Þurrasti janúar í sögu mælinga fyrir norðan

Janúar reyndist sá úrkomuminnsti sem mælst hefur á stóru svæði fyrir norðan. Allt frá Ströndum  í vestri til Vopnafjarðar í austri. 

Á Akureyri var úrkoman aðeins 0,8 mm og féll á fimm dögum. Þar hefur úrkoma verið mæld frá 1926 og aldrei verið jafn lítil í janúar. Aldrei hefur heldur mælst eins lítil úrkoma í janúar á Grimsstöðum, frá 1936 og Hrauni á Skaga frá 1949. Á sjálfvirku úrkomustöðinni á Raufarhöfn mældist minni úrkoma en nokkru sinni mældist á hinni mönnuðu sem er ný hætt, alveg frá 1934. Sömu sögu er að segja frá öðrum veðurathugunarstöðvum á öllu þessu svæði með mislanga mælingasögu.

Það er skammt öfganna á milli því síðasti desember var sá úrkomumesti sem mælst hefur á Akureyri. Í byrjun janúar var snjódýpt þar 81 cm og hefur aldrei mælst meiri í janúar. Ekki kom þar dropi úr lofti fyrstu 15 daga mánaðarins en vegna hlýindanna var þar orðið snjólaust 26. janúar og er enn.

Á suður og vesturlandi var úrkoma víðast hvar yfir meðallagi.

Meðalhitinn í Reykjavík er kringum 2,4 stig og hafa einir 8 eða 9 janúarmánuðir verið hlýrri frá 1870, síðast 1992.

Þetta var óvenjulegur mánuður enda hefur veðurlag verið óvenjulegt á stóru svæði í kringum okkur og í Evrópu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eg er vanur að hæla veðurfarinu hér fyrir norðan. Hverjum finnst sinn veðurhani fagur. En auðvitað er þetta upp og ofan og síðustu sumur hafa greinilega verið mun betri í Reykjavík en hér við Eyjafjörð. Veturinn hefur þó verið einstakur hér - mælt með minni persónulega huglægu mælingu. Þar ráða útslitum hin lognkyrru dægur, viku eftir viku - eg man ekki lengur hversum margar. Hér er alltaf logn og blíða - 3. stiga hiti, 10 stiga hiti, 5. stiga frost, 14 stiga frost - bara logn. We are amused, eins og kellingin sagði. Ef þetta heldur svona áfram, þá ætla eg að vera hér og fara hvergi.

áskell örn kárason (IP-tala skráð) 4.2.2010 kl. 18:10

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Fyrir norðan er oft frábært veður eins og víðast annars staðar og norlenskt sumarveður slær oft út hið sunnlenska. Hins vegar hafa sumrin fyrir norðan ekki verið eins góð og oft fyrir sunnan upp á síðkastið en þau hafa í heildina samt verið góð miðað við fyrri tíð. En það hefur samt orðið einhver veðurbreyting. Norðlensk súpersumur með tilheyrandi ótíð í sunnanátt fyrir sunnan er liðin tíð í bili a.m.k. Austlægar áttir hafa verið í tísku á sumrin.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.2.2010 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband