Glaður og góður dagur

Upp úr hádeginu kom frændi minn til mín og dró mig út í skemmtilega göngu meðfram sjónum. Þegar ég skildi við hann var veðrið svo gott að ég rölti niður í bæ. Þá var gaypride-gangan einmitt á ferðinni. Ég tók þátt í henni í fyrra en það stóð ekki beinlínis til að þessu sinni af mjög svo persónulegum ástæðum. 

Eigi að síður var aldeilis gaman að sjá allt þetta fólk á öllum aldri og margir voru með börn. Lögreglan segir að fimmtíu þúsund hafi verið í bænum en sumir segja að þeir hafi verið enn þá fleiri. 

Hvort heldur sem var þá segir þessi mikli fjöldi aðeins eitt: 

Þeir sem þarna voru eru velviljaðir hommum og lesbíum.

Enginn var að mótmæla þeim eða var með stæla. Allir voru glaðir og góðir. Og það gefur augaleið að þau börn sem þarna voru og eiga kannski eftir að koma aftur með foreldrum sínum í seinni göngur alast upp í samþykki og velvild í garð samkynhneigðra. Sem sagt í kristilegum anda. Þannig er þjóðin að meginhluta.

Og hvað haldiði! Gekk ég  ekki fram á báðar systur mínar í Lækjargötu, glaðar og góðar eins og allir aðrir. Þetta er lítill heimur en alls ekki svo galinn!  Ekki spillti að það var sól og 17 stiga hiti um miðjann daginn.

Fámennur en harðskeyttur hópur manna elur stöðugt á fordómum og hatri í garð samkynheigðra, oft undir merkjum trúarinnar. Þessir menn eru algjörlega skotheldir í skoðunum sínum og  taka aldrei neinum rökum né sönsum og virðast vera fullkomlega ómeðvitaðir um hvað þeir virka fráhrindandi á allt sæmilegt fólk sem ekki er haldið trúarbrjálsemi í garð samkynhneigðra.

Hingað til hefur samfélagið sýnt þessum hópi ótrúlegt langlundargeð og þolinmæði. Hvað á það að ganga lengi? Þó ég sé með afbrigðum friðsamur maður finnst mér álitamál hvort ekki sé kominn tími til að útskúfa þessu hommahatursliði úr kristinna manna tölu af svona álíka hógværð og lítillæti og það úthúðar hommum og lesbíum. Æ, það þykist víst elska einstaklingana sem eru hommar og lesbíur en hata þá synd sem þeir eiga að hafa ratað í með kynhneigð sinni. En það er bara ekki þannig. Þetta fólk hatar einfaldlega homma og lesbíur. Af allri sálu sinni og af öllu hjarta sínu. Og ekkert með það bara. Eins gott að það segi það hreint út en sleppi  þessu kærleikskjaftæði.  

Því það er bara kjaftæði sem enginn innistæða er fyrir. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Þú gengur nú lengra í skrifum þínum en ég á minni síðu - en við höfum átt svipaða reynslu í dag sé ég.

Halldóra Halldórsdóttir, 11.8.2007 kl. 20:50

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, langt genur hann, en um hvaða einstaklinga er hann að tala þarna í síðustu klausunum? Einhverja Íslendinga? Hverjir eru það, Sigurður bloggvinur minn, sem þú vilt útskúfa úr kristinna manna tölu?

Jón Valur Jensson, 12.8.2007 kl. 02:15

3 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Frábær færsla Sigurður! 

Er ekki nokkuð ljóst um hverja hann talar? Lestu aftur... hægt!

Heiða B. Heiðars, 12.8.2007 kl. 08:22

4 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Segi það líka, frábær færsla hjá þér, sérstaklega kaflinn varðandi hinn harðskeytta fordómahóp.

Svava frá Strandbergi , 12.8.2007 kl. 09:46

5 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Heldurðu að hann sé að meina þig, Jón Valur? :)
Sigurði finnst það greinilega bara ekki mjög kristilegt athæfi að setja út á homma og lesbíur fyrir kynhneigð sína. Það er nokkuð ljóst.
Og kannski það séu fleiri sem vilja þó veg Guðs sem mestan (og þá er ég að tala um hinn eina sanna) sem eru sama sinnis?
Hver veit?

gerður rósa gunnarsdóttir, 12.8.2007 kl. 10:04

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvaða hann eru allir að tala um! Hefur HANN eigi nafn? Jú, hann heitir Sigurður eins og Jón Valur tekur fram.

Ég hef margar og oft afdráttarlausar skoðanir, þó ekki hafi ég skoðanir á öllu, á stjórnmálum, samfélagsmálum, trúmálum, feminísma, dýravernd, umhverfismálum og guð má vita hvað, en sjaldnast blogga ég um þær. Mitt blogg er yfirleitt ekki skoðanablogg. En ég má alveg taka rispur um skoðanir mínar ef ég vil. Ég nefni þarna (harðsnúinn) hóp en ekki einstaklinga, þó óhjákvæmilegt sé að einstaklingar myndi hópinn alveg eins og það eru oft mjög vúlnerable einstaklingar sem eru í homma-og lesbíuhópnum, kannski yfir sig ástfangnir eða í ástasorg, sem verða að lesa um sig óhróður af öllu tagi því annað er ekki hægt að kalla margt af því sem skrifað er og sagt gegn hommum, t.d. á Omega. Ég held svo að flestir lesendur þessarar færslu átti sig á því að orð mín um útskúfun á hommahöturum er bara ýkt útfærsla á þeirra eigin framkomu í garð samkynhneigðra.

Svona set ég fram mína skoðun, einmitt þegar við á, á hommadeginum, en ég hef ekki í hyggju að deila um hana fram og til baka enda mótmæli ég aldrei hommafælupóstum á annarra manna bloggsíðum.

En ljóst er að ekki er ég sammála þeim sem leggja homma í einelti. og því vil ég endilega koma fram á minni eigin bloggsíðu. Ég á nokkra vini sem eru hommar og einn þeirra er meira að segja sérstakur trúnaðarmaður minn á vissu sviði mannlífins. Af því að hann er vitur  maður og velviljaður. 

Ég  vona svo að menn haldi ekki að ég sé á móti guði þó ég hafi deilt á þá sem ofsækja homma. Í kvöld ætla ég einmmitt kl.8 í guðshús,  Laugarneskirkju, eins og ég geri oft á sunnudögum á sumrin,  til að biðja fyrir þeim sem ofsækja homma og lesbíur. Hvet sem flesta til að koma. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.8.2007 kl. 11:20

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, og svo er Krítarhringurinn frægi eins og hann leggur sig bara mættur á síðuna til að lýsa yfir samþykki sínu!

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.8.2007 kl. 12:04

8 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Ég sagði ekkert um hvort ég væri sammála eða ekki. Ég sagði bara þér finnst og öðrum finnst kannski ;)

gerður rósa gunnarsdóttir, 12.8.2007 kl. 12:13

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En Krítarhringurinn er alla vega mættur! Ertu kannski ósammála mér? Ég þori aldrei fyrir mitt litla líf að vera ósammála þér!

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.8.2007 kl. 12:48

10 Smámynd: Heiða B. Heiðars

chicken

Heiða B. Heiðars, 12.8.2007 kl. 13:19

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Skessa!

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.8.2007 kl. 13:25

12 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Ég frábið mér að orðið hæna sé notað í niðrandi merkingu - af mjög svo persónulegum ástæðum.

gerður rósa gunnarsdóttir, 12.8.2007 kl. 17:15

13 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Aukast nú heldur vandræði vor. Hvað á nú að gjöra? Malaðu nú Míó minn ef þú ert einhvers staðar á lífi.

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.8.2007 kl. 17:53

14 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Míó ærðist af söknuði og er fluttur.

gerður rósa gunnarsdóttir, 12.8.2007 kl. 22:12

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvert flutti hann Míó minn?

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.8.2007 kl. 00:41

16 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Flutti hann kannski í annan heim?

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.8.2007 kl. 00:46

17 Smámynd: gerður rósa gunnarsdóttir

Það finnst mér ekki (ég skynja alltaf þegar kettirnir mínir eru dauðir - hann er samt alveg á mörkunum að vera minn köttur). Hann hefur bara ekki komið heim í svolítinn tíma. GErðist um daginn líka en ekki svona lengi samt. Annaðhvort er hann dauður - eða lifandi.

gerður rósa gunnarsdóttir, 13.8.2007 kl. 15:46

18 Smámynd: Kolbrún Kolbeinsdóttir

Þakka fyrir góða færslu, skemmtilegt blogg.

Kolbrún Kolbeinsdóttir, 17.8.2007 kl. 01:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband