Ósiður í Ríkisútvarpinu

Séra Bára Friðriksdóttir, prestur í Hafnarfirði, réðst í útvarpsmessu á ''húmanista'' fyrir að vilja ''banna sér'' og níutíu prósentum þjóðarinnar að rækja lífsskoðun sína eða trú. Orðið húmanisti var ekki þarna skilgreint frekar. En í almennri umræðu á Íslandi, ekki síst um trúarleg efni, mun áreiðanlega næstum öllum detta í hug félagar í Siðmennt en þeir kalla sig einmitt húmanista og eru svo oft líka nefndir af öðrum.

Samkvæmt venjulegum skilningi í umræðum þegar ýjað er að hlutum án þess að nefna þá alveg beint, en treyst á að menn kveiki á perunni samkvæmt hefðbundnum tengingum, var Bára Friðriksdóttir í útvarpsmessu á vegum ríkisfjölmiðils að saka félaga í Siðmennt um að vilja banna sér og 90 prósentum þjóðarinnar að iðka trú sína. Það hljómar ekki vel. Brugðið er þannig upp mjög neikvæðri mynd af þessu félagi. Og þetta er gert í formföstu helgihaldi þar sem hefðin gerir ekki ráð fyrir því að þeir sem fyrir ásökunum verða geti svarað fyrir sig. 

Þetta er þess vegna mjög rætinn málflutningur. Sumir myndu segja guði andstyggilegur málflutningur.

Ég tek það fram að ég er ekki í Siðmennt og hef engin tengsl við þann félagsskap og er heldur ekki húmanisti fyrir fimm aura. Ekki einu sinni trúleysingi. Ég  hef hins vegar smávegis réttlætiskennd.

En þessi málflutningur Báru er ekki aðeins rætinn. Hann er líka mjög heimskulegur. 

Hún virðist þarna rugla saman ''húmanistum''og mannréttindaráði Reykjavíkurborgar sem kom fram með tillögur um samband skóla og trúfélaga.

Aðatriðið er samt það að hvorki félagið Siðmennt né mannréttindaráðið vill banna 90 prósentum þjóðarinnar að iðka trú sína eða lífsskoðun.

Bára Friðriksdóttir fer því með hreina lygi frammi fyrir alþjóð. Og hún gerir það til þess að gera lítið úr og koma höggi á þá sem hún kallar ''húmanista'' og liggur beinast við að skilja í fyrsta lagið sem félagið Siðmennt og í öðru lagi allir þeir sem hafa einhverjar minnstu efasemdir um það að rétt sé að prestar boði trú í grunnskólum utan kennslustunda.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem útvarpsmessur eru notaðar í svipuðu skyni. Prestar Þjóðkirkjunnar hafa ótakmarkað tækifæri til að gagnrýna og stundum níða niður alla þá sem þeim eru ekki þóknanlegir og þeir hafa sannarlega ekki legið á liði sínu. Þeir sæta hreinlega færis um að '' kasta sprengjum'' í útvarpsmessum af því að þeir vita að þá tala þeir til þjóðarinnar og hafa góða möguleika eins og reynslan sýnir að komast í fréttirnar í fjölmiðlunum að auki.

Það er ekkert í sjálfu sér að því að atast í húmanistum eða trúleysingjum eða hverju  og hverjum sem er. Það er bara fútt í því. En það er ósanngjarnt að ríkisfjölmiðill skuli kerfisbundið gefa prestum Þjóðkirkjunnar færi á að gera þetta án þess að á sama vettvangi fái þeir sem fyrir skotunum verða minnstu tækifæri til að svara fyrir sig. (Hve nær skyldi Siðmennt  -eða Vantrú- , nú, eða ég! -fá að boða lífsskoðanir sínar í Ríkisútvarpinu?).

Hve nær líður þessi ósiður með útvarpsmessurnar undir lok? 

Lesið svo þetta yður til andlegar uppbyggingar á erfiðum tímum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband