Færsluflokkur: Ég

Horfið inn í fjarskann

Fyrsti maí er mér einna hugstæðastur allra daga.

Þegar ég var ungur þekkti ég stúlku sem átti afmæli þennan dag. Hlýjasta vor allra tíma árið 1974 hitti ég hana í miðbænum í kröfugöngunni. Þá voru öll tré í bænum allaufguð. Tilveran réði sér ekki fyrir lífi og gróanda.

Við gengum glöð um bæinn með kröfur um betri heim.

Um haustið var hún dáin. Hún tók líf sitt sjálf.

Nú er þetta allt komið í einhvern annarlega fjarska þrátt fyrir allt.  Með árunum þokast maður svo sjálfur inn í fjarskann. Alltaf lengra og lengra.

Loks hverfur maður alveg. 

Það verður ekki á betra kosið. 

 

 


Páskahelgin

Nú ætla ég að koma hysterískum aðdáendum mínum ræklega á óvart. Í fyrsta lagi ætla ég að blogga um eitthvað annað en bölvuð móðuharðindi alla tíð. Í öðru lagi að lýsa því yfir að föstudagurinn langi finnst mér næstbestur allra daga. 

En bestur er páskadagurinn.

Ég skil ekki þetta tuð í mönnum hvað föstudagurinn langi hafi alltaf verið leiðinlegur alveg þangað til nú á dögum að bjórbúllur og súludansstaðir hafa opnað dyr sínar upp á gátt þennan dag. Hver bloggræfillinn á fætur öðrum hefur verið að vitna um það á sínum síðum hvað þeir hafi átt bágt í bernsku vegna þess að samfélagsumgjörðin var of  heillög og þeim ekki að skapi.

En ég spyr: Hefur þetta fólk ekkert við að vera inni í sjálfu sér? Engar bækur að lesa? Enga tónlist að heyra? Engar innri lendur að kanna?

Nú ætla ég að ganga fram af hysterískum aðdáendum mínum með því að fullyrða að helgi mikil og máttug leynist að baki tilverunnar. Hún er þar alltaf. En það er oft erfitt að finna hana í argaþrasi daglega lífsins. Menn þurfa líka að gera dáltið til þess að skynja hana. Í fyrsta lagi að þagna í huganum. Vera ekki að þessu eilífa þvaðri við sjálfan sig. Þá fylgir kyrrðin og friðurinn í kjölfarið. 

Aldrei liggur þó þessi helgi nær yfirborðinu en einmitt á föstudaginn langa og á páskadag. Þá er hægt að rétta bara út hendina til að grípa hana.

Það er mín óbifanlega reynsla. Og hún er samofin hlustun á háleitustu músik heimsins, passíur Bach og vitringsins Heinrichs Schütz, en á þær hlusta ég með andakt á föstudaginn langa. Og þegar ég segi andakt þá meina ég andakt.

Á páskadag vakna ég fyrir allar aldir, kveiki á kertum mínum við páskaliljurnar og læt geroríanskan munkasöng hljóma um sálina: Resurrexi. Þá finn ég samkennd við alla menn og allt sem lifir.

En það var nú ekki meiningin að verða svona væminn á þessum stað. Samt er þetta dagsatt.

Að þessu sinni barst mér líka falleg páskakveðja í morgunsárið frá einni árrisuli sál sem mundi eftir mér og það gerði páskana enn sætari en ella hefði verið.

Góðar hugsanir falla aldrei úr gildi.

Nú er allt hreint og tært. Nú er allt fagurt og fínt.   

Nú eru páskar um veröld alla. 


Dagbækur til sölu!

Ég las í fréttum að þýskur iðnjöfur hefur keypt tvær dagbækur sem Anna Nicole hefur skrifað fyrir litlar 33 miljónir.

Við lestur þessarar fréttar fékk ég hugljómun. Auðvitað að selja mínar dagbækur fyrir morðfjár.

PICT1699Ég byrjaði að halda dagbók 3. maí 1962 og hef haldið því áfram óslitið síðan. Í bókunum má lesa allar mínar syndsamlegu hugsanir og margt annað andstyggilegt. Þar eru líka brilljant athugasemdir um allt milli himins og jarðar, niðursallandi bókakrítik, poppuð kvikmyndagagnrýni, laglegar tónlistarpælingar, stjórnmálavafstur frá þeim tíma sem stjórnleysingjar gengu um götur, ferðalýsingar framandi og hulduhrútlegar, ástandslýsingar ægilegar, ástamál í löngum bunum, ástarsorgir hjartaskerandi í enn þá lengri bunum, geðveikisleg  heilaköst í allra lengstu bunum, samskipti mín við merka menn og ómerkar konur, heimspekifyrirlestrar yfir sjálfum mér, leyndarmál annarra (sum alveg hrikaleg), blót og formælingar, KLÁM og viðbjóður, níð um margt frægt fólk, trúvillu af öllum sortum en aldrei af verri sortinni, fordómar viðbjóðlegir um menn og málefni  og síðast en ekki síst: sjálfhverft daður við naflann á mér sem lætur blogg nútímans blátt áfram verða altrúístískt í samanburði.

PICT1698Þetta eru digrustu og langlokulegustu dagbækur íslandssögunnar eins og myndirnar eru til vitnis um. Elstu dagbækurnar eru lengst til vinstri á efri myndinni. En í sömu hillu eru líka þær yngstu til hægri. Á neðri myndinni, á annarri hillu, eru dagbækurnar sem þar eru á milli.

Hver dagbók fæst á miljón. Ýmisleg ótrúleg afsláttarkjör eru í boði ef fleiri en ein dagbók eru keyptar. 

Tilvaldar bækur til gjafa handa vafasömu fólki.

Kaupið dagbækur aldarinnar strax í dag!   

Einstætt tilboð. Stendur aðeins  í dag og á morgun.

Á mánudaginn verða bækurnar brenndar við óhátíðlega athöfn ásamt dagbókarritaranum sjálfum. 

Forðumst bókabrennur!  Verndum hugsanafrelsið! Verndum ritfrelsið! 

Kaupið dagbækurnar! Strax í dag!

  

 

 

  

 

 


Truntusól er ekki skáldsaga

Orðið Truntusól hefur tvívegis verið nefnt af þeim sem hafa gert athugasemdir við bloggið mitt síðustu daga. Þetta er nafn á bók sem ég skrifaði þegar ég var tuttugu og fjögra ára gamall. Á tiltilblaði bókarinnar segir að hún sé skáldaga.

En nú get ég upplýst að svo er ekki þó tveir kaflar í bókinni séu hreinn tilbúningur og slatti hér og þar í henni til viðbótar. Bókin segir frá vist á geðdeild og var útgefandinn, Ragnar í Smára, svo hræddur vegna yfirlæknis deildarinnar, Karls Strand,  og fleira starfsfólks að hann krafðist þess að bókin væri kölluð skáldsaga. Einnig varð ég að fella út ýmislegt gys sem ég gerði að  starfsfólkinu og breyta öllum nöfnum á því. Mér var þetta þvert um geð en varð að láta undan því annars hefði bókin aldrei komið út. Reyndar var mér sagt af manni er starfaði á viðkomandi deild að yfirlæknirinn hafi reynt að koma í veg fyrir útgáfu bókarinnar. Bókin vakti heilmikla athgyli og var upseld fyrir jól svo ég vona að farið hafi ærlega um hann.

Fyrir skömmu var mér bent á ritið "Tengt við tímann, tíu sneiðmyndir frá aldalokum" sem Bjartur og ReykjavíkurAkademían gáfu út árið 2000. Og skrifar þar ekki Hermann Stefánsson bókmenntafræðingur ritgerðina "Geðsmunir" og er þar talsvert fjallað um Truntusól. Hann segir m.a. um bókina: ...„verkið hefur öll verksummerki skáldskapar og lesandinn er látinn koma að því eins og sáldsögu..."

Eins og áður segir er þetta samt ekki skáldsaga. Hermann segir líka um bókina: "Í huga íslenskra lesenda hefur hún yfir sér áru sjálfsævisögulegs ákæruskjals." Og nokkru síðar segir hann: "Truntusól er ekki ákæruskjal. Í verkinu er að finna næstum því einstakt daður við fjölmargar bókmenntagreinar: skáldsögu, stjórnmálarit, dagbókarbrot, tónlistarrýni, heimspekirit, samræðulist, trúarbragðarit, ævisögur, þjóðlegan fróðleik, blaðagreinar, mannlýsingar; þar ægir saman ólíkustu stíltilraunum, rómantískum stemmningum í bland við grimma sjálfsskoðun, ákærum í bland við íhugular mannlýsingar."

Það er ekki að spyrja að því að bókmenntafræðingar lesa margt og margt í bókum sem ekki er þar að finna. Hermann man ekki þá tíma þegar bókin kom út. Ég hef nú bara aldrei heyrt að litið hafi verið á hana sem ákæruskjal. Ég held að það hafi ekki hvarflað að neinum. Sannarlega var slíkt ekki mín ætlun. Það er hins vegar þjóðfélagsgagnrýni í bókinni eins og þá var tíska. Ég held að allir hafi séð að bókin er fyrst og fremst sjálfslýsing höfundar eins og hann upplifði sig þá. Nú er hann allur annar maður! 

Ég hef oft verið spurður að því fram á þennan dag af hverju ég hafi ekki skrifað fleiri bækur og hvort ég ætli nú ekki að fara að skrifa bók. Síðustu árin hef ég svarað því til að ég sé einmitt búinn að skrifa nýja bók. Þá hjarnar spyrjandinn allur við og spyr með gleiðu brosi á vör:

"Skáldsögu?"

"Nei, bók um tónlist."

Og þá stirnar ánægjuglott spyrjandans í vonbrigðargrettu.

Hvað er eiginlega svona merkilegt við skáldsögur? Að menn missi andlitið þegar þær eru ekki skrifaðar heldur annars konar bækur.

Það liggur við að ég sjái eftir því að hafa skrifað Truntusól. Ég var örugglega fyrsti Íslendingurinn sem talaði frjálslega um geðraskanir. En það var ekki til neins.

Nú þrjátíu árum síðar finnst mér fordómar gegn þeim vera meiri en þeir voru þá.


Týnda frændfólkið

Á bókamarkaðnum í Perlunni um daginn keypti ég Ljóðasafn Hannesar Sigfússonar og seinna bindið af endurminningum hans, Framhaldslíf förumans, en hið fyrra, Flökkulíf, hafði ég þegar eignast. Ég hafði þó lengi þekkt þessar bækur. 

Í febrúar 1989 sat ég við hliðina á Hannesi í samkvæmi rithöfunda en þá hafði ég aldrei séð hann áður. Hann var einstaklega viðkunnanlegur, hlédrægur, eðlilegur, samt ræðinn, vingjarnlegur og yfirlætislaus. Ég kunni svo vel við hann að mér fannst ég alltaf hafa þekkt hann. Og ég hafði á tilfinningunni að honum væri vel til mín. Ég er næmur á slíkt.

Ég sá Hannes aldrei aftur.

Í ágúst 1997 lést móðurbróður minn. Hann var jarðsettur í Vestmannaeyjum og fór ég til Eyja með flugvél til að vera við útförina. Í flugvélinni fletti ég Morgunblaði dagsins og þar var mynd af því þegar kista Hannesar Sigfússonar var borinn af þekktum rithöfundum út úr Dómkirkjunni, þeirra á meðal var Gyrðir Elíasson, kunningi minn og Jón Kalmann Stefánsson náfrændi Hannesar. Hann þekkti ég þá ekkert. Daginn áður hafði ég lesið minningargreinar um Hannes í Morgunblaðinu og var ein þeirra skrifuð af einni allra nánustu vinkonu minni til margra ára.

afiÉg vissi að móðurafi minn hafði átt mörg systkini. En faðir þeirra dó frá öllum börnunum þegar þau voru ung að árum, rétt eftir aldamótin 1900, og tvístraðist þá fjölskyldan eins og oft gerðist á þessum árum þegar fyrirvinnan féll frá. Móðir hans afa fluttist þá til Vestmanneyja og sonur hennar kom þangað nokkru seinna og settist þar að. Hann kynntist þar henni ömmu, sem var tíu árum eldri en hann, og þau giftust og áttu nokkur börn. Þeirra á meðal var hún mamma og þessi bróðir hennar sem ég fylgdi til grafar þennan síðsumarsdag árið 1997. Afi minn var aðeins 29 ára gamall þegar hann fórst á bát sínum svo mikið uppi í landssteinum við Heimaey að líkast til er þar nú hraun sem áður var saltur sær. Þá var mamma þriggja mánaða. Mér var sagt að afi hafi ort ljóð og verið góður smiður en maður hugsaði ekkert um það frekar. Og ekkert af skáldskap hans hefur varðveist. Öll mín móðurætt hefur það á tilfinningunni að ég líkist honum afa mínum voða mikið. Hér að ofan er mynd af honum.    

Mamma vissi svo sem ekkert um systkini föður síns. En við dauða bróður hennar vaknaði hjá mér löngun til að komast að því hver þau hefðu nú eiginlega verið og hverjir væru afkomendur þeirra, náfrændur mínir og frænkur. Nokkrum árum áður hafði Jón Valur Jensson, sá ágæti maður, tekið saman fyrir mig framætt mína nokkra liði svo ég vissi vel hver var langamma mín og afi, foreldrar Sigurðar Jónssonar afa míns. Eftirleikurinn var því auðveldur að finna systkini hans og börn þeirra.

Þegar ég var barn og unglingur lá ég í bókum og tónlist. Á bítlaárunum setti ég ekki upp myndir af Bítlunum heldur íslenskum skáldum og gömlu tónsnillingunum, Bach og Beethoven og þeim gaurum. Svona var ég nú skrýtinn. Á mínu heimili var enginn sérstakur áhugi fyrir bókmenntum eða músik. Mér fannst ég því vera ansi einn á báti og hugsaði oft um það hvaðan í skollanum ég eiginlega hefði skotist inn í þessa ætt. Mikið hefði ég orðið hissa og glaður á þessum skáldlegu umglinsárum ef ég hefði fundið svo sem eitt smáskáld meðal skyldmenna minna.  Um stórskáld lét maður sig aldrei dreyma.

Þegar ég byrjaði að leita að systkinum hans afa kom þar fljótlega upp nafnið Kristín Jónsdóttir. Hún bjó í Reykjavík kringum árið 1930 og átti með Sigfúsi manni sínum nokkur börn, hét eitt þeirra Hannes og annað hét Lára Margrét.

Þannig  varð það mér ljóst í grúski mínu 19. desember 1997 að Hannes Sigfússon skáld, Gréta systir hans og  skáldkona og móðir mín væru systkinabörn. Ég hef aldrei á æfinni orðið jafn forviða.  Mamma varð ekki minna undrandi og ég held líka dálítið upp með sér. Þó hún væri ekki sérstök bókmenntamanneskja las hún talsvert og vissi vel að Hannes var frægt skáld. Og nú fór hún að lesa bæði systkinin. Henni féll betur við Grétu.

hannessigfÉg missti af Hannesi. Mikið hefði ég viljað kynnast honum og spyrja hann um móður hans og jafnvel afa hans og ömmu. Þau bjuggu lengi í Hraunholti í Hnappadal eins og forfeður þeirra margir á undan þeim. Ég held þó að skáldskapargrein ættarinnar megi rekja til Dalasýslu frá því upp úr 1750 og eru af þeim meiði, auk Hannesar og Grétu, líka Snorri Hjartarson og Guðbergur Bergsson. En svo eru líka ættlerarnir! Ég nefni nú engin nöfn!

Til hægri má hér sjá mynd af Hannesi Sigfússyni tíu eða ellefu ára gömlum með móður sinni. Myndin var tekin fyrir framan Nýlendugötu 9 í Reykjavík þar sem þau bjuggu þá en ég ólst upp á Vesturgötunni og blasti þetta hús við úr eldhúsglugganum heima hjá okkur.    

Það er enn ein kaldhæðni örlaganna hvað mig varðar að eftir að Hannes fluttist til Íslands eftir langa dvöl i Noregi bjó hann í íbúð á Akranesi þar sem ég hafði verið eins og grár köttur á þeim árum þegar ég bjó á staðnum, um og upp úr 1970. Þá bjó vinur minn í þessari íbúð.

Já, ég missti sem sagt bæði af Hannesi og Grétu. Ég talaði hins vegar við Hrefnu systur þeirra. Hún hafði á orði að ég væri líkur móður þeirra. Það fannst mér vægast sagt undarlegt að heyra.

Krstín, móðir Hannesar og Grétu, dó ekki fyrr en árið 1970. Nokkur önnur systkini hennar lifðu í nokkur ár eftir það. Ég missti af þeim öllum alveg eins og honum afa mínum. En ég man vel eftir  ömmu minni enda var ég orðinn tólf ára þegar hún dó. Ef afi hefði lifað jafn lengi óg hún hefði hann ekki dáið fyrr en árið 1969.  

Mér finnst það ganga glæpi næst hvað fólk er oft ómeðvitað og skeytingarlaust um nánustu skyldmenni sín. Ég hef svo sannarlega bætt úr því hvað mig varðar. Ég er búinn að rekja afkomendur allra langalangömmu- og langalangafa minna, samtals 8 frændgarða.

Og Hannes Sigfússon er þar mesta sörpræsið.


Mikilvæg yfirlýsing

Í dag Þreytti ég próf um lífslíkur mínar sem ég fann á einhverri bloggsíðunni. Ég  á víst að verða áttræður. Ekki deginum eldri.

Fjárinnn! Ég nenni ekkert að verða svona hundgamall. Mér finnst ég svo sem alveg hafa lifað nógu lengi. Enda er ég búinn að lifa mitt fegursta og allt það ljótasta er eftir. Og ljótt verður það. Það veit sá sem allt veit.

Ekkert óttast ég meira en verða Alzheimersjúklingur með risastóra bleyju á framtíðar elliheimilinu Sprund. En það er huggun tilvonandi harmi gegn að ég hef gert samning við eina unga og spræka vinkonu mína sem er stór í sniðum og afrend að afli og kvenkostum öllum að kæfa mig með kodda eins og hvern annan eymingja þegar ég veit ekki lengur hvað ég heiti og held kannski að hún sé ástargyðjan Venus.

Og hér með lýsi ég því yfir meðan ég hef enn ofurlítið vit og tækifæri til að ef ég skyldi svo einhvern tíma detta dauður niður vil ég alls ekki að hjartanu verði aftur kippt í gang með feiknastuði jafnvel þó raftólið sé alveg við hendina. Eg get bara ekki hugsað mér að lifa sem heilaskaðaður hálviti það sem eftir væri.

Það er ekkert mál að deyja. Maður veit ekki einu sinni af því. En það er heilmikið mál og óttalegt vesen að vera alltaf að lifa.


Besti dagur ársins

Alltaf finnst mér dagurinn eftir þrettánda besti dagur ársins. Þá hefur hversdagsleikinn snúið aftur. Hversdagsleikinn er lífið sjálft. Það er líka svo sérstök kyrrð, eins og logn eftir storm, sem kemur svo skýrt  fram þennan dag og er alveg einstaklega mögnuð einmitt núna þegar komið er út í vetrarblíðuna. En mér finnst snjórinn spilla. Mér finnst nefnilega fyrsti hálfi mánuðurinn eftir þrettándann magískasti tími ársins. En bara þegar jörð er auð og veður milt. Ég veit ekki afhvejru mér finnst þetta. Mér finnst það bara. Það er eitthvað tengt hinni sérkennilegu birtu skammdegisins.

Mikið eru ríki miklir síkópatar. Forsætisráðherra Íraks hótar þeim öllu illu sem voga sér að mótmæla aftöku Saddam Huseins. Þeir sem telja dauðarefsingar skilyrðislaust rangar ættu nú bara að mótmæla svona botnlausum hroka af enn meiri þunga. Siðaboð um helgi mannlífsins, sem er ofar gildisdómum um einstakar persónur, eru svo sannarlega ekki innanríkismál neinnar þjóðar.   

Nú vilja menn fjölga eftirlitsmyndavélum á almannafæri upp úr öllu valdi. Það er einkennileg ályktun af þeirri einföldu staðreynd að um daginn kom í ljós haldleysi þeirra til að tryggja öryggi borgaranna. Nokkrir piltar gengu i skrokk á mönnum beint fyrir auga eftirlitsmyndavélar. Hún breytti sem sagt engu um öryggi þeirra sem fyrir árásinni urðu. En hún olli því reyndar að ofbeldismennirnir gáfu sig fram. En það er ekki það sama að koma í veg fyrir misþyrmingar og að geta refsað eftir á þeim sem fremja þær. Slikt breytir engu um raunverulegt öryggi fólks. Flestir fremja ofbeldisverk aðeins einu sinni. Ofbeldistíðni minnkar ekki þó hægt sé að refsa fyrir tilviljun þeim sem berja menn og annan.

Bara datt þetta í hug. Það er svo sjaldan sem mér dettur nokkuð í hug!         

         


Að rétta við kompásinn

Hingað komu í heimsókn í dag gríslingar tveir, fimm ára stelpa og þriggja ára strákur og einn pabbi með þeim. Þau sungu jólalögin; Jólasveinar einn og átta, Bráðum koma blessuð jólin, Adam átti syni sjö og margt fleira en ég spilaði með þeim á mitt píanó. Svo varð ég að þykjast vera draugur og setja upp ógurlega grímu og elta gríslingana út um allt húsið með hávaða og bölvuðum látum. Það var nú meira andskotans vesenið. Krakkarnir alveg skíthræddir og orguðu og veinuðu af spenningi en ég fékk næstum því hjartastopp. Þá tók ég niður grímuna og varð alveg grímulaus. Fór þá að kárna gamanið heldur betur og flúðu gríslingarnir húsið skömmu síðar í fylgd föður síns.

Þá brá ég mér í bæinn  og keypti jólagjafir handa þessum gríslingum. Þetta er fyrsti dagurinn sem ég hef haft einhverja tilfinningu fyrir því að helvítis jólin væru að koma.

Blessuð jólin ætlaði ég að segja og börnin hlakka mikið til. Ég hlakka hins vegar mest yfir því að það verða örugglega rauð jól og allir verulega fúlir yfir því nema ég.

Ég horfi bara á ríkissjónvarpið endrum og sinnum en ekki aðrar stöðvar en yfirleitt eyði ég kvöldunum í göfug viðfangsefni fjarri heimsins glaumi, eins og til dæmis það að lesa veðurskýrslur, helst frá síðustu öld,  sem ég tel hiklaust bestu bókmenntir sem hægt er að lesa. Veðurlíf er miklu meira spennandi en eitthvað skáldalíf.

Jæja, nú er ég farinn að bulla. En það er kannski sára saklaust. 

Verra ef ég væri farinn að sulla alla daga og orðinn svo fjósruglaður að ég þyrfti að fara í fantalega meðferð til að rétta við kompásinn. 


Jólaskapið

Ég er  ekki kominn í neitt jólaskap. Samt er ég heilmikill jólamaður. Á aðfangadagskvöld loka ég mig til dæmis alveg af í klukustund til að hlusta, einn Íslendinga, á Jólasögu hins heilaga vitrings Heinrich Schütz. Hann fæddist hundrað árum á undan Bach en varð með langlífustu mönnum og dó um daginn, má segja. Ég hef líka ljósum skrýtt jólatré í stofunni minni sem er full af ógurlega þykkum bókum og innrammaða mynd af jólasveinum í eldhúsinu. Mynd þessi er eldri en ég og er ég þó gamall og geðstirður og kom frá Svíþjóð þegar pabbi sigldi um öll heimsins höf á dögum Línu langsokks. Myndin er svona gamaldags jólaleg.

Ég set þetta samt ekki upp fyrr en á Þorkáksmessukvöld og á eftir bý ég til jólabúðinginn fræga. Mamma kenndi mér að búa hann til síðasta árið sem hún var af þessum heim og enginn í heiminum kann núna að búa hann til nema ég og ég verð að búa til margfalda skammta fyrir alla stórsfjölskylduna, það er að segja systur mínar og börn þeirra sem voru ansi óþæg þegar þau voru lítil þó þau hafi nú ekki verið nándar nærri því eins fáránlega lítil eins og ég var þegar ég var lítill.

Búðingur þessi er svo góður að allir verða miklu betri menn eftir að hafa borðað hann. Sannkölluð jólabörn. Ég ét hann, afskakið borða ætlaði ég að segja, á hverjum degi fram á gamlárskvöld. Þá dett ég ekki í það en horfi á alla aðra gera það og er alveg sama. Síðast datt ég kylliflatur í það á gamlárskvöld.1979. Og ég varð alveg blindfullur og sjálfum mér til svo mikillar skammar að síðan hefi ég eigi áfengi bragðað. Og aldrei langað í það. Og aldrei átt í neinni baráttu. Og aldrei séð eftir því að hafa hætt. Ég hvet reyndar unga og aldna til að fylgja fögru fordæmi mínu. Detta í það í síðasta sinn núna á gamlárskvöld. Ég á ekki við það að menn og konur drekki sig það kvöld í hel heldur að allir verði bláedrú á nýársdag og lifi sober og happily ever after.

Já, og nú finn ég að ég er bara kominn í þetta líka fína jólaskap.     


Þrjátíu tonna þunglyndi

Það mætti halda að smitandi melankólía sé að ganga í bloggheimum. Ekki er hægt að þverfóta fyrir bloggurum sem kvarta um biturleika og þunglyndi. Samt halda bloggarar þessir áfram að blogga eins og fjandinn hafi rokið í rassgatið á þeim. Svoleiðis „þunglyndi” finnst mér fádæma ómerkilegt og léttvægt. Ég hef nefnilega sjálfur verið í þrjátíu tonna þunglyndi síðan ég byrjaði að blogga, hvað aldrei skyldi verið hafa, og alls ekkert getað bloggað vikum saman. Samt á ég ekki vanda til þunglyndis heldur einmitt geggjaðs léttlyndis. Ship o hoj!

En bloggelíbloggið hefur mjög óvænt lagst þungt á mína viðkvæmu og nettu sál sem ekkert aumt má sjá. Flestir bloggarar hafa enga sál. Þeir eru sálarlaus kvikindi. Að blogga er svona eins og að berhátta sig fyrir framan glugga þar sem allt er dregið frá. Þá verður híað á mann. Ekki var ég fyrr farinn að opinbera  hugsanir mínar en ég gat ekki lengur skrifað, hvað þá hugsað, sem ég geri nú reyndar aldrei nema á stórhátíðum. Þegar sagt var frá bloggafrekum mínum á mjög glannalegan hátt í Fréttablaðinu með stórri mynd af mér sem ein skrýtnasta vinkona mín sagði að ég hefði verið svo “krúttlegur og sætur” á, þegar ég reyndi einmitt að vera afspyrnu ljótur á og leiðinlegur og svo virðulegur að undrum átti að sæta, féll mér allur ketill í eld og læsti bara síðunni minni. Ég kunni ekki beint við að eyða henni með öllum veðurfréttunum sem ég hafði sett inn á hana en það annálaða og sérviskulega framtak er skilningi allra gersamlega ofvaxið að sjálfum mér meðtöldum. 

En við lokunina byrjuðu vandræði mín að þyngjast svo um munaði. Ég hætti að sofa og hætti að borða en þyngdist samt án afláts. Ég var alveg gífurlega þungur. Sextán tonn var ég orðinn áður en ég vissi af og átti þó enn eftir að þyngjast um næstum því helming. Svo þurfti ein vinkona mín endilega að bjóða mér í mat og reyndi að gleðja mig með léttúðarfullu mali. Ég þoldi þá ekki orðið neina birtu og alls ekki tónlist (og er ég þó illræmdur tónlistargagnrýnandi) og þaðan af síður kvennahjal. Minnst af öllu gat ég þó þolað sjálfan mig. Það gera aðrir reyndar ekki heldur. Nema þessi vinkona mín sem bauð mér í kattarláfujafninginn. Hún skilur allt og umber allt og étur allt. Og hún fær það sannarlega borgað frá mér þúsundfalt.

Til að gera langa og leiða sögu stutta er ég loksins núna að ná honum upp innri manninum. Í gær datt mér í hug í bælinu að gera snjalla málamiðlun við heiminn. Ég hét því að ef ég ekki færi til guðs fyrir áramót af eðlilegum orsökum, geispaði golunni af ólund og harmi, ætli ég að fara þangað af mjög óeðlilegum ástæðum strax á nýjársdag. Byrja þá mitt framhaldslíf. Ég drattaðist fram úr, tók sæng mína og gekk að fullu frá veðurmetaskránni og laumaði henni á netið. Algjört met!  

Og nú skal ég að dansa og dufla og daðra til áramóta og fylgjast með brjáluðu veðrinu og setja margar og skverlegar veðurskrár inn á galopna bloggsíðuna.

Ship o hoj!  

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband