Áfengisdýrkun

Þegar ég kom heim frá Krít ók ég heim frá flugvellinum um Lækjargötuna klukkan hálf fjögur aðfaranótt sunnudags. Mér brá í brún að sjá þann rónalega subbuskap sem blasti við hvarvetna en ótrúlegt margmenni var á götunum. Engan sá ég samt laminn til óbóta fyrir augunum á mér. 

Nú les ég á netfréttum að "mikill erill" hafi verið hjá lögreglunni í nótt og "mikil ölvun".  Þetta orðalag sem notað er í fréttum þýðir í raun og veru að allt hafi logað í fylliríi. Þá sá ég fyrir mér subbuskapinn í miðbænum þegar ég kom heim í margföldu veldi. Það var líklega góða veðrið sem olli því að þrátt fyrir fjöldafyllirí varð ekki vandræðaástand. En menningarnótt, eins og svo margt annað á Íslandi, er orðin að algjörri múgæsingu. Einn þriðji hluti þjóðarinnar æðir í bæinn til að rápa og drekka bjór. Það er tímasuprsmál hve nær allt fer úr böndunum við slíkar aðstæður með þvílíkum ósköpum að ekki er hægt að hugsa það til enda.

Það er bara tímaspursmál.   

Mikið er rætt um "ástandið" almennt í miðbænum um helgar en sumir vilja þó meina að það sé svo sem ekkert "ástand". Það er vel þekkt að sóðar verða samdauna sóðaskapnum í sjálfum sér. Ýmislegt hefur mönnum dottið í hug sem gæti bætt ástandið. En það er eitt sem menn passa sig vel á að nefna ekki:

Hvaða þátt umgengni þjóðarinar við áfengi á í þessum hamförum.

Það er undarlegur tvískynningur að það verður stórfrétt í vandlætingastíl þegar smáræði af ólöglegum vímuefnum finnst á útihátið um verslunarmannahelgina þar sem þúsundir veltast um ælandi og slefandi af fullkomlega löglegri vímuefnaneyslu í formi brennivíns en ÞAÐ þykir ekki tiltökumál. Oft er talað og skrifað um vín eins og það sé ekki vímuefni og ekki fíkniefni. 

Áfengisdekrið og áfengisdýrkunin er eiginlega orðin að andlegri harðstjórn í landinu. Fín fyrirtæki bjóða jafnvel háskólnemum í kynnisfeðir um fyrirtækin og servera vín í stríðum straumum. Enginn þorir að skera upp almennilega herör gegn áfegnisdýrkuninni af ótta við að verða hællærislegur í augum annara.

Það þykir dyggð að vera bindindismaður á tóbak og ólögleg vímuefni en jafnvel þeir sem hafa verið að skrifa gegn verslunarmannahelgarsukkinu taka það samviskulega fram að þeir séu ekki bindindismenn á áfengi. Þeir skammast sín nefnilega fyrir að vera það. 

Svo langt gengur spéhræðslan við vínbindindi að meira að segja auglýsingar í "forvarnarskyni" brýna það fyrir börnum og unglingum að láta það dragast að detta í það - en fyrir alla muni ekki  sleppa því samt áður en yfir lýkur. 

Hvernig stendur á því að menn hafa þetta einkennilega viðhorf til áfengis en fordæma yfirleitt t.d. tóbak? Tóbakið veldur vð vísu banvænum sjúkdómum. En það leggur ekki persónuleikann í rúst, sundrar ekki fjölskyldum og lætur menn ekki missa allar eigur sínar og vini og veldur ekki ofbeldi, morðum og nauðgunum eins og áfengið. Auk þess veldur það reyndar líkamlegum dauða oft og tíðum.

Mikið væri það nú kærkomið ef sá mórall skapaðist með þjóðinni að það sé álíka ófínt að drekka í hófi og að reykja í hófi eða éta amfetamín í hófi. Ég er ekki að tala um boð eða bönn. Ég er að tala um viðhorf. Það viðhorf að það sé svipuð dyggð frá heilsufarslegu og velferðarlegu sjónarmiði að vera bindindismaður á áfengi og vera bindindismaður á tóbak. 

En það er við ramman reip að draga. Frelsi einstaklingsins er allt lifandi að drepa og margir græða á því mikið af peningum. Auk þess eru rauðvínsalkar í afneitun eins og froðufellandi krossfarar á alþingi og öllum stjórnmálaflokkum og bara hreinlega út um allt og hvergi er fyrir þeim flóafriður og þeir heimta áfengi í allar matvörubúðir og á öll dagvistunarheimili.    

Þeir frekustu og ósvífnustu, þeir fjósrugluðustu, þeir allra ömurlegustu, eiga oftast nær síðasta orðið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Takk fyrir góðan pistil - ég var boðinn í fimtugsafmæli í liðinni viku og allt gott um það að segja, veislumatur fyrsta flokks og drykkjarföng í miklu úrvali, þ.e.a.s. áfengir drykkir. Þar sem ég drekk ekki áfenga drykki, þá varð ég að sætta mig við Kóka Kóla og Kristal. Frekar þunnur þrettándi...

Ásgeir Kristinn Lárusson, 19.8.2007 kl. 13:06

2 identicon

Heill og sæll, Sigurður og aðrir skrifarar !

Afbragðs þáttur, hjá þér og hnitmiðaður. Hef ekki nokkru, við að bæta. Bendi þér á umfjöllun mína, á síðu minni, fyrir stundu, um ''menningar'' lífið íslenzka. Gott innlegg, hjá Ásgeiri Kristni, jafnframt.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi / Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 19.8.2007 kl. 15:44

3 Smámynd: Halla Rut

Drykkjumenning Íslendinga er að breytast til hins betra sem betur fer. Þið verðið nú að viðurkenna það.

Vona að einhver commenti á eftir mér svo að ég verði ekki frekust, ósvífnust, allra ömurlegust og fjósrugluðust.

Halla Rut , 19.8.2007 kl. 16:15

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Skrýtið, ég var einmitt að hugsa til þín - og Míó! Það er nú stundum gaman að kríta liðugt! Ég skrifa líka næstum aldrei um áfengismál. En ég efast um að drykkjumenning Íslendinga sé í rauninni að batna í heild, drykkja eykst og það hefur ekki gott í för með sér. Er það "menning" að hve nær sem menn gera sér dagamun sé ölvun svo almenn að hun setji blæ sinn á selskapinn, "mikil ölvun". Og það væri í alvöru gott að sá mórall ríkti að best væri að drekka ekki neitt og reykja ekki neitt.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.8.2007 kl. 16:34

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ætliði svo nokkuð að láta mig hafa síðast orðið í kommentum við þessa færslu?!

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.8.2007 kl. 16:45

6 identicon

Áfengi rétt eins og tóbak er yfir meðaltali þegar kemur að fíkn allra fíkniefna. Alltaf jafn fyndið þegar fólk segist bara drekka og sé ekki í "ruglinu". Áfengi er ekkert skárra en ólöglegu efnin.

Svo verðum við að muna að fíkniefni drepa ekki fólk... fólk með sjálfseyðileggingartilhneigð er að drepa sig sjálft og fíkniefnin eru bara verkfærið. Maður er bara einhverjar vikur að losna undan líkamlegri fíkninni, samt eru fíklar oft að falla löngu eftir þann tíma og því hlýtur þetta að vera andlegt vandamál þar sem neyslan er einkenni.

 Annars er ég á móti boði og bönnum, tel ekki réttlætanlegt að hafa afskipti af neyslu fólks svo lengi sem þau eru ekki að skaða aðra. En hinsvegar eru forvarnir alltaf af hinu góða.

Geiri (IP-tala skráð) 19.8.2007 kl. 18:19

7 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Nú er það almennt orðið viðurkennt að neysla áfengis veldur alvarlegu heilsutjóni hjá ca. 10% neytenda. Aldrei yrði leyft að setja nýja matvöru á markað sem hefði sannanlega svo alvarlegar afleiðingar.

Ef menn ætla að vera samkvæmir sjálfum sér verður annaðhvort að banna sölu áfengis eða leyfa sölu á eitruðum matvörum og drykkjarföngum.

Margir Íslendingar segjast aðhyllast kristin lífsgildi sem felast meðal annars í umhyggju fyrir náunganum. Ef þessi náungar eru 10% þjóðarinnar sem veikjast af neyslu áfengis hvað þá? Erum við hin 90% tilbúin til þess að að neyta okkur um þá skemmtun að drekka áfengi án vandræða til þess að koma þessum meðbræðrum okkar til hjálpar?

Eða er málið bara það að við erum uppfull af náungakærleik svo lengi sem við þurfum ekki að sýna hann í verki?

Finnur Hrafn Jónsson, 19.8.2007 kl. 18:35

8 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Til Geira:
Það er tvennt til, annaðhvort er alkóholismi sjúkdómur eða aumingjaskapur, af skrifum þínum má helst ráða að þú teljir að um aumingjaskap sé að ræða, fyrst þú vilt ekki telja fíkniefnið til orsakavalds.

Finnur Hrafn Jónsson, 19.8.2007 kl. 18:43

9 Smámynd: Villi Asgeirsson

Eru það ekki boð og bönn á síðustu áratugum sem hafa skapað vínmenningu íslendinga? Ef áfengi væri ekki stimplað eins og það er, væri það minna spennandi og þar af leiðandi minna um misnotkun þess.

Villi Asgeirsson, 19.8.2007 kl. 19:39

10 identicon

Það skal viðurkennt hér að ég var örlíið hissa þegar ég las grein ágæts lögreglumanns í Mogganum um daginn. Þar dró hann fram tölfræðigreiningu byggða á tölum áætlunardeildar lögreglunnar í þeim tilgangi að sanna að ofbeldisbrotum á höfuðborgarsvæðinu hafi fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. Nú las ég einmitt út úr tölum sem birtar voru að ofbeldisbrot fyrri hluta ársins voru yfir meðaltali þeirra 10 ára sem sýnd voru og fyrri hluti ársins var sá versti í 6 ár!
Þó að lögreglumanninum skjöplist örlítið í tölfræðinni þá er honum nokkur vandi á höndum enda er ekki auðvelt að vinda ofan af margra ára djúpstæðum áfengis- og vímuefnavanda sem smátt og smátt hefur aukist eftir því sem slakað hefur verið á áfengisstefnu. Þar þarf auðvitað að skoða stórkostlega fjölgun vínveitingastaða á litlum bletti, fjölgun sem ekkert eftirlit hefur verið með. Þar má t.d. nefna að þegar ég leitaði eftir því fyrir nokkrum vikum að fá yfirlit yfir þessa þróun hjá Hagstofunni, lögreglunni og Reykjavíkurborg komst ég að því að enginn heldur utan um tölfræði um fjölgun vínveitingastaða í Reykjavík, hvorki í borginni í heild né eftir ákveðnum hverfum. Því er ekki nema von að erfitt sé að fylgjast með þróunninni og von að menn vakni upp við vondan draum og hávaðann af drykkjuöskrum og rúðubrotum.
Þá þurfa menn auðvitað að finna upp patentúrræði sem græja dæmið í hvelli. Það hefur hinn framsýni viskubrunnur Ágúst Ólafur gert og lagt til að áfengisgjald verði lækkað snarlega. Þetta var lausn sem ég verð að viðurkenna að ég sá ekki snilldina við í sviphendingu. En nú skil ég hvað hann var að fara. Hann vill nefnilega að fólk fari ekki fet: Allir hafi aðgang að svo ódýru áfengi að þeir geti barasta drukkið sig svo blidfulla heima hjá sér að þeir komist ekki niður í bæ. Þannig munu auðvitað einnig aukast samvistir fjölskyldunnar sem ku vera besta forvarnatrix í heimi.

Ari Matthíasson (IP-tala skráð) 19.8.2007 kl. 21:25

11 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Djöfull er ég sammála þér Sigurður! Ég er búin að vera að tuða um þetta til fjölda ára - en enginn hlustar á mig. Ég skil heldur ekki þetta ´eina glas´ sem allir eru að fara að drekka. Glas? ókei þetta er kannski alltaf sama glasið hjá hverjum og einum, en það er margmargendurfyllt. Það er næstum enginn sem fær sér alltaf aðeins eitt pent glas eða tvö - ég þar inklúderuð.
Þetta er bara haugalygi, ekkert annað. Fólk er yfirleitt að fara á fyllerí, simpelt.

Mér finnst bara að það eigi að banna þetta dót. Og tóbakið líka. Það er að segja ef það á að vera einhver samkvæmni í reglunum - og þá er ég að vísa til þess að vörur sem teljast skaðlegar heilsunni eru bannaðar, jafnvel þó þær séu það því aðeins að innbyrtir séu heilu baðkarsfarmarnir af því daglega.
Einnig fyrst önnur efni sem menn komast í vímu af eru bönnuð. Ég sé bara ekki muninn á því að menn megi ekki nota efni á þeim forsendum að þau séu svo mikið hættulegri en áfengisvímuefnið - af því að þau séu til dæmis svo mikið meira ávanabindandi en áfengi - á meðan að niðurstaðan er sú að menn drekka helling af áfengi, verða fullir, fara í slag, brjóta tennur, skemma dót, keyra fullir og lenda jafnvel í fangelsi. Skiptir það þá máli að það sé ekki eins ávanabindandi? Ég held ekki. Menn sturta þá bara meira í sig fyrir vikið - af því að það er svo mikið minna hættulegt en hitt stöffið. Duh?

Það sem er hættulegast við að sumt skaðlegt heilsunni er bannað og annað ekki, er að þá fyllast menn falskri öryggiskennd og halda að fyrst eitthvað sé ekki bannað - nú þá sé það allt í lagi. Það stendur ekki einu sinni á áfengisflöskunum að það sé ekki ráðlagt að drekka meira en svo og svo á sólarhring - furðulegt miðað við miða- og upplýsingafarganið á öllu nú til dags.
Og sama með tóbakið. Bannaða. Að setja aðvörunarmiða virkar sem ´þetta hefur verið viðurkennt af kerfinu´stimpill. Menn hugsa: Eitthvað sem er lífshættulegt gæti varla verið látið óáreitt af heilbrigðisyfirvöldum, samþykkt af ríkinu og selt á opinberum vettvangi. Það er örugglega ekkert svooo hættulegt ... ef þess er neytt í hófi til dæmis. Ég hugsa nú bara að fátt sé það til sem ekki sé í lagi sé þess neytt í hófi. En þessi margfrægi ´hófi´ virðist bara ekki vera mikið við höndina. Hann er yfirleitt týndur, þegar á að nota hann. Kannski var hann aldrei til. Nema á hestum.

Nú, eða ef menn vilja ekki banna þetta dót, þá bara leyfa það allt: hass, og sveppi og hvað þetta nú allt er og eyða þá frekar forvarnar- og fangelsispeningum í rannsóknir á því hvort og hve skaðlegir þessir hlutir séu. Og gera niðurstöðurnar aðgengilegar fyrir venjulegt fólk. Reka heilsu- og afvötnunarstöðvar sem hægt er að skreppa á öðru hverju sér til hressingar. Ég myndi alveg mæta.

En annars finnst mér lokaorðin hjá Ara ekki meika sens. Það ER mun ódýrara að drekka heima hjá sér en að fara á barina svo ekki er það ÞAÐ sem dregur menn út á djammið á meira fyllerí. Glætan að menn myndu nenna að fara spes ferð í ríkið og standa jafnvel í röð til að kaupa sér áfengi ef verðið myndi lækka. Þeir myndu fara beint á barinn. Það eru kannski raðir á barnum líka, en örugglega sætara afgreiðslufólk en í ÁTVR.

gerður rósa gunnarsdóttir, 19.8.2007 kl. 23:00

12 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ekki er ég í rauninni að amast við menningarnótt og ég get vel þolað hóflega vínneyslu fólks, en mér finnst það einmitt sýna vel öfugsnúið umburðarlyndi gegn ofneyslu áfengis að allir skuli nú keppast við að lofa það hvað menningarnótt fór vel fram þrátt fyrir það að viðurkennt sé að ölvun var "mikil", en ekki bara vín á stöku manni. Það er enmitt þessi mórall, að "milkil" ölvun á mannamótum þyki allt í lagi sem ég er að amast við og vil að breytist. En ekki fer ég samt á neinn bömmer þó það breytist ekki!

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.8.2007 kl. 14:39

13 identicon

Ok...Gerður mín, af hverju búum við ekki í N.Kóreu eða Rússlandi??

Eru boð og bönn það eina sem er svarið?

Þvílík heimska.

Fólk er fólk eins og það er misjafnt og af hverju ekki að leyfa því að gera það sem það sýnist?......innan laganna marka?

Ég er SVO ekki sammála þér í þessu.

En hei....lífið væri ekki skemmtilegt ef allir væru á sömu skoðun  ;-) 

Einar Helgason (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 18:27

14 Smámynd: Ingibjörg R Þengilsdóttir

Ja ég er sammála ýmsu og ekki alveg öllu sem hér er skrifað, en menningarnótt verður bráðum fylliríisnótt ef ekkert verður að gert, ég var niðri í bæ og forðaði mér heim upp úr ellefu í raun skíthrædd við allann þennan mannfjölda sem mér fannst ætla að ýta mér og mínum út á flóann undir dynjandi flugeldum.

Svo kom ég heim og þá tók ekki betra við, í næsta stigagangi var brjálað partí og engin lögregla gat komið, þeir voru allir niður í bæ, þegar ég svo ræddi þetta við nágranna mína næsta dag, þá var eitt svarið svona "hvar eiga blessaðir unglingarnir að vera?"  ég varð reið, og sagði "þeir eiga ekki að vera á fylliríi í heimahúsum og hvergi annarsstaðar að mínu mati", en það er hart þegar maður þarf að flýja heimili sitt til þess að geta fengið svefnfrið fyrir ólátum og það þorir enginn að gera neitt af ótta við að lenda í vandræðum gagnvart þeim sem þú klagaðir.

Ég veit hvernig það er því ég þurfti að kalla á lögreglu tvisvar sinnum á stuttu tímabili vegna annars nágranna og það voru svo mikil læti þar að lögreglan komst ekki inn í íbúðina til að skakka leikinn því enginn heyrði þegar hringt var og allt barið að utan, þeir tóku það ráð að fá lánaðann stiga og klifra upp á svalirnar (2.hæð) til þess að ná sambandi við íbúana.  Þessi einstaklingur sem þarna stóð fyrir skemmtun í heimahúsi sendir mér óspart blammeringar og leiðindaathugasemdir þó það séu þrjú ár síðan þetta gerðist.

Mér leiðist alveg rosalega drukkið fólk og áfengi og áfengissýki skemmdi minn uppvöxt að hluta þar sem mikið var drukkið á heimili innan stórfjölskyldunnar (ekki heima hjá mér) og voru það ófáar nætur sem foreldrar mínir þurftu að klæða sig upp úr rúmum til þess að fara og skakka leikinn hjá frændfólki okkar.

Þannig að áfengi getur verið böl og það er það ef það er notað í óhófi, ég sá margt ljótt niður í bæ þennan stutta tíma sem ég var þar á ómenningarnótt og þótti mér miður að sjá unglingana sem eru framtíð landsins liggjandi í strætinu ósjálfbjarga, ælandi og spúandi, grátandi og kallandi á mömmu sína.  Einmitt hvar voru foreldrar þessara barna,  kannski bara líka á fylliríi. 

Það væri hægt að tala um þennan hrylling endalaust, ég hef ekkert á mót áfengi ef það er notað eins og á að nota það t.d., með mat og til þess að elda mat sem ég geri þó nokkuð af.

Drukkin verð ég ekki - ég stjórna mínu lífi sjálf ekki Bakkus og enginn annar heldur. 

Ingibjörg R Þengilsdóttir, 21.8.2007 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband