Hlýustu aprílmánuðir

1974 (5,8) Apríl þetta ár var hlýjasti apríl sem mælst hefur síðan mælingar hófust, 3,8 stig yfir meðaltalinu 1961-1990. Hann var nær alls staðar hlýrri en nokkur annar aprílmánuður. Veðráttan segir: „Tíðarfarið var með afbrigðum hlýtt og hagstætt. Tún voru yfirleitt algræn eða því sem næst í mánaðarlok og úthagi að grænka. Færð var góð." 1974_4_thick-an.png Þykktin yfir landinu (sjá efra kortið) og kringum það var langt fyrir ofan meðallag og var frávikið það mesta á  öllu norðurhveli. Sunnanátt var yfirgnæfandi og var nokkuð drungalegt á suður-og vesturlandi. Sólskin hefur aldrei mælst eins lítið í apríl í Reykjavík  og Sámsstöðum  og heldur ekki á Reykhólum í þau um það bil 30 ár sem þar var mælt. Á Hveravöllum mældist heldur aldrei minni sól í apríl, 82 klst (1966-2004). Út yfir tók þó á Reykjum í Ölfusi þar sem sólarstundir mældust tæplega 30 og hefur aldrei mælst eins lítil sól í nokkrum apríl á þeim fáu veðurstöðvum sem mælt hafa sólskin. Sólríkt var hins vegar á Akureyri og enn sólríkara á Hallormsstað, 175 klst. Meðalhitinn á Loftssölum í Dyrhólahreppi og Hellu var 7,1 stig sem er hæsti meðalhiti á íslenskum veðurstöðvum í  apríl. Á Hveravöllum var meðalhitinn 1,1 stig og hefur aldrei mælst þar eins mikill í apríl. Um allt land var hitinn fremur líkari því sem gerist í  betri maí  fremur en apríl. Á norðausturlandi var meðaltal hámarkshita á nokkrum stöðvum yfir 10 stig, mestur 10,8 á Staðarhóli sem þætti þar alveg boðlegt í júní. Mesti hiti mánaðarins mældist 18,5 stig þ. 24. á Dratthalastöðum á Úthéraði og 18,4 á Vopnafirði. Meðaltal hámarkshita yfir allt landið var 12,7 stig.  Á Hellu, Lofsstöðum, Stórhöfða í Vestmannaeyjum og Reykjanesi var frostlaust allan mánuðinn. Í Reykjavík mældist frost aðeins í einn dag, -1,1 stig (þ. 3.) og þar var einnig alhvítt aðeins í einn dag. Þetta er hæsti lágmarkshiti í nokkrum apríl í Reykjavík. 1974_4_850_1075042.pngMesta frost á landinu mældist -7,2 stig þ. 8. á Grímsstöðum og Mýri í Bárðardal. Þetta er næst snjóléttasti apríl á landinu frá 1924. Snjóhula var aðeins 16% en var 45% að meðaltali árin 1924-2007. Á Hveravöllum var alhvítt í aðeins 10 daga en vanalega er þar alhvítt allan apríl. Syðst á landinu var enginn snjór og víðast hvar annars staðar á suðurlandi voru alhvítir dagar aðeins einn. Mikið góðviðri var á norðausturlandi eftir þ. 20 og var hámarkshitinn þá dögum saman um og yfir 15 stig þar sem best var. Dagshitamet fyrir meðalhita frá 1949 á Akureyri voru þó aðeins tvö, 10,5 stig þ. 4.  og 10,7 stig þ. 6. Ekki kom dropi úr lofti á Akureyri eftir miðjan mánuð. Að öðru leyti var úrkoman fremur mikil á suður og vesturlandi, einkum á sunnanverðum Vestfjörðum, meira en þreföld meðalúrkoma í Kvígindisdal, en lítil fyrir norðan og austan. Flesta daga kom eitthvað úr loftinu á suðurlandi en sjaldan voru stórrigningar. Þetta  er úrkomusamasti mánuðurinn af þremur hlýjustu aprílmánuðunum  1974, 1926  og 2003.  Á  Hveravöllum mældist aldrei meiri úrkoma í apríl 111,4 mm (1966-2004). Sunnanátt var algengust átta en norðlægir vindar voru mjög sjaldgæfir. Hæðasvæði var langtímum saman fyrir suðaustan eða austan land (sjá kortið af 850 hPa fletinum í um 1400 m hæð).  Á undan þessum mánuði fór sjöundi hlýjasti mars og á eftir honum tólfti hlýjasti maí. Gott vor þetta árið! Guðmundur Böðvarsson skáld, sem orti góð vorljóð, lést í byrjun mánaðarins. Hér er kort með meðalhita flestra stöðva. 

apr_1974.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 1926 (5,3) Næstir apríl 1974 að hlýindum koma apríl 1926 og 2003. Á þeim er lítill munur  í hitanum en þó var apríl 2003 nokkru hlýrri á útkjálkum fyrir norðan. Á Fagurhólsmýri er apríl 1926  reyndar sá hlýjasti sem hefur mælst og hann var jafn hlýr og 1974 í Vestmannaeyjum og Bolungarvík.  „Þurrviðrasamt á Norðurlandi. Mikil hlýindi mest-allan mánuðinn", segir Veðráttan um apríl 1926. Það var hægviðrasamt en austanátt var algengasta áttin. Úrkoma var þar af leiðandi mikil á suðausturlandi og var reyndar einnig meiri í Reykjavík en 1974 en yfirleitt minni á landinu í heild en þá.  1926_426_12_1075679.gifAlveg snjólaust var í höfuðborginni og víðast hvar á suður-og vesturlandi og alhvítir dagar voru nauðafáir annars staðar. Á Stórhöfða  í Vestmannaeyjum mældist ekki frost. Í Reykjavík var vægt frost í tvær nætur. Kaldast á landinu varð -9,6 stig þ. 1. á Grænavatni fyrir sunnan Mývatn. Mjög hlýtt var annars í byrjun mánaðar, oft yfir tíu stig í Reykjavik, en síðan kólnaði ofurlítið þó hlýtt væri áfram. Rétt eftir miðjan mánuð kom hins vegar dálítið kuldakast með hvassri norðanátt í þrjá daga en eftir hana fylgdu nokkrir góðir sólardagar í Reykjavík með 6-7 stiga síðdegishita. Síðasta þriðjung mánaðarins var hæð yfir landinu og suðaustan við það sem þokaðist austur og norður fyrir land. Fylgdi þessu suðaustan átt og var hámarkshitinn þá um og yfir tíu stig í höfuðstaðnum. En hlýjast varð 18,8 á Lækjamótum í Víðidal í Húnavatnssýslu þ. 26. Um það leyti var hæð austan við land  og suðaustanátt frá Evrópu ríkjandi (sjá kortið). Í slíku veðurlagi nýtur þetta landsvæði sín vel.  Næst mesti hiti á landinu varð 15,1 stig á Teigarhorni þ. 24. Síðustu vikuna var daglegur hámarkshiti á landinu alltaf yfir 13 stigum. Snjóhula var 29%. Í byrjun mánaðar var nokkur snjór fyrir norðan eftir norðankast sem kom í lok mars.

Í  heimsmenningunni gerðust þau tíðindi einna helst að Arturo Toscanini stjórnaði frumflutningi á Turandot, síðustu óperu Puccinis, þ. 15. í Scalaóperunni í Mílanó.        

2003 (5,2) Mánuðurinn byrjaði kuldalega með frosti um allt land um hádaginn. En síðan hlýnaði og þessi apríl var einmuna hlýr lengst af en heldur kólnaði þó undir lokin.  Á Steinum undir Eyjafjöllum var meðalhitinn víst 7,8 stig á sjálfvirkri stöð Vegagerðarinnar. Þar sem stöðin þykir kenjótt er þessu ekki hampað sem Íslandsmeti í aprílmeðalhita veðurstöðva. Þurrviðrasamt var á norðaustanverðu landinu, vindar voru fremur hægir og engin stórviðri. „Tún voru orðin græn í lok mánaðarins, tré voru farin að laufgast og blóm að skjóta upp kollinum", segir Veðráttan. Áttir frá norðaustri til suðurs voru tíðastar. Úrkoma var minni í Reykjavík en hina hlýjustu mánuðina og sólin miklu meiri. Í raun og veru var þessi mánuður „betri" í höfuðstaðnum en árið 1974 vegna þess að nokkrir sólríkir dagar komu með um og vel yfir tíu stiga hita en svo heitir sólskinsdagar eru fremur sjaldgæftir í Reykjavík í apríl. Besti dagurinn var hinn 22. en þá mældist hitinn í borginni 13,6 stig í glaðasólskini en mistur var í lofti. Aðra sögu var að segja frá Hornafirði en þar er þetta sólarminnsti apríl sem mælst hefur, 83 klst (frá 1958). Fyrir norðan var talsvert minni sól en 1974 en úrkoman var þar líka minni en þá. Upp úr miðjum mánuði gerði óvenjulega hitabylgju. 20031904.gifFór þá hitinn yfir 20 stig á 11 stöðvum á norðausturlandi frá Mánárbakka að Neskaupsstað, mest á mannaðri stöð í 21,1 á Sauðanesi á föstudeginum langa þ. 18. sem var þá mesti hiti sem mælst hafði á landinu í apríl á mannaðri stöð og næst fyrsta dagsetning á tuttugu stigum að vori á mannaðri veðurstöð, en næsta dag mældust 21,4 stig á sjálfvirku stöðinni á Hallormsstað (fyrsta dagsetning 20 stiga hita er skráð  9. apríl  2011 þegar 20,2 stig mældust á  Skjaldþingsstöðum. Kortið sýnir loftþrýsting við jörð og  hæð 500 hPa að kvöldi mesta hlýindadagsins. Mestur hiti á suðurlandi mældist 15,2 stig á Sámsstöðum þ. 16. Hiti komst í tíu stig (þ. 22. ) á Hveravöllum í eina skiptið í apríl meðan þar var mönnuð veðurstöð. Dagshitamet meðalhita og einnig hámarkshita voru sett á Akureyri dagana 16.-18. (alls komu sex dagshitamet í mánuðinum fyrir hámark í apríl á Akureyri). Síðast talda daginn var meðalhitinn 14,6 stig og hefur aðeins einn apríldagur orðið hlýrri á Akureyri (14,7° þ. 26. 1984). Á Hellu var meðaltal hámarkshita mánaðarins 10,2 stig og er það eina dæmið í apríl um það að meðaltal hámarkshita  á mannaðri veðurstöð á suðurlandsundirlendi hafi náð tíu stigum. Meðaltal daglegs hámarkshita á mönnuðum stöðvum var 12,9, aðeins hærra en 1974. Mánuðurinn var hvergi alveg frostlaus en í Vestmannaeyjum var aðeins einn frostdagur. Snjór var hins vegar minni en í nokkrum öðrum apríl, snjólag var einungis kringum 10%. Næst snjóléttastir voru apríl 1974 og 1964. Á suðausturlandi var víða alautt allan mánuðinn. Í Reykjavík var flekkótt tvo morgna en aldrei alhvítt. Á Akureyri varð heldur aldrei alhvítt en flekkótt  þrjá daga. Kaldast í byggð var -12,7 stig þ. 2. á Grímsstöðum en á fjöllum -13,1 stig á Gagnheiði daginn áður. Úrkoman var tiltölulega mest á miðhálendinu og á vesturlandi en var lítil fyrir norðan og austan. Vindar frá norðaustri til suðurs voru algengastir. Síðasta daginn byrjaði leiðindakuldakast og var næstu daga frost fyrir norðan. Á undan þessum mánuði kom áttundi hlýjasti mars.

Saddam Hussein var hrakinn frá völdum í Írak snemma í þessum apríl.    

1894 (4,8) Þessi mánuður var óvenjulega hlýr inn til landsins. Í Hreppunum hefur aldrei mælst eins hlýr apríl. Á Grund í Eyjafirði var meðalhitinn 5,2 stig en 4,7 á Akureyri. Hið gagnstæða mun venjulega vera raunin að hlýrra sé á Akureyri í apríl en inni í dalnum. Á Möðrudal  var meðalhitinn 2,8 stig, hátt upp í fimm stig yfir meðallaginu 1961-1990. Þar mældist reyndar mesta frost mánaðarins sem ekki er út af fyrir sig að undra. En hitt má hins vegar undrast að það var aðeins -5,2 stig og er það hæsta mánaðarlágmark á landinu í apríl sem skráð er. Á Akureyri mældist ekki frost (og heldur ekki í Hafnarfirði) sem er algert einsdæmi í apríl. Ofurlítið frost mældist hins vegar í Reykjavík (þar eru engin dæmi um alveg frostlausan apríl) þ. 1. (-0,2°) og aftur þ. 24. (-1,0°).  Alautt var þar allan mánuðinn samkvæmt upplýsingum Þorvaldar Thoroddsen í Lýsingu Íslands. Hiti var oftast mjög jafn og stöðugur á landinu og aldrei kom alvöru kuldakast þó dálitið kólnaði í örfáa daga upp úr miðjum mánuði með suðsvestanátt og snjóaði þá nokkuð sums staðar vestanlands. Skjótt hlýnaði á ný og síðustu dagarnir voru mjög hlýir. Fór hitinn mest í 13,4 stig á Teigarhorni þ. 28. Úrkoma var  meira en tvöföld á Teigarhorni en tiltölulega lítil í Vestmannaeyjum. Enginn teljandi hafís var við landið.  Lægðir voru oft  vestan við land með sunnanáttum, einkum framan af, eða jafnvel oftar, síðar í mánuðinum, djúpt suður í hafi með hlýjum suðaustanáttum. Jónassen var óþreytandi að lýsa tíðarfarinu í Ísafoldarblöðum: 

... hvass á austan-landsunnan með miklu regni h. 1., gekk svo til útsuðurs eptir miðjan dag og varð hægur;hægur sunnankaldi og bjartur h. 2.;logn og bjart sólskin h. 3.;gekk svo til suðurlandsuðurs nokkuð hvass h. 4. og heflr verið við þá átt síðan. Í morgun (7.) austanvari, bezta veður. (7. apríl.) - Dimmur á austan h. 7., 8. og 9. Logn og fagurt veður h. 10. Sunnan hægur dimmur h. 11. með smá-regnskúrum ; hvass á landnorðan með regni h. 12.; hægur á austan og bjartur h. 13.; austankaldi h. 14. bjart og fagurt veður. (14. apríl). - Hægur austankaldi h. 14 logn og fagurt veður h. 15. og 16. Útsunnan hægur h. 17. 18. og 19. en þó hvass með köflum og við og við hagljel og ofanhríð; hjer snjóaði talsvert aðfaranótt h. 19. og mikill snjór til fjalla hjeðan að sjá. (21. apríl). - Hinn 21. var hjer logn, norðangola til djúpa; hægur austankaldi hjer síðari part dags; hvass á landsunnan með regni h. 22. og sama veður 23. fram yíir miðjan dag, er fór að lygna; logn og fagurt veður h. 24., 25 , 26. og 27.; stöku sinnum ýrt regn úr lopti síðustu dagana. Í morgun (28.) hvass á austan með regni. (28. apríl). - Hinn 28. austan, hvass að morgni með regni logn að kvöldi; h. 29. útsynningur með hagljeljum og regni og sama veður 30. og 1. og 2. optast bjartur á milli, gekk svo til norðurs hægur og varð bjart sólskin h. S., gekk svo til austurs h. 4. og fór að rigna lítið um kvöldið. Í síðustu 20 árin hefir veðrátt í aprílmánuði aldrei verið eins hlý og nú þetta árið; er það einstakt, að aðeins skuli hafa verið 2 frostnætur (í bæði skiptin -1) allan mánuðinn; 1881 voru 5 frostnætur; mestur var þó næturkuldinn 1876 (23 frostnætur); 1885 20 frostnætur (15 stiga frost 2/4); 1887, 1888 og 1889 16 frostnætur hvert árið; í fyrra 7, í hitt eð fyrra 14 . (5. maí).

Já, ég hef valið þann kost að birta umsagnir Jónassens í heild um alla þá mánuði sem hann fjallaði um og koma við sögu í þessum pistlum. Þetta eru  afar merkilegar samtímaheimildir um veðurfar og hafa þær verið teknar mjög skipulega saman á vef Veðurstofunnar en líka er  vitaskuld  hægt að fletta þeim  upp í gömlu blöðunum. Og þarna eru auðvitað einnig lýsingar á mánuðum sem ekki koma hér við sögu. 

1880 (4,6) Þetta ár var mikið góðærisár lengst af þó það endaði ótrúlega illa með kaldasta desember allra tíma og síðan kaldasta vetri. Hófst góðærið í mars og hélst út september. Aðeins var athugað í Reykjavík, Stykkishólmi, Grímsey, Teigarhorni, Vestmannaeyjum, Skagaströnd (meðalhiti 4,0°) og Papey (4,6°). Ekki er hægt að tala um nein kuldaköst að heitið geti en þó kólnaði dag og dag á stangli. Mesta frost var -6,6, stig í Grímsey þann 14.  sem var einn af þessum örfáu köldu dögum. Sóley fannst á túni  þ. 5. á Hraunum í Fljótum. Tún voru orðin algræn löngu fyrir sumarmál. Nokkrir dagar fyrir og um miðjan mánuð og síðustu dagarnir voru sérlega hlýir en mestur hiti varð 13,1 stig þ. 28. á Teigarhorni. Eftir mælingum í Stykkishólmi, Teigarhorni  og Vestmannaeyjum  að  dæma var úrkoman kringum meðallag. Hún var  þó meira en tvöföld á Teigarhorni en tiltölulega lítil í Vestmannaeyjum. Enginn hafís var við landið. Síðasta daginn kom póstskip frá Danmörku með lík Jóns Sigurðssonar forseta og Ingibjargar Einarsdóttur konu hans og voru þau jarðsett í Reykjavík  nokkrum dögum síðar. Jónassen lýsti veðráttufarinu í Þjóðólfi 29 maí :  

Fyrst framan af mánuðinum var veður hvasst á austan (landnorðan) með snjókomu til fjalla, (2. var fjarskalegt rok á austan í nokkra klukkutíma), svo nokkra daga á norðan (5. 6. 7.). Síðan ýmist við suður eða landsuður með nokkurri rigningu og stundum hvass; 8-11. var vindur sunnan lands stundum hvass; 12-13. vestan útnorðan með miklum brimhroða og snjókomu til fjalla og hér varð jörð alhvít aðfaranótt hins 13.; 14-21. hægur á lands. eða austan og vanalega bjart veður; 21-23. vestan útnorðanhroði mikill og 24. genginn í norður en hægur; 25. logn og fagurt veður; 26.-30. lands., opt hvass og stundum með talsverðum rigningarskúrum.

2004 (4,5) Veðurfar var nokkuð rysjótt þrátt fyrir hlýindin en norðanátt var allra átta tíðust. Á Kirkjubæjarklastri (6,4°) og í Vík í Mýrdal (6,7°) hefur aldrei mælst eins hlýr apríl. Í Reykjavík var bæði mikil úrkoma og venju fremur mikið sólskin. 2004_4_850.png Hlýjast að tiltölu var á landinu miðju. Mestur hiti varð 16,4 á Núpi á Berufjarðarströnd þ. 8. í suðvestanátt. Sama dag voru 15,5 stig á Kirkjubæjarklaustri. Mesta  frost á mannaðri stöð var -9,4 á Hveravöllum þ. 7. og sama dag -9,0 á Möðrudal. Á Gagnheiði í  um 950 m hæð mældust -12,0 stig þ. 9. á sjálfvirkri stöð. Snjólag var 16% eins og 1964 og 1974. Mjög þaulsetnar hæðir voru í þessum mánuði, ýmist yfir Norðurlöndum eða suður í hafi. Lægðir fóru oft norðaustur yfir Grænlandssund. Hálfgerðum hryssingi stafar af  mánaðarkortinu af hæð 850 hPa flatarins sem var í 1300-1400 m hæð kringum landið.  

2007 (4,4) Tvær merkilegar hitabylgjur komu í mánuði þessum. Sú fyrri var á austurlandi fyrstu dagana og komst hitinn í 21,2 stig þ. 3. í  Neskaupstað á sjálfvirkri stöð. Það er mesti hiti sem mælst hefur svo snemma árs og fyrsta dagsetning að vori sem hiti nær tuttugu stigum á landinu. Fyrstu þrjá dagana komu dagshitamet hámarkshita á Akureyri (13,6, 13,0, 16,9°) en fyrir meðalhita aðeins þ. 3. (11,8°). Hinn fjórða kólnaði mjög og var frost nokkra daga fyrir norðan. Síðari hitabylgjan gekk um mikinn hluta landsins síðustu þrjá dagana og var þá víða bjart veður. Þann 29. mældist mesti hiti sem mælst hefur í apríl á landinu, 23,0 stig á sjálfvirku stöðinni í Ásbyrgi og 21,9 á mönnuðu stöðinni á Staðarhóli í Aðaldal sem er met fyrir mannaðar stöðvar. Hitamet féllu mjög víða á einstökum veðurstöðvum. Tuttugu stiga hiti eða meira kom  ansi víða á svæðinu frá Eyjafirði til  austfjarða. Í  Reykjavík mældist meðalhitinn 11,8 stig þ. 29. og er það mesti meðalhiti sem mælst hefur þar nokkurn sólarhring í apríl. Daginn áður var meðalhitinn 10,8 stig sem þá var líka met sem stóð í einn dag. Á Akureyri komst hitinn í fyrsta sinn yfir 20 stig í apríl, 21,5 stig þ. 29. Dagshitamet fyrir meðalhita komu þar þrjá síðustu dagana. Þrátt fyrir þetta var hitanum ekki fyrir að fara á sumardeginum fyrsta sem var þ. 19. Mældist þá lægsti hiti mánaðarins, bæði á mannaðri og sjálfvirkri veðurstöð, á Grímsstöðum á Fjöllum -12,3 stig og -21,4 stig á Brúarjökli.  Hæðasvæði var yfir sunnanverðum Bretlandseyjum þennan mánuð en lægðasvæði suðvestan við landið og nærri því. Kortið sýnir veðrið kl. 15 þ. 29.

afrit_af_29042000715-1.gif

 

1955 (4,4) Framan af var tíð hagstæð en versnaði er á leið. Voru þá hvassar suðaustanáttir og stórrigningar á suðurlandi þ. 24. og daginn eftir á austurlandi. Á Hólum í Hornafirði mældist sólarhringsúrkoman 57,7 mm að morgni hins 26. Úrkoman var fremur mikil á landinu víða og á  Nautabúi í Skagafirði er þetta úrkomusamasti apríl á staðnum, 77,8 mm (1935-2004). Aldrei fraus í Vestmannaeyjum, Mýrdal og Sámsstöðum í Fljótshlíð. Í Reykjavík var ein frostnótt eins og 1974. Það var hinn 21. og kom í kjölfar sólríkasta dags mánaðarins í borginni! Hins vegar var mánuðurinn í heild níundi sólarminnsti apríl í höfuðstaðnum. Daginn áður mældist mesta frost á landinu, -12,0 stig á Grímsstöðum og -9,9 í Möðrudal. Yfir landinu var þá háþrýstisvæði. Hlýjast varð upp úr miðjum mánuði, mest 15,8 stig í Fagradal í Vopnafirði þ. 17. og daginn eftir 14,9 á Hallormsstað og 14,8 á Hofi í Vopnafirði. Skriðuföll þ. 18. ollu stjórtjóni eftir stórrigningar og fórst þá barn á bænum Hjalla í Kjós. Sama dag lést vísindamaðurinn Albert Einstein. Úrkoman var lítil norðaustanlands en annars staðar í meira lagi. Alautt var á Reykjavíkursvæðinu, víða á suðurlandsundirlendi og í Stykkishólmi en á landinu öllu var snjólag 22%. Víða voru aðeins einn til tveir dagar alhvítir og hvergi fleiri en fimm. Fyrsta dag mánaðarins komu þrír allmiklir jarðskjálftakippir  á suðurlandi, einkum í Ölfusi og urðu smávægilegar skemmdir í Hveragerði og víðar. Lægðir voru oft suðvestan við land framan af og stundum nær landinu en síðar var hæð sunnan við landið áberandi. Undir lokin voru lægðir aftur þrálátar suðvestan og sunnan við landið. Ruby Murray var á toppnum í poppinu á Bretlandi. Man einhver eftir henni? Softly, softly ...

1957 (4,2) Suðvestanátt var algengust í þessum mánuði og tiltölulega hlýjast á norðausturlandi og þar var einnig sólríkast. Á Hallormsstað mældist meiri sól en nokkrum öðrum  apríl, 219 klst (1953-1989). Eigi að síður mældist þar líka mesta sólarhringsúrkoma sem þar hefur komið í april , 44,7 mm þ. 2. Sérlega hlýtt var fyrstu dagana og voru þá sett fimm dagsmet yfir meðalhita í Reykjavík. Enginn apríl státar af jafn mörgum slíkum dagshitametum í borginni sem þessi.  Milt var allan mánuðinn nema fáeina daga fyrir norðan kringum þ. 10. og á öllu landinu nokkra daga eftir miðjan mánuð og komst frostið þá í -12,0 stig á Barkarstöðum í Miðfirði þ. 23. Von bráðar hlýnaði á  ný og hlýjast varð undir lok mánaðarins þegar  15,8 stig mældust á Teigarhorni  þ. 30.  og 15 stig á Akureyri og Hallormsstað. Snjólag var 29%.  Á öllu suður og vesturlandi voru alhvítir dagar aðeins einn til tveir eða engir en hvergi var alveg snjólaust nema á Djúpavogi. Snjór var óvenjulega lítill á norðausturlandi og hvergi meiri en í meðalári nema á Suðureyri við Súgandafjörð. Mikið sjávarflóð gekk yfir Álftanes þ. 16. svo veginn tók af og bæir urðu umflotnir sjó. Sama dag var þrumuél og skýfall í Reykjavík. Nokkrum dögum síðar sást halastjarna á himni en ekki komu þó plágur og drepsóttir í kjölfar hennar!

Grace Kelly, sem þá var ein skærasta kvikmyndastjarnan  gifti sig  um miðjan mánuð og varð þar með furstafrúin af Mónakkó. Ungur myndlistarmaður er kallaði sig Ferró hélt sína fyrsti sýningu í Reykjavík og varð síðar frægur um allar trissur  undir  nafinu Erró. All Shook Up með engum öðrum en Elvis var vinsælasta lagið í Bandaríkjunum. 

1928 (4,1) Í þessum apríl voru suðaustan og austanáttir algengastar og úrkomusamt á suðurlandi en þurrt á norðurlandi. Einkanlega voru mikil votviðri á suðaustanverðu landinu. Á Teigarhorni var mesta úrkoma sem þar hefur mælst í apríl og einnig á Fagurhólsmýri, 214 mm. Snjólag var 22%. Alautt var í Reykjavík en hvergi annars staðar. Snjór var þó alls staðar mjög lítill, alhvítir dagar einn til þrír á suður og vesturlandi og fyrir norðan hvergi fleiri en  níu og var það á Raufarhöfn. En á Grímsstöðum var enginn alhvítur dagur en 28 dagar alauðir og snjólag 3%. Óvenjulegt er að svo snjólítið sé í apríl á Grímsstöðum og er þetta reyndar snjóleysismet þar í mánuðinum. Engar úrkomumælingar voru á staðnum þennan mánuð og hugsanlega er snjólagstalan ónákvæm en snjólítið hafði þó verið í undanfarandi marsmánuði. Það má minna á að í hinum hlýja apríl 1955 var eigi að síður alhvítt á Grímsstöðum alla daga en 17% snjólag árið 1957 og 34% í þeim ofurhlýja apríl 1974. Hlýjast á landinu varð síðasta daginn, 15,6 stig á Þorvaldsstöðum í Bakkafirði. Nokkurt hlé varð á suðlægum úrkomuáttum um miðjan mánuðinn þegar hæð var yfir landinu og víða bjart. Komu þá fáeinir góðir sólardagar í Reykjavík með vægum næturfrostum en 5-7 stiga hita um hádaginnn. En þá mældist líka mesta frostið á landinu, -14,0 stig á Eiðum þ. 16. en annars staðar var kuldinn miklu minni þó alls staðar kæmi frost. Fjórði hlýjasti maí kom svo á eftir þessum mánuði.

Mæðrastyrksnefnd var sett á stofn í þessum apríl og er enn  við lýði og sagt að ekki sé vanþörf á.      

Af hlýjum aprílmánuðum á nítjándu öld fyrir 1866, okkar helsta viðmiðunarár, má nefna árið 1852 þegar meðalhitinn var 6,1 stig í Reykjavík og 5,3 á Stykkishólmi og Akureyri. Og það gerir hann þá annan hlýjasta apríl í sögu mælinga ef aðeins er miðað við þessa staði. Apríl 1845 var einnig mjög hlýr með meðalhita upp á 6,1 stig í Reykjavík en 3,9 í Stykkishólmi. En einkennilegast af öllu: Árið 1815, á miklu kuldaskeiði,  var meðalhitinn í Stykkishólmi áætlaður 5,8 stig sem gerir hann þá að hlýjasta apríl þar. Þess ber þó að gæta að hitinn var færður til Stykkishólms annars staðar frá og mælingarnar  voru ekki eins áreiðanlegar og síðari tíma mælingar. 

Í fyrra fylgiskjalinu sjást mánuðurnir nánar á stöðvunum níu en í því síðara eru nokkur atriði um april 1974, 2003 og 2007.  

Fréttir frá Íslandi 1880; Norðanfari 15. apríl 1880; Þorvaldur Thooddsen: Lýsing Íslands II, 1911, bls. 359.    
 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband