Færsluflokkur: Mannlífið

Áfengisdýrkun

Þegar ég kom heim frá Krít ók ég heim frá flugvellinum um Lækjargötuna klukkan hálf fjögur aðfaranótt sunnudags. Mér brá í brún að sjá þann rónalega subbuskap sem blasti við hvarvetna en ótrúlegt margmenni var á götunum. Engan sá ég samt laminn til óbóta fyrir augunum á mér. 

Nú les ég á netfréttum að "mikill erill" hafi verið hjá lögreglunni í nótt og "mikil ölvun".  Þetta orðalag sem notað er í fréttum þýðir í raun og veru að allt hafi logað í fylliríi. Þá sá ég fyrir mér subbuskapinn í miðbænum þegar ég kom heim í margföldu veldi. Það var líklega góða veðrið sem olli því að þrátt fyrir fjöldafyllirí varð ekki vandræðaástand. En menningarnótt, eins og svo margt annað á Íslandi, er orðin að algjörri múgæsingu. Einn þriðji hluti þjóðarinnar æðir í bæinn til að rápa og drekka bjór. Það er tímasuprsmál hve nær allt fer úr böndunum við slíkar aðstæður með þvílíkum ósköpum að ekki er hægt að hugsa það til enda.

Það er bara tímaspursmál.   

Mikið er rætt um "ástandið" almennt í miðbænum um helgar en sumir vilja þó meina að það sé svo sem ekkert "ástand". Það er vel þekkt að sóðar verða samdauna sóðaskapnum í sjálfum sér. Ýmislegt hefur mönnum dottið í hug sem gæti bætt ástandið. En það er eitt sem menn passa sig vel á að nefna ekki:

Hvaða þátt umgengni þjóðarinar við áfengi á í þessum hamförum.

Það er undarlegur tvískynningur að það verður stórfrétt í vandlætingastíl þegar smáræði af ólöglegum vímuefnum finnst á útihátið um verslunarmannahelgina þar sem þúsundir veltast um ælandi og slefandi af fullkomlega löglegri vímuefnaneyslu í formi brennivíns en ÞAÐ þykir ekki tiltökumál. Oft er talað og skrifað um vín eins og það sé ekki vímuefni og ekki fíkniefni. 

Áfengisdekrið og áfengisdýrkunin er eiginlega orðin að andlegri harðstjórn í landinu. Fín fyrirtæki bjóða jafnvel háskólnemum í kynnisfeðir um fyrirtækin og servera vín í stríðum straumum. Enginn þorir að skera upp almennilega herör gegn áfegnisdýrkuninni af ótta við að verða hællærislegur í augum annara.

Það þykir dyggð að vera bindindismaður á tóbak og ólögleg vímuefni en jafnvel þeir sem hafa verið að skrifa gegn verslunarmannahelgarsukkinu taka það samviskulega fram að þeir séu ekki bindindismenn á áfengi. Þeir skammast sín nefnilega fyrir að vera það. 

Svo langt gengur spéhræðslan við vínbindindi að meira að segja auglýsingar í "forvarnarskyni" brýna það fyrir börnum og unglingum að láta það dragast að detta í það - en fyrir alla muni ekki  sleppa því samt áður en yfir lýkur. 

Hvernig stendur á því að menn hafa þetta einkennilega viðhorf til áfengis en fordæma yfirleitt t.d. tóbak? Tóbakið veldur vð vísu banvænum sjúkdómum. En það leggur ekki persónuleikann í rúst, sundrar ekki fjölskyldum og lætur menn ekki missa allar eigur sínar og vini og veldur ekki ofbeldi, morðum og nauðgunum eins og áfengið. Auk þess veldur það reyndar líkamlegum dauða oft og tíðum.

Mikið væri það nú kærkomið ef sá mórall skapaðist með þjóðinni að það sé álíka ófínt að drekka í hófi og að reykja í hófi eða éta amfetamín í hófi. Ég er ekki að tala um boð eða bönn. Ég er að tala um viðhorf. Það viðhorf að það sé svipuð dyggð frá heilsufarslegu og velferðarlegu sjónarmiði að vera bindindismaður á áfengi og vera bindindismaður á tóbak. 

En það er við ramman reip að draga. Frelsi einstaklingsins er allt lifandi að drepa og margir græða á því mikið af peningum. Auk þess eru rauðvínsalkar í afneitun eins og froðufellandi krossfarar á alþingi og öllum stjórnmálaflokkum og bara hreinlega út um allt og hvergi er fyrir þeim flóafriður og þeir heimta áfengi í allar matvörubúðir og á öll dagvistunarheimili.    

Þeir frekustu og ósvífnustu, þeir fjósrugluðustu, þeir allra ömurlegustu, eiga oftast nær síðasta orðið.  


Glaður og góður dagur

Upp úr hádeginu kom frændi minn til mín og dró mig út í skemmtilega göngu meðfram sjónum. Þegar ég skildi við hann var veðrið svo gott að ég rölti niður í bæ. Þá var gaypride-gangan einmitt á ferðinni. Ég tók þátt í henni í fyrra en það stóð ekki beinlínis til að þessu sinni af mjög svo persónulegum ástæðum. 

Eigi að síður var aldeilis gaman að sjá allt þetta fólk á öllum aldri og margir voru með börn. Lögreglan segir að fimmtíu þúsund hafi verið í bænum en sumir segja að þeir hafi verið enn þá fleiri. 

Hvort heldur sem var þá segir þessi mikli fjöldi aðeins eitt: 

Þeir sem þarna voru eru velviljaðir hommum og lesbíum.

Enginn var að mótmæla þeim eða var með stæla. Allir voru glaðir og góðir. Og það gefur augaleið að þau börn sem þarna voru og eiga kannski eftir að koma aftur með foreldrum sínum í seinni göngur alast upp í samþykki og velvild í garð samkynhneigðra. Sem sagt í kristilegum anda. Þannig er þjóðin að meginhluta.

Og hvað haldiði! Gekk ég  ekki fram á báðar systur mínar í Lækjargötu, glaðar og góðar eins og allir aðrir. Þetta er lítill heimur en alls ekki svo galinn!  Ekki spillti að það var sól og 17 stiga hiti um miðjann daginn.

Fámennur en harðskeyttur hópur manna elur stöðugt á fordómum og hatri í garð samkynheigðra, oft undir merkjum trúarinnar. Þessir menn eru algjörlega skotheldir í skoðunum sínum og  taka aldrei neinum rökum né sönsum og virðast vera fullkomlega ómeðvitaðir um hvað þeir virka fráhrindandi á allt sæmilegt fólk sem ekki er haldið trúarbrjálsemi í garð samkynhneigðra.

Hingað til hefur samfélagið sýnt þessum hópi ótrúlegt langlundargeð og þolinmæði. Hvað á það að ganga lengi? Þó ég sé með afbrigðum friðsamur maður finnst mér álitamál hvort ekki sé kominn tími til að útskúfa þessu hommahatursliði úr kristinna manna tölu af svona álíka hógværð og lítillæti og það úthúðar hommum og lesbíum. Æ, það þykist víst elska einstaklingana sem eru hommar og lesbíur en hata þá synd sem þeir eiga að hafa ratað í með kynhneigð sinni. En það er bara ekki þannig. Þetta fólk hatar einfaldlega homma og lesbíur. Af allri sálu sinni og af öllu hjarta sínu. Og ekkert með það bara. Eins gott að það segi það hreint út en sleppi  þessu kærleikskjaftæði.  

Því það er bara kjaftæði sem enginn innistæða er fyrir. 

 


Kinky

Ég las það á bloggi að í dag sé það viðurkennt "að konur hafi kynhvöt sem þær mega ráðstafa að vild."

Þetta finnst mér mest kinky orðalag um kynhvötina sem ég hef nokkru sinni vitað. Menn geta ráðstafað eignum sínum að vild. En menn ráðstafa ekki hvötum sínum þó menn geti svalað þeim að vild sinni eða jafnvel tamið þær. 

Svo er það náttúrlega líka til í dæminu að jafnvel hinir mestu menn hafi ekkert vald yfir kynhvöt sinni en hún ráðstafi þeim í staðinn upp á hvern súluhálsinn á eftir öðrum.

 

 


Horfið inn í fjarskann

Fyrsti maí er mér einna hugstæðastur allra daga.

Þegar ég var ungur þekkti ég stúlku sem átti afmæli þennan dag. Hlýjasta vor allra tíma árið 1974 hitti ég hana í miðbænum í kröfugöngunni. Þá voru öll tré í bænum allaufguð. Tilveran réði sér ekki fyrir lífi og gróanda.

Við gengum glöð um bæinn með kröfur um betri heim.

Um haustið var hún dáin. Hún tók líf sitt sjálf.

Nú er þetta allt komið í einhvern annarlega fjarska þrátt fyrir allt.  Með árunum þokast maður svo sjálfur inn í fjarskann. Alltaf lengra og lengra.

Loks hverfur maður alveg. 

Það verður ekki á betra kosið. 

 

 


Rúsínan í pylsuendanum

Í vorblíðunni í dag fór ég fyrst á einn mikilvægan fund. Flestir voru þó hálfvitar einir sem þar funduðu. En það dró úr einstæðingsskap mínum að þar var líka fallegasta kona í heimi og vissi vel af því. Hún gerði sig mjög breiða en þó ekki nándar nærri því eins breiða og ég gerði mig hér á blogginu í gær.

Ég vona að ég móðgi engan, allra síst femínista eða kommúnista, þó ég ljóstri upp um hinn óttalega leyndardóm míns hjarta: Álit mitt á konum fer aðeins eftir einu: Eru þær sætar eða eru þær ljótar.

Það er voða gaman af sætum konum. En ég geri mitt besta til að umbera ljótar konur.

Ó, já, sannleikurinn mun gera yður frjálsa.  

Skyldi ljóta fólkið annars hafa nokkra sál. Það get ég ekki ímyndað mér. Ekki hef ég sál.

Seinna þennan blessaða dag álpaðist ég á Kaffi Mílanó með kunningja mínum. Við ræddum um hrellingar mannkynsins sem eru með mesta móti um þessar mundir.  Og við vorum á einu máli um það að svona geti þetta bara ekki gengið öllu lengur. Komu þá ekki að borðinu okkar engir aðrir en  Sveinn Rúnar Hauksson palestínuskæruliði og hans ektakvinna og bloggari  Björk Vilhelmsdóttir. Þau töldu einsýnt að hörmungum mannkynsins muni ekki linna meðan  Framsóknarflokkurinn væri enn við lýði. Þessi orð þeirra geymi ég í hjarta mínu og mun íhuga þau kvölds og morgna.

Ótrúleg drusla er þessi landlæknir annars. Hann er algjör draumaprins svona skítafyrirtækis eins og Impreglio. Hann bara klappar þeim á kollinn fyrir óumdeilanlegt lögbrot og brot á virðngu og réttindum sjúklinga. Fuck him!

Og svo er það hin sæta rúsína í bloggpylsuendanum: 

Tvö eftirlegukindahitamet í apríl voru sett í dag á veðurstöðvum sem hafa langa og hretviðrasama mælingasögu. Á Grímsstöðum á Fjöllum fauk metið frá í gær. Hitinn komst þar í dag í 19.8 stig (hugsa sér að hiti vippi sér í 20 stig í apríl uppi á fjöllum). Og á Hæli í Hreppum mældist 15.5 stig.

Og nú er víst bara best að fá sér góðan an bloggblund fram að næstu hitabylgju.   

P.S. Hvað haldiði annars!! Haldiði ekki að það sé minnst á mig í dag í sjálfum Mogganum!

Allt er hégómi! Allt er aumasti hégómi og eftirsókn eftir vindi! (En glæstar hitabylgjur gera þann vind bara helvíti hlýjan og góðan).   

 

 

 

 


Dauðans alvara

Nú er ég kátur og glaður eins og flesta daga. Fór á Landsbókasafnið og leysti út eldgamla myndabók um líf Schuberts, frá 1913, sem komin er frá prússneska staatsbókasafninu í Berlín. Kannski hafa voldugir nazar verið að fletta henni í den tíð áður en þeir fóru að stríða. Í bókinni eru sjaldgæfar myndir sem varða líf tónskáldsins Schuberts. Ein mynd finnst mér sérlega hugsanavekjandi um hverfulleika lífsins.

Já, í dag erum við kokhraust og kjaftor og rífumst um klám og femínista, álver og einhverja vonlausa stjórnarskrá en á morgun verðum við steindauð og vitum ekkert í okkar haus. Æði margir vita reyndar nú þegar ekkert í sinn haus.

Þegar Schubert, sem var jarðaður við hliðina á Beethoven (ein nauðaómerkileg gröf á milli), var búinn að lúra iðjulaus í gröf sinni í ein fjörtíu ár var hann grafinn upp að nýju og líka Beethoven og voru þeir draugarnir svo fluttir í heiðursmannagrafreit í útjarði Vínarborgar. Ljósmyndatæknin var komin til sögunnar og gátu menn ekki á sér setið að ljósmynda höfuðskeljar snillinganna áður en þeim var aftur mokað í moldina þaðan sem þeir víst komu hvort eð var.

Untitled-Scanned-01Hér sjáum við myndir af þessum snilldar hausum. Tennurnar sem vantar í Schubert duttu af í gröfinni en til þess var tekið hve fallegar tennur hann hafði að öðru leyti og heilar enda ekki búið að finna upp kókakóla þegar hann var á fylliríi og karlafari í Vínarborg. Hann var nefnilega hommi og algjört  rassgat og krútt. Beethoven var aptur á móti allur í platónskri ást sem kallað er en svo er það nefnt þegar menn eru svo girnda- og getulausir, auk þesss heyrnarlausir og sjóndaprir, að þeir nenna ekki fyrir nokkra muni að brölta upp á kvenmann, já eða karlmann. 

By the way, btw, ég kann nefnilega ekki lengur að skrifa „meðal annara orða, m.a.o.", upp á íslensku enda er hún með eindæmum hallærislegt tungumál sem engan veginn nær hinum fíngerðari blæbrigðum blogghugsanna vorra, þegar ég gekk eftir Tjarnargötunni á lífsglaðri leið minni á Landsbókasafnið framhjá einum litlum bílskrjóði, sem þar lá við stétt, sá ég hvers aftursæti var yfirfullt af klósettrúllum mörgum innbundnum í heljarknippi. Varð mér starsýnt á toilett þetta og undraðist mjög gæsku og náðarríkar gjafir guðs. Fór ekki á milli mála að ökufantur téðrar bifreiðar þjáist af niðurgangi allsvæsnum enda mun einhver skítapest vera að ganga í bænum. Ekki fæ ég þó hana fremur en aðrar pestir því ég er svo eitraður karakter að sýklar og vondir vírusar drepast unnvörpum sem nærri mér koma.

Í gær deildi ég með bloggvænum lesendum nokkrum vísdómsfullum pælingum um bloggsins órannsakanlegu og óstýranlegu vegu og nú skenki ég sömu lesendum þessum fánýtu ritræpuhugsunum um hverfulleika lífsins.

 En myndirnar af tveimur af mestu tónsnillingum heimsins tala sínu máli um það hvað um okkur schuverður þegar bloggrokkarnir eru þagnaðir og allt er orðið hljótt. Sá ljósi og ljóti að ofan er Beethoven en sá dökki og sæti til vinstri er tannálfurinn Schubert sem samdi Ave María og "Mikið lifandis skelfingar ósköp er gaman að vera svolítið hífaður".   


Hinn efsti dagur

Ég get ómögulega skilið að þær málalyktir að hætt verður við klámráðstefnuna sé góður dagur fyrir ástina eins og sumir segja. Var ástin nokkru sinni til umræðu? Til eða frá.

Kúgun, mannsal, vændi.

Ekkert af þessu er ást.  Ekki heldur það réttlætismál að berjast gegn slíkri niðurlæginu. 

Ástin er viðkvæmt fyrirbæri sem skapast milli einstaklinga en ekki hópa. Hún er ekki kappleikur þar sem hrópað er húrra þegar sigur vinnst fyrir eitthvert lið. 

Og þeir eru margir, af báðum kynjum, sem njóta engrar ástar. Sumir deyja út af því.

Er þetta sigur fyrir þá?  

Ástin var aldrei til umræðu í þessu máli. Ef hugkvíar í umræðu eru ekki skýrar verður öll umræðan argasta klám.

Kannski væri annars best að allir hætti að blogga þangað til ástin hefur sigrað heiminn. Þegar ástin er annars vegar taka menn oft stórar bloggákvarðanir!

Það verður góður dagur. En ég held líka að það verði hinn efsti dagur.  

 


Veikist bara gift fólk af alzheimer?

Í Kastljósi var verið að fjalla um Alzheimer. Rætt var við nokkra maka sjúklinga sem lýstu því hvernig sjúklingarnir breytast hreinlega í börn. Það endar reyndar með því að þeir kunna ekki lengur að ganga. Loks kunna þeir ekki lengur að kyngja. Svo deyja þeir úr hungri. 

Ég hef kynnst Alzheimer í návígi og veit svo sem hvað ég er segja. En mér finnst  umræðan um Alzheimer full af hugleysi og undanbrögðum eins og öll umræða um erfið mál, svo sem sjálfsvíg og geðsjúkdóma.

Og ég hef hreinlega ekki geð í mér til að fara mikið lengra í þessa sálma að sinni. Ég get samt ekki á mér setið að spyrja hvort Alzheimer leggist bara á gift fólk. Svo mætti ætla af þeirri umræðu sem fór fram í Kastljósi. Makar sögðu frá mökum. Hvergi örlaði á því hvað bíði þeirra sem fá Alzheimer en eiga hvorki maka né afkomendur. Reyndar er þetta svona varðanadi alla sjúkdóma. Man einhver t.d. eftir samtali við einstæðing sem er að deyja úr krabbameini og hefur engan stuðning „samhentrar fjölskyldu"? 

Þetta er svona hluti af þvi sem ég meina með huglausri umræðu. Það felst í því að stór hluti viðfangsefnisins, veruleikans sjálfs, er gjörsamlega  sniðgengin í umræðunni, jafnvel ár eftir ár eftir ár. 

Einhleypt fólk virðist ekki verða alvarlega veikt á Íslandi hvað opinbera umræðu varðar.

Ég hef sagt það áður á þessari síðu að ég óttast ekkert meira en verða Alzheimersjúklingur þó ekki sé ég svo sem að velta mér upp úr þvi alla daga. Þessir sjúklingar geta verið að tærast upp í árartug eða meira. Ég veit ósköp vel að allan þann tíma myndi ég bara vera eins og hvert annað hræ á ópersónulegri stofnun. Og ég veit að vinir mínir myndu allir yfirgefa mig. Og ekki myndi ég álasa þeim fyrir það. Annað gætu þeir hreinlega ekki gert.   

Og þó ég vildi að ein ung og upprennandi vinkona mín, sem skilur samt lífið, stæði við það að kæfa mig með koddanum eins og hún hefur lofað ef ég skyldi nú fara að bila þá veit ég auðvitað að hún mun ekki gera það í alvörunni. Ég mun bara hverfa öllum og öllu án þess að deyja. Þeir sem þekktu mig munu forðast mig eins og heitan eldinn og fara að hugsa um eitthvað skemmtilegt. Enda verð ég ekki lengur til sem ég sjálfur heldur bara skel utan um ósjálfráða líkamsstafsemi.

Mega menn hugsa svona? Mega menn tala svona? Mega menn blogga svona?

Nei, auðvitað ekki. Menn eiga að bæla allt niður. Setja upp falskan front. Allt er víst betra en óvæginn sannleikurinn.

Í gær var ég svo glaður og ljúfur yfir ilmi lífsins. Nú er ég orðinn bitur og harður yfir lífsins lygi og falsi. 

Og það verður bara að hafa það.

 

 

 


Rómantísk ást

catsW 


Lyktargátan ráðin fyrir hann dr. Gunna

Dr. Gunni var að skrifa um lykt á baksíðu Fréttablaðsins í fyrradag og segir: „Á Hverfisgötunni fann ég á dögunum ótrúlega góða bakaríslykt. Þessi lykt er oft þarna en ég hef aldrei áttað mig á því hvaðan hún kemur. Lyktin æsti mig svo mikið upp að ég þræddi öll bakarí miðbæjarins leitandi að sætabrauðinu sem mér fannst lyktin vera af". 

Árum saman hafði ég fundið þennan ilm á Hverfisgötunni. Og hann gerði mig líka alveg bandóðan eins og dr. Gunna. Ég þefaði uppi öll bakarí bæjarins í leit að göfgri uppsprettu þessarar höfugu lyktar, var þar með nefið ofan í öllu og hafði það af að verða létt skotinn í öllum sætabrauðsstelpunum sem afgreiða í þessum búðum ljúfar og vellyktandi. En ilmurinn eini átti samt ekki þarna sína uppsprettulind. Þótt hann virtist umlykja allt í bænum var hann þó hvergi. 

Alveg eins og eilífðin.  

Loks var það einn kaldan vetrardag að  ilmur þessi barst mér að vitum sætlegri og lostlegri en nokkru sinni fyrr. Þá var ég staddur á horni Vitastígs og Hverfisgötu og stefndi niður Vitastíginn á leið niður á Skúlagötu. Og viti menn! Rak ég þá ekki augun í svart og niðurníðslulegt hús beint fyrir framan nefið á mér sem á þessari stundu reis þráðbeint upp í himinbláman og hnusaði græðgislega í allar áttir.

Á þessu svarta og niðurníðslulega húsi voru mörg flennistór vindaugu og innum þau horfði ég beinustu leið inn í mikla og víða hvelfingu þar sem sjóðlheitir súperofnar, tröllauknar hrærivélar, skessulegar skilvindur og rjúkbullandi risastrokkar hömuðust í algleymi við  sætabrauðsins sköpun og bökun.   

Og lyktin maður!

Þá rann upp fyrir mér það ljós að ég var að horfa og hnusa inn í það allrahelgasta í Kexversksmiðjunni Frón á Skúlagötu 28.

Ég hafði fundið uppsprettuna að  ilmi lífsins.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband