10.3.2011 | 19:59
Hlýjustu marsmánuðir
Meðalhiti stöðvanna níu er -0,3 stig árin 1961-1990.
1929 (5,3) Þrír marsmánuðir skera sig úr á Íslandi síðustu tvö hundruð árin hvað hlýindi varðar, 1929, 1964 og 1847. Hlýjastur er þó 1929. Hann er hlýjasti mars alls staðar þar sem mælt hefur verið nema í Hornafirði og á Reykjanestá. Hitinn var 5,6 stig yfir meðallagini 1961--1990. Í Veðráttunni segir svo: Öndvegistíð um land allt, mjög hlýtt, tún græn og nál í úthaga um mánaðarlokin, klakalaus jörð á láglendi, fé gengur víða sjálfala, útsprungnar sóleyjar finnast í túnum. Allan þennan mánuð er oftast suðlæg átt og blíðviðri, úrkomusamt sunnanlands, frá Fagurhólsmýri að Kvígindisdal, en þurrt norðanlands, einkum fyrir og um miðbik mánaðarins. Allan fyrri hluta mánaðarins er hæð fyrir sunnan og austan land, og dagana 8.-9. gengur lægð fyrir norðan land, og er hann þá víða á vestan. Síðara hluta mánaðarins eru lægðir fyrir Vesturlandi. Þ. 20.-21. er hann víða austlægur, enda gengur þá lægð austur um Suðurland, og veldur norðanátt á Vesturlandi síðari daginn, en næsta dag er aftur komin sunnanátt. Síðustu tvo daga mánaðarins er vestanátt og ekki eins hlýtt í veðri.' Í Vík í Mýrdal var meðalhitinn hæstur á landinu, 6,8 stig sem væri alveg eðlilegur maíhiti á suðurlandi. Á Grímsstöðum á Fjöllum var hitinn 2,7 stig og hvergi lægri. Í Vík og á Hólum í Hornafirði mældist ekki frost og er það nær einsdæmi í mars. Í Reykjavík varð frostið mest -1,5 stig. Mældist frost þar aðeins í einn dag (6.) en enginn sólarhringur var undir frostmarki að meðalhita. Tvisvar fór hitinn í bænum yfir tíu stig og meðallágmark var 4,0 stig en meðalhámark 8,1. Lágmarkið á öllu landinu er einnig met,-8,0 á Eiðum,þ. 2. Mestur hiti mældist 14,4 stig á Teigarhorni þ. 9. og þ. 19. fór hitinn í 14,1 stig á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði. Mánuðurinn var hægviðrasamur og hvassviðri mjög sjaldan. Loftvægi var hátt, hæst að meðaltali 1013,6 hPa á Hólum í Hornafirði. Snjólagið var minna en í nokkrum öðrum mars,6% en meðallagið 1924-2007 er 61%. Allvíða var alautt allan mánuðinn (á 16 stöðvum af af 41), m.a. á Akureyri. Í Reykjavík var alautt nema þ. 25. þegar snjódýpt var svo mikil sem 1 cm. Hvergi voru alhvítir dagar fleiri en þrír og var það í Fagradal í Vopnafirði. Þar mældist mesta snjódýptin á landinu, 10 cm, sem ekki þykir nú mikið í mars. Í sunnanáttinni var sólinni ekki fyrir að fara syðra og er þetta sólarminnsti mars í Reykjavík, 38,9 klst. Ekki var mælt sólskin á Akureyri. Talsvert eldingaveður var nærri Reykjavík þ. 24. og olli skemmdum á rafstöðinni. Sama dag var einnig þrumuveður á suðurlandi. Mikið þrumuveður var einnig á Efrahvoli þ. 14. Eldsumbrot voru í Öskju sem hófust í janúar þetta ár. Mjög kalt var í Evrópu um þetta leyti og einnig var kalt vestan við landið. Kortið sýnir meðalhitann á öllum stöðvum á landinu en litkortið frávik hæðar 500 hPa flatarins miðað við 1921-1950 kringum Ísland. Kortin stækka ef smellt er tvisvar.
Þann 28. var nýji Kleppsspítalinn vígður.
1847 (4,9) Þetta er hlýjasti mars í Reykjavík. Meðalhitinn var þar 6,4 stig en miklu kaldara var þá í Stykkishólmi en 1929, 3,6 stig, sem er þó tiltölulega mjög hlýtt. Ég skipa þessum mánuði í annað sæti yfir landið. Þessi hlýji mánuður kom ekki stakur. Janúar þetta ár er líklega sá hlýjasti sem mælst hefur á landinu og veturinn í heild er sá fjórði hlýjasti, eftir 1964, 1929 og 2003. Í riti Þorvaldar Thoroddsen Árferði á Íslandi í þúsund ár segir svo um tíðina þennan vetur: ''Á Vesturlandi var tíðarfar frá nýári til sumarmála eins og syðra eitt hið ágætasta, svo mátti kalla, að ekki væri frost nema dag í bili, og varla festi snjó á jörð, fannir sáust að eins í háum hlíðum, láglendi var snjólaust og jörðin klakalaus, svo sauðfje og jafnvel lömb gengu víða sjálfala úti. Gras á túnum og út til eyja, enda sóley og fífill sást þrisvar sinnum vera farið að spretta; fuglar sungu dag og nótt, eins og á sumrum, andir og æðafuglar flokkuðu sig um eyjar og nes og viku ei frá sumarstöðvum sínum, og svo var að sjá, sem hvorki menn nje skepnur fyndi til vetrarins. Menn sljettuðu tún, hlóðu vörzlugarða og mörg útihús, fóru til grasa, eins og á vordag, og það ekki einu sinni eða tvisvar, heldur allvíða 12 og 14 sinnum, enda var þetta hægðarleikur, því hvort heldur vindurinn stóð frá norðri eða suðri voru jafnan þíður, en oftar var þó sunnanátt aðalvindstaðan, en sjaldan hægviðri eða logn, svo sjógæftir voru nokkuð bágar ... . " Einmuna blíða var sem sagt nær því allan mánuðinn. Dálítið frost var í Stykkishólmi dagana 16.-17. en það virðist ekki hafa náð til Reykjavíkur. Þar fraus ekki fyrr en síðasta daginn en þess ber að gæta að mælingarnar þar voru ekki eins góðar og í Stykkishólmi. Úrkoman í Reykjavík var 48 mm. Mánuðurinn var mjög hægviðrasamur.
1964 (4,7) Veðráttan lýsir tíðinni svo: ''Tíðarfarið var einmuna milt og gott, jörð grænkaði, tré og blóm sprungu út. Fé var víða beitt. Gæftir voru góðar.'' Í heild var þessi mánuður hálfu stigi kaldari en 1929 en á Hólum í Hornafirði og Reykjanesvita var hann 0,2 stigum hlýrri í þessum mánuði og auðvitað hlýjasti mars þar sem mælst hefur. Aðeins 0,1 gráðu kaldara var á Akureyri, Raufarhöfn og í Grímsey en 1929. Hitinn fór mest í 15,1 stig á Akureyri þ. 28. Alla daga var blíða nema þ. 25, en þá fór frostið í -10,8 stig á Grímsstöðum. Var þá suðvestanátt. Um það leyti festi víða snjó en hann tók fljótt upp aftur. Snjólag var 12% á landinu, það næst minnsta í nokkrum mars. Á Fljótsdalshéraði og við sjóinn á suðausturlandi var alautt allan mánuðinn en annars staðar voru alhvítir dagar aðeins einn til þrír víðast hvar en þó átta á Grímsstöðum. Mest snjódýpt mældist reyndar á suðurlandi, 24 cm þ. 24. á Sámsstöðum í Fljótshlíð. Úrkoman var yfirleitt minni en í meðallagi nema á austanverðu landinu þar sem hún var ansi mikil. Á Kvískerjum mældist hún 509,0 mm og var það þá mesta mánaðarúrkoma sem mælst hafði á landinu í þessum mánuði. Á Fagurhólsmyri er þetta þriðji úrkomusamasti mars. Furðu sólríkt var á norðausturlandi þar sem sólskinsstundir voru 123 á Höskuldarstöðum við Raufarhöfn og voru aldrei fleiri í mars þau 40 ár sem þar var mælt. Í Reykjavík er mánuðurinn sá tíundi sólarminnsti. Það er eftirtektarverð staðreynd að af tíu hlýjustu marsmánuðum í Reykjavík eru fimm þeirra á lista yfir þá tíu sólarminnstu. Nokkuð var vindasamt fyrir sunnan en fremur hægviðrasamt fyrir norðan. Suðaustanátt var tíðust vindátta en svo sunnanátt. Á undan þessum mánuði kom fimmti hlýjasti febrúar en veturinn í heild er sá hlýjasti sem mælst hefur.
Haldið var upp á 75 ára afmæli Þórbergs í þessum mánuði sem þrátt fyrir aldurinn fór í sínar daglegu gönguferðir í góða veðrinu. Daginn eftir var hlýjasti dagur mánaðarins að meaðlhita á landinu fra 1949, 7.0 stig og er það reyndar dagshitamet og líka í Reykjaavík,8,2 stig. Fyrsta dag mánaðarins lést Davíð Stefánsson skáld. Bítlaæðið var að breiðast til Íslands. Um miðjan mánuð voru allmiklir jarðskjálftar ávið Ármúla í Ísafjarðardjúpi og eru þeir nær einsdæmi á þeim slóðum.
Í þessum mánuði stofnaði Mussolini fasistaflokk sinn.
2004 (3,6) Eftir mars 2003, þann áttunda hlýjasta, kom svo þessi fimmi hlýjasti en vætusami marsmánuður. Sérstaklega var hlýtt dagana 7.-10. og varð hlýjast á mannaðri stöð 14,5 stig á Haugi í Miðfirði, sem er nokkuð óvenjulegur staður, en síðastnefnda daginn en 16 stig á sjálfvirku stöðinni á Siglunesi þ. 7. Næstu þrjá daga fór hitinn þar í 16, 14 og 15 stig. Landsmeðalhitinn þann 9. var 8,8 stig og er það mesti landsmeameðalhiti nokkurs dags svo snemma árs síðan a.m.k. 1949. Dagurinn á undan var með dægurmet upp á 8.1 stig og reyndar líka sá 7. með 7.2 stog og líka sá 10. með 7.5 stig. Fjórir methlýindadagar i röð! Um þetta leyti voru miklir vatnavextir um allt land sem ollu skemmdum á mannvirkjum og slysum á fólki. Alla daga var hlýtt nema 21.-22. og svo þ. 28. Kaldast varð -13,7 stig á Hveravöllum þ. 23. og -12,0 stig sama dag á Haugi í Miðfirði, skammt frá Bjargi þar sem Grettir sterki ólst upp. Úrkoma var lítil á norðausturlandi en mikil vestan til, einkanlega sums staðar á suðvesturlandi, á Vestfjörðum og á hálendinu. Reyndar er þetta hlýjasti mars sem mælst hefur á Hveravöllum frá 1966, -1,3 stig. Líklega hefur mars þar 1929 verið ofan við frostmark. Eins og að líkum lætur var þurrviðrasamt á norðausturlandi en úkomusamt suðvestanlands. Snjólag var 24%. Á Reykhólum og Haugi í Miðfirði var alauð jörð. Í Reykjavík var alautt í 27 daga en alhvítt í þrjá. Jafnvel á Hveravöllum var aldrei talin alhvít jörð en alauðir dagar voru þar tíu. Mikl hæð var yfir Norðurlöndum þennan mánuð en lægðir gengu norður Grænlandshaf. Sunnan og suðaustanáttir voru því algengastar en norðaustanátt var sérstaklega fátíð.
1963 (3,4) Þetta var austan- og suðaustanáttamánuður en fremur hægviðrasamur. Lægðir voru mjög oft sunnan við landið. Úrkoman var því minnst við Breiðafjörð og fram til dala í Skagafirði og Húnavtanssýslum en í útsveitum norðaustanlands var hún allt upp í rúmlega fjórföld miðað við það meðallag sem þá var í gildi. Á Seyðisfirði mældist úrkoman 226 mm en 312 á Kvískerjum, þar sem rigndi 28 daga, en aðeins 7,8 mm á Barkarstöðum í Miðfirði. Tiltölulega sóríkt var líka við Breiðafjörð, 130 klst á Reykhólum sem var með því mesta sem þar var í mars í þau tæpu 30 ár sem mælt var. Hitinn var mjög jafn allan mánuðinn. Lágmarkshiti í Reykjavík var aðeins -1,1 stig (en frostdagar fjórir) og hefur mánaðarlágmark þar aldrei verið hærra í mars. Enginn dagur var undir frostmarki að meðalhita. Á Loftsölum í Mýrdal og Vestmannaeyjum kom hins vegar aldrei frost. Lágmarkshitinn var þar 0,7 og 0,6 stig. Er það aðeins annað dæmið um það að ekki hafi frosið á íslenskri veðurstöð í mars. Fyrra dæmið var árið 1929. Því miður fraus á þessum frostlausu stöðum í apríl 1963 í kuldakastinu alræmda sem þá kom og skemmdi gróður víða um land. Hlýjast var fyrstu dagana og komst hitinn í 11,7 stig á Hólum í Hjaltadal þ. 3. Kaldast varð -13,4 stig í Möðrudal þ. 8. En kaldasti dagurinn að meðaltali varð þó hinn 21. Var þá hæðarhryggur yfir landinu, bjartviðri fyrir norðan og nokkurt frost en sunnanlands var suðaustan átt og skúrir og fremur milt. Síðustu dagana voru umhleypingar en aldrei kólnaði að ráði. Snjólag var það þriðja minnsta i mars, 17%. Á nokkrum stöðum, þeirra á meðal Reykajvík, var alhvítt í einn dag. Alhvítir dagar voru aðeins ein til tveir á suður og vesturlandi og reyndar litlu fleiri fyrir norðan. Mjög snarpur jarðskjálfti, 7,0 á Richter, varð úti í sjó í Skagafirði þ. 27. kl. 23:16 að þágildandi tíma. Fannst hann um land allt nema á austurlandi. Engar skemmdir urðu og lítil slys á fólki en því brá nokkuð í brún og er þessi skjálfti mörgum enn minnisstæður.
Haldið var upp á 85 ára afmæli meistara Þórbergs hinn 12. og var þá farinn blysför að heimili hans.
2003 (3,2) Einstaklega úrkomumikill mars á suðausturlandi. Mánaðarúrkoma á Kvískerjum var 566,8 mm og er sú mesta sem mælst hefur á veðurstöð á landinu í mars. Á Teigarhorni er þetta næst úrkomusamasti mars frá 1873 (mest 301,5 mm 1918) og einnig á Hólum í Hornafirði frá 1931, 242,4 mm (mest 357,0 mm 1933). Tiltölulega úrkomusamt var einnig á Vestfjörðum en þurrast var inn til landsins á norðurlandi og norðausturlandi. Hlýjast varð um miðjan mánuðinn og komst hitinn á mannaðri stöð mest í 14,5 stig á Akureyri þ. 14. en á sjálfvirkri stöð 14,7 stig á Neskaupstað þ. 16. Aðeins var verulega kalt tvo daga kringum hinn 10. og svo þann 29. Kaldast varð -19,8 stig á Hveravöllum þ. 11. og -17,0 stig sama dag í Reykjahlíð en á sjálfvirku stöðinni í Sandbúðum voru -19,7 stig. Snjólag var 21%. Á Reykhólum, Hala í Suðursveit og Eyrarbakka var alautt allan mánuðinn og mjög víða var alautt alveg í þrjár vikur. Mestur var snjórinn í kringum vestanvert Ísafjarðardjúp, alhvítir dagar 11-17. Suðlægar og suðvestlægar áttir voru algengastar. Hæðarsvæði voru ofast yfir Bretlandseyjum eða suður af landinu en lægðir vestan við. Eftir þessum mánuði kom þriðji hlýjasti apríl á landinu og á undan honum sjöundi hlýjasti febrúar. Árið varð svo það hlýjasta í sögu mælinga á suður og vesturlandi.
Þann 19. gerðu Bandaríkjamenn og Bretar innrás í Írak.
1945 (3,1) Úrkomusamt var á suðurlandi en þurrvirðasamt fyrir norðan. Í Vestmannaeyjum var þetta meira að segja úrkomusamasti mars sem þar hefur mælst og næst úrkomusamasti í Vík í Mýrdal. Á landinu er þetta fjórði úrkomumesti mars eftir mínu kerfi. Suðvestanátt var ríkjandi. Lítið fór þá fyrir sólinni syðra og er þetta þriðji sólarminnsti mars í Reykjavík. Snjólag var 48% á landinu. Munaði mest um það að talsverður snjór var frá fyrra mánuði. Þann fyrsta var snjódýpt t.d. 20 cm í Reykjavík en 49 cm á Grímsstöðum. Næstu nótt mældist mesti kuldinn í mánuðinum, -15,5 stig á Grímsstöðum. Eftir þetta dró til hlýinda með hæð yfir Bretlandseyjum og komst hitinn í 14,8 stig í Fagradal þ. 9. og þá um morguninn mældist mesta sólarhringsúrkoman, 46,8 mm í Kvígyndisdal. Þetta veðurlag hélst í stórum dráttum til mánaðarloka. Mikil hlýindi voru líka þ. 24. þegar hitinn fór yfir tíu stig sums staðar syðra og vestra og í 12,8 stig á Hallormsstað. Vegna hlýindanna snemma í mánuðinum voru miklir vatnavextir víða. Hvítá og Norðurá í Borgarfirði flæddu yfir bakka sína og einnig Héraðasvötn og Laxá í Þingeyjarsýslu. Sums staðar skemmdust brýr og vegir.
Lokahnykkur styrjaldarinnar stóð svo auðvitað sem hæst og bandamenn fóru yfir Rín og hertóku vesturhluta Þýskalands.
1959 (3,1) Á undan þessum mánuði kom tíundi hlýjasti febrúar. En þessi mars var kaldur fyrstu vikuna með talsverðu frosti, allt niður í tuttugu stig í Reykjahlíð þ. 7. og 19,5 stig á Grímsstöðum sama dag. Frá hinum áttunda til mánaðarloka voru samfelld hlýindi en fremur var þá vindasamt án þess að nokkur veruleg illvirði væru og voru sunnan og suðaustanáttir ríkjandi eftir að hlýindin hófust. Hlýjast varð 14,2 stig á Hólum í Hjaltadal þ. 19. Hlýjasti dagurinn á öllu landinu var þó sá 22. og var hitinn þá víðast hvar yfir tíu stigum og gildir það reyndar um ýmsa fleiri daga síðari hluta mánaðarins. Sá 22. er hlýjasti 22. mars í Reykajvík, 8,3 stig. Snjólag á landinu var 41%.
Undir lok mánaðarins gerðu Tíbetar uppreisn gegn Kínverjum og Dalai Lama flúði land.
Í fyrra fylgiskjalinu sjást mánuðrnir nánar en á því síðara er smá um mars 1929.
Meginflokkur: Hlýustu og köldustu mánuðir | Aukaflokkar: Bloggar, Veðurfar | Breytt 15.5.2018 kl. 19:04 | Facebook
Færsluflokkar
- Allt í plati
- Blogg
- Bloggar
- Bækur
- Efnisyfirlit um veður
- Ég
- Guð sé oss næstur
- Heilbrigðismál
- Heimspeki
- Hlýustu og köldustu mánuðir
- Íslensk veðurmet
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Mali
- Mannlífið
- Mánaðarvöktun veðurs
- Menning og listir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Veðurfar
- Veður í annálum og öðrum gömlum heimildum
- Veður um allan heim
- Vísindi og fræði
Tenglar
Blogg
Ýmsir vefir
- Gjósandi eldfjöll
- Kantötur Bachs
- Schubert
- Stjörnuskoðun
- Nótnasafnið
- Torfusamtökin
- Lilta-Ávík
- Blogggáttin
- Doctor E
Blogg
Síður
- Sólarminnstu júlímánuðir
- Þíðukaflar að vetrarlagi í Reykjavík
- Jóla og áramótaveðrið frá 1880
- Sólrík sumur og sólarsnauð
- Sólskin á Íslandi
- Hámarkshiti á landinu um verslunarmannahelgina frá 1949 og veðrið í Reykjavík
- Slær júlí hitamet í Reykjavík
- Óvenju hlý júlíbyrjun
- Nokkrir kaldir janúarmánuðir og kuldadagar
- Hret og snjóar í ágúst
- [ Fleiri fastar síður ]
Eldri færslur
- Desember 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2019
- Desember 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Desember 2017
- Júlí 2017
- Maí 2017
- Febrúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- September 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Apríl 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.