðanlega hefur hann skrifað um það en ég þekki ekki verk hans það vel að ég geti fullyrt um það eða bent á það.

En það er eins og margir hafi gleymt því að Freud sýndi okkur miskunnarlaust hvaða mann við höfum að geyma þegar siðmenningunni er sveipað burtu. Þarna inni er allt stútfullt af kynórum og klámi, sifjaspellum og nauðgunum og guð má vita hverju. Í báðum kynjum. Ég vona að það verði ekki talið til réttlætingar á mansali, barnaklámi eða kvenfyrirlitningu þó ég minni á að menn mega ekki gleyma þessari ábendingu Freuds. 

Stundum finnst mér síðustu árin eins og Ísland sé að breytast í viktoríutímabilið í siðgæðismálum. Undir fáguðu yfirborðinu, fullu af hræsni og tepruskap, geisaði villidýrið þrátt fyrir siðavendnina á þessu skinhelgasta tímabili Evrópumenningarinnar. Og svo fór Kobbi kviðrista á kreik þegar rökkvaði.    

Villidýrið í okkur verður enn þá villtara ef reynt er að afneita því. Ekki gengur þó að sleppa því lausu.

En skynsamlegt jafnvægi í tamningu þess er vandfundið. Og ekki gerist það með ofsa og orðaglamri. Það eitt er víst.


Hvað varð um líkið?

Ég var að hlusta á útvarpsleikrit þar sem flóttamenn komu við sögu. Þá rifjaðist upp fyrir mér atvik sem gerðist fyrir fáum árum. Erlendur flóttamaður á leið til Bandaríkjanna var stöðvaður á Keflavíkurflugvell og átti að vísa honum úr landii.

Hann tók þá líf sitt sjálfur.

Enginn vissi hver hann var eða hvaðan hann kom en ekki var hann grunaður um glæp. Talið var þó víst að hann væri íslamstrúar og væri kominn langt að austan. Reynt var að grennslast fyrir um mannin erlendis, sagði í fréttum, en svo var þessu aldrei fylgt eftir í fjölmiðlum svo ég viti. Atburðurinn gufaði bara upp. Ég hafði mjög eyru og augu opin en varð aldrei var við neina frekari umfjöllun fjölmiðla þó auðvitað sé hugsanlegt að hún hafi farið framjá mér. 

Mikið var þetta allt saman sorglegt. Maður reynir að leita sér betra lífs. Hann er kyrrettur í ókunnu landi og finnst sem allar leiðir séu lokaðar - og kannski var það einmitt rétt mat  - og ákveður að stytta sér aldur.   

Og hvað varð svo um líkið? Var það grafið hér á landi? Eða var það kannski brennt? Í Íslamtrú er það talið algjör svívirða að brenna lík. Eða var líkið ef til vill notað til "vísindalegra þarfa" úr þvi enginn vissi hver þetta var og enginn var til að gæta virðingar hins látna?

Afhverju fylgdu fjölmiðlar þessu máli aldrei eftir og sögðu frá því hvað gerðist eftir lát mannsins? Getur verið að sektarkennd yfir dauða hans og framkomu íslenskra yfirvalda gagnvart honum hafi valdið því að allir vildu bara gleyma þessu máli?

Hvar hvílir þessi framandi maður sem vildi finna hamingjuna en fann aðeins höfnun og skilningsleysi á Íslandi sem særði hann banasári? 


Hausinn fauk af hálfbróður Saddams

Nú eru þeir búnir að hengja hálfbróðir Saddams  ásamt einhvejrum öðrum glæpagaur. Þetta átti að vera ljúfmannleg fyrirmyndar aftaka, ólík þeirri gömlu og trylltu, en ekki tókst þó betur til en svo að hausinn fokkaðist af strjúpanum á hálfbróðurnum og hefur örugglega  rúllað langa leið frá gálganum með blóðgusum bunandi all gassalegum. Svo hefur einhver hlaupið í spreng á eftir hausnum og tekið hann upp á hárinu og gert við hann ég veit bara ekki hvað.

Á hvaða tímum lifum við eiginlega? Þessar tvær aftökur eru með meiri ólíkindum en nútímamenn hafa nokkru sinni upplifað eða látið sér detta í hug.

Og svo er guði gefin dýrðin!


Kaffihús fína og fallega fólksins

Stefán vinur minn kom til mín í dag og við fórum á kaffihús. Hann var að að koma frá Angóla og  var svo yfirmáta hress og glaður yfir ferðinni að ef ég væri í uppnefniham myndi ég kalla hann Stebba stuð. Ég var hins vegar með hausinn niðri í bringu allan tímann af því ég hef bara ekki verið í sambandi í heila viku. En þetta er allt að koma. Ég fékk mér einmitt í dag gríðarlega kraftmikinn ráter sem á að kippa mér í almennilegt samband við bæði guð og menn. Hann verður tengdur á morgun af til þess gerðum hæfum spesjalista. Ef ég myndi reyna að tengja yrði ég eflaust sambandslaus bæði þessa heims og annars um alla eilífð.  

Við sátum á kaffihúsinu AMOKKA, þar sem ég hitti í fyrsta skipti hana Tótu pönkínu, öðru nafni Búlgarína, þriðja nafni the indescribable catwoman, sem ég les á hennar eigin bloggsíðu að einhver af “skárri kunningjum” hennar segi að sé vitlaus og vambalaus. Mér þætti gaman að sjá framan í þennan kunningja sem skrifar henni svona dónalegt bréf. Aldrei í lífinu myndi ég gera það. Þegar ég var lítill, og ég var alveg óvenjulega lítill þegar ég var lítill eins og ég hef ljóstrað upp áður á þessari síðu, var þetta reyndar alltaf sagt við mig í tíma og ótíma af henni ömmu gömlu en afi var löngu dauður og gat því lítið sagt.

 

Þarna á kaffihúsinu voru ýmis stórmenni. Þar var Gísli Marteinn með bakpoka á herðunum. Hann var samt beinn í baki og helvíti brattur. Hans ok er greinilega ljúft og byrði hans létt. Eva María, sæta viðtalínan í Kastljósi, var líka á staðnum með einhverjum strákum. Og svo var ég þarna.

 

Líkast til er AMOKKA kaffihús fína og fallega fólksins.  

 

Og víkjum nú að alvöru lífsins: Mér var að berast tilkynning um póstsendingu sem ég á að sækja. Guð minn almáttugur! Hver skyldi nú vera að senda mér mistilbrand í pósti? Það hlýtur að vera einhver af allra verstu kunningjum mínum.

 


Ég og fræga fólkið

Í dag mætti ég fimm frægum og mikilvægum persónum á flandri mínu um bæinn. Fyrst skal frægastan telja sjálfan Bubba Morthens. Ég hitti hann í húsi einu þar sem hann var að raða stólum. Loks settist hann á einn stólinn, blés út brjóstið og lék á alls oddi og talaði hátt og snjallt. Á Austurvelli asaði ég fram á Þröst Ólafssson framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitarinnar. Við gegnum svo nærri hvor öðrum að axlir okkar snertust og hugirnir mættust. Þriðja frægðarfígúran sem flæktist fyrir mér var Þorvaldur Gylfason prófessor. Hann var með stóra skjalatösku, líklega fulla af skjölum, og bar barðastóran og aristókratískan hatt sem blakti í vindinum og það var helvítis völlur á honum. Hann leit ekki á mig en ég veit samt að hann tók eftir mér og  hugsaði:

Sigurður er sniðugur. Sannur músikvitringur. Skarpur maður er.

Fjórða frægðarpersónan sem ég mætti í eigin persónu var engin önnur en hún séra Auður Eir. Hún fór Austurstræti og gaf mér hýrt auga sem þó var nokkuð vanþóknunarblandið líkt og ég væri bölvaður  trúvillingur en samt svona sætur strákur. Guð blessi hana.

Baksandi upp Bankastrætið á löturhægu tempói með storminn í fangið, eins og svo oft áður í lífinu,   kom fimmti frægðarmaðurinn gustandi á móti mér, allegro giusto, á blússandi farti og sterkum meðvindi og það var hann Jónas Sen tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins. Hann virti mig ekki viðlits enda eru það óskráð lög í menningarheiminum að tónlistargagnrýnendur hundsi gersamlega hverja aðra. En við þennan close encounter of the fifth kind féll ég umsvifalaust í djúpa zen-hugleiðingu en hún gengur út á það, eins og kunngut er, að tæma hugann af  öllu ónytjungs hjali en skynja í staðinn hið algera tóm sem ríkir að baki tilverunnar.

Á  morgun ætla ég aftur í bæinn og láta sjá mig í augsýn fræga og fína fólksins.

En ég er nú ekki allur þar sem ég er séður. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband