Haustið þegar ekki haustar

Það er lítið lát á veðurblíðunni á suður-og vesturlandi og að nokkru leyti um allt land. Í gær mældist hitinn í Reykjavík mestur 14,6 stig í glampandi sólskini. Í nótt fór hann ekki lægra þar en í 10,0 stig. Mesti hiti á landinu á stöðvum  Veðurstofunnar voru 17,0 stig á Þingvöllum á  sjálfvirkan mæli.  Það er hærra en mældist þar nokkru sinni á kvikasilfursmæli og reyndar líka á sjálfvirkan mæli. Á Hvervöllum mældust 13,1 stig en þar mældist mest á kvikasilfri meðan þannig var mælt 12,0 stig en í þessum október hefur það met  verið tvíslegið, í gær og svo 12,7 stig þ. 4.

Við skíðaskálann í Seljalandsdal við Ísafjörð mældist í gær 18,5 stig en þessi mælir sýnir oft grunsamlega háar tölur. Hins vegar mældust á stöðvar Vegagerðarinnar 17,4 stig á Biskupshálsi á norðausturlandi og 17,2 stig á Gemlufallsheiði á Vestfjörðum en þetta er á fjallvegum.

Ekki hafa nein stöðvarmet á stöðvum sem enn mæla á kvikasilfursmæli verið slegin.  Í gær mældust mest á þeim 15,0 stig á Hjarðarlandi í Biskupstungum.

Það er óvenjulega hlýtt loft yfir landinu. Á hádegi í gær voru 10,6 stig í 1552 m hæð yfir Keflavík og frostmarkshæð var yfir 3000 m í allan gærdag og var það enn á miðnætti í nótt. 

Meðalhiti október það sem af er í Reykjavík er nú 9,6 stig, sem er um hálfu stigi meira en meðaltal alls júnímánaðar 1961-1990 og 4,2 stig yfir meðallagi. Það er með því hæsta sem finna má fyrstu tíu dagana í  október. Hlýrra var þó 1959, 11,0 stig. Veðurlag þá var öðruvísi en núna, þungbúið og úrkomusamt syðra. Mikil árstíðaleg kólnun er vitaskuld í gangi frá fyrsta til síðasta dags í október.

Eftir daginn í dag er næsta víst að meðalhitinn í bænum mun enn stíga. 

Hlýjustu októbermánuðir sem mælst hafa í Reykjavík eru 7,9 stig 1915 sem var líka sólarminnsti október sem þar hefur nælst og 7,7 stig 1959 og 1946. Á Akureyri var síðastnefndi mánuðurinn sá hlýjasti, 7,9 stig. Þar er meðalhitinn það sem af er núna 8,3 stig. 

Það sem er kannski merkilegast með veðrið núna hvað það er hægviðrasamt og sólríkt. En þetta getur ekki gengið lengi svona hlýtt með núverandi veðurlagi þó gott sé. Ef mánuðurinn ætlar að vera áfram í fremstu röð hvað hlýindi varðar verður að koma heiðarleg sunnanátt með ''roki og rigningu'' fyrir sunnan en háum hita allan sólarhringinn um allt land.

Áfram er hægt að fylgjast í fylgiskjalinu með veðrinu í þessum mánuði í Reykjavík og fyrir landið (blað 1)  og á Akureyri (blað 2). 

Og á öðru skjali er hægt að sjá veðurmet allra mánaða á nær öllum mönnuðum veðurstöðvum. Eins og sjá má getur hiti á einstökum stöðvum í oktober,  sérstaklega fyrir norðan og austan, farið talsvert hærra en nú.

Ekki eru þarna sjálfvirku stöðvarnar en hitamet á þeim (og reyndar öllum stöðvum)  í október má  sjá á síðu Trausta Jónssonar.

Hér er Modis mynd af landinu kl. 14:55 í gær. 

modis_2010_10_10.jpg

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband