Færsluflokkur: Ég
18.8.2007 | 19:45
Gamlar minningar
Íþróttablað Morgunblaðsins segir frá því í dag að nú sé hálf öld liðin frá því að Hilmar Þorbjörnsson setti íslandsmet í 100 metra hlaupi sem enn stendur. Þetta gerðist á gamla Melavellinum í Reykjavík. Það vill svo til að ég var á vellinum þennan dag og man vel eftir undrun áhorfenda þegar metið var tilkynnt í hátalarakerfinu. Þetta mun vera eitthvert elsta íslandsmet sem enn stendur.
Ég var líka á Laugardalsvellinum þegar Vilhjálmur Einarsson setti íslandsmet í þrístökki, 7. ágúst 1960 og stökk 16.70 metra. Það hefði verið jöfnun á heimsmeti ef pólverjinn Jósef Schmidt hefði ekki nokkrum dögum áður stokkið fyrstur manna yfir 17 metra. Met Vilhjálms stendur enn sem íslandsmet.
Ég er hreinlega alls staðar þar sem hlutirnir gerast á vettvangi íþróttanna! Ég leyni sem sagt heilmikið á mér.
Loks vil ég taka það fram af gefnu tilefni þennan síðsumarsdag að ég hef hreinustu andstyggð á hvers kyns menningu. Ef ég ætti pístólu myndi ég spenna upp á henni gikkinn við það eitt að heyra orðið nefnt.
Hvort sem það yrði nú að nóttu eða degi.
Ég | Breytt 6.12.2008 kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.8.2007 | 11:57
Surtsey og Upptyppingar
Í gær skoðaði ég Surtseyjarsýninguna í Þjóðmenningarhúsinu. Ekki fannst mér mikið til hennar koma. Einna mest gaman var að þessari "tímavél" sem sýndi hvernig talið er að eyjan muni líta út allt til ársins 2130. Þá verð ég nú orðinn gamall og geðstirður! En þetta speglaverk á sýningunni var bara asnalegt. Þannig sér maður aldrei í náttúrunni og ég hef ekki áhuga á arty súrrealisma á sýningu um eldgos, bara plein staðreyndum.
Svei mér ef ég er bara ekki nú þegar orðinn gamall og geðstirður!
Surstseyjargosið er eina eldgosið sem ég hef séð með mínum eigin augum. Og það tvisvar fremur en einu sinni. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að sást til gossins úr sjó 14. nóvember 1963 fór ég með öðru fólki í bíl að Kambabrún til að horfa á það. Þá stóð gjóskutrókurinn hátt í loft upp.
Sumarið 1964 var ég messagutti á flutningaskipinu Hvítanesi sem seinna hét Vatnajökull. (Skipafélagið sem átti skipið fór reyndar á hausinn í þessari ferð og ég hef enn ekki fengið greitt kaupið mitt fyrir uppvaskið). Við héldum frá Vestmannaeyjum aðfaranótt 21. júlí og sigldum framhjá Surtsey. Þetta skrifaði ég þá í dagbókina mína: "Í nótt sigldum við að Surti og var þá mikið gos í honum. Eldsúlan sást af og til en hraunið rann fram á tveimur stöðum. Rauður bjarmi lýsti upp himininn og sjóinn. Þetta var stórkostlegasta sjón sem ég hef séð." Myndin sem hér fylgir er tekin af Sturla Friðrikssyni og er tekin með bessaleyfi af vef Surtseyjarfélagsins.
Þetta gos var allaf ótrúlegt sjónarspil. Ekkert sjónvarp var í landinu nema síðustu mánuði gossins en frægar kvikmyndir eru til af gosinu.
Ég er hræddur um það yrði núna handagangur í öskjunni hjá sjónvarpsstöðvum ef við fengjum annað eins gos. Og nú vantar sárlega gott eldgos. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur verður enn að herða sinn talanda ef hann ætlar að hafa það af að tala upp eldgos við Upptyppinga.
Það lýsir annars best lágu menningarstigi og tæpri náttúruvitund bloggverja að þeir hafa aðallega verið að klæmast með þetta nafn á síðum sínum og ekki eytt orði að því landrisi sem þar er að verða ansi stíft sem stefnir loks að útspýtingu allsvakalegri.
Ég vil fá almennilegt súpergos úr þessum Upptyppingi en ekki neitt ómerkilegt túristagutl. Það veitir ekki af að hrista upp í þessari logmollu sem grúfir yfir öllu. Minnst þúsund rúmkílómetra af gosefnum vill ég fá upp í loftið, sjóðheit og þykk og velllandi, þegar Upptyppingurinn gossar loksins öllu gumsinu út úr sér. Þá verður nú nú aldeilis aksjón, spenna og hasar.
Gott ef verður bara ekki heimsendir.
Ég | Breytt 6.12.2008 kl. 19:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
6.8.2007 | 13:01
Að draga sig í hlé
Ég verð að játa að síðan ég kom heim frá Krít hef ég dregið mig í hlé.
Annað veifið kemur yfir mig ómótstæðileg þörf fyrir að vera einn með sjálfum mér og vera í friði. Ég kann mjög vel að vera með sjálfum mér. Og það án þess að hafa músik glymjandi yfir mér eða glápandi á sjónvarp eða myndbönd. Mér finnst bara frábært að vera einn og kynnast sjálfum mér. Maður getur ekki skilið heiminn nema gegnum sjálfan sig. Samt á ég auðvelt með að samlagast öðrum þegar ég kæri mig um.
Hvað var það á Krít sem snéri mér frá heimsins glaumi inn á innri brautir?
Það er leyndardómur.
Ég | Breytt 5.12.2008 kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
18.7.2007 | 11:34
Súrt í broti
Svo ég fari nú loksins að tala í alvöru eftir að ég fór í fríið verð ég að viðurkenna að mér finnst dálítið súrt í broti að þessi einmuna veðurblíða í Reykjavík og víðar skuli nú einmitt hafa komið þegar ég var víðs fjarri. Það er alls ekki gefið að sagan endurtaki sig meðan ég lifi.
Eins og lesendur þessarar síðu vita er ég æstur veðuráhugamaður og hef fylgst daglega með veðrinu í fjörtíu ár og lesið allt sem ég hef komið höndum yfir um íslenskt veður fyrr og síðar. Ég veit því vel að ég hef verið að missa af sögulegum atburðum í verðurfarslegu tilliti.
Og svo vitum við öll að gott veður er hvergi eins gott og á Íslandi!
Í gær var meðalhitinn í Reykjavík kringum 13,2 stig, næstum því þrjú stig fyrir ofan það meðallag sem nú er í gildi. Aðeins júlí 1991 stenst einhvern samanburð við þennan að þessu leyti. Svo er það þurrkurinn sem er einsdæmi. Merkilegastur er hann kannski vegna þess að enginn kuldi hefur fylgt honum.
Það er líka óvenjulegt að engin sérstök hitabylgja hefur komið til að halda uppi þessum háa meðalhita heldur verið nokkuð jafn og fínn hiti. Ef glæsileg bylgja kæmi nú eftir svona viku, en væri áfram hlýtt þangað til, gætum við kannski fengið fjórtán stiga júlí! Það ætti sér enga hliðstæðu.
Við bíðum spennt!
Ég | Breytt 6.12.2008 kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.7.2007 | 23:24
Ég hefi fundið
Nú er ég víst búinn að sjá það markverðasta sem heimurinn hefur upp á að bjóða. Ég er búinn að sjá Krít og hana Zóu og asnana hennar. Ég hef lengi haft sterkan grun um að ég ætti einhvers staðar sálufélaga í þessari voluðu veröld. Og nú veit ég það með vissu. Og verð vísast aldrei samur maður - eða asni - eftir.
Ég | Breytt 5.12.2008 kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.6.2007 | 19:25
Ég er að fara til helvítis
Mikil hitabylgja er nú í Grikklandi. Í dag fór hitinn í Efesis í 46 stig, 45 í Kalamata og í Hania á Krít voru 42 stig.
Ég er ansi hræddur um að maður mundi nú ekki nenna mikið að blogga í svona svækju. En þangað liggur samt leiðin innan skamms. Ég hef alltaf vitað það að ég ætti eftir að fara beina leið til helvítis!
Hér fyrir neðan sést á korti frá Wetterzentrale hitinn yfir Evrópu á hádegi í um 1500 metra hæð. Yfir Krít er hitinn kringum 30 stig en 4 stig yfir Reykjavík
Ég | Breytt 6.12.2008 kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
22.6.2007 | 18:39
Ætti að ritskoða bloggið?
Nú er ég svo andlaus að ég á ekki orð. Ég get ekkert sagt um loftslagsmálin, fótboltamálin, kvennamálin, klámmálin eða heimsmálin. Ég er alveg tómur.
En ég er þó á móti ritskoðun á bloggi sem sumir vilja fara að innleiða. Ef menn setja þar eitthvað sem fer út yfir einhver mörk á að mæta því með sömu aðferðum og öðru efni sem birt er opinberlega. Menn geta kvartað til réttra aðila eða jafnvel kært og svo framvegis. En ef fylgst verður með blogginu með einhverju virku eftirliti sem grípur í taumana í tíma og ótíma mun það fljótlega drepa allt spontanitet í blogginu. Það gera auglýsingar líka. Að ekki sé minnst á fégreiðslur.
Ég ætla svo í lokin að trana fram mínu eigin mikilvægi og birta veðurkort (að vísu ekki gott) frá þeim degi sem ég var í heiminn borinn en það var auðvitað í Vestmannaeyjum.
Og svo er það spurningin hvort ekki sé hægt að spá í veðurkort manna eins og hægt er að spá í stjörnukort manna.
Segðu mér hvernig veðrið var þegar þú fæddist og ég skal segja þér hver þú ert og hvernig örlög þín verða ráðin!
Daginn sem ég fæddist var lægð á Grænlandshafi sem olli suðvestanbarningi á landinu. Og sjá! Líf mitt hefur verið einn heljarinnar útsynningsrosi með hryðjum og hryssingi. En bjart á milli.
Ég | Breytt 6.12.2008 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
19.6.2007 | 00:50
Ciccolini er þá ekki dauður!
Það kom við hjartað í mér þegar ég las á blogginu hans Egils Helgasonar að hann hefði heyrt Aldo Ciccolini halda píanótónleika í Þessalóníku. Og hann lék auðvitað eins og meistari.
Það var einmitt Aldo þessi Ciccolini sem lék á fyrstu grammófónplötunni sem ég eignaðist. Það var sumarið 1962 þegar ekki var einu sinni búið að leggja drög að flestum bloggurum sem nú gera sig breiða á blogginu. Aðalverkið á plötunni, sem enn er í nothæfu standi, var hvorki meira né minna en píanókonsert nr. 1 eftir Tsjækovksí, þessi frægi frægi, en aukalag var Mefistóvalsinn eftir Liszt en Ciccolini er einmitt mikill Liszspesjalisti. Og leikurinn er frábær, silfurtær og glitrandi.
Ég hélt hins vegar að Ciccolini væri löngu dauður og grafinn og varð steinissa á því að hann væri enn að spila og það fyrir Egil Helgason! Og mér fannst ég allt í einu eiga heilmikið sameiginlegt með Agli og upplifði sterkt samhengið í mannlífinu, samanber "samhengið í íslenskum bókmenntum", sem sennilega hefur þó loksins rofnað í seinni tíð - en hverjum er svo sem ekki sama. Ég er sjálfur að fara til Grikklands eftir nokkra daga og finnst ég því alveg ekstra spesjal deila margnþrugnum örlögunum með honum Agli Helgasyni.
Einu sinni ræddi hann við mig um veðrið í sjónvarpsþætti og öðru sinni í útvarpsþætti. Þá var hann lítið þekktur. En nú er hann orðinn mikið þekktur.
Enda vill hann ekkert við mig tala lengur!
Ég hlakka annars afskaplega mikið til að yfirgefa þetta volaða land og fara til Krítar. Þar hitti ég manneskju sem mælir allt upp í mér, meira að segja svo hrúleiðinlegar veðurpælingar að jafnvel stærstu og ógurlegustu skessur verða öldungis að steini.
Ég | Breytt 6.12.2008 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.5.2007 | 18:24
Hún Vera frá Rússlandi
Þetta er allt annað líf síðan fór að hlýna. Nú er veðrið orðið eðlilegt eftir árstíma. Og það á eftir að batna enn til muna því hlýr loftmassi er að koma beint frá Rússlandi.
Fyrsta utanlandsferð mín var til smáborgar í Rússlandi sem heitir Onega og er innst í Hvítahafinu. Þá var ég þrettán ára og var messagutti á flutningaskipi. Þarna kynntist ég ungri stúlku sem kom oft í sjómannaklúbbinn á kvöldin en á daginn vann hún við uppskipun á timbri við höfnina.Við urðum miklir vinir þó hún væri nokkrum árum eldri en ég og við gætum ekki talað saman því hún skildi aðeins rússnesku. En við brostum bara inn í hvort annað. Hún fluttist síðar úr borginni og býr nú suður í Kákasusfjöllum. Við erum enn í sambandi.
Daginn sem ég sá hana fyrst, 6. júní 1961, var einmuna blíða og var það allan tímann sem við vorum í höfn en það voru nokkrar vikur. Við sigldum svo burt en komum aftur seinna um sumarið. Alltaf var sama blíðan. Og þetta reyndist með hlýjustu sumrum við Hvítahafið.
Þessi stúlka hét Vera. Og hér fyrir ofan er mynd af henni sem tekin var þegar hún var að vinna í timbrinu í Onega. Hún sendi mér myndina fyrir nokkrum árum. Og svona leit ég út þegar ég kynntist henni.
Allt gott kemur frá Rússlandi. Ljúfar minningar, sumarblær og sólskinsblíða.
Ég | Breytt 5.12.2008 kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.5.2007 | 18:26
Afsökunarbeiðni
Þegar ég var strákur í Gaggó Aust var þar einn eldri nemandi sem var algjör stjarna í skólanum. Hann var alveg hryllilega gáfaður og skemmtilegur og svo mælskur að það leið yfir stelpurnar þegar hann steig í ræðustól en þar vildi hann helst alltaf vera. Stelpurnar, sem nú eru reyndar orðnar stútungskellíngar, voru líka bálskotnar í honum. Eiginlega gerði þessi maður allt vitlaust í skólanum með því einu að vera bara til.
Það sópaði beinlínis að honum. Líka utan skólans enda virtist hann vera tíu árum eldri en hann var. Ekki síst gerði hann garðinn frægan í Keflavíkurgöngum þar sem hann kjaftaði sig með glans inn á aðal númerin sem voru auðvitað öll afgamlir kommar og einstakir gáfumenn.
Ég keypti mér jakka eins og þessi maður átti.
Hann var sem sagt eitt af mínun átrúnaðargoðum þegar ég var í gaggó.
Hann hét Jón Sigurðsson og allir spáðu honum glæstum frama.
Svo liðu árin. Löng og ströng fyrir alla.
Þegar Jón Sigurðsson opnar nú munninn vellur út úr honum vélræn munnræpan með þvílikum frösum og endemum að menn eru farnir að kalla hann páfagaukinn. Hann þykir nú lang leiðinlegasti og hallærislegasti stjórnmálamaður landsins.
Hvað varð af brilljant og skemmtilega manninum sem einu sinni hreif alla með sér?
Hvar hafa dagar lífsins lit sínum glatað? Gerir pólitíkin alla svona leiðinlega?
Ég biðst innilega forláts á því að hafa fallið fram fyrir þessu átrúnaðargoði í æsku minni.
Þá var maður nú ungur og vitlaus.
Ég | Breytt 6.12.2008 kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006