Surtsey og Upptyppingar

Í gær skoðaði ég Surtseyjarsýninguna í Þjóðmenningarhúsinu. Ekki fannst mér mikið til hennar koma. Einna mest gaman var að þessari "tímavél" sem sýndi hvernig talið er að eyjan muni líta út allt til ársins 2130. Þá verð ég nú orðinn gamall og geðstirður! En þetta speglaverk á sýningunni var bara asnalegt. Þannig sér maður aldrei í náttúrunni og ég hef ekki áhuga á arty súrrealisma á sýningu um eldgos, bara plein staðreyndum.

Svei mér ef ég er bara ekki nú þegar orðinn gamall og geðstirður!

Surstseyjargosið er eina eldgosið sem ég hef séð með mínum eigin augum.  Og það tvisvar fremur en einu sinni. Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að sást til gossins úr sjó 14. nóvember 1963 fór ég með öðru fólki í bíl að Kambabrún til að horfa á það. Þá stóð gjóskutrókurinn hátt í loft upp.

Sumarið 1964 var ég messagutti á flutningaskipinu Hvítanesi sem seinna hét Vatnajökull. (Skipafélagið sem átti skipið fór reyndar á hausinn í þessari ferð og ég hef enn ekki fengið greitt kaupið mitt fyrir uppvaskið). Við héldum frá Vestmannaeyjum aðfaranótt 21. júlí og sigldum framhjá Surtsey. Þetta skrifaði ég þá í dagbókina mína: "Í nótt sigldum við að Surti og var þá mikið gos í honum. Eldsúlan sást af og til en hraunið rann fram á tveimur stöðum. Rauður bjarmi lýsti upp himininn og sjóinn. Þetta var stórkostlegasta sjón sem ég hef séð." Myndin sem hér fylgir er tekin af Sturla Friðrikssyni og er tekin með bessaleyfi af vef Surtseyjarfélagsins.  

surtseyÞetta gos var allaf ótrúlegt sjónarspil. Ekkert sjónvarp var í landinu nema síðustu mánuði gossins en frægar kvikmyndir eru til af gosinu.

 

Ég er hræddur um  það yrði núna handagangur í öskjunni hjá sjónvarpsstöðvum ef við fengjum annað eins gos. Og nú vantar sárlega gott eldgos. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur verður enn að herða sinn talanda ef hann ætlar að hafa það af að tala upp eldgos við Upptyppinga.

Það lýsir annars best lágu menningarstigi  og tæpri náttúruvitund  bloggverja að þeir hafa aðallega verið að klæmast með þetta nafn á síðum sínum og ekki eytt orði að því landrisi sem þar er að verða ansi stíft sem stefnir loks að útspýtingu allsvakalegri. 

Ég vil fá almennilegt súpergos úr þessum Upptyppingi en ekki neitt ómerkilegt túristagutl. Það veitir ekki af að hrista upp í þessari logmollu sem grúfir yfir öllu. Minnst þúsund rúmkílómetra af gosefnum vill ég fá upp í loftið, sjóðheit og þykk og velllandi, þegar Upptyppingurinn gossar loksins öllu gumsinu út úr sér. Þá verður nú nú aldeilis aksjón, spenna og hasar. 

Gott ef verður bara ekki heimsendir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er einmitt að rúka út í dagsbjarta og frískandi menningarnóttina!

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.8.2007 kl. 12:48

2 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Algjörlega sammála - það er löngu kominn tími á almennilegt stórgos.  Best færi á því að 4-5 gos væru í gangi samtímis.  Þá fyrst værum við hugsanlega laus við þessar endalausu fréttir af úrvalsvísitölum og öðru heilarýrandi fréttatrosi.  Hekla, Katla og Upptyppingar!  Lyftið oki ykkar og standið undir nafni.  Gjósið!

Ásgeir Kristinn Lárusson, 18.8.2007 kl. 12:53

3 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Já það veitti ekkert af smá gosi. Hér er ég að drekka kók og má ekki bara bjóða ykkur smá á meðan þið bíðið eftir stóru sendingunni?

Ólafur Þórðarson, 18.8.2007 kl. 16:38

4 identicon

Alveg er ég sammála.  Það vantar einmitt nákvæmlega að jörðin opnist af satanískum krafti og eldur og eimyrja spýtist út og suður um allar trissur. Það væri meira við mitt hæfi en þessi kórsyngjandi menningarnæturglaumur. 

Þórdís (IP-tala skráð) 18.8.2007 kl. 17:23

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Andskoti eru allir eitthvað sammála á þessari síðu.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.8.2007 kl. 17:27

6 Smámynd: Þorkell Sigurjónsson

Ég á nú barasta ekki ord. Gosid í Heymaey 1973 var vid böjardyrnar hjá okkur Eyjamönnum og langar mig ekki ad upplifa thad aftur, takk fyrir. Satt ad segja held ég thid vitid lítid hvers thid erud ad óska, thegar thid góda fólk viljid fá adminnilegt gos. Sigurdur, ég er ennthá í útlandinu eins og thú sérd á stafagerdinni. Kem eftir helgi og vöri gaman ad heyra í thér símleidis. Kvedja.

Þorkell Sigurjónsson, 18.8.2007 kl. 18:24

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ekki ber nú að taka allt eftir orðanna hljóðan Keli minn!

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.8.2007 kl. 19:10

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Vel á minnst: Ef þúsund rúmkílómetrar kæmu upp í gosi væri lífi allra jarðarbúa stefnt í hættu. Lesið þetta og dragið djúpt andann:  http://en.wikipedia.org/wiki/Supervolcano

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.8.2007 kl. 19:30

9 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Þér varð að ósk þinni kæri Sigurður, Skömmu eftir að ég bauð Coca Cola braust út mikill eldur í háhýsi hér skammt frá og tók ég þessa videomynd af því.

OK kannski ekki gos en þetta verður bara að nægja:  http://www.youtube.com/watch?v=U3hsNoeQoFQ 

....

Ólafur Þórðarson, 18.8.2007 kl. 23:16

10 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Ég vil fá það!  Í gegn, að Upptyppingurinn spýti nú almennilega úr sér. Segi það enn og aftur og hananú!

Svava frá Strandbergi , 19.8.2007 kl. 11:27

11 Smámynd: Svava frá Strandbergi

Annars sá ég líka Surtseyjar gosið og það úr fínasta stúkusæti eða sjálfum Herljólfsdal. Ég var þá á einni af fjölmörgum þjóðhátíðum sem ég hef farið á. Surtur lýsti upp allan dalin, svo að bálið á Fjósakletti var eins og smá eldspýtutýra í samanburði við eldglæringarnar sem hann þeytti mílnavegu upp i loftið. Himininn logaði og drunurnar dundu í eyrum. þetta sjónarspil er það stórkostlegasta sem ég hef upplifað. Ég man að ég var montin af því að vera Íslendingur þegar ég heyrði á tal túristana sem voru þarna líka.

Svava frá Strandbergi , 19.8.2007 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband