Undarlegar tengingar í lífinu

Horfði í kvöld á myndina um morðið á Gunnari Tryggvasyni leigubílstjóra árið 1968  í syrpunni um sönn íslensk sakamál. 

Þegar ég var um tvítugt bjó ég á Kambsvegi í Reykjavík. Einu sinni tók ég leigubíl heim til mín. Ég tók mjög vel eftir bílstjóranum vegna þess að það vantaði á hann annað eyrað. Nokkrum dögum seinna var framið þetta morð og þegar ég sá mynd af hinum myrta þekkti ég strax manninn sem hafði ekið mér heim fáeinum dögum áður. Og hann hafði reyndar átti heima nokkrum húsum ofar á Kambsveginum.

kopur2Þegar ég var tíu ára var ég nokkrar vikur með fjölskyldunni í sumarbúðstað í Skorradal. Við vorum þar með lítinn og fallegan hvolp sem hét Kópur. Þá var  hundahald bannað í Reykjavík og þegar við komum aftur í bæinn var hvolpurinn settur í fóstur hjá manni sem bjó  skammt utan við bæinn. Og það var einmitt maðurinn sem grunaður var um morðið á Gunnari leigubílstjóra en var sýknaður fyrir rétti. Svona getur maður tengst mönnum og atburðum á hinn undarlegasta hátt.

Til hægri er mynd af mér og hvolpnum. Ég er ansi góður með mig á myndinni en hundurinn samt miklu betri. Hægt er að stækka myndina með tvíklikki til að sjá það. 

Einkennileg var þessi mynd í sjónvarpinu. Maðurinn var sýknaður fyrir dómi en samt var eins og myndin vildi endilega gera hann sekan  þó það væri sláandi í málinu að ekki var nokkur leið að finna ástæðu fyrir því að sakborningurinn hefði viljað myrða manninn.

Þetta er ægilega vond sjónvarpsmynd.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég fann líka til með gömlu hjónunum, þetta mál hefur lagst yfir þau eins og mara og gert líf barnanna þeirra erfitt á uppvaxtarárunum. Ég vona að viðtalið hafi ekki verið tekið upp í stofu hjónanna, það myndu allir sem þau þekkja kannast við uppsetninguna og mér fannst þau gert lítið óþekkjanleg. Ég vona að þetta hafi ekki vondar afleiðingar fyrir þau núna mörgum áratugum seinna.

Maðurinn er greinilega ekki mjög gáfaður og var einkennilega hirðulaus og hugsunarlaus (geyma byssu í hanskahólfi og gleyma að taka hana úr bílnum) og viðurkennir að hann hafi stolið byssu. Honum verður líka tvísaga og hann breytir framburði sínum, hann var ekki sérlega ábyggilegt vitni. En það gerir hann ekki að morðingja.  

Hugsanlegt er að þessa byssa sé ekki morðvopnið. Hugsanlegt er líka að maðurinn segi ekki satt, hann hafi komist yfir byssuna eftir að morðið var framið en hafi flækt sjálfan sig í svo miklum lygavef að hann geti ekki sagt frá því. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.8.2007 kl. 07:44

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Mér fannst myndin ekki vilja gera hann sekan. Mér fannst reyndar eina merkilega við þessa mynd að hún varpaði ljósi á hvernig líf hins grunaða var, hvers konar martröð það er fyrir fjölskyldur  viðkomandi. Hins vegar varpaði myndin litlu ljósi á sjálft morðið.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.8.2007 kl. 07:49

3 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Þið eruð sætir saman, þú og Kópernikk.

Mér fannst þessi mynd heldur ekki góð. Ég held líka að búið sé að sýna hana áður. Mér finnst algjör óþarf og nánast út í hött,  í svona litlu samfélagi eins og Ísland er, að gera þætti um 'Sönn íslensk sakamál' , því þessar myndir rifja upp sára atburði bæði fyrir þeim sem áttu þátt í þeim, sem og aðstandendum þeirra. 

Svava frá Strandbergi , 20.8.2007 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband