Páskahret

Hret eru algeng á þeim tíma sem páskarnir geta verið en þeir færast til sem kunnugt er. Þau geta komið hve nær sem er og það er bara tilviljun þegar þau hitta á páskana. Þau koma þeirri hátíð auðvitað ekkert við. Auk þess verða hret, sem kalla má páskahret, að að koma ofan í hlýindi sem staðið hafa í einhverja daga, helst fáeinar vikur, og koma  fáa daga fyrir skírdag í fyrsta lagi en á páskadag í síðasta lagi til að hægt sé að tala um páskahret. Það er ósköp vitlaust að tala um páskahret þó til dæmis falli snjór um páskana þegar kuldahretið hefur þá staðið í marga daga, tala nú ekki um í vikur.

Veðurfræðingurinn í sjónvarpinu í gærkvöldi kallaði snjókomuna í gær í Reykjavík  sannkallað  páskahret. Því er ég ósammála og líka því að hríðin fyrir norðan í dag sé kölluð páskahret.

Ástæðan er einfaldlega sú að kuldarnir, sem komu ofan í góð hlýindi, hafa staðið í marga daga og bætt við snjó fyrir norðan smátt og smátt og sums staðar annars staðar líka. Hretið kom því fyrir nokkrum dögum. Það byrjaði alls ekki í gær eða í dag. Ekki er rétt að kalla framhald og tilbrigði við kuldahret sem staðið hefur dögum saman neitt páskahret. Kuldakastið  hófst 27. mars. Sérlega kalt og norrænt loft hefur verið yfir landinu síðan.

Að minnsta kosti verður að telja að ''páskhretið'' hafi byrjað fyrir meira en viku en sé ekki að byrja í gær eða í dag. 

Flest tal um páskahret yfirleitt er hrein vitleysa, ónákvæmt og út í hött, eins og  vel sést á þessu dæmi, og menn ættu endilega að leggja slíkt tal bara niður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Auðvitað er það hárrétt að veðrið og tilurð þess er með öllu óviðkomandi hinum ýmsu tilbúnu uppákomum mannanna - svo sem páskum.

En komi slæm veður á þessum tilbúnu hátíðaruppákomum - þá er það orðin löng hefð fyrir því að tala um hret komi það  á hátíðarstundu.

Þekktasta dæmið er "Páskahret"

Og auðvitað eru þessir mánuðir sem páskar falla inni oftast alveg sérstaklega umhleypingasamir- þó undantekninga séu. 

T.d núna að búinn að vera alveg einstakur hretkafli á aðra viku hér við Faxaflóann.

Mér er málið skylt að því leyti að ekki hefur gefið á sjó á aðra viku vegna norðan og norðvestan vindbelgings og frosta.....og erfitt sjólag.  Páskahret um páska.

En þetta er nú partur af menningu okkar og einkum vegna tengsla við sjósókn-fyrrum. Vetrarvertíð stóð sem hæst.

En takk fyrir spjallið um þetta Sigurður Þ.G.

Sævar Helgason, 3.4.2010 kl. 10:39

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þú bendir einmitt réttilega á það að hretið er fyrir löngu byrjað, það byrjaði ekki um páskana.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.4.2010 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband