Veðrabesta þjóðhátíðin í Eyjum

Ekki hefur verið betra veður í heildina á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum en nú síðan a.m.k. um miðja  síðustu öld. Reyndar varð að fresta opnun hátíðarinnar um nokkrar klukkustundir vegna hvassviðris en fljótlega varð veðrið skaplegt og á föstudaginnn og laugardaginn var einmuna sól og blíða og reyndar var einnig ágætt veður á mánudaginn. Frá laugardegi til mánudags var hiti meiri en áður hefur komið í Vestmannaeyjum á þjóðhátíð þá daga. Á Stórhöfða mældist hámarkshitinn þessa þrjá daga 16,4, 16,6 og 14.6 stig. Á sjálfvirka mælinum í kaupstaðnum, við varmaveituna, mældist  17,9, 17,0  og 14.2  stig. Meðalhitinn þessa þrjá daga á Stórhöfða var á milli 12 og 12 og hálft stig og gerist slíkt ekki oft á þeim stað. Hlýrra var en í Reykjavík. Úrkoma alla þjóhátíðardagana var aðeins 0.2 mm á Stórhöfða, mæld kl. 9 á laugardagsmorguninn og síðan ekki söguna meir.

Veðrið var alveg þokkalegt víða um land að þessu sinni um verslunarmannahelgina og sums staðar alveg ágætt. Ekki mun því koma til þess að birtist blaðagreinar um það að nausðynlegt sé að færa verslunarmannahelgina fram um svona tvær helgar eins og  gerst hefur hvað eftir annað síðustu ár ef "rok og rigning" hefur verið um þessa helgi, en slíkt veður er æði algengt hér á landi á sumrin yfirleitt. Ómar Ragnarsson hefur verið manna ötulastur við að koma þessari hugmynd á framfæri. Á bloggsíðu hans í fyrradag er þessi fullyrðing:

"Verslunarmannahelgin er hálfum mánuði eftir að sumarhitinn nær hámarki og oftar bjóða helgarnar á undan upp á betra veður."

Gaman þætti mér og fróðlegt ef Ómar rökstyddi þessar fyllyrðingar sína. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann ber þær fram. Þetta eru vafasamar staðhæfingar í heild ef ekki beinlínis rangar. En ekki get ég farið lengra út í það að sinni. En Ómar hefur stundum heilmikil áhrif. Og það væri alveg eftir öðru að menn rjúki til og færi verslunarmannahelgina fram um tvær helgar í von um að þá verði oftar betra veður. 

En það er bara ekki þannig.    

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bergur Thorberg

Sæll Sigurður,

Mér þykir vænt um að einhver heldur utan um veðrið, líkt og Þórbergur gerði forðum.

Bestu kveðjur

Bergur Thorberg, 8.8.2007 kl. 18:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband