Október ekki meðal þeirra tíu hlýjustu

Meðalhitinn í október er 6,3 stig í Reykjavík en 4,3 á Akureyri.

Mánuðurinn kemst ekki á lista yfir tíu hlýjustu októbermánuði í Reykjavík og heldur ekki yfir landið.

Samt er hann kringum 1,8 stig yfir meðallagi á landinu. Hann er svipaður og október 2001 en annars verður að fara til 1985 til að finna hlýrri október, bæði fyrir landið og Reykjavík. Í Reykjavík er þetta þó aðeins 14. hlýjasti október frá 1866. Á landinu tel ég þetta vera 13. hlýjasta október frá sama tíma.

Sem sagt ekkert til að gera veður út af hér á Allra veðra von!

Eins og menn væntanlega muna byrjaði mánuðurinn með miklum hlýindum. Þann 17. var meðalhitinn í Reykjavík 9,4 stig eða 4,4 stig yfir meðallagi. En það sem eftir var mánaðarins var meðalhitinn 2,5 eða 1,1 stig undir meðallagi. En hann hefði alveg getað verið þrjú stig fyrir neðan meðallag!

Af hlýjum október að vera er þetta sólríkur mánuður, sólarstundir líklega yfir hundrað í höfuðstaðnum. Sumir kvörtuðu um rigningar en úrkoma var þó minna en helmingur þess sem venja er í Reykjavík en um meðallag á Akureyri.

Sem fyrr er hægt að sjá ýmislegt varðandi mánuðinn í fylgiskjalinu, blaði eitt og tvö.

Og nú er veislan búin og ég spái fádæma harðindum og vetrarhörkum framundan! 

Mun sá vetur skuldalurkur og Hreggviður hinn meiri kallaður verða. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hér verður sem sagt allra óveðra von með ísum og svellalögum langt fram á sumar.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.11.2010 kl. 12:34

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvernig lítur árið út í heild?

Gunnar Th. Gunnarsson, 1.11.2010 kl. 12:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband