Bloggið mitt um veður og annað

Bloggsíða mín var fyrst og fremst stofnuð til að blogga um veðrið. Ég hef oft tekið það fram. Það  er nóg af bloggurum sem blogga um annað, ESB, Icesave, trúmál og bara hvað sem er. En þetta blogg mitt er fyrst og fremst hugsað sem eins konar upplýsingaveita og bollaleggingar fyrir þá sem áhuga hafa á veðri.

Ég veit vel að þeir eru fáir. En þeim er þetta samt ætlað, þeim sem skilja það og kunna á einhvern hátt að meta það. Á vefsíðu Veðurstofunnar hef ég lesið ummæli um skrif mín um veður sem benda til þess að  eitthvað vit sé í þeim. Þegar ég var unglingur man ég hvað ég drakk í mig öll skrif um veður og var þakklátur fyrir þau. Kannski hugsa einhverjir fleiri á svipuðum nótum.  Og ég hef ánægju af því að deila veðurpælingum mínum með þeim sem eru á  þeim nótum. Þess vegna og eingöngu þess vegna er ég að þessu. Í efnisyfirliti um veður má sjá í sjónhendingu  hvað ég hef skrifað um veðrið. Og það sem ég hefi skrifað það hefi ég skrifað!

Af gefnu tilefni, sem ég ætla þó ekki að rekja, sé ég ástæðu til að taka ofanritað fram.

Þetta breytir ekki því að ég hef líka bloggað um ýmislegt annað en veður. Enda hef ég áhuga á fjölmörgum viðfangsefnum og skrifað um sumt af því, til dæmis bókmenntir og tónlist, þó ekki svo mikið á bloggi heldur á almennum vettvangi. Með tímanum hefur áhugi minn á  venjulegu bloggi minkað stöðugt. Þetta var skemmtilegt fyrst en gamanið er að miklu leyti  kafnað í mínum augum í pólitísku ati. Samt finnst mér enn gaman að einstaka bloggsíðu, ekki síst þeim sem einbeita sér að sérstökum viðfangsefnum sem um er skrifað af þekkingu og viti.

Ég er nú með ýmsar veðurfærslur í takinu. Ein er um illviðri að sumarlagi, önnur um þrumuveður á sumrin, þriðja um rigningarsumur. Auk þess er ég vandlega að endurskoða pistla mína um hlýjustu og köldustu mánuði og mesta og minnsta  hita sem mælst hefur í mánuði hverjum. Endurskoðunin hefur enn ekki verið sett inn á síðuna en gömlu pistlarnir standa þangað til. Hitt er annað mál að vinnustífla og skriftartregða sækir nú nokkuð á mig.

Líkast til held ég þó áfram að blogga um veðrið þar til ég dett steindauður niður. Sem ég gæti alveg trúað að komi yfir mig eins og þruma úr heiðskíru lofti!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú færð kisu í verðlaun fyrir bloggið þitt

DoctorE (IP-tala skráð) 2.8.2010 kl. 14:47

2 identicon

Hafðu ævinlega þökk fyrir veðurbloggið og þínar mögnuðusamantektir sem eg les mér ævinlega til sálarbótar. Sjálfur er eg viðvaningur á þessu sviði en nógu skynugur samt til að átta mig á því að verk þín eru unnin af alúð og nákvæmni. Stórmerkilegt framtak sem þú mátt vera stoltur af.

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 3.8.2010 kl. 18:10

3 identicon

Takk fyrir skemmtilegt blogg. Ég les ekki mörg blogg en heimsæki þitt reglulega, heilmikill fróðleikur og vel unnið.

Ása (IP-tala skráð) 5.8.2010 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband