Lokið upp hinum óttalega leyndardómi á Krít

Í fyrradag sagði ég á blogginu að ég hefði dregið mig í hlé síðan ég kom heim frá Krít. Og ég lauk færslunni með þessum orðum.

"Hvað var það á Krít sem snéri mér frá heimsins glaumi inn á innri brautir?

Það er leyndardómur."  

En nú ætla ég að ljóstra upp þessum óttalega leyndardómi.

Það var hann Míó minn. 

Míó var húsköttur sem fylgdi íbúðinni þar sem ég bjó fyrir endanum á langa og dimma ganginum sem lá að íbúðinni hennar Gerðar Rósu asnabónda og lífsspekingi. Þarna hafði hann Mió búið í sæmd sinni lengur en eltsu menn mundu með eiganda sínum þar til það hljóp í ólukkans eigandann að flytja burtu í annað og fullkomlega ómerkilegt húsnæði. En meistari Míó vildi ekki flytja og strauk hvað eftir annað frá nýja staðnum á sínar gömlu og góðu heimaslóðir.   

Þar settist hann að sem húsköttur og verndari íbúðarinnar. Þjónaði hann öllum íbúum, sem þar bjuggu síðan, með spekt sinni og efirlátssemi.  

PICT2303Hann gerði sig heimakominn í rúminu mínu á hverju kvöldi og malaði eins og þotuhreyfill upp við brjóstið á mér. Einu sinni tókst mér með vinstri hendi að að taka mynd af okkur saman.  

Þegar ég fór fram í stofu fylgdi hann mér við hvert fótmál. Ef ég settist við tölvuna til að skrifa malaði hann þar líka  til að auka mér innblástur. Og þegar ég opnaði ísskápinn rak hann upp gleðimjálm eitt hvellt og snjallt og allt hans pavlovska skilyrtamunnrennsli fór í gang alveg skilyrðislaust enda brást honum aldrei spádómsgáfan að opinn ísskápur þýddi svínasteik og aðrar gómsætar krásir.

Míó var alveg sama hvaða skoðanir ég hafði, t.d. á umhverfismálum, dýravernd eða femínisma. Hann kærði sig líka kollóttan um það hvort ég tryði á guð eða ekki.  

Hann skeytti aðeins um það sem leynist að baki allra skoðana og látaláta í hverjum manni. Gegnum hjartað lá hans leið og það er einmitt vegurinn til friðar og fagnaðar segja þeir sem best vita það. 

Þegar ég kom heim var þar enginn Míó. Þess vegna varð ég að draga mig í hlé frá heimsins glaumi til að finna aftur leiðina til hjartans.   

Eftir veginum hans Míó.

Þetta var leyndardómurinn hinn dýri sem ég uppgötvaði á Krít. 

P.S. Hægt er stækka myndina af honum Míó með því að klikka á hana.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Mikið var ég búin að bíða og hlakka til  að heyra þessa uppljóstrun. Og ekki varð ég svikin.

María Kristjánsdóttir, 8.8.2007 kl. 19:14

2 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Það er auðséð á myndinni hve ykkur líður vel saman. Svona álíka er ég þegar ég fer að sofa, nema bara með tvo ketti, Tító auðvitað og svo Gosa, sitt hvorum megin við mig í rúminu. Þeir eru mínir rekkjunautar og hef ég ekki haft aðra betri í lífinu.

Svava frá Strandbergi , 8.8.2007 kl. 19:22

3 identicon

Yndisleg frásögn kisur eru æði .

enok (IP-tala skráð) 8.8.2007 kl. 20:36

4 Smámynd: Halla Rut

En hvað þið eruð sætir saman. Ást án orða.

Halla Rut , 8.8.2007 kl. 21:56

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mjá, takk fyrir þessi komment.

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.8.2007 kl. 00:27

6 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Falleg lifun.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 9.8.2007 kl. 05:46

7 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Fallegt! Felis Domesticus, besta hjartalyfið, besta blóðþrýstingslyfið, besta verkjalyfið. Ætti að vera til í hvaða apóteki sem er. Nú verð ég að fara að fá mér kött aftur. Annars eiga þeir til að koma til mín.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 9.8.2007 kl. 18:11

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og besta geð(prýðis)lyfið! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.8.2007 kl. 00:00

9 Smámynd: Guðrún Markúsdóttir

Ég get útvegað mjög góða ketti ef einhver skortur er á þeim. Sendið mér bara tölvupóst með heimilisfangi og símanúmeri og ég sé um heimsendingarþjónustu. Bestu kveðjur - goodster@hive.is

Guðrún Markúsdóttir, 10.8.2007 kl. 00:20

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Takk fyrir þetta Guðrún. En enginn kemur í staðinn fyrir elsku Míó minn!

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.8.2007 kl. 00:26

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Já, til hamingju með daginn!

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.8.2007 kl. 12:13

12 Smámynd: halkatla

þetta er dásamleg mynd og saga, nú er ég orðlaus bara

halkatla, 11.8.2007 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband