23.2.2011 | 11:17
Köldustu febrúarmánuðir
Eins og áður er meðalhiti stöðvanna níu, sem við er miðað, í sviga aftan við ártalið en árin 1961-1990 var meðalhiti þeirra -0,2 stig.
1866 (-7,1) Þessi febrúar, sem kemur á eftir fjórða kaldasta janúar, er talinn kaldasti febrúar sem mælst hefur í Reykjavík. Og miðað við meðalhitann þar og í Stykkishólmi saman er hægt að telja hann kaldasta febrúar sem mælst hefur á landinu og er eiginlega sárt að taka þann heiður af febrúar í frostavetrinum mikla 1881.Í Reykjavík var febrúar 1866 hins vegar næstum því þremur stigum kaldari en 1881. Reyndar voru mælingarnar á þessum árum í Reykjavík ekkert sérstaklega góðar. Í Stykkishólmi er þetta næst kaldasti febrúar, á eftir 1881. Mælingar voru líka á Akureyri og hefur þar enginn febrúar verið eins kaldur en þar var ekki athugað árið 1881. Samt sem áður er líklegt að febrúar 1881 hafi verið nokkru kaldari fyrir norðan en 1866. Við setjum þó febrúar 1866 hér fremstan í röðina. Aðeins hlánaði lítillega þrjá daga í Stykkishólmi, þ. 17. þegar hitinn mældist 3,3 stig og svo tvo síðustu dagana þegar hitinn var núll til þrjú stig. Annars voru oftast mjög hörð frost, oft fimmtán til sautján stig og tvisvar yfir tuttugu, -22,0 þ. 12. og slétt -20 stig þ. 24. Úrkoman í Stykkishólmi var 45,2 mm en úrkomudagar voru 11. Það snjóaði nokkuð fyrstu þrjá dagana en var síðan þurrt fram að þeim 17. en eftir það var úrkoma flesta daga. Mánaðarloftvægi var 1007,2 hPa. Á eftir þessum kuldalega mánuði kom svo einhver kaldasti mars sem mælst hefur. Og veturinn í heild gengur að kulda næstur vetrinum 1881. Síðasta dag mánaðarins birtist á forsíðu Þjóðólfs hið fræga kvæði Kristjáns Jónssonar, Þorraþrællinn 1866, sem hefst á þessum alkunnu orðum: Nú er frost á Fróni. Hafís var mikill fyrir norðurlandi og lagnaðarís var svo mikill að ganga mátti yfir flesta firði á Breiðafirði á ís og frá Langanesströnd til Skutulsfjarðar.
1881 (-6,2) Veturinn 1880-1881 var ekki aðeins allra kaldasti vetur sem mælst hefur í heild á landinu heldur voru bæði desember og mars óumdeilanlega þeir köldustu sem hafa mælst og janúar sá næst kaldasti og febrúar tel ég hér einnig vera þann næst kaldasta. Kuldinn var tiltölulega minni á suðurlandi en fyrir norðan og vestan. Kaldast var -13,2 stig á Siglufirði sem er lægsti meðalhiti stöðvar í febrúar á Íslandi. Hugsanlega var eitthvað bogið við mælingarnar á Siglufirði. Á Valþjófsdal í Fljótsdal var meðalhitinn -9,0. Framundir miðjan mánuð var mikil frostakafli. Hæð var þá yfr Grænandi en grunnar lægðir suður í hafi og um norðanverðar Bretlandseyjar. Þann þriðja varð frostið -22,5 stig í Stykkishólmi en -26 stig á Siglufirði og -25 í Grímsey þ. 11. Í Reykjavík varð kaldast í lok kuldakaflans, -17,9 stig þ. 14. og daginn áður -16,7 stig. Hiti var reyndar athugaður á mjög fáum stöðum á landinu. Upp úr miðjum mánuðinum kom asahláka og svo umhleypingar sem stóðu í fáeina daga og var þá stundum hvasst á vesturlandi. Varð þá mikið flóð í Reykjavíkurtjörn og Lækurinn flæddi yfir bakka sína. Komst hitinn í Reykjavík í 7,4 stig og varð hvergi hlýrra á landinu. Síðasta þriðjung mánaðarins var loftþrýstingur hár og kólnaði á ný en ekki jafn mikið og áður. Síðasta daginn var þó tuttugu stiga frost í Grímsey. Mikill snjór var. Jónassen lýsti veðrinu í Þjóðólfi 26. mars:
Framan af þessum mánuði hélzt sama frostharkan eins og verið hafði allan síðari hluta fyrra mánaðar; flóinn varð þó auður 6. og 7. með austangolu, en eigi leysti ísinn algjörlega hér af skipalegunni fyrr en 15., en frostharkan hefir verið svo mikil í sjónum, að hafi logn verið, hefir hann óðar lagt. Fyrstu 4 dagana var hér ýmist logn eða hæg austangola; 5.-10. optast logn eða landnorðan og þá stundum hvass; 11. úts. hroði með talsverðri snjókomu, en að kveldi hvass á austan með blindbyl; 12, aptur genginn til útsuðurs; 13. norðanrok til djúpanna, hægur hér með ofanhríð; 14. hægur á austan, en hvass að kveldi með byl; 15. landsunnan hægur með nokkurri rigningu; 16. logn með brimsúg; 17. austan, en að kveldi útsunnan með talsverðri ofanhríð; 18. útsunnan með hriðjum, en genginn í landsuður að kveldi með rigningu og 19. hvass mjög á lands. með fjarskalegri rigningu ; 20.-24. ýmist logn, austanátt, stundum með regni, eða snjókomu; 24.-28. logn hér, en optast norðanveður til djúpanna.
1885 (-5,9) Í Hreppunum hefur aldrei mælst eins kaldur febrúar, í Grímsey er þetta næst kaldasti febrúar, eftir 1881 og í Reykjavík sá næst kaldasti eftir 1866. Þar hlánaði varla allan mánuðinn. Aðeins þann 19. var hámarkshiti skráður 0,2 stig. Ekki hlánaði heldur í Stykkishólmi og Grímsey. Hlýtt loft var alltaf langt undan en stundum komu lægðir sunnan eða suðaustan að landinu með smá blota á suður og suðausturlandi í aðeins nokkrar klukkustundir. Hlýjast á landinu varð 4,4 stig í Vestmannaeyjum síðdegis þ. 6. en þá var hiti þar yfir frostsmarki í um það bil sólarhring og aldrei lengur þó hámarkshiti færi stöku sinnum yfir frostmarkið aðra daga. Norðaustanáttin mátti heita algjörlega einráð og stundum voru mikil hvassviðri. Á Reykjavíkurhöfn urðu til dæmis menn veðurtepptir á póstskipi i þrjá daga af því að ófært var milli skips og lands. Framan af mánuðinum var svo mikið sandfok á suðurlandi að því var jafnað við fokið mikla sumarið 1882. Frostið í Reykjavík var yfirleitt svona þrjú til sex stig fram undir miðjan mánuð og mjög jafn kuldi eins og annars staðar. Fyrsta þriðjung mánaðarins snjóaði víða. Á suður og vesturlandi var mikið til bjart veður annan þriðjung mánaðarins þegar loftþrýstingur var hár en áfram snjóaði meira og minna á austurlandi allan mánuðinn. Þann 14. og 15. var mikið frost á landinu. Eftir það fór aftur að snjóa víða og mildaðist nokkuð frostið þegar lægðir nálguðust landið. Þann 18. varð voðalegt snjóflóð á Seyðisfirði klukkan átta um morguninn. Það eyðilagði fimmtán íbúðarhús og fjölda úthýsa og urðu um 80 manns fyrir flóðinu. Létust 24 en margir fleiri meiddust. Mikið kólnaði þ. 23. og var lágmarkshitinn yfir 14 stiga frost fjóra af þeim sex dögum sem eftir voru mánaðar í Reykjavík. Kaldast á landinu varð -21,2 stig á Eyrarbakka. Annað snjóflóð féll á austfjörðum þ. 26. og tók það bæinn Naustahvamm í Norðfirði. Fórust þar þrír menn en sex náðust úr fönninni eftir sjö klukkustundir. Úrkoma á landinu var minni en einn þriðji af meðallaginu og í Stykkishólmi er þetta fjórði þurrasti febrúar, 10,4 mm. Þurrara var þar 1977 (1,0 mm), 1900 (6,0) og 1947 (6,2). Í Reykjavík voru fjórir úrkomudagar og aldrei meira en 3,2 mm. Á norðurlandi þóttust menn aftur á móti ekki muna annað eins fannfergi og var þennan mánuð og fennti þar bæi á kaf. Á austurlandi voru líka fádæma snjóþyngsli. Á kortinu sést kuldaloppa yfir landinu eins og hún hefur verið áætluð. Jónassen lýsti veðurfarinu svo í nokkrum tölublöðum Ísafoldar:
Umliðna viku hvass siðan 30. blásið af norðri, opt rokhvass síðan 30. f.m. Frostharka hefir eigi verið mikil, en þar jörð er hjer ber, kemur hún illa við; h. 2. var hjer kafaldsfjúk meira eða minna allan daginn. (4.febr). - Alla þessa viku hefir verið norðanveður með talsverðum kulda; hefir opt verið rokhvass. Norðanáttin er nú búin að vera síðan 29. f. m og er ekkert útlit enn fyrir að nokkur breyting sje á veðri. Enginu snjór hefir fallið hjer, en efra hefir stundum verið kafaldsbylur hjeðan að sjá. í dag 10. sama norðanbálið og frostharkan að aukast tvo síðustu dagana. (11.febr.) - Alla vikuna befir verið norðanbál með nokkru frosti; síðustu dagana hefir sjóinn lagt, og hefir ísinn náð út undir skipalegu hjer á höfninni; sjóharkan hefir verið tiltölulega meiri. Hjer er alveg auð jörð. Í dag 17. er Norðanveðrið heldur vægara, þó mjög hvass til djúpanna. (18.febr.) - Meiri part vikunnar hjelzt sama norðanbálið eins og að undanförnu, þangað til seint um kvöldið h. 22., að þá lygndi. Þannig hefir hjer verið norðanveður stanslaust síðan aðfaranótt h. 30. janúar. Þótt stöku sinnum hafi verið logn stundarkorn hjer í bænum eða brugðið til annarar áttar, þá hefir verið hvassveður til djúpanna allt til 22. Jörð hjer alveg auð. Í dag 24. blæja logn um allan sjó og bjart sólskin. (25.febr.) - Umliðna viku hefir fremur verið stilling á veðri einkum síðari partinn; h. 25. var austan kafaldsbilur hjer allan daginn; síðan hefir verið bjart og heiðskírt veður og síðustu dagana logn; til djúpanna hefir opt verið norðanveður, en þó eigi mjög hvass að sjá. Í dag 3. bjart sólskinsveður, logn hjer en hvass á norðan til djúpanna; sjóharkan hefir verið mikil þessa vikuna. Snjór er hjer svo að kalla enginn nema stöku skaflar, sem rak saman h. 25. (4.mars.).
1892 (-5,3) Þessi kaldi febrúar var beint framhald af mjög köldum janúar. Veðráttan var óstöðug, ýmist snjókoma með frosti eða hvassir blotar. Snjór var mikill og ísalög. Á Vestfjörðum kom hafís seint í mánuðinum. Allhvítt var allan mánuðinn í Reykjavík að sögn Þorvaldar Thoroddsen í Lýsingu Íslands en þetta var hlaupár. Mjög köld norðanátt var fyrstu dagana og þ. 6. komst frostið í 16 stig í Reykjavík og Stykkishólmi. Þann 8. kom hláka, sem stóð í um það bil sólarhring og komst hitinn þá í 4,4 stig í Reykjavík en 5 í Stykkishólmi. Sólarhringsúrkoma í Reykjavík að morgni þess 9. var 48,8, mm og hefur ekki mælst þar meiri í febrúar. Úrkoman hefur líklega verið bæði regn og snjór. Þann dag mældist mesti hiti á landinu, 8,5 stig í Vestmannaeyjum þó sá hiti sé reyndar skráður á næsta dag. Hámarks og lágmarkshiti á þessum tíma var lesinn kl. 8 að morgni. Næstu daga voru umhleypingar. Um miðjan mánuð byggðist upp geysimikil hæð yfir landinu og voru eftir það kuldar í norðaustanátt nema sex síðustu dagana syðst á landinu. Loftvægi þ. 14. var 1048 í Stykkishólmi en 1049,7 í Grímsey samkvæmt skráningum í Meteorologisk Aarbok sem eru ekki alveg fullkomlega leiðréttar eftir öllum kúnstarinnar reglum. Einkanlega var kalt dagana 18.-25. en þá var lágmarkshiti 11 til 16 stiga frost í Reykjavík og svipað í Stykkishólmi en heldur mildara var á austurlandi. Frost fór yfir tíu stig í Reykjavík 16 daga í þessum mánuði. Kaldast varð - 27,7 stig þ. 22. í Möðrudal. Þar var mánaðarmeðalhitinn -12,0 stig en Borðeyri, niður við sjávarmál, -9,3 stig. Jónassen lýsti svo tíðinni í nokkrum Ísafoldarblöðum:
... hvass á norðan h. l.,með ofanfjúki um kvöldið; logn og fagurt veður (norður til djúpa hvass) hjer allan daginn h. 2. Í morgun (3.) landnorðan-gola, bjart veður. (3.febr.) - Undanfarna viku optast verið við útsuður en þó hægur; mikill snjór hjer á jörðu. Logn og fagurt veður með miklu frosti h. 6.; hægur á austan með ofanhríð h. 7. fór að rigna af austri, hvass fyrri part dags og dimmur, gekk svo í landsuður og rigndi mikið aðfaranótt h. 9. og svo í útsuðrið með brimróti og jeljum. (10. febr.) - Hinn 3. var hjer útsynningur með svörtum allt fram að kveldi er hann gekk til austurs, svo í vestanátt h. 11. og síðan útnorðan; hinn 12. var hjer austankafald fyrri part dags, hvessti síðari partinn á austan. Í morgun (13.) landsynningur nokkuð hvass með þíðu. (13.febr.) - Fyrri part dags h. 13. var hjer hvasst á austan landsunnan með regni gekk svo til útsuðurs með jeljum; hvass á norðan h. 14., hvínandi rok með köflum, logn hjer og bjart veður h. 15. en norðan til djúpa framan af degi. Logn h. 16. fram að kveldi er kom austankaldi. I morgun (16.) logn bjartur, austanvari. Loptþyngdarmælir komzt óvenjuloga hátt h. 14. og hefir í mörg ár eigi komist hærra; hann hefir komizt eins hátt 6/3 1883, 10/3 18S7 og 26/2 1890. (17. febr.) - Logn hjer um morguninn h. 17., en hvessti á norðan, er á daginn leið; hvass á norðan allan daginn h. 18., en lygndi síðast um kveldið, og var hjer logn og bjart veður h. 19., en þó hvessti eptir hádegið, á norðan, hægur hjer, en hvass fyrir utan eyjar. Í dag (20.) logn hjer og bjart sólskin, bálhvass á norðan fyrir utan eyjar. Óvenjulegur jökull hjer um alla jörð. 20. febr. - Undanfarna daga má heita að hafi verið blæja logn hjer, þótt nokkur gola af norðri hafi opt verið til djúpa. Frostharka mikil. ... Í dag (24.) logn, bjartur. (24.febr.) - Blæja logn alla undanfarna daga og frostlítið veður. Í morgun (27.) enn logn, en dimmur og snjóýringur. (27. febr.).
1868 (-4,8) Með þorrakomu dundu yfir harðindi með einu af hinu mesta og jafnasta fannfergi sem menn hafa af að segja á suðurlandi og hélst svo alla mánuðinn, segir Þjóðólfur 29. febrúar. Dagana 11.-14. var þó að mestu frostlaust í Stykkishólmi og fór hitinn þá mest i 5,8 stig en annars voru nær látlaus frost allan mánuðinn. Kaldast var fyrstu og síðustu vikuna, lágmarkshiti 10-15 stiga frost í Stykkishólmi. Loftvægi var þar óvenjulega lágt, 988 hPa. Úrkoman var 88,1 mm. sem er í meira lagi. Þann 18. mars segir Þjóðólfur frá því að mestur hiti á mælinum að Landakoti við Reykjavík í mánuðinum hafi verið 0,5 stig (Reamur er hér snúið yfir í Celsíus) en mest frost -15,6 þ. 8. Minnstur vikuhiti hafi verið -11,8 stig dagana 11.-18. en mestur -2,8 stig þ. 2.-8.
1935 (-4,1) Þessi umhleypingasami febrúar var sá kaldasti á tuttugustu öld. Hann hafði það samt af að færa Reykjavík mesta hámarkshita sem þar hefur mælst í febrúar. Fyrstu fimm dagana var frost um allt land en asahláka dagana 6.-7. og komst hitinn fyrri daginn í 14,0 í Fagradal en þann seinni í 13,2 stig á Akureyri. Vindur snérist svo í vestrið með éljagangi vestanlands. Djúp og kröpp lægð kom svo úr suðvestri þ. 8. og fór norðaustur yfir landið. Olli hún fyrst miklu sunnanveðri með hellirigningu og fór hitinn þá í 10,1 stig í Reykjavík um kvöldið en hitinn stóð stutt við og snérist vindur til vesturs og var áfram mjög hvass. Morguninn eftir mældist úrkoman þar 13,0 mm, sú mesta í mánuðinum en 52,3 mm mældust á Vattarnesi sem var mesta sólarhringsúrkoma mánaðarins. Í þessu óveðri strandaði enskur togari á Sléttanesi við Dýrafjörð og varð engu bjargað. Talsverðar skemmdir urðu víða á landi. Kirkjan í Úthlíð í Biskupstungum fauk og ýmis útihús og skúrar og þök af húsum, símastaurar brotnuðu og heyskaðar urðu. Loftnet útvarpsstöðvarinnar og loftskeytastöðvarinnar í Reykjavík slitnuðu. Eftir þetta brá aftur til norðlægra átta með frostum og fór harnandi er á leið. Kaldast varð á Grímsstöðum -24,1 stig þ. 27. Snjólag var 84% en meðaltalið 1924-2007 er 67%. Snjór var mestur á vesturlandi en minnstur fyrir austan. Í hlákunni sem byrjaði hinn sjötta tók snjó að miklu leyti upp og var jörð auð eða flekkótt nokkra daga úr því en eftir það var yfirleitt alhvítt. Í Reykjavík var alhvítt í 25 daga og 23 á Akureyri en 13 á Seyðisfirði. Úrkoma var lítil nema á suðausturlandi. Á kortinu sést meðalhiti þessa kaldasta febrúar sem komið hefur síðan á 19. öld en menn ættu að hafa í huga að köldustu febrúar sem mælst hafa voru tveimur til þremur stigum kaldari.
Heilmikið var að gerast i heiminum. Þann fyrsta hófst hér sala á sterkum vínum sem bönnuð hafði verið um árabil. Daginn eftir var lygamælirinn fyrst prófaður í heiminum. Þsð er engin lygi! Þann 11. mældist mesta frost sem mælst hefur í Afríku, -23 stig í Ifrane í Atlasfjöllum í Marakkó. Tveimur dögum síðar var morðingi sonar flugkappans Charles Lindberghs dæmdur til dauða en morðið hafði vakið heimsathygli. Og þ. 27. varð Shirley Temple yngsti Óskarsverðlaunahafinn.
1882 (-3,6) Mánuðurinn hófst með útsynningi í kjölfar óvenjulega hlýrrar sunnanáttar í lok janúar. Aftur náði sunnanáttin sér vel á strik dagana 6.-9. með hvassvirði og rigningu en þá komst hitinn í Stykkishólmi i 8,9 stig sem telst mikið þar í febrúar. Á Akureyri fór hitinn í 9,0 stig. Eftir þetta tók við köld norðanátt. Einstaklega kalt var dagana 13.-16. þegar fimmtán til sextán stiga frost var í Reykjavík og Stykkishólmi. Upp úr miðjum mánuði sló í útsynning og hrakvirði en eins dags almennilega hláku gerði þann 21. en óðara brá aftur til vestanáttar og síðan norðaustanáttar til mánaðarloka og keyrðu þá kuldarnir úr hófi fram. Komst frostið á Grímsstöðum -25,1 stig þ. 27. Sama dag mældist mesta frost sem mælst hefur á Akureyri í febrúar, 24,0 stig. Á Hrísum inni í Eyjafjarðardal fór frostið í -24,8 stig. Jónassen lýsti tíðarfarinu svo í Þjóðólfi 20. mars.
Eins og undanfarinn mánuð hefir veður verið mjög óstöðugt þennan mánuð, og hefir útsynningur verið tíður. 1.-5. útsyningur með biljum (2. var hér ofsaveður af landsuðri síðari hluta dags); 5. genginn til norðurs, hægur, bjart veður; 6. landnorðan með bil; 7. 8. 9. hvass á landsunnan með mikilli rigningu; 10. hvass á útsunnan; 11. landnorðan að morgni, að kveldi genginn í útsuður með biljum; 12. 13. norðan með snjókomu; 14. 15. hægur á austan; 16. bjart veður, norðangola; 17. bjart veður, austankaldi; 18. vestangola með brimhroða; 19. hægur á útsunnan með svækju; 20. logn og þoka allan daginn; 21. sunnangola, dimmur; 22. hvass á útsunnan með jeljum; 23. norðangola (norðan til djúpanna) bjartur að morgni, síðari hluta dags blindbilur; 24. hægur á sunnan að morgni með regni, gekk svo bráðlega til útsuðurs og að kveldi kominn í norður; 25. 26. norðan 27. 28. við austur. Talsverður snjór hefir fallið með köflum.
1969 (-3,6) Kaldasti febrúar á landinu frá 1935 til okkar daga. Að sumu leyti voru febrúar og mars þetta ár glansnúmer hafísáranna, ef svo má að orði komast, ásamt nokkrum mánuðum 1968. Það komu þrjú stórkostleg kuldaköst. Fyrsti dagurinn, þegar Halldóri Laxness var veitt Sonninngverðlaunin, er að meðalhita kaldasti febrúardagar sem komið hefur á Akureyri frá og með a.m.k. 1949, -17,7 stig, ásamt þeim öðrum árið 1968. Sá fyrsti var einnig með dagsmeðalhitamet í Reykjavík, -12,0 stig frá sama tíma. Þessa dagana stóð reyndar yfir ráðstefna um hafís í Reykjavík. Erindin voru síðar gefin út í merki bók sem heitir einfaldlega Hafísinn. Annað kuldakasat var dagana 6.-8. Alla þá daga var sett dagsmet fyrir meðalhitakulda í Reykjavík. Og sá sjötti hefur lægsta meðalhita í borginni allra febrúardaga, a.m.k. síðan Veðurstofan var stofnuð. Hann var -15,6 stig og daginn eftir -14,5 stig, sá næst kaldasti. Dagarnir 6.-7, eru einnig þeir köldustu sem komið hafa þá daga á Akureyri frá 1949, -15,8 og -16,3 stig og koma þessir dagar þar að kulda næstir fyrstu tveimur dögunum fyrir alla febrúardaga. Mest frost á landinu, -27,2 stig, mældist á Hveravöllum þ. 6. Daginn eftir voru -23,9 í Búðardal, -23,0 í Síðumúla, -23,8 á Jaðri í Biskupstungum og víða var frostið 20-21 á suðurlandsundirlendi. Í Reykjavík fór það í -17,6 stig og var það þá mesti kuldi sem mælst hafði þar síðan 1918. Þessa daga var meðalhitinn á landinu allt að 15 stigum undir meðallagi og var sá sjötti kaldasti dagur mánaðarins að meðaltali og er kaldasti febrúardagur á landinu síðan a.m.k. 1949 og reyndar líklega frá stofnun Veðurstofunnar 1020, -16,0 stig. Meðalhiti á landinu kl. 18 var sautján stiga frost. Daginn eftir var svo næst kaldasti febrúardagurinn frá sama tíma, -13,8 stig. Í þessum kuldum var víða þurrt og bjart veður. Þann 16. var norðan stórviðri um land allt. Þá kólnaði með ólíkindum snögglega. Á Hornbjargsvita var hitinn sex stig á hádegi en tuttugu mínútum seinna var frostið orðið fjögur stig. Í kjölfarið kom enn eitt kuldakastið, dagana 18.-20. og varð hitinn þá allt að 9 stigum undir meðallagi. Þann 20. mældust -26,6, í Reykjahlíð, -20,3 á Raufarhöfn og á Þingvöllum -24, 8 stig. Inn á milli frostanna komu dálitlar hlákur 3.-4. og 8.-9. Seinni hlákan olli víða miklum flóðum suðvestanlands því mikill snjór hafði verið á jörð en talsverð rigning var á suðurlandi. Í Keflavík flæddi vatn inn í hús og ollum miklum skaða og hús í Þorlákshöfn voru umflotin vatni. Sums staðar flæddi yfir vegi. Síðustu fjóra dagana var fremur hlýtt og komst hitinn á Reyðará við Siglufjörð í 10,9 stig síðasta daga mánaðarins.
Úrkoma var mikil norðaustanlands en kringum meðallag á suðvesturlandi. Á Vestfjörðum, suðausturlandi og einkum á austurlandi var lítil úrkoma. Afar mikill lagnaðarís var á Breiðafirði og um tíma lokaði hann höfninni í Stykkishólmi. Allur Hvammsfjörður var á ísi og var á honum ekið á bíl. Hrútafjörður var einnig lagður út að Hrútey. Jafnvel á Elliðaártanga í Reykjavík reyndist erfitt að koma sementsferju á flot vegna lagnaðarísa. Hafís sást við Hornstrandir 24 daga í mánuðinum og 16 við norðausturland en sjaldan annars staðar. Í nokkra daga var sigling erfið við Hornbjarg. Snjólag var 76% og er ekki með því mesta.
Þann þriðja varð Jasser Arafat leiðtogi PLO-samtakanna.
1931 (-3,6) Fyrir utan kuldann var stormasamt mjög og mikill snjór. Skiptust á útsynningur og norðangarðar með stórhríð. Þetta er ekki aðeins talinn snjóþyngsti febrúar frá 1924 með snjólag á landinu upp á 96% heldur er þetta sá mánuður á landinu yfirleitt sem reiknast með mesta snjóhulu, ásamt janúar 1976. Á öllu svæðinu frá Snæfellsnesi norður og austur um að Fljótsdalshéraði var alhvítt allan mánuðinn. Mjög snjóþungt var líka í Reykjavík þar sem alhvítt var alla daga nema einn. Fremur milt var fyrstu níu daganna og þ. 9. var alautt á níu stöðvum og víða var jörð flekkótt en annars var víðast hvar alhvítt flesta daga. Minnstur var snjórinn á suðausturlandi og við sjóinn á suðurlandi en snjólag var þó hvergi minna en 64%. Það var á Hólum í Hornafirði þar sem alhvítir dagar voru aðeins 9. Á Eyrarbakka voru tveir dagar alauðir og einn á fáeinum stöðvun á suðaustur og suðurlandi. Síðasta daginn mældist snjódýptin 140 cm á Grímsstöðum. Einkennilegt er að næsti febrúar, 1932, var sá snjóléttasti í sögu mælinga og auðvitað einnig sá hlýjasti. Dagana 8.-9. var hið versta óveður um allt land í kjölfar djúprar lægðar er fór norðaustur yfir landið. Þann 14. fór önnur lægð austur yfir landið. Olli hún fyrst vestan ofsaveðri á suðurlandi en síðan norðanroki um allt land með stórhríð fyrir norðan og austan. En þ. 17. hlýnaði mjög og hvessti og komst hitinn þá í Fagradal í 9,5 stig. Lægðin sem færði hlýindin fór svo austur fyrir landið og olli fyrst hvössum útsynningi en síðan kaldri norðanátt. Þann 21. komst frostið í 15-19 stig á suður og suðvesturlandi. Gerði síðan hægvirði og mældist þá mesta frost mánaðarins, -23,9 á Grímsstöðum þ. 24. Úrkoma var mikil fyrir norðan, 62,9 mm á Akureyri, og einnig norðvestanlands en var annars fremur lítil.
2002 (-3,3) Þetta er kaldasti febrúar seinni áratuga og er sá 15. kaldasti síðan 1866 og er hann jafnfram kaldastur allra mánaða ársins eftir mars 1979. Muna eflaust margir eftir kuldunum þennan tíma.
Fyrr á nítjándu öldinni komu tveir mjög kaldir febrúarmánuðir, 1810 og 1811, og er meðalhitinn í Stykkishólmi þá áætlaður -8,2 og -8,4 stig eftir mælingum sem gerðar voru á Akureyri þar sem mánuðurinn virtist hafa vera undir tíu stiga frosti að meðaltali, en samt kringum þremur stigum mildari en janúar 1918. Febrúar 1812, 1807 og 1848 voru einnig afar kaldir en nokkru mildari en þessir. Ekki er samt hægt að taka hinar elstu mælingar jafn alvarlega og þær sem gerðar voru síðar. Þann 8. febrúar 1808 mældist frostið á Akureyri -32,0 stig svo langt sem þær mælingar ná.
Nánari tölur um mánuðina á stöðvunum eru í fylgiskjalinu fyrra en hitt er um febrúar 1885 og 1935 í Reykjavík.
Veðrið I, 1969, Jón Helgason: Árbækur Reykjavíkur, 1941, Þorvaldur Thoroddsen: Lýsing Íslands.
Meginflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir | Aukaflokkur: Veðurfar | Breytt 14.5.2018 kl. 22:51 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.