Sjaldgæf hlýindi

Júlí er nú rúmlega hálfnaður. Hann hófst með hvassvirði og hálf rysjóttu veðri fram eftir þó ekki væru neinir kuldar.

Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík var í gærkvöldi kominn í 12,6 stig eða 2,3 stig yfir meðallagi. Það er svipað frávik frá meðallagi og var í júní öllum sem var sá hlýjasti sem mælst hefur í borginni. Enginn dagur hefur enn verið undir meðallagi. Meðalhitinn í gær var 15,3 stig en sjaldgæft er að meðalhitinn í borginni nái 15 stigum. Hámarkshitinn var líka sá mesti sem komið hefur á þessu sumri, 21,2 stig á kvikasilfursmæli. Í nótt fór hitinn ekki lægra en í 12,8 stig en í dag ætlar hann greinilega ekki að stíga jafn hátt og í gær í höfuðborginni. Vindur er líka norðvestanstæður og dregur inn loft frá Faxaflóa sem varnar því að landið hitni eins vel og í gær þar sem þessa gætir. Í gær fór hitinn á Reykjavíkursvæðinu mest í  23,4 stig við Korpu. Á Keflavíkurflugvelli mældust 23,0 sem er vægast sagt sjaldgæft á þeim stað, reyndar svo að ég efast eiginlega um þessa tölu, og hitinn hefur þá  stigið allrösklega eftir kl. 18 í gær því þá voru 19,5°. Á Þingvöllum varð hlýjast í gær á landinu  24,1 stig en 22 stig voru á Kjalarnesi, Hólmsheiði og í Hvalfirði.

Sums staðar er enn hlýrra í dag en í gær, svo sem í Borgarfirði þar sem hitinn var 21 stig klukkan 15 í Stafholtsey og enginn hafgola og heldur ekki á Hvanneyri þar sem hitinn er búinn að fara í 23 stig og líka í Hvalfirði. Hlýjast er þó í uppsveitum suðurlands, búið að fara í 24 stig í Árnesi, Þingvöllum og Hellu, 23 í Hjarðarlandi og Kálfhóli og 22 í Búrfelli. Í Grindavík hefur hitinn farið í 22 stig sem er sárasjaldgæft þar. Hlýtt er einnig á suðausturlandi, 22 stig á Kirkjubæjarklaustri og Skaftafelli. En lengra austur ná ekki umtalsverð hlýindi. Við Breiðafjörð og i Dölum hefur hitinn náð 17-18 stigum í dag og í Bolungarvík voru 19 stig kl. 15 í heiðskíru veðri en annars staðar á Vestfjörðum er bara svona venjulegur júlíhiti. Þess má þó geta að hvorki á Hornbjargsvita né Fonti hefur hiti enn náð tíu stigum í þessum júlí!

Hitinn núna er ekki af venjulegasta tagi. Hitar á suður og vesturlandi verða oft þegar hlýr loftmassi frá meginlandi Evrópu leikur um landið. En hýindin að þessu sinni stafa af hlýrri hæð í háloftunum yfir suðaustanverðu Grænlandi. Skúraloftið sem var svo áberandi um margra daga skeið um daginn stafaði hins vegar af háloftkuldum þó fremur hlýtt væri við jörð. Þegar loftið við jörð hlýnaði og þandist út og steig upp á við kom að því að það mætti köldu loftinu í háloftunum sem var um 25-26 froststig í kringum fimm þúsund metra hæð sem er 5-6 stig undir meðallagi á þessum árstíma. Þetta olli skúrum  og sums staðar jafnvel þrumuveðri. Nú er annað uppi á teningnum. Það hefur hlýnað um tíu stig eða meira í fimm kílómetra hæð og er loft þar nú venju fremur hlýtt. Umskiptin urðu á föstudaginn.

Yfir Tasiilaq (sem áður hét Ammassalik) var á hádegi 14 stiga hiti í meira en þúsund metra hæð.  Hlýja loftið þarna er auðvitað upphaflega komið sunnan að fyrir nokkrum dögum.  Loftið berst svo til landsins með norðlægum straumi sem ríkir austan við sjálfan hitahólinn. Smávegis ský berast að ströndinni en Hornstrandir og  landið í heild standa eiginlega eins og varnarveggur fyrir þeim og sólin á auðvelt með að hlýja þetta að grunni til hlýja og þurra  loft upp í hálfgerða hitabylgju niður við jörð þar sem best lætur.       

Talsvert kaldara loft er yfir austurlandi. Þangað ná ekki áhrif Grænlandshlýjunnar  almennilega og  köld tunga í háloftunum teygir sig reyndar suður á bóginn rétt austan við landið en hlýrra er þó neðar. Skýjakerfi af þessum völdum ná nokkuð austur á landið og suður fyrir það. Lægðir lúra milli Íslands og Noregs.

Meðalhitinn í Reykjavík mun halda áfram að stíga í dag og á morgun. Hann gæti þá verið kominn al veg upp að 13 stigunum, sjálfri mettölunni fyrir hlýjasta júlí. En þá verða líka mestu hitarnir liðnir hjá í bili en samt verður hlýtt áfram.Um þetta leyti í fyrra var meðalhitinn í júlí reyndar kominn vel upp fyrir metið en þá gerði þriggja daga kuldakast svo meðaltalið lækkaði mikið en þegar upp var staðið var mánuðurinn samt með hlýjustu júlímánuðum. Mér kæmi annars ekki neitt á óvart ef þessi júlí bætti metið að lokum. 

Mikið sakna ég þess að engar Modis myndir skuli sjást meðan þetta góðviðri ríkir. Ekkert hefur komið síðan 13. júlí. Ekkert skil ég svo í þeim á Veðurstofunni að vera alltaf  með hámarks-og lágmarkshitann frá kl. 18-18 (reyndar líka frá kl. 9-9). Í dag sést að hafi verið 20 stig mest í Reykjavík en sá hiti mældist í gær um kl. 18 en í dag mest 18,6°. Svo mætti á spákortunum á Brunninum vera hægt að hreyfa þau áfram og aftur á bak með tökkunum á tölvunni en ekki bara með músinni sem á erfitt með það vægast sagt án þess að hlaupa yfir. Svo væri  lúxus ef  hægt væri að hægja á keyrslunum á spárkortunum sem fara svo hratt að ekki er hægt að festa sjónir á neinu nema þá helst fyrir ofurmenni og veðurofvita. Alls ekki veðurhálfvita!  

Fyrir neðan sést gervitunglamynd frá stöðinni í Dundee í Skotlandi, tekin kl. 1640. Þetta er ekki hitamynd, svona til að breyta til. En fyrst er kort þar sem kalda tungan í kringum 5000 metra hæð sést vel undan austfjörðum en hlýja loftið yfir Grænlandi og austur um Ísland.

Athugasemd: Hef tekið eftir því einkennilega fyrirbrigði að oft munar 0,1° (einstaka sinnum 0,2°)  á lágmarkshita stöðva sem gefinn er upp á þessum hámarks-og lágmarkslistum á vefsíðu Veðurstofunnar og þeim hita sem tiltekinn er á svokölluðum leslista yfir minnsta hita næturinnar, í dag (þ. 19.) 10,0 og 9,9  fyrir Reykjavík og 1,0 og 0,7 fyrir Grímsstaði. Þó eiga tölurnar greinilega  við sömu mælingu.   

rtavn001_1010180.png

ch1.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ætli þetta verði ekki hlýjustu dagarnir suðvestanlands í mánuðinum og kannski ekki svo líklegt að við sláum út 13 stiga mánaðarmetið frá júlí 1991. Það mætti nú samt fara að drífa í því.

Annars er hægt að finna orginal Modis myndirnar hér með því að velja úr dagatalinu og það nokkur ár aftur í tímann. Þú kannast kannski við þetta: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/realtime/?calendar

og hér er mynd dagsins sem sýnir Ísland og nágrenni: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/realtime/single.php?T101991325

Emil Hannes Valgeirsson, 18.7.2010 kl. 20:57

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Með fyrirsögn þessa pistils á ég við það að ástæður hlýindanna eru frekur sjaldgæf en ekki það að hitarnir séu svo óskaplegir. Ég nenni varla að leita á Modisvefnum, það er svo voðalega mikið af myndum.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.7.2010 kl. 23:25

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er annars leiðindaósiður sem ég geri mig sekan um, að vera linka á aðrar síður í athugasemdum. Hvet því engan til að smella á linkana, best að halda sig bara á þessari ágætu síðu.

En svo er spurning hvaðan Grænlandshæðin fær þessi hlýindi? Eru þetta kannski leifar frá hitabylgjunni í Bandaríkjunum? Það virðist allavega nóg af hlýju lofti hafa verið á sveimi beggja vegna Atlantshafsins.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.7.2010 kl. 23:46

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er alveg sjálfsagt að linka á aðrar síður ef ástæða er til. Ég var nú að leita alveg nýlega að þessum Íslandsmyndum þarna en fann þær ekki!

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.7.2010 kl. 00:05

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það má alveg koma fram að fyrr í júlí var umtalsverð ''hitabylgja'' á austurströnd Baffinslands, á eyjunum norðan við Kanada og á norðurströnd Grænlands. Þetta stóð í nokkra daga. Hitinn á Alert, næst nyrstu veðurstöð í heimi, fór þá í 20 stig.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.7.2010 kl. 00:40

6 identicon

Sæll Sigurður Þór.

Ég var of seinn að skrifa athugasemd við fyrri færslu. Kannski eins gott því ég hefði örugglega kallað yfir mig eilífa vist í helvíti þar. Fá prestar nokkuð sérstakt tóbak til að nota við störf sín, samanber messuvínið? Kannski fá þeir bara lyfseðil hjá biskupi.

Annars er veðrið fallegt núna og léttir mörgum lund.

Svo segja trúarbrögðin okkur að þetta viti ekki á gott, eða hvað?

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 19.7.2010 kl. 05:47

7 identicon

Munurinn á lágmarkshitanum stafar af því að í öðru tilvikinu hefur verið tekið tillit til leiðréttingar á lágmarksmælinum en í hinu ekki. Undantekningalítið er lægri talan sú rétta. Lágmarkshitinn kl. 9 í morgun (19.) er því 9,9 stig, aflestur af mæli var 10,0.

Örlög þessarar hitabylgju eru ekki ráðin, en samkvæmt þeirri skilgreiningu sem ég nota venjulega (sjá hitabylgjugreinargerð mína frá 2003) eru dagarnir 17. og 18. nálægt því að vera í 40.-45. sæti yfir hitabylgjur 1995 til 2010, en nálægt 115. sæti frá 1949. Í hitabylgjuskilgreiningu dana er miðað við 25 stig þrjá daga samfellt, en það væru að mínu mati allt of ströng skilyrði hérlendis. Sé miðað við mína skilgreiningu og þess þar að auki krafist að slíkt ástand standi í að minnsta kosti þrjá daga eru hitabylgjur síðan 1949 aðeins 20 talsins - mér finnst þetta fullstrangt.

Trausti Jónsson (IP-tala skráð) 19.7.2010 kl. 16:19

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Svo ég nái mér í smá fjas. Er það ekki alveg eftir öllu að hér hafi gengið á með einmunablíðu og verði síðan eintóm súld og leiðindi næstu þrjár vikurnar? Svona rétt á meðan ég verð í fríi ;)

Brjánn Guðjónsson, 19.7.2010 kl. 19:48

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þú þarft að fara að gefa út nýja greinarerð maður því hitabylgjurnar hafa komið í löngum bunum síðan 2003 vegna hinna hryllilegu gróðurhúsaáhrifa! Í dag fór yfir 20 stig í Dölum og við norðuströnd Breiðafjarðar sem ekki hefur komið í þessari bylgju og 19 stig á Fróðárheiði eins og ekkert sé og það hefur hlýnað á hálendinu, jafnvel 20 stig á Vatnsfelli. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.7.2010 kl. 19:53

10 identicon

Nú sýnist mér meðalhitinn í Reykjavík það sem af er júlí vera kominn í 12,8 stig þannig að met (>13) er ekki útilokað ef hlýindi haldast út mánuðinn. Það er reyndar mjög athyglisvert að skoða línurit yfir júlíhitann síðustu áratugi. Hann hefur verið á stöðugri uppleið (aðeins skrykkjótt að sjálfsögðu) u.þ.b. frá 1990. Með því að horfa á svona línurit sést að ef ekki hættir fljótlega að hlýna í júlí gæti jafnvel komið u.þ.b. 13,5 stiga júlí (kannski m.a.s. aðeins meira) í Reykjavík innan 10 ára. Þetta virðist þó með nokkrum ólíkindum auk þess sem það getur ekki hlýnað endalaust.

Björn Jónsson (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 00:06

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Sumarhitinn var nú lengi búinn að vera alveg í botni áður en fór að hlýna. Það mátti nú alveg. Ég held að það sé tímaspursmál hve nær júlí í Reykjavík fari yfir 13 stig.

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.7.2010 kl. 00:37

12 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Verður fróðlegt að sjá með haustinu hvernig menn og konur bjuggust við sumrinu í vor og hver raunin verður. Áfram þakka ég góða pistla og fróðlega. Takk sigurður.

Halldór Egill Guðnason, 22.7.2010 kl. 03:43

13 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég komst nú bara að því í dag að meðalhitinn í júlí 1936 er skráður 13,2 stig í Veðráttunni á því ári. Síðar hefur hann væntanlega verið „leiðréttur“ í 12,8 stig.

Í Sjónvarpsveðurfréttum um daginn var þó talað um að júlí 1936 hafi verið hlýrri en 1991 í Reykjavík. Hér er greinilega það mikil óvissa á ferð að erfitt er að fullyrða að meðalhitinn hafi í raun ekki farið yfir 13 stig.

Emil Hannes Valgeirsson, 26.7.2010 kl. 22:43

14 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég held að óvissan sé ekki sérlega mikil. Þú sérð að leiðréttingin er stór. Þegar 13.2 stiga hitinn var mældur var veðurstöðin á þaki Landsímastöðvarinnar við Austuröll. Í miðbæ Reykjavíkur er júlí síst hlýrri en á túní Veðurstofunnar en allar hitamælingar eru nú miðaðar við þann stað. Mælingarnar á Landsstímaárunun voru gerðar á þaki hússins sem voru ekki sérlega góðar mæliaðstæður og ofmátu hitann, einkun næturhitann. Þetta veldur þessum háu júlítölum 1936 (13,2°), 1939 og 1944 (13,0°). Ég efast ekki um að það að júlí 

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.7.2010 kl. 05:46

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

1991 sé sá eini sem náð hefur 13 stiga hita meðalhita í Reykjavík. Hitinn á nálægum stöðvum styrkir það. Hins vegar væri auðvitað best að fá meðalhita upp á 13,3 stig svo algerlega allri óvissu sé eytt en sú óvissa er lítið en ekki mikil. Nú er meðalhinn kominn í 12,9 stig  og miklar líkur á að hann fari upp í 13 stig en spurningin er hvort hann kemst upp i 13,3 stig.

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.7.2010 kl. 06:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband