Nýstárlegar sjúkdómaskýringar

Björn H. Jónsson fyrrverandi sóknarprestur skrifar í dag grein í Moggann. Hann er að velta fyrir sér sjúkdómum og trúarlífi. Hann skrifar meðal annars: ''Grimmir sjúkdómar hafa á okkur herjað og hygg ég krabbameinið þar illskeyttast. ... Óttalegust er sú uppgötvun lækna að gen hafi fundist í mönnum sem beri í sér krabbameinsfrumu og skili henni yfir í annan einstakling með einhverskonar erfðafestu ferli og tengist jafnvel einstökum ættum. Ekki deili ég á niðurstöðu læknanna. Mér finnst þessi niðurstaða skelfileg. Ég trúi því ekki upp á Guð minn að hann skapi sitt eigið listaverk með slíkum fæðingargalla. Það getur ekki verið okkar Guð sem Jesús hefur frætt okkur um.''

Ég feitletraði orðin.

Þó presturinn segist ekki deila á niðurstöðu læknanna, sem ég veit reyndar ekki hver er umfram hans eigin orð, þá neitar hann samt að trúa henni. Í þessu er ósættanleg mótsögn fólgin. Hann gerir það sem hann segist ekki gera. Deilir  í reynd á niðurstöðuna sem hann segist ekki deila á, vísar henni hreinlega á bug.

Þess í stað er hann með ýmsar vangaveltur um hvað geti skapað slíka sjúkdóma. Það gæti verið að barnið í móðurkviði ''verði fyrir hnjaski, áfalli eða fyrir einhverju slæmu er móðirin verður fyrir: Falli úr tröppu, verði fyrir ofbeldi eða ofraun af einhverju tagi. Sýkill gæti sest að í fóstrinu og borist með því út úr fyrstu vöggustofunni.''

Hér er sem sagt strikað yfir niðurstöðu vísindanna eins og ekkert sé, ef við látum sem frásögn prestsins af niðurstöðum læknanna sé rétt, en villt hugmyndaflug látið koma í staðinn.  

Ekki vantar svo forskriftina fyrir því hvernig skapa eigi manneskju sem sé laus við sjúkdóma:

''Við þekkjum flest þessa setningu: »Guð skapaði manninn í sinni mynd«. Þá er eðlilegt að gera ráð fyrir návist hans og aðkomu þegar maður og kona maka sig í þeim tilgangi að skapa manneskju. ...Við mökun þarf hugur beggja að vera gagntekinn af kærleika, ástúð. Sál og líkami sátt við hvort annað. Mikill gæðamunur er á verkum þar sem hugur fylgir máli og þeirra er kastað er til höndum. Hér þarf að gilda fyrra verklagið.''

Af þessari grein, þar sem sjúkdómum sem berast með erfðum, er hreinlega neitað, er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að þegar erfðasjúkdómur, krabbamein þá í þessu tilfelli, kemur upp meðal  barna sé það vegna þess að foreldrarnir hafi ekki verið nógu kærleiksríkir í hákristilegum skilningi þegar getnaður barnsins átti sér stað. Þegar foreldrarnir sofa saman með stórum  kærleik kemur enginn krabbafjandi. En þegar foreldrarnir sofa saman án kærleiks birtist krabbinn hreinlega eins og skrattinn úr  sauðarleggnum. Þannig er lógíkin.

Til eru ýmsir sjaldgæfir erfðasjúkdómar sem erfast eftir ströngum erfðalögmálum sem hafa ekkert með trú eða kærleika að gera og þessir sjúkdómar geta verið alveg skelfilegir, eins og t.d. Huntington´s chorea eða ótímabær öldrun smábarna. 

En það er samt miklu skelfilegra að á 21. öld skulu menn halda fram þeim býsnum  og fádæmum sem finna má í þessari grein Björn H. Jónssonar um skýringar á sjúkdómum sem   berast með genum frá foreldri eða foreldrum til barna. 

Á hvers konar trúarvitleysisdellutímum lifum við eiginlega?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Algjörlega sammála þér Sigurður. Ef þessi grein er eins og þú segir að hún sé þá eru í henni skoðanir sem hefðu átt að deyja út fyrir svona 100 til 150 árum. Ég hélt reyndar að svona skoðanir væru fágæti mikið. Er samt ekki hissa á að Morgunblaðið skuli birta svona lagað.

Sæmundur Bjarnason, 3.7.2010 kl. 23:07

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þetta er alveg magnað

Óskar Þorkelsson, 4.7.2010 kl. 10:06

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Trúin lætur ekki að sér hæða. Öfgatrú allra trúarsamfélaga er uppspretta ósættis og styrjalda. Sagan segir okkur þetta. Þar er öfgatrú kristninnar ekki undanskilin.

Það er annars magnað hvað öfgatrú hefur náð miklum völdum í öllum trúarsamfélögum, flest trúarbrögð boða kærleik, umburðarlyndi og ást.

Vonandi er kristin trú ekki að færast aftur í miðaldir aftur!!

Gunnar Heiðarsson, 4.7.2010 kl. 10:37

4 identicon

Skapaði guð ekki allt milli himins og jarðar, þar á meðal njálginn? Sem er í raun ótrúlega sjúkt, að sitja upp á skýi og ákveða að skapa eitthvað sem lætur fólk klægja í rassinn. Annars ber þessi grein með sér að maðurinn sé gjörsamlega veruleikafirrtur.

Valsól (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 15:36

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Miklu trúarrugli fylgir stundum sérstök tegund af grimmd. Það er taktleysi ot tillitsleysi út fyrir allan skilning að segja það eiginlega hreint út að foreldrar veikra barna, eins og það sé fyrir ekki nógu þungbært hlutskipti, að þeir eigi sjálfir sök á veikindum barnanna. Þau stafi af kærleiksleysi þeirra við getnaðinn. Þetta er einmitt það sem þessi grein segir. Í því er einhver absúrd en samt algjörlega blind illska.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.7.2010 kl. 16:51

6 identicon

Munið eftir kaþólska prestinum sem sagði að í sumum tilfellum ÆTTU mæður að deyja með óbornum börnum sínum ?  Mér sýnist þessi prestur vera á sömu blaðsíðu. Ég vorkenni þessum mönnum.

Heiðrún Sveinsdóttir (IP-tala skráð) 6.7.2010 kl. 21:18

7 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Ætli sams konar raus fengist birt ef viðkomandi væri ekki prestur?

Valgarður Guðjónsson, 6.7.2010 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband