Snjólítið á landinu

Í gærmorgun var hvergi talin alhvít jörð á veðurstöðum í byggð. Þá var í fyrsta sinn  í mánuðinum alauð jörð á Akureyri en á nýjársdag var snjódýpt þar 81 cm. Flekkótt jörð var talin á nokkrum stöðvum um miðnorðurland og á norðvesturlandi.

Í nótt snjóaði hins vegar nokkuð á norðvestanverðu landinu og yst á Tröllaskaga. Alhvítt var því talið í morgun á  Hólum í Dýrafirði, Hrafnabjörgum við Ísafjarðardjúp, Bergsstöðum í Skagafirði og við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum þar sem mæld var mesta snjódýpt á landinu, 7 cm. Það þykir  víst  ekki mikið á þessum árstíma. Sums staðar á þessu svæði var talin flekkótt jörð í morgun þar sem alautt var í gær.

Meðalhiti mánaðarins er nú 2,8 stig í Reykjavík og er það meira en þrjú stig yfir meðallagi. Fyrstu fimm dagar mánaðarins voru undir frostmarki en meðalhiti síðustu 18 daga er 5,0 stig eða 5,5 stig yfir meðallagi og er þetta með lengstu og sterkustu hlýjindaköflum á þessum árstíma. Ekki hefur frosið í Reykjavík síðan 7. janúar. En janúarhitametið er samt nokkuð langt í burtu vegna kuldanna í upphafi mánaðarins og svo er frosti spáð í lok mánaðarins og mun þá meðalhitinn lækka um sirka hálft stig. 

Meðalhiti þessa janúar mun því þrátt fyrir allt ekki teljast til neinna verulega sérstakra tíðinda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband